Föstudagur 18.10.2013 - 16:08 - Rita ummæli

Saumaklúbburinn

girls-talking

Ég sit og spjalla við vinkonur mínar, við njótum yndislegra rétta sem ein hefur útbúið og boðið upp á í saumaklúbbnum. Umræðuefnið spannar vítt svið, frá kennslu, fjármálum, uppeldi, strákum og fleira. Eitt umræðuefni virðist þó ná athygli okkar allra og virðumst við allar hafa eitthvað til málanna að leggja, en það eru aukakílóin eða gallar við eigið útlit. Ein er í megrun, önnur nýbúin að losna við nokkur kíló, sú þriðja þolir ekki rassinn sinn, sú fjórða á erfitt með að losna við kílóin sem komu við barneignir, sú fjórða er ósátt við brjóstin og svo framvegis…. Þótt önnur málefnin en þau útlitstengdu séu áhugaverð og merkileg þá tökum við mismikinn þátt í þeim. Þær sem starfa í fjármálageiranum hafa margt um fjármálin að segja, við sem kennum höfum mikið um kennslu að segja og svo þreytum við eflaust barnlausu vinkonurnar með barnatali okkar… en að kvarta yfir kílóum eða líkama okkar, það kunnum við allar!

Ég stór efast um að vinkonuhópurinn minn sé afbrigðilegur, öðruvísi eða óvenjulegur, þannig að líklega má yfirfæra umræðuefnin úr okkar saumaklúbbi yfir á umræðuefni annarra saumaklúbba.

Kvartanir og tal um líkamann okkar, líkt og við konur festumst oft í, er kallað fitu- eða útlitstal. Á ensku kallast þetta Fat talk. Fitutal eða útlitstal er mun meira einkennandi meðal kvenna en karla (enda þætti okkur eflaust mjög sérkennilegt að heyra hóp karla kvarta og kveina yfir appelsínuhúð, maga eða slitum, þótt eflaust einhverjir geri það þó).

Fitutal virðist í fyrstu vera ósköp meinlaust tal meðal vinkvenna, en áhrif þess hefur verið rannsakað og benda niðurstöður  til þess að samtöl sem þessi hafi neikvæð áhrif á líðan okkar og líkamsmynd. Að kvarta ítrekað yfir eigin líkamsvexti, oft með það að markmiði að leita að sannfæringu um eigið ágæti,  eykur bara vanlíðan okkar yfir vextinum en ekki öfugt. Fitutal getur einnig verið mjög smitandi, við erum því ekki ein um að verða fyrir barðinu á neikvæðum áhrifum fitutals.  Fitutal annarra eykur líkur á því að við tölum illa um okkar eigin líkama sem síðan hefur neikvæð áhrif á líðan.

Að deila áhyggjum sínum og hugsunum með bestu vinkonunum er vonandi sjálfsagður hlutur hjá flestum og getur það haft gríðarlega góð áhrif. Það er ómetanlegt að eiga góða að sem hægt er að nöldra í, gráta hjá og hlæja með. Mikilvægt er þó að hafa í huga að fitutal getur verið smitandi og hefur ekki þau áhrif sem við flest öll teljum að það hafi þ.e. bæti líkamsmynd okkar og líðan þar sem við fáum mótrök við kvörtunum okkar. Ef einhver hefur áhyggjur af aukakílóunum eða lýsir óánægju með líkama sinn er algengasta svarið við því oftast eitthvað á þessa leið: „Nei, hvaða vitleysa, þú ert ekkert feit!“ og jafnvel nefnir sá sem er að svara kvörtununum eigin útlitsgalla í kjölfarið. Með þessum hætti festumst við í vítahring fitutals og getum átt erfitt með að losna úr samtölunum.

Með því að þekkja neikvæðu þætti fitutals getum við einbeitt okkur að því að minnka eða stöðva slíkt tal og verja tíma okkar með vinkonunum í skemmtilegri umræður. Það hefur reynst vel að ræða við vinkonurnar um það hve slæmt umræðuefnið er, benda þeim á hversu mikil neikvæð áhrif fitutalið hefur á líðan okkar og sjálfsmynd eða hreinlega breyta umræðuefninu, tala um eitthvað áhugaverðara eins og veðrið eða stjórnmál 😉

Flokkar: Líkamsmynd · Líkamsvirðing · Megrun · Útlitskröfur

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com