Laugardagur 31.08.2013 - 13:48 - Rita ummæli

Gallabuxur og mannréttindi

going naked

Þessi pistill undirstrikar af hverju barátta fyrir líkamsvirðingu er mikilvæg. Fólk mun alltaf koma í mismunandi stærðum – meira að segja ef allir lifðu heilbrigðu og góðu lífi. Fjölbreytileiki mun alltaf einkenna hæð og þyngd fólks og við verðum að fara að skilja það. Jafnvel ef fólk grennist við að breyta lífsháttum sínum þá er það ekki svo að allir endi í kjörþyngd. Langt því frá. Heilbrigð þyngd er breytileg frá manni til manns.

Það er öllum mikilvægt að finnast þeir vera velkomnir í samfélagð og finna að það sé gert ráð fyrir þeim. Í verslunum, í flugvélum og farartækjum, innan sjúkrastofnana. Allsstaðar. Þegar þú finnur fyrir því að líkami þinn passar ekki einhversstaðar þá eru skilaboðin þau að það hafi ekki verið gert ráð fyrir fólki eins og þér. Að þú sért í raun ekki velkomin. Ef þú hefur ekki upplifað þá valdeflingu sem fylgir því að ná sáttum við líkama sinn og finnast eðlilegt að samfélagið geri það líka, þá mun þér líða eins og það sé líkama þínum að kenna að hann passi ekki. Og í stað þess að fyllast réttmætri reiði í garð umhverfis sem gerir ekki ráð fyrr þér, þá beinist reiði þín inn á við, í þinn eigin garð, og verður að skömm, sjálfsásökun og vonbrigðum yfir því að þú sért eins og þú ert.

En þú átt fullan rétt á að vera þú. Samfélagið á að gera ráð fyrir fjölbreytileika. Ef það gerir það ekki þá þurfum við að breyta því. Annars munu öll þau börn, unglingar, karlar og konur sem á eftir þér koma – og þau munu koma … í sínum margbreytilegu líkömum – þurfa að finna þessa sömu, sáru tilfinningu um að þau eigi ekki heima hérna. Rjúfum þessa keðju útilokunar og hættum að sakast við eigin líkama fyrir að vera mismunandi. Krefjumst þess frekar að gert sé ráð fyrir mismunandi líkömum.

Næst þegar þú lendir í þeirri stöðu að passa ekki einhversstaðar, þá hvet ég þig að hafa þetta hugfast. Þú ert ekki vandamálið heldur samfélagið sem gerir ekki ráð fyrir þér. Og því þarf að breyta.

 

 

Flokkar: Fjölbreytileiki · Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta · Tíska

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com