Laugardagur 20.08.2011 - 17:09 - 2 ummæli

Megrun fyrir börn

Fréttin um megrunarbók fyrir börn (markhópurinn virðist samt aðallega vera litlar stúlkur – nema hvað) hefur farið um netheimana eins og eldur í sinu síðustu daga. Viðbrögðin hafa verið samtaka hneykslan og furða: Hvað næst, spyr fólk? Átaksnámskeið fyrir leikskólabörn? Hitaeiningateljari í nintendo vasatölvuna?

Flest virðumst við sammála um að það er eitthvað verulega rangt við að innræta litlum börnum að vera í baráttu við líkama sinn. Við vitum – mörg af biturri reynslu – að það að segja líkama sínum stríð á hendur, og neita sér um mat í von um að öðlast annan og betri, er hvorki uppbyggilegt né heilsusamlegt ferli heldur einkennist það af óánægju, minnimáttarkennd og vanlíðan. Atferlið grundvallast á því að þú sért ekki í lagi og þurfir nauðsynlega að breytast til þess að verða sjálfri þér og öðrum bjóðandi. Það að þetta takist síðan yfirleitt ekki – viðvarandi þyngdartap er undantekning frekar en regla – er saltið í sárið. Þú ert búin að skilgreina þig sem annars flokks og það stóð til að breyta því en síðan reynist það hægara sagt en gert. Hvernig verður líf þitt upp frá því? Muntu hafa sjálfstraustið í lagi? Líða vel í eigin líkama? Vera stolt af þínum sérkennum? Aldeilis ekki.

Þetta er ekki veröld sem við ættum að vilja opna fyrir börnunum okkar. Útgáfa barnabókar um megrun verður hins vegar að teljast fullkomnlega eðlilegt næsta skref þegar litið er til þeirrar umræðu sem ríkt hefur um holdafar barna fram að þessu. Allan síðasta áratuginn hafa birst linnulausar ábendingar í fjölmiðlum um að sum börn séu feit og að því verði að breyta. Okkur finnst allt í lagi þegar þessi sömu skilaboð eru sett fram í tengslum við neyðarástandið um offitu barna – þá er bara verið að taka skynsamlega á málunum. Þá er verið að hugsa um heilsuna. Ég tala nú ekki um þegar það er fagfólk sem tjáir sig, þá hljóta skilaboðin að vera hafin yfir allan vafa.

Hér er t.d. fagmanneskja sem telur það skelfilegt að þéttvöxnum börnum skuli vera boðið upp á pönsur í heimsókn hjá ömmu eða súkkulaðiköku í afmæli hjá vinum sínum:

Flest börn fara t.d. mörgum sinnum á ári í afmæli hjá vinum sínum. Fjölmörg annars konar tilefni eru tíð þar sem oft og iðulega er boðið upp á miður æskilegar neysluvörur sérstaklega fyrir börn sem glíma við ofþyngd eða hafa tilhneigingu til að þyngjast umfram kjörþyngd.

Kökur og kræsingar sérstaklega óæskilegar fyrir börn sem hafa tilhneigingu til að fitna? Hvað er til ráða? Bjóða upp á gulrætur og kálhausa í barnaafmælum? Merkja veitingar með hitaeiningafjölda svo börnin geti allavega tekið upplýstar ákvarðanir? Eða hafa sérstakt fituhorn – sérborð með hitaeiningasnauðum mat fyrir feitu krakkana svo hinir geti að minnsta kosti notið þess að vera í afmælinu. Feitu krakkarnir mega auðvitað ekki við því að kalla yfir sig aukna óvild. Kannski væri best að hætta bara að bjóða feitum börnum í afmælisveislur? Hvað hafa þau svo sem að gera í afmæli, þar sem ekkert stendur til annað en að úða í sig fitu og sætindum? Hellóóó!

Svona í fúlustu alvöru þá þurfum við að taka okkur taki. Ef við erum sammála um að veröld sem einkennist af fitukomplexum og kaloríutalningu sé ekki við barna hæfi þá þurfum við líka að hreyfa við mótmælum þegar ákveðnum hluta barna er sérstaklega beint þangað inn af því „það er þeim fyrir bestu“. Enginn hefur gott af því að líða illa yfir sjálfum sér. Og bara svo það sé á hreinu þá er ekkert lögmál að þéttvöxnum börnum sé strítt eða líði illa- hvað þá að holdafari þeirra sé um að kenna. Þetta viðgengst einfaldlega af því við leyfum neikvæðum viðhorfum í garð þéttvaxinna að ráða ríkjum. Hættum því strax í dag! Öll börn eiga rétt á yndislegri æsku. Öll börn – hvort sem þau eru grönn eða feit – eiga rétt á góðu og styðjandi umhverfi þar sem hlúð er að tilfinningalegum þörfum þeirra jafnt sem líkamlegum.

Flokkar: Megrun · Stríðið gegn fitu

«
»

Ummæli (2)

  • Borghildur

    Takk fyrir þessa góðu og mikilvægu umfjöllun.

  • Umfjöllun og fitu- og matarfordómar þessarar íslensku fagmanneskju stakk mig sérstaklega. Hélt að sálfræðingar á Íslandi væru komnir aðeins lengra en þetta. Hvenær ætlar fólki að lærast að ekki er hægt að sjá á holdarfari hreyfigetu eða heilbrigði fólks!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com