Fimmtudagur 11.9.2014 - 08:12 - FB ummæli ()

„Freistnivandi“ kaupmanna

Í fjárlögum eru fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar sem vakið hafa hörð viðbrögð eins og vænta mátti. Mörg viðbrögð voru fyrirséð – önnur ekki og verður áhugavert að fylgjast með hvort og þá með hvaða hætti frumvarpið breytist í meðförum Alþingis.

Verslun á Íslandi hefur í áratugi barist fyrir niðurfellingu vörugjalda sem skekkir samkeppnisstöðu þessarar atvinnugreinar verulega – enda þekkjast vörugjöld hvergi í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Segja má að vörugjöld séu sérstakur skattur á íslenska neytendur og sé löngu úrelt fyrirkomulag neyslustýringar. Enda hvaða vit er í því að skattleggja sérstaklega þvottavélar, kæliskápa, bílavarahluti, klósett og gólfefni sem lúxusvarning væri.

Þegar fjármálaráðherra fylgdi fjárlögum úr hlaði sagði hann að fyrirhugaðar breytingar myndu hafa jákvæð áhrif á kaupmátt heimilanna og verðlag í landinu.

Hagfræðingur ASÍ dróg þetta í efa í tíufréttum á RÚV þann 9. september s.l. og sagði að þessar breytingar væru ekki gott innlegg í komandi kjaraviðræður. Síðan bætti hagfræðingurinn við að ASÍ hefði áhyggjur að freistnivanda kaupmanna myndi skila þeim hærri álagningu.

Svo þetta sé orðað á venjulegri íslensku þá ætla kaupmennirnir – sem barist hafa fyrir vörugjaldsniðurfellingu í tæp 40 ár – að stinga öllum ágóðanum í eigin vasa og gefa skít í neytendur.

Og hvað skyldi ASÍ hafa fyrir sér í þessum málflutningi? Ekki neitt nema eigin vangaveltur!

Ef hins vegar er litið á staðreyndir gaf Samkeppniseftirlitið út skýrslu í ársbyrjun 2012 þar sem segir orðrétt: „Lækkun á virðisaukaskatti á matvælum úr 14% í 7% sem og lækkun á vörugjöldum, einkum gosdrykkjum, í mars 2007 skilaði sér í samsvarandi lækkun á verði matvöru í smásölu.“

Svo mörg voru þau orð – verslunin skilaði allri lækkun beint til neytenda!

Meiri var freistnivandi verslunarinnar nú ekki.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.1.2014 - 14:53 - FB ummæli ()

Íslensk verslun hefur aldrei beðið um tollvernd

Íslensk verslun hefur undanfarin misseri barist hart fyrir að dregið verði úr tollvernd á innlendan landbúnað – ekki síst hvíta kjötið svokallaða sem á lítið skylt við landbúnaðarframleiðslu að flestra mati.

Þessi barátta hefur skilað því að umræða um breytingar á fyrirkomulagi styrkja til íslensks landbúnaðar er nú mjög hávær. Er það vel því orð eru til alls fyrst. Án efa er hægt að komast að niðurstöðu um breytt kerfi sem styður vel við hinn hefðbundna íslenska landbúnað s.s.sauðfjárræktina en á sama tíma fái aðilar sem notið hafa gríðarlegrar tollverndar t.d. í hvíta kjötinu aukna samkeppni þ.a. íslensk heimili njóti kaupmáttaraukningar í gegnum verðlækkanir á þeim vörum. Sérhagsmunagæsla um óbreytt landbúnaðarkerfi er ekki í boði að okkar mati og þeirri skoðun vex hratt fylgi og verður fylgt eftir m.a. af aðilum vinnumarkaðarins.

Undanfarnar vikur hafa þeir aðilar sem standa vörð um sérhagsmuni núverandi landbúnaðakerfis fullyrt að þetta sé undarleg barátta hjá versluninni sem sjálf biður um tollvernd þegar henni hentar. Þessi fullyrðing er alröng – enda nýtur verslunin engrar tollverndar, hefur aldrei gert og mun aldrei fara fram á. Þvert á móti býr verslunin hér við ofurálögur í formi tolla og vörugjalda sem hvergi er lögð á þessa atvinnugrein í þeim löndum sem við helst viljum bera okkur saman við. Á verslunina hér á landi eru sem sagt lagðir tollar sem ekki eru lagðir á verslun erlendis.

