Miðvikudagur 30.05.2012 - 15:17 - Rita ummæli

Um form og forsetaframboð

Ég hef hingað til verið mjög ánægð með hvað íslenskir fjölmiðlar eru lítið að pæla í útliti frægra kvenna eftir barnsburð. Ég bý í Englandi þar sem ákveðin dagblöð og netmiðlar hreinlega ofsækja frægar konur sem nýverið hafa eignast barn. Fylgst er mjög grannt með þeirra holdarfari, ótal margar myndir teknar af þeim og holdafar þeirra gagnrýnt og skoðað með ítrustu nákvæmi. Ofuráhersla er lögð á að skoða hvort konan sé komin í sama form og fyrir barneign, minni áhersla er lögð á að konan hafi gengið í gegnum þá undursamlegu lífsreynslu að eignast barn. Auðvitað eru konur misjafnar og sumar breytast sáralítið við að ganga með barn. Frægar konur sem falla í þann flokk uppskera mikið hrós fyrir og jákvæða umfjöllun. Þær sem ekki láta undan þrýstingnum eða eiga erfiðara með að koma sér í ,,form” á undurskjótan hátt eru svo bókstaflega lagðar í einelti og gagnrýndar þar til þær flestar láta undan og fara í einhvers konar sveltikúr. Örfáar láta hinsvegar ekki undan þrýstingnum eins og Bollywood leikkonan Aishwarya Rai hún gaf einmitt út þá yfirlýsingu (eftir harða gagnrýni um of mikla fitusöfnun í kjölfar barnsburðar) að hún hefði núna um annað og mikilvægara að hugsa en holdafar sitt.

Ég varð því fyrir alveg ólýsanlegum vonbrigðum þegar ég sá umfjöllun Smartlands um holdafar Þóru Arnórsdóttur forsetaframbjóðanda. Með þessari umfjöllun ákvað Marta María að ríða á vaðið og skapa fordæmi fyrir ,,í form eftir barnsburð” greinum um íslenskar konur. Ég vildi óska þess að hún hefði sleppt því. Íslenskt samfélag er að mörgu leyti ótrúlega framsækið og á margan hátt á undan öðrum löndum hvað viðhorf til kvenna varðar. Svona umfjöllun er okkur einfaldlega til skammar. Þóra Arnórsdóttir var að eignast barn og það er frábært. Er það ekki merkilegra en holdafar hennar ? Þóra hefur fullt af öðrum kostum og það að draga holdafar hennar og útlit stöðugt inn í umræðuna er okkur til minnkunar. Tískubloggið snýr þessu við og beinir sjónum sínum að karlkyns frambjóðandanum Ólafi Ragnari svona til að sýna fáránleikann í þessu máli. Það er margt sem þarf að taka til greina þegar ákveðið er hvern skal kjósa sem þjóðhöfðingja Íslendinga en við hljótum að geta verið sammála um að holdafar, hárlitur og skóstærð séu þar aukaatriði.

Flokkar: Útlitskröfur

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com