Miðvikudagur 17.08.2011 - 14:12 - 6 ummæli

Glóruleysi

Jessica Weiner er ein þeirra sem hafa verið áberandi í baráttunni fyrir aukinni líkamsvirðingu undanfarin ár. Hún er höfundur bókarinnar  Life doesn’t begin 5 pounds from now þar sem hún hvetur ungar konur til þess að láta af líkamsþráhyggjunni og elska líkama sinn eins og hann er. Hún var fyrirmynd margra sem vildu öðlast aukna sátt og betri líðan í eigin líkama.

Nú hefur hún hins vegar vent kvæði sínu í kross og heldur því fram í nýrri grein í tímaritinu Glamour (sem oft  hefur vakið athygli fyrir jákvæða umfjöllun um fjölbreytileika holdsins) að ást hennar í garð líkamans hafi næstum því drepið hana. Röksemdafærslan er á þá leið að hún hafi verið svo upptekin af því að vera ánægð með líkama sinn að hún hafi lítið hugað að heilsunni og ekki gert ráð fyrir því að líkami hennar þyrfti á sérstakri umönnun að halda.

Framganga Jessicu verður því miður eflaust til að styrkja skoðanir margra um að það sé hvorki gáfulegt né gæfulegt fyrir fólk í þéttari kantinum að verða of sátt í eigin skinni. Algeng gagnrýni í garð þeirra sem hvetja til líkamsvirðingar er einmitt sú að með því sé verið að hvetja til kæruleysis gagnvart heilbrigðum lífsvenjum. Það er því dapurlegt ef játningar Jessicu Weiner verða til þess að styrkja þessar skoðanir enn frekar því þær eru byggðar á miklum misskilningi.

Jessicu hefði átt að vera kunnugt, miðað við það leiðtogahlutverk sem hún hefur tekið sér á þessu sviði, að boðskapur þeirra sem hvetja til líkamsvirðingar er ekki og hefur aldrei verið sá að heilsa og lífsvenjur skipti ekki máli. Meginatriði heilsu óháð holdafari (health at every size) eru til að mynda: 1) Að njóta þess að borða fjölbreyttan og næringarríkan mat í þeim skömmtum sem líkaminn þarf á að halda miðað við skilaboð um hungur og saðningu, 2) að hreyfa sig reglulega til að efla lífsþrótt, hreysti og gleði, og 3) að átta sig á því að líkamar koma í öllum stærðum og gerðum og semja frið við eigin líkama þrátt fyrir „ófullkomnleika“ hans. Þess vegna koma ummæli hennar hér fyrir neðan verulega á óvart:

I needed to go deeper than the mantras and speeches. To truly love my body, I had to treat it better.

Hvað hélt hún eiginlega að fælist í því að elska líkama sinn? Að hugsa fallega til hans á meðan maður neitar honum um þá umhyggju sem hann þarfnast? Það  er ekki væntumþykja heldur vanræksla.

Jæja. Með þessa nýju uppgötvun fer Jessica og gerir jákvæðar breytingar á lífi sínu. Hún lærir að borða hollari mat, fer að stunda reglulega hreyfingu og vinnur með sálfræðingi að því að laga tilfinningatengt samband við mat. Flott hjá henni. Við þetta batnar heilsufar hennar heilmikið og yfir 18 mánaða tímabil tapar hún rúmlega 10 kg.

Misskilningur Jessicu er fólginn í tvennu: Í fyrsta lagi að halda að það samræmist hugmyndafræði líkamsvirðingar að hugsa ekki um heilsuna. Ef hún hefði lifað af heilum hug samkvæmt þeirri speki sem hún kennir sig við hefði hún átt að vera búin að taka upp heilbrigðari lífsvenjur fyrir löngu.

