Fimmtudagur 16.08.2012 - 12:58 - 7 ummæli

Til þeirra sem gengur gott eitt til

 

 

Aðeins tveimur dögum eftir að Íslendingar fjölmenntu niður í bæ til þess að taka þátt í gleðigöngunni og fagna réttindum samkynhneigðra og transfólks birtist þessi pistill á vinsælum dægurmálavef. Rúmlega 500 manns hafa gefið til kynna að þeim líki þessi skrif, sem sýnir líklega hversu skammt við erum á veg komin í mannréttindabaráttunni – tilhneiging okkar til þess að níðast á öðrum hefur lítið minnkað – við höfum bara fundið nýja hópa til að níðast á. Þannig hefur þetta gengið alla mannkynssöguna og fátt bendir til þess að við séum tilbúin að taka upp nýja siði. Þrátt fyrir að ákveðnir hópar fái uppreisn æru þá kemur alltaf einhver annar í staðinn sem okkur finnst nauðsynlegt að traðka á. Í dag er þessi hópur feitt fólk. Það er enginn annar hópur sem býr við jafn áberandi fordóma og fyrirlitningu sem flestum finnst eiga fullkomnlega rétt á sér. Þeir sem taka það að sér að láta þennan hóp vita að hann sé ógeðslegur og óvelkominn réttlæta gjörðir sínar oft með því að þeim gangi gott eitt til. Þetta sé fólkinu sjálfu fyrir bestu. Augljóslega – fyrst það er ennþá feitt – skilur það ekki að það er slæmt að vera feitur og þarf að finna fyrir andúð samfélagsins til að vilja gera eitthvað í sínum málum!

Í umræðunni eru heilsufarsrök notuð kerfisbundið til að réttlæta fjandsamleg viðhorf og framkomu í garð feitra. Vísindalegum „staðreyndum“ er beitt af samskonar heilagri vandlætingu og tilvitnanir í biblíuna voru (og eru) notaðar af þeim sem líta á samkynhneigð sem óeðli. Og rétt eins og þeir sem vísa í Biblíuna til að réttlæta hatur sitt missa af raunverulegum boðskap hennar, þá virðast þeir sem nýta sér heilsufarssjónarmið til að réttlæta fitufordóma lítið þekkja til þeirra vísinda sem þeir þykjast sérfróðir um. Ýkjur og rangfærslur einkenna málflutning þeirra og staðfastlega er horft framhjá atriðum sem orðið gætu til þess að tempra æsinginn. Eins og að Íslendingar séu ekki önnur feitast þjóð í heimi (heldur í sjötta sæti OECD ríkja sem telja heldur ekki allan heiminn). Að offita barna sé ekki vaxandi vandamál hér á landi (heldur hafi tíðni offitu meðal barna (5%) ekkert breyst síðasta áratuginn). Að sykursýki II sé ekki katastrófískt vandamál á Íslandi (heldur sé tíðnin hér á landi innan við 5%, sem er einhver sú lægsta í heimi). Að lífsvenjur okkar hafi ekki farið versnandi síðustu áratugi (heldur almennt tekið jákvæðum breytingum). Að það geti ekki allir grennst ef þeir bara leggja sig nógu mikið fram (heldur sé langvarandi þyngdartap undantekningin sem sem sannar þá reglu að flestir þyngjast aftur). Og að fitufordómar virki ekki sem hvatning til uppbyggilegra lífsstílsbreytinga (heldur vinni gegn því að fólk hugsi vel um sig og líði vel). Nei, fordómafullt fólk hefur ekki áhuga á slíkum staðreyndum enda skemmir þekking fordóma og því réttast að halda sig frá henni.

Pistillinn sem vísað er í hér að ofan er eins og skólabókardæmi um hvernig fitufordómar birtast undir yfirskini heilbrigðissjónarmiða. Og verður eflaust notaður sem slíkur nú þegar fitufræði (fat studies) eru að ryðja sér til rúms sem fræðasvið á háskólastigi. Hann verður höfundi sínum til ævarandi skammar. Ég hvet ykkur, sem gengur gott eitt til, að hugsa um það næst þegar ykkur langar að viðra skoðanir ykkar.

 

Flokkar: Fitufordómar · Stríðið gegn fitu

«
»

Ummæli (7)

  • Guðný Ármannsdóttir

    Já, fordómar í samfélaginu hafa ekki minnkað. Bara færst til. Vona bara að pistilhöfundur á Pjattrófunni eigi ekki eftir að missa stjórn á þyngd sinni. Það yrði neyðarlegt.

  • Ég elska þetta blogg svo mikið!
    Eina sem gæti gert það betra væri að það væri ekki hjá pressunni.
    Þið eruð að vinna ótrúlega mikilvægt starf!

  • Þvílíkur kærleikur sem birtist í þessari grein sem vísað er í. Takk fyrir að vera rödd skynseminar í þessu.

    Hún segir í greininni að fordómar hennar gegn feitu fólki séu þeir sömu og fordómar hennar gegn alkóhólistum. Ég myndi veðja að hún myndi aldrei skrifa álíka grein um alkóhólista. Aldrei.

  • æ já, það dásamlega við lífið er að geta níðst á fólki og þó einhverjir hópar sleppi undir vernd mannréttindasinna þá gefur guð oss alltaf fólk til að fordæma, ég ætla td. að geyma feitu einstæðu mæðurnar sem eiga brjálaða ATHD krakka með pétri og páli fyrir mig einan, þær fá örugglega aldrei aðra athygli en einelti, já, lífið er dásamlegt.

  • Ása Björg

    Takk.

    Bara takk!

  • Góður pistill.

    Takk fyrir þetta.

  • Anna Kristín Pétursdóttir

    Góður pistill og orð í tíma töluð!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com