Fimmtudagur 12.10.2017 - 11:12 - FB ummæli ()

JAFNAÐARMENN OG FÓTBOLTI

Því hefur oft verið haldið fram að meirihluti Íslendinga séu í raun hófsamir jafnaðarmenn – stundum kallaðir hægri kratar sem vilja öfluga velferð en skilja að grundvöllur velferðar er öflugt atvinnulíf.

Áhrif stjórnmálaflokka sem kenna sig við jafnaðarmennsku hafa þó í engu verið í réttu hlutfalli við lífskoðun svo margra Íslendinga og því stöndum við frammi fyrir því í dag að 5% Íslendinga eiga jafnmikið og hin 95% Við lifum því ekki í heimi jafnaðar heldur í heimi þar sem hinir ríku verða sífellt ríkari. Þetta er megin ástæða þess að svo margir upplifa reiði – við sjáum og finnum á eigin skinni að byrðunum er ekki réttlátlega skipt.

En jafnaðarmenn verða líka að horfa í eigin barm. Allt of oft höfum við horft til þess sem sundrar okkur frekar en sameinar og talið líklegra til árangurs að bjóða fram svipaða framtíðarsýn í mörgum stjórnmálaflokkum. Afleiðingin af þessu ósamlyndi er að atkvæði þúsunda jafnaðarmanna munu falla dauð niður ef mark er takandi á skoðanakönnunum.

En óháð því hvað kemur upp úr kjörkössunum er eitt stærsta verkefni forystusveitar jafnaðarmanna að sameina okkur í einn öflugan flokk. Verkefnin eru einfaldlega of stór til að snúa ekki bökum saman.

Íslenska karlalandsliðið i knattspyrnu hefur sýnt að liðsheildin skiptir öllu máli – ef árangur á að nást þýðir ekkert að spila út og suður! Ísland væri ekki leið á HM á næsta ári ef menn hefðu ekki spilað á eitt og sama markið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Margrét Kristmannsdóttir
Framkvæmdastjóri Pfaff.
RSS straumur: RSS straumur