Í öðru lagi í því að halda að áhyggjur af þyngdinni séu nauðsynlegar til þess að gera jákvæðar breytingar á lífi sínu. Hún skilur ekki að allar þær breytingar sem hún gerði samræmast að fullu hugmyndafræði heilsu óháð holdafari – það er að segja ef undan er skilin áherslan á þyngdina. En ef þyngdartap hefði ekki verið hennar megináhersla hefði hún kannski verið ánægðari og stoltari af sjálfri sér yfir þeim breytingum sem henni tókst að gera og notið betur þeirrar vellíðunar og hreysti sem hún uppskar í stað þess að láta vigtina varpa skugga á þá gleði:

But I was a little pissed off. “I’ve only lost 25 pounds?” I thought declining desserts and exercising when exhausted would have brought me a more dramatic verdict.

Áhersla á þyngd og þyngdartap bætir engu við það sem fæst með því að taka upp heilbrigðari lífshætti nema ef vera skyldi möguleikanum á svekkelsi og vanlíðan. Af hverju ekki frekar að einbeita sér milliliðalaust að heilbrigðum lífsvenjum, heilbrigðum viðhorfum og heilbrigðri sjálfsmynd og leyfa þyngdinni að lenda þar sem hún vill?

Það er sorglegt að fyrrum leiðtogi á sviði líkamsvirðingar skuli hafa opinberað hrópandi glóruleysi sitt um það hvað þessi stefna snýst en enn sorglegra að hún skuli vilja nýta þetta glóruleysi til þess að fæla fólk frá því ferli að ná sáttum við líkama sinn.

Væntumþykja er ekki hættuleg – en vanræksla getur verið það.

Flokkar: Heilsa óháð holdafari · Líkamsvirðing

«
»

Ummæli (6)

  • Tara Margrét

    Einnig er leiðinlegt að hún segir í enda greinarinnar að hún einsetji sér að missa fleiri kíló…

  • enda eru menn ekkert að fara að „elska“ líkama hennar nema hún missi svona tja.. 20 kg?

  • Getur kannski verið að það sem þú skrifar um hér á síðunni og kallar „líkamsvirðingu“ sé bara alls ekki það sama og fat acceptance hreyfingin sem Weiner virðist hafa byggt feril sinn á (fram að þessu)?

    Nú er ég enginn sérfræðingur en af því sem Amazon segir um bækurnar hennar sýnist mér þær vera minna um heilsusamlegan lífsstíl og meira um að vera sama hvað aðrir segja og gúffa í sig McDonalds ef það er það sem gerir mann hamingjusaman, að þær segi „það er aldrei neitt að því að vera feit/ur“ en ekki „það er ekkert að því að vera feit/ur svo lengi sem þú er heilbrigð/ur.“

    Auk þess er hún nú engin mjóna, og verður það ekki þó hún fari niður í 195 pund. Ég myndi halda að núna, þegar hún er loksins búin að gera sér grein fyrir mikilvægi heilbrigðis, geti hún fyrst orðið „leiðtogi á sviði líkamsvirðingar.“

  • En hún getur vitanlega ekki orðið leiðtogi hreyfingar sem berst fyrir því að fólk leggi þráhyggju um vigtina á hilluna og einbeiti sér að því að lifa heilbrigðu lífi sama hvaða tölu vigtig gefur upp ef hún byggir allar sínar lífstílsbreytingar á því að stuðla að þyngdartapi og ekki að bættri heilsu. Þó svo að þyngdartap GETI verið auka afleiðing bættra lifnaðarhátta þá ætti það ekki að vera drifkrafturinn, heldur bætt heilsa og vellíðan.

  • Fólk á að horfa á lífshætti sína og breyta þeim ef þeir eru óhollir eða öfgafullir. Ef einhver er þéttvaxinn eftir þá breytingu þá er það ekki vandamál. – Einhvern veginn þannig vil ég skilja líkamsvirðingu, meðal annars.

  • Snorri Sturluson

    Ég borða hollt, geng í klukkutíma þrisvar í viku, lyfti lóðum tvisvar í viku, hugsa ALDREI um hvort ég er léttur eða þungur.

    Ef ég asnast til að stíga á vikt á fjögurra ára fresti eða sjaldnar þá er ég 82 kíló.

    Undanfarin 30 ár.

    Screw the scales.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com