Þriðjudagur 28.08.2012 - 15:45 - Rita ummæli

Að alast upp í brengluðum heimi


Alls staðar, já bókstaflega alls staðar, sjáum við skilaboð um hvernig við eigum að líta út. Í dagblaðinu, í sjónvarpinu, á risastórum auglýsingaskiltum, í strætóskýlum, á netinu, í tímaritum, í tónlistarmyndböndum, í dótakassa barnanna okkar og ekki má gleyma í barnaefni. Við erum öll berskjölduð fyrir þessum óstöðvandi áróðri um fullkomið útlit. Bæði börn og fullorðnir.

Margir telja kannski að þessi skilaboð hafi ekki svo mikil áhrif, að fólk hafi vit á því að láta þessi skilaboð ekki síast inn.  Raunveruleikinn er hins vegar sá að flest okkar eru verulega óánægð með að minnsta kosti einhvern hluta líkama okkar. Lærin eru of þykk, rassinn of útstæður eða flatur, maginn of breiður, ójafn, hrukkóttur og slitróttur, brjóstin of lítil, of stór, of sigin eða misjöfn, handleggirnir of feitir, undirhakan of stór, nefið of stórt, kálfarnir of feitir. Ég veit ekki hvar ég á að hætta. Fullkomnun á ekki við náttúruleg fyrirbæri, sem mannslíkaminn er. Því spyr ég, hvaðan fengum við þá hugmynd að líkami okkar þurfi/eigi að vera fullkominn og að það sé yfir höfuð mögulegt?

Líklega höfum við orðið fyrir áhrifum af útlitsdýrkun sem einkennir til dæmis auglýsingar fyrir fegrunarvörur og undirföt, þar sem má sjá photoshoppaða líkama með svo sléttar og fullkomnar mjaðmir, rass og læri að það mætti halda að maður væri að horfa á ávalar og aflíðandi sandöldur í eyðimörk.

Árið 1995 fengu Fiji eyjar loksins aðgang að sjónvarpi og þar myndaðist kjörið tækifæri til að rannsaka áhrif fjölmiðla á sálarlíf fólks. Eyjarnar fengu aðgang að vestrænu sjónvarpsefni með allri þeirri útlitsdýrkun sem tilheyrir slíku efni. Árin fyrir sjónvarp var átröskun nánast óþekkt á eyjunum og flestar konur voru ánægðar með líkama sinn. En aðeins þremur árum eftir að sjónvarpið varð hluti af daglegu lífi íbúanna voru 11 prósent stúlkna farnar að kasta upp til að stjórna þyngd sinni og 62 prósent stúlkna höfðu farið í megrun síðastliðnu mánuðina.

Það sem hræðir mig enn meira er að bókstaflega öllum myndum í dag af dáðum stjörnum og fyrirsætum hefur verið breytt með aðstoð tölvutækni. Á þeim er engin viðvörun um að ekki eigi að miða sig við þessar myndir. Þessar myndir þjálfa okkur í hvernig við eigum að túlka okkar eigin líkama. Verslunarkeðjan H&M gekk meira að segja svo langt að setja mennsk höfuð á tölvutilbúinn líkama á heimasíðu sinni. Húðlit líkamans var aðeins breytt eftir húðlit fyrirsætunnar sem átti höfuðið. Nú erum við komin á þann stað að mennskir líkamar eru ekki einu sinni nógu góðir til að nota í auglýsingar.

Þessi þróun hefur orðið til þess að átraskanir hafa aukist og þráhyggja og vanlíðan yfir líkamsvexti, útliti, mataræði og hreyfingu er orðin stór hluti af lífi margra. Það er ekki lengur þannig að átröskun finnist aðeins hjá ungum stúlkum heldur er þessar raskanir farnar að breiðast yfir mun fjölbreyttari hóp fólks. Ekki má svo gleyma að líkamsræktarþráhyggja er ekki skilgreind sem átröskun en er sú leið til öfgafullrar þyngdarstjórnunar sem margir stunda í dag.

Því er það mikilvægur partur af uppeldi barna að ræða við þau um hættur þessa brenglaða heims. Að kenna börnum að lesa í skilaboð fjölmiðla og auglýsinga á skynsaman hátt og spjalla við þau á gagnrýninn hátt um þessar myndir er nauðsynlegur hluti af því að undirbúa börnin fyrir lífið. Ein besta leiðin til að efla sjálfsmynd og líkamsmynd barna er samt að sýna gott fordæmi og tala aldrei á niðurlægjandi hátt um eigin líkama né annarra. Kennum börnum að elska líkama sinn og rækta hann og skammast sín ekki fyrir að vera ófullkomin, því enginn er með fullkominn líkama – nema þá kannski tölvumennin sem H & M snillingarnir bjuggu til.

Flokkar: Átraskanir · Líkamsmynd · Tíska · Útlitskröfur

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com