Föstudagur 25.12.2015 - 11:25 - FB ummæli ()

Heilbrigðiskerfið-hækjur eða aðgerðir

Ég hitti vinkonu mína um daginn sem ég hafði ekki séð í nokkra mánuði og sá strax að hún var ekki eins og hún átti að sér að vera. Þegar við fórum að spjalla saman kom í ljós að hún hafði áhugaverða sögu að segja.

Árið 1996 hafði móðir hennar þurft að fara í mjaðmaaðgerð enda komið „bein í bein“ eins og sagt er. Ákvað bæklunarlæknir móður hennar að skera þyrfti hana strax og fór aðgerð fram um mánuð eftir að ljóst var hver staðan var.

Nú tæpum 20 árum seinna er þessi vinkona mín í sömu sporum. Eftir að hafa beðið mánuðum saman eftir viðtali við bæklunarlækni fékk hún loks tíma í byrjun desember og eftir myndatökur var ljóst að sama staða var uppi þ.e. „bein í bein“ og var henni sagt að hún fengi flýtimeðferð þar sem staðan væri þetta alvarleg. Með bjartsýnina að vopni spurði þessi vinkona mín hvort að nokkur von væri til að hægt væri að framkvæma aðgerðina fyrir jól en var svarað; að vonandi yrði hægt að gera aðgerðina innan árs – en venjulegur biðtími eftir mjaðmakúluskiptum væri 3 ár.

Frá einni kynslóð til annarrar hefur heilbrigðiskerfi okkar sem sagt farið úr því að sjúklingur í flýtimeðferð eftir mjaðmaaðgerð þurfi að bíða í 52 vikur í stað 4 vikna áður.

Þessi sjúklingur var því sendur heim með hækjur til að létta álaginu á mjaðmagrindinni með þau skilaboð frá kerfinu að vonandi fái hún aðgerð á árinu 2016 en þurfi ekki að bíða fram til 2017. Send heim með hækjur til að styðjast við í heilt ár – svo kvalin að þegar við kvöddumst sagðist hún vita það að hún héldi þetta ekki út í heilt ár.

Og þannig er raunveruleikinn á árinu 2015 þegar við vitum að til er nóg af peningum í landinu – það sjáum við allsstaðar. Það er til nóg af peningum – en við erum einfaldlega ekki að deila birgðunum jafnt og skipta því sem til skiptanna er þannig að um það ríki samfélagsleg sátt.

Enda leggjumst við vonandi aldrei svo lágt að sætta okkur við að hækjur komi í stað læknisaðgerða?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Margrét Kristmannsdóttir
Framkvæmdastjóri Pfaff.
RSS straumur: RSS straumur