Þennan útúrsnúning sérhagsmunanna má líklega rekja til athugasemda sem verslunin gerði við fyrirhugaðar breytingar á póstverslun við útlönd. Þar var verslunin hins vegar ekki að fara fram á tollvernd heldur eingöngu að fá að sitja við sama borð og aðrir sem flytja inn vörur hingað til lands. Enda felst engin sanngirni í því að fella niður opinber gjöld við innflutning hjá einstaklingum en krefja verslunin áfram um himinhá opinber gjöld á sömu vöru? Ef þessar álögur verða hins vegar felldar niður af versluninni á sama tíma þ.a. allir sitji við sama borð gerir verslunin engar athugasemdir við breytt fyrirkomulag póstverslunar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.7.2013 - 16:30 - FB ummæli ()

Í gegnum skráargatið

Ríkisstjórn Íslands hefur sett aðildarviðræður Íslands við ESB á ís og erfitt er að ráða í hver næstu skref verða. Mun ríkisstjórnin slíta viðræðum eða mun þjóðin fá að kjósa um næstu skref og þannig koma sér í stöðu til að legga sjálf mat á kosti og galla aðildar. Er það t.d. rétt eða rangt sem Dr. Magnús Bjarnason stjórnmálahagfræðingur heldur fram að kostir aðildar séu fleiri en ókostir fyrir um 90% landsmanna? Um þetta verður aldrei hægt að fullyrða nema klára aðildarferlið – sjá samninginn og kjósa.

En hver sem niðurstaðan verður heldur heimurinn áfram að þróast. Í byrjun mánaðarins hófu stærstu viðskiptablokkir heims – ESB og Bandaríkin viðræður um fríverslunarsamning og mun samningurinn – ef af verður – hafa gríðarleg áhrif á viðskipti um heim allan. Er talið að öll aðildarríki ESB muni hagnast á þessum samningi – en lönd utan ESB tapa og hefur m.a. verið lagt mat á það að tekjur á hvern Íslending muni dragast saman um tæp 4% og að störf hér á landi verði þúsund færri en ella.

Í núverandi stöðu var því hárrétt hjá utanríkisráðherra Íslands að stofna samráðsvettvang um hagsmunagreiningu vegna þessara fríverslunarviðræðna ESB og Bandaríkjanna. Var utanríkisráðherra spurður nánar út i þetta í kvöldfréttum RÚV nýverið og sagði hann að þetta væri m.a. gert til að fylgjast með – gæta hagsmuna okkar og „láta ekki taka okkur í bólinu“ eins og hann orðaði það.

Hér greinir utanríkisráðherra stöðuna hins vegar rangt. Við Íslendingar erum ekkert í bólinu – við erum ekki einu sinni í svefnherberginu. Við stöndum einfaldlega fyrir utan herbergið þar sem ákvarðanirnar verða teknar.

Við höfum verið sett í þá stöðu að fylgjast áhrifalaus með þróun mála í gegnum skráargatið á læstri hurð.

Sannarlega dapurleg staðreynd fyrir alla sem aðhyllast frelsi í viðskiptum og telja það eina af forsendunum fyrir bættum lífskjörum hér á landi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 7.6.2013 - 12:35 - FB ummæli ()

Bændur og sjómenn

Enn á ný erum við í versluninni sökuð um að „vera í stríði við bændur„.

Ítrekað höfum við leiðrétt þessar rangfærslur en það virðist henta málfutningi sumra að halda þessum klisjum á lofti.

Staðreynd málsins er hins vegar að íslenska landbúnaðarkerfið er dýrt fyrir skattgreiðendur og neytendur en þrátt fyrir það eru bændur láglaunastétt – atvinnutekjur þeirra eru einar þær lægstu í landinu.

Þeir aðilar sem vilja halda dauðahaldi í óbreytt landbúnaðarkerfi eru varla með hag bænda í huga.

Það vilja allir sjá öflugan íslenskan landbúnað en mjög margir í breyttu kerfi þar sem við sjáum kostnað skattgreiðenda lækka – verð til neytenda lægra og að bændur fái meira í sinn hlut.

Að leggja til breytingar á landbúnaðarkerfinu þýðir ekki að viðkomandi efni sjálfkrafa til stríðs við bændur – enda voru þeir aðilar sem vildu breytingar á sjávarútvegskerfinu aldrei sakaðir um að vera í stríði við sjómenn.

Bændur eru þjóðinni mikilvægir, alveg eins og og sjómenn, og þeir eiga einfaldlega betra skilið en að vera haldið í gíslingu óbreytts kerfis.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 4.6.2013 - 08:45 - FB ummæli ()

Skyrboð Guðna

Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra en nú formaður Samtaka mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja, hefur skrifað nokkrar greinar til þess að mótmæla málflutningi okkar í SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu um nauðsyn þess að gera m.a. breytingar á landbúnaðarkerfinu. Okkur hefur ekki tekist að sannfæra Guðna og aðra hagsmunagæslumenn þess úrelta kerfis – en við áttum heldur ekki von á því. Almenningur hefur hins vegar tekið málflutningi okkar vel.

