Þriðjudagur 17.07.2012 - 13:36 - 2 ummæli

Passaðu barnið þitt!

Ég hef lengi fjallað um líkamsmynd, megrun og átraskanir á opinberum vettvangi og stundum hefur fólk samband við mig af því það hefur áhyggjur af börnunum sínum hvað þessi mál snertir. Undanfarið hef ég fengið símtöl sem vekja hjá mér ugg þar sem áhyggjufullir foreldrar og íþróttaþjálfarar greina frá því að börn í íþróttum séu hvött, jafnvel skylduð, til þess að fylgjast náið með fæðuinntöku sinni og skrásetja allt sem þau borða. Þetta sé sett fram sem nauðsynlegur hluti af því að ná árangri.

Hér eru nokkur dæmi af frásögnum sem ég hef fengið að heyra að undanförnu. Öll áttu sér stað í skipulögðu íþróttastarfi fyrir börn og unglinga:

  • Að börn allt niður í 9 ára gömul séu látin skrifa niður hvað þau eru ánægð með að hafa borðað og hvað þau eru óánægð með að hafa látið inn fyrir sínar varir.
  • Að unglingar séu skyldaðir til að skrá nákvæmlega og telja kaloríur í öllu sem þau borða og það sé sett sem skilyrði fyrir því að eiga möguleika á því að komast áfram í íþróttagreininni.
  • Að börn og unglingar fái kynningu á fæðubótarefnum undir því yfirskyni að þau séu nauðsynleg fyrir árangur í íþróttum.

Við sendum börnin okkar í skipulagða hreyfingu af því við trúum því að það geri þeim gott. Að þar sé heilbrigt umhverfi sem byggi þau upp og undirbúi þau fyrir framtíðina. En víða er pottur brotinn og í dag er ákveðin hætta á því að börn græði ekki aðeins aukið þol, styrk, færni og metnað til að ná árangri með því að stunda íþróttir, heldur fái einnig afbrigðileg viðhorf til matar og líkamans í kaupbæti. Á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans koma reglulega til meðferðar alvarleg tilfelli átröskunar sem hófust þegar íþróttaþjálfari hvatti krakkana til að halda matardagbók, passa þyngdina, losna við nokkur kíló, kom inn samviskubiti yfir að borða ákveðinn mat o.s.frv. Þessi skilaboð eiga ekki heima í íþróttastarfi frekar en hvatning til annarrar áhættuhegðunar. Ef því er haldið fram að börn og unglingar þurfi að fylgjast náið með mataræði og þyngd til þess að geta stundað íþróttir eða náð árangri þá er staðan einfaldlega þannig að foreldrar þurfa að hugsa sig tvisvar um áður en þeir senda börnin sín í slíkar tómstundir.

Þeir sem starfað hafa við meðferð átraskana meðal barna og unglinga eru flestir sammála um að þessi vandi sé einn sá erfiðasti sem hægt er að fást við. Foreldrar lýsa því stundum þannig að þeir hafi tapað barninu sínu, svo miklar verða breytingar á skapferli, persónuleika, hegðun og virkni barns sem veikist af átröskun. Meðferð getur tekið mjög langan tíma, jafnvel nokkur ár, og sumir foreldrar endurheimta barnið sitt aldrei að fullu þar sem ákveðnir einstaklingar festast í vef átröskunar ævilangt. Það að verið sé að taka áhættu um að þátttaka barns í skipulögðu íþróttastarfi geti leitt til átröskunar er ekki verjandi með nokkru móti. Þau dæmi sem ég nefndi hér að ofan sýna að þessar áherslur eru sannarlega til staðar í íþróttum og jafnvel að færast í aukana.

Ég hvet alla foreldra til þess að fylgjast náið með því hvaða skilaboð verið er að senda börnunum þeirra í íþróttastarfi. Foreldrar ættu að krefjast þess að þeir séu spurðir leyfis ÁÐUR en börnunum þeirra er úthlutað verkefnum eða æfingum í tengslum við mataræði. Að ekki sé leyfilegt að vigta börnin þeirra eða mæla fituhlutfall án samþykkis foreldra. Að þeim séu ekki boðin fæðubótarefni án samþykkis eða vitundar foreldra. Sömuleiðis er full ástæða til þess að foreldrar taki það skýrt fram að fyrra bragði við íþróttafélagið og þjálfarann að þeir vilji ekki að börnunum þeirra sé kennt að telja kaloríur, keppast við fitubrennslu eða hafa neikvæðar tilfinningar til þess sem þau borða. Það kann að hljóma ankannalega en eins og dæmin sanna eru slíkar kröfur hvorki óþarfar né óviðeigandi.

Það ætti að vera sjálfsagt að börn fái að stunda heilbrigða hreyfingu í heilbrigðu umhverfi sem er ómengað af útlitsáherslum, fitufordómum eða matarkomplexum – en því miður er það ekkert sjálfsagt. Það er á okkar ábyrgð að vernda börn fyrir þessum skilaboðum eins og öðrum sem ógna velferð þeirra, heilsu og líðan.

Flokkar: Átraskanir · Heilbrigt samband við mat

«
»

Ummæli (2)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com