Þriðjudagur 27.08.2013 - 21:57 - 2 ummæli

Líkamsvirðingarskilaboð frá Special K

Þegar snyrtivörufyrirtækið Dove hóf að auglýsa vörur sínar með boðskap um jákvæða líkamsmynd og fjölbreytileika undir yfirskriftinni Real Beauty voru (og eru) á því ansi skiptar skoðanir. Sumum fannst fáránlegt að snyrtivörufyrirtæki héldi á lofti boðskap um heilbrigða líkamsmynd þegar það er á sama tíma að viðhalda þeirri hugmynd að hlutverk kvenna sé að vera fallegar. Aðrir fögnuðu því einfaldlega að milljónir kvenna, sem fá almennt aðeins þau skilaboð frá auglýsendum að þær séu ómögulegar – en geti bætt úr því með því að kaupa réttu vöruna – fái nú loks að heyra að þær séu í lagi eins og þær eru. Auglýsingar hafa mikil áhrif og það sé nú betra að áhrifin séu uppbyggjandi frekar en niðurrífandi.

Nú hefur annað fyrirtæki bæst í hóp þeirra sem virðast ætla að tengja sig við líkamsvirðingu. Fyrirtækið sem hefur um árabil sagt okkur að fara í megrun svo við getum passað í smærri gallabuxur…

…hefur nú snúið við blaðinu og heldur því fram að við séum annað og meira en bara buxnanúmer:

Eins og lög gera ráð fyrir er þessi auglýsing umdeild og mörgum finnst einstaklega falskt og ósvífið að fyrirtæki, sem hefur verið svo áberandi í megrunaráróðri að það er nú barasta hlægilegt, ætli nú að fá uppreisn æru með því að skjalla konur svolítið.

Meira að segja hefur því verið haldið fram að þessi hugmynd sé stolin úr herbúðum líkamsmyndaraktivista, sem eru að vonum ekki ánægðir með að erkifjandinn græði peninga á þeirra hugmynd. Og ekki í fyrsta sinn. Fyrir tveimur árum fór Special K af stað með herferðina What will you gain when you lose, þar sem hugmyndin um Vei! vigt kemur fyrir – en í öðrum búningi en upprunalega:

Vei! vigtin (Yay! scale) er uppfinning aktivistans Marilyn Wann, sem hefur hannað og selt slíkar vigtir í áraraðir til að hvetja fólk til að hætta að meta sjálft sig eftir tölu á vigtinn. Í herferð Special K var þessi fallega hugmynd hins vegar afskræmd með því að láta vigtina sýna hvað fólk myndi græða mikið á því að grennast: Sjálfstraust, gleði, lífsfyllingu. Þið skiljið af hverju þetta féll í grýttan jarðveg…

Engu að síður eru sumir þeirrar skoðunar, hvað sem öllum óþokkabrögðum líður, að það sé bara fagnaðarefni ef áberandi fyrirtæki á markaðnum, sem beinir sjónum sérstaklega að ungum konum, hverfi frá þeirri stefnu að auglýsa vörurnar sínar með megrunarboðskap. Það verður þá bara til þess að draga úr megrunarþrýstingi í samfélaginu og er það ekki hið besta mál?

Hvað finnst þér… kaupirðu þetta?

 

Flokkar: Bransinn · Líkamsmynd · Líkamsvirðing

«
»

Ummæli (2)

  • Tara Margrét Vilhjálmsdóttir

    Jahá! Ekki vissi ég af þessari nýju auglýsingu, takk fyrir að koma henni á framfæri. Það er afar auðvelt að vera efins í fyrstu enda hefur Special K ekki gott orð á sér þegar kemur að líkamsvirðingu. En ef við horfum á þetta frá eingöngu markaðsfræðilegu sjónarhorni (þ.e. að fyrirtæki einfaldlega höfði til þess sem kúnnarnir vilja í því skyni að auka sölutölur) er hér stórkoslegt breakthrough á ferð! Það er enginn með puttann á púlsinum meira en ayglýsingastofur og auglýsingasvið stórra fyrirtækja. Allar auglýsingar eru byggðar á ítarlegum rannsóknum sem gefa til kynna áherslur væntanlegra viðskiptavina þeirra. Ef að rannsóknir þeirra sýna að þetta er það sem viðskiptavinir þeirra vilja og að þetta sé líklegt til að auka eða viðhalda sölu má með sanni segja að byltingin sé hafin 🙂

  • Edda Sigurðardóttir

    Ég tek undir með Töru, auglýsingastofurnar eru yfirleitt alltaf með puttan á púlsinum og því má alveg segja að byltingin sé hafin.
    Ég vil bara segja að við verðum að hafa augun opin og ekki sofna á verðinum. Þó líkamsvirðingar skilaboð séru að aukast á kostnað niðurrifs skilaboðanna þá vilja auglýsendur eftir alltsaman selja okkur vörurnar sínar og við þurfum að geta tekið meðvitaðar ákvarðanir sem eru ekki byggðar á áróðri auglýsinga.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com