Í einni af svargreinum sínum sem birtist í Morgunblaðinu á laugardaginn bauð Guðni okkur framkvæmdastjóra SVÞ að hitta sig og borða með sér skyr og hér að neðan er svar okkar við því ágæta boði:

Kæri Guðni

Kærar þakkir fyrir skyrboð þitt í Morgunblaðinu sem við þiggjum með þökkum enda fer ávallt vel á með okkur þegar við hittumst.

Það fer einnig vel á því að boðið verði haldið í höfuðstöðvum MS – sem er eitt fárra einokunarfyrirtækja sem eftir eru hér á landi. En þú tókst einmitt ákvörðun um það í ráðherratíð þinni að mjólkuriðnaðurinn skyldi vera undanþeginn leikreglum samkeppninnar.

Ekki síður á það vel við að boðið skuli upp á skyr þegar við hittumst enda flytjum við Íslendingar út mikið af skyri, sem er gott. Enda hefur alltaf verið í lagi hjá þeim sem vilja áframhaldandi einokun að landbúnaðarafurðir séu fluttir út – bara ekki að þær séu fluttar inn.

Allt er þetta því mjög viðeigandi og til vitnis um mikilvægi þess að umræðan haldi áfram.

Bestu kveðjur

Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 18.5.2013 - 14:10 - FB ummæli ()

Steinhissa bændaforysta

Eins og kannski við mátti búast féllu tillögur verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld ekki í kramið hjá formanni Bændasamtakanna, enda þar gert ráð fyrir að dregið verði úr þeirri gríðarlegu vernd sem landbúnaðurinn hefur notið áratugum saman. Þessi vernd hefur m.a. komið í veg fyrir að hægt hefur verið að flytja inn landbúnaðarvörur til hagsældar fyrir íslensk heimili.

Gagnrýni bændaforystunnar beinist ekki síst að því að fulltrúar bænda hafi ekki verið kallaðir að borðinu. En þá má á móti spyrja hvort að ekki hafi átt að kalla til fulltrúa neytenda og fulltrúa skattgreiðenda að borðinu því gallinn við núverandi landbúnaðarkerfi er að það er skattgreiðendum þessa lands ákaflega dýrt en á sama tíma þurfa íslenskir neytendur að greiða eitt hæsta verð fyrir landbúnaðarafurðir.

Verslunin sem árum saman hefur barist fyrir breytingum á landbúnaðarkerfinu á heldur ekki fulltrúa í samráðsvettvangnum – ekki nema óbeint í gegnum fulltrúa Samtaka atvinnulífsins. Og verslunin gerir engar athugasemdir við það enda kemur sérstaklega fram að eitt helsta markmið samráðsvettvangsins sé að móta heildstætt óháð yfirlit yfir aðgerðir sem geta stuðlað að langtímahagvexti og efnahagslegum stöðugleika.

Og það er þetta óháða yfirlit sem sérstaklega er vert að benda á. Vandi okkar Íslendinga fólst nefnilega ekki síst í því að hér hafa sérhagsmunir alltaf verið kallaðir að borðinu – ráðið allt of miklu á kostnað heildarhagsmuna og því verður að breyta. Það verður með öllum ráðum að koma í veg fyrir að fámennir hópar komi í veg fyrir aukna hagsæld og aukin lífsgæði hér á landi með því að taka sérhagsmuni ávallt fram yfir heildarhagsmuni.

Framtíð íslensks landbúnaðar er björt – en framtíð bænda felst ekki í óbreyttu kerfi. Á meðan eina útspil bændaforystunnar er að verja óbreytt landbúnaðarkerfi á hún ekkert erindi að borðinu. Viðsýn bændaforysta sem skynjar að aukin hagsæld, aukinn kaupmáttur íslenskra heimila felst m.a. í breyttu landbúnaðarkerfi verður hins vegar án efa mikilvægur bandamaður þegar kemur að nánari útfærslum á vegum samráðsvettvangsins.

Flokkar: Bloggar · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 14.5.2013 - 15:13 - FB ummæli ()

Er opnunartíminn of langur?

Verslunin hefur verið gagnrýnd fyrir of langan opnunartíma og hefur gagnrýnin ekki síst beinst að því að þessi langi opnunartími eigi þátt í háu vöruverði hér á landi.
En er opnunartíminn of langur?  Um þetta eru verslunarmenn einfaldlega ekki sammála og því er staðan eins og hún er.   Sumar verslanir eru opnