Fimmtudagur 19.02.2015 - 14:30 - 2 ummæli

Að vera eða vera ekki byrði á þjóðfélaginu

 

fat people responsible for everything

 

Nýlega varð ég vitni að umræðuþræði á netinu þar sem fólk viðraði áhyggjur sínar af heilbrigðiskerfi Íslendinga og hinum gríðarlega kostnaði sem það taldi fylgja því. Eftir þúfur og þras meðal þátttakenda var niðurstaðan sú að íslenska heilbrigðiskerfið væri alls ekki svo kostnaðarsamt samanborið við önnur lönd, hins vegar væri feitt fólk að sliga það.

Það að feitt fólk sé byrði á samfélaginu er algengt stef í umræðunni og áhugavert að velta fyrir sér hvers vegna það þykir í lagi að taka þennan hóp fyrir með þessum hætti þegar það þætti annað hvort óviðeigandi eða fáránlegt gagnvart flestum öðrum hópum. Tökum karlmenn sem dæmi.

Ég efast um að margir hafi leitt hugann að því en það væri auðvelt halda uppi ríkulegri umræðu um þann samfélagslega kostnað, álag og áhættu sem fylgir karlmönnum. Karlmenn lifa óheilsusamlegra lífi en konur, þeir neyta minna af ávöxtum, borða oftar skyndibita, drekka meira gos, sofa minna og bursta sjaldnar í sér tennurnar. Þeir nota meira tóbak, drekka meira og glíma frekar við áfengis- og vímuefnafíkn. Þeir lenda oftar í umferðarslysum og eru líklegri til að slasast alvarlega. Karlmenn fá hjartasjúkdóma fyrr en konur og yfir 80% þeirra sem gangast undir kransæðahjáveituaðgerðir á Landspítalanum eru karlmenn. Fyrir utan öll afbrotin. Langflest ofbeldisbrot eru framin af karlmönnum og yfir 90% fanga á Íslandi eru karlkyns. Í samfélagi þar sem karlmenn nytu lítillar virðingar er auðvelt að sjá hvernig hægt væri að halda uppi nánast linnulausri, ásakandi umræðu um karlmenn og allt það vesen sem þeim fylgir.

Nú gæti einhver sagt að þessi mál séu óskyld því karlmenn geti lítið að því gert að vera karlmenn, en feitt fólk geti hins vegar ráðið því hvort það er feitt eða ekki. Málið er þó ekki svona einfalt. Við fæðumst með mismikla tilhneigingu til að fitna og rannsóknir undanfarinna áratuga sýna svo ekki verður um villst að persónuleg stjórn fólks yfir holdafari sínu er mun minni en almennt er álitið. Niðurstöður eru allar á sömu leið: Flestir geta grennst í byrjun en fæstum tekst að viðhalda þyngdartapi til lengri tíma. Það er afar sjaldgæft að feitt fólk breytist í grannt fólk. Undantekningar eru vissulega til og fer svo sannarlega mikið fyrir þeim í fjölmiðlum, sem skapar þá tálsýn að stórfellt og varanlegt þyngdartap sé algengt. En því fer fjarri.

Svo má spyrja sig hvort karlmenn geti ekkert gert að því að þeir drekki meira, tannbursti sig sjaldnar og fremji fleiri kynferðisbrot? En réttlætir sú tölfræðilega staðreynd það að tala um alla karlmenn sem fyllibyttur og nauðgara? Nei að sjálfsögðu ekki.

Það er óréttmætt að gera alla meðlimi tiltekins hóps ábyrga fyrir því sem sumir innan hópsins gera. Það er ósanngjarnt að tengja samfélagsleg vandamál á borð við ofbeldi eða vímuefnafíkn sérstaklega við kyn frekar en aðra mikilvæga áhrifaþætti sem vitað er að stuðla að slíkum vanda. Það er einnig siðferðilega rangt að ráðast að fólki sem glímir við alvarlega sjúkdóma og auka þjáningar þeirra með því að gera það að sakamönnum í eigin veikindum. En það er sérstaklega siðlaust og samfélagslega óábyrgt að ala á neikvæðum viðhorfum í garð hópa sem þegar eru jaðarsettir.

Feitt fólk er jaðarsettur hópur í samfélaginu sem býr við gríðarlega fordóma, neikvæðar staðalmyndir og kerfislægt misrétti. Hann er í ofanálag álitinn persónulega ábyrgur fyrir þessari stöðu sinni þar sem undirliggjandi hugmyndin sú að ef feitt fólk væri ekki svona latt og laust við sjálfsaga, þá væri það ekki feitt og þar af leiðandi ekki litið hornauga. Þannig er þolandinn gerður ábyrgur fyrir fordómunum sem að honum beinast og gerandinn þarf ekki að skammast sín. Nýlega birtist rannsókn sem staðfestir það sem við öll vitum: Að fitufordómar eru algengir og samþykktir í umræðum á netinu og ríkjandi staðalmyndin er sú að feitt fólk sé latt, heimskt og veiklundað. Þetta endurspeglast í því hve margir eru ófeimnir við að láta fordóma sína í ljós opinberlega og hve sjálfsagt það þykir að ræða um feitt fólk sem samfélagslega meinsemd. Þetta kemur ekki síst fram í hinni síendurteknu heimsósóma umræðu um offitu sem virðist snúast um fátt annað þegar öllu er á botninn hvolft en að koma á framfæri skilaboðum til undirskipaðs samfélagshóps um að hann sé ekki velkominn. Eins og það hafi eitthvað farið á milli mála.

 

Þessi pistill birtist í örlítið breyttri mynd á Stundinni 13.02.2015

Flokkar: Fitufordómar · Stríðið gegn fitu

«
»

Ummæli (2)

  • þórður SVERRISSON

    Það er eðlilegt að fólk geti valið sér áhættuþætti í lífin sínu. Hver er munurinn á að vera of feitur og fara á skíði ? Slys við íþróttir og hreyfingu eru mjög dýr og allur sá kostnaður sem ónýtir liðir slitnir um tíma fram munu valda í framtíðinni er gríðarlegur. Ávísun á hreyfingu kostar en sá reikningur kemur síðar.

    Að frátöludum passivum reykingum er lítill munur á því að valda kostnaði með að reykja, vera yfir kjörþyngd, eða stunda skíði með tilheyrandi slysakostnaði. Annað hefur pólitiskan rétt stimpill og hitt er rangt, en á endanum er kostnaður skattgreiðenda ekki ljóslega meiri af því sem hefur hefðbundin neikvæð formerki.

  • Bjarni Tryggvason

    Skrítin bloggsíða. Þegar maður var hvað feitastur og loksins byrjaður að vinna markvisst í því að koma af sér spikinu þá hefði „líkamsvirðing“ (er þetta ensk þýðing á Fat Acceptance ruglinu?) verið manni gagnlaust og innantómt orðskrípi.

    Vona að sem flestir sem eru of feitir eins og ég var og vilja gera eitthvað í því forðist lúser hugmyndafræði ykkar eins og heitan eldinn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com