Laugardagur 11.08.2012 - 10:08 - Rita ummæli

Fordómar eru fordómar

Fyrir líkamsvirðingarsinna sem enn hafa ekki kveikt á síðunni Jezebel.com er vert að vekja athygli á henni. Hér er um að ræða stórskemmtilega síðu með femínískum undirtón þar sem nokkrar eiturtungur leiða saman hesta sína við að gaumgæfa málefni líðandi stundar. Þar birtast gjarnan áhugaverðar hugleiðingar um útlitsdýrkun og fituhatur sem ættu að vera regluleg lesning þeirra sem hafa áhuga á líkamsvirðingu.

Þar sem Hinsegin dagar standa nú yfir langar mig að benda lesendum á frábæra grein sem birtist nýlega á Jezebel. Þar er fjallað um styrrinn sem staðið hefur um Chick-fil-A skyndibitakeðjuna, sem er opinberlega fjandsamleg í garð samkynhneigðra, og mótmæli þeirra sem eðlilega deila á slíka framgöngu. Margir þeirra sem mótmælt hafa mannfjandsamlegu viðmóti fyrirtækisins í garð samkynhneigðra gera það nefnilega með því að halda á lofti mannfjandsamlegum viðhorfum í garð feitra. Rökin eru á þá leið að fólkið sem skiptir við þessa veitingahúsakeðju hljóti að vera feitt og ógeðslegt pakk. Af því bara feitt fólk borðar skyndibita. Og af því feitt fólk er ógeðslegt pakk.

Svona tvískinnungur er því miður alltof algengur. Það er ekki hægt að kveða niður fordóma í einu horni með því að ala á fordómum í öðru. Það eina sem við gerum með því er að færa andstyggðina á milli staða og viðhalda þeim leiða sið að líta niður á annað fólk. Við þurfum að skilja að mannréttindi eru ALGILD og að ALLIR eiga rétt á virðingu óháð litarhætti, kynhneigð, kyni, holdafari, aldri og öllu öðru sem notað er til að draga mannfólkið í dilka. Fordómar eru jafn ömurlegir hvert sem þeir beinast. Munum það.

Gleðilega hátíð, öllsömul!

Flokkar: Fitufordómar · Samfélagsbarátta

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com