Laugardagur 15.12.2012 - 16:10 - 1 ummæli

Offita sem barnaverndarmál

Í síðustu viku varð fjaðrafok í fjölmiðlum þegar greint var frá því að árlega bærust nokkrar tilkynningar til Barnarverndar Reykjavíkur þar sem holdafar barns væri meðal áhyggjuefna. Þetta mátti skilja sem svo að offita barna væri orðin svo skelfilegt vandamál að hún væri nú farin að koma til kasta barnaverndaryfirvalda. Þetta þurfum við að skoða nánar. Í fyrsta lagi er vert að benda á það enn einu sinni að offita barna hefur ekki aukist síðustu 14 árin. Í öðru lagi kom skýrt fram í fréttinni að barnarverndaryfirvöldum hefðu aldrei borist tilkynningar eingöngu vegna holdafars barna, heldur væru alltaf aðrir þættir með í spilinu. Eins og Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segir í fréttinni (skáletrunin er mín):

Það hafa verið alltaf núna undanfarin ár, ekki mörg mál, það geta verið svona tvö til fimm kannski á ári þar sem að þetta er eitt af því sem að áhyggjur eru af þegar tilkynnt er um börn til okkar. Við höfum ekki fengið ekki fengið tilkynningar sem varða einungis ofþyngd barnsins…

Í fréttinni er talað um margþættan vanda á borð við fátækt og að foreldrar hafi misst tökin á uppeldi barnsins síns. Hér er því augljóslega um flóknari félagslegan vanda að ræða en tölu á vigtinni. Ég velti líka fyrir mér hvernig þetta er skilgreint fyrst um margþættan vanda er að ræða. Ef barnaverndarnefnd berst tilkynning vegna slæms aðbúnaðar barns, vanrækslu, kynferðislegrar misnotkunar eða líkamlegs ofbeldis auk þess sem áhyggjur eru af holdafari barnsins, erum við þá að tala um „barnaverndarmál vegna offitu“? Ætli holdafar barnsins sé aðaláhyggjuefnið í slíkum aðstæðum? Í fréttinni kom einnig fram að börn hafi aldrei verið tekin af heimilum sínum eingöngu vegna holdafarsins, enda má gera ráð fyrir því að fleiri og alvarlegri þættir séu á ferðinni ef slíkum úrræðum er beitt.

Í fyrrgreindri frétt var talað um að tvö til fimm mál á ári kæmu inn á borð til Barnaverndar Reykjavíkur þar sem holdafar barns væri meðal áhyggjuefna. Ef við gerum ráð fyrir að um svipaðan fjölda sé að ræða úti á landi, þá værum við að tala um allt að 10 börn á landinu öllu. Til samanburðar bárust yfir 9000 tilkynningar til barnaverndar árið 2010, samkvæmt skýrslum Barnaverndarstofu, sem vörðuðu rúmlega 5000 börn. Því má gera ráð fyrir að holdafar barns hafi hugsanlega verið hluti af vandamálinu í 0,2% tilfella. En hvað með hin 99,8% málanna?

Árið 2010 bárust þrjú þúsund tilkynningar vegna vanrækslu barns, þar af  voru tæplega 700 vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu foreldra. Staldrið aðeins við þetta. Sjö hundruð tilkynningar á ári, eða um það bil tvær á dag, þar sem drykkja og eiturlyfjaneysla foreldra er talin ógna velferð barns hér á litla Íslandi. Jafnvel þótt aðeins helmingur þessara tilkynninga ætti við rök að styðjast þá væru það samt 350 börn sem eru að alast upp við skelfilegar aðstæður. Auk þessa bárust tvö þúsund tilkynningar um að barn væri beitt ofbeldi, þar af yfir þúsund vegna sálræns ofbeldis, 520 vegna líkamlegs ofbeldis og 440 vegna kynferðisofbeldis. Yfir 1000 tilkynningar vörðuðu börn undir fimm ára aldri.

Ætli sé kominn tími til þess að við tökum okkur pásu frá því að súpa hveljur yfir holdafari barna og beinum athyglinni að þeim hundruðum eða þúsundum barna hér á landi sem búa við óviðunandi og eyðileggjandi aðstæður? Í fyrra bárust 613 tilkynningar til barnaverndaryfirvalda í gegnum Neyðarlínuna 112. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort það hafi verið vegna offitu.

 

Flokkar: Stríðið gegn fitu

«
»

Ummæli (1)

  • Vilhjálmur Ari Arason

    Þakka þér Sigrún dyrir frábæra pistla. Vegna umræðu þinnar nú vil ég benda á skilda umræðu um afleiðingarnar þegar börnin síðan eldast Kúgun hverskonar og vaxandi ofbeldi er versta myndin sem við sjáum, en miklu meira liggur undir steini sem við sjáum ekki og vitum ekkert um. Eins og t.d. erfið æska og ofbeldi á heimilum sem allt að 2000 börn verða vitni af á hverju ári og við erum reglulega minnt á. Slæm reynsla sem markar lífið fyrir lífstíð. Sjúkdómsmyndirnar verða síðan oft flóknari eftir því sem aldurinn færist yfir. Með minnkaðri getu til að hreyfa sig og aukinn þyngd vandast síðan málin enn frekar og lífsstílssjúkdómarnir, ofþyngd, háar blóðfitur og æðakölkun bætist við heildarmyndina. Smá saman gefur líkaminn sig almennt séð eins og á reyndar á við alla öldrun. Á þetta er líka minnt þegar konur rugla saman vöðvabólgueinkennum og brjóstverk vegna hjartaeinkenna. Hver er annars þessi djöfull sem leggur lífið svona gjörsamlega í rúst? Hvar eru vísindin sem hjálpa okkur svo oft en ekki þegar við eldumst fyrir aldur fram?
    http://blog.pressan.is/vilhjalmurari/2011/02/19/hver-ertu-duldi-djofull/
    Bk. Vilhjálmur Ari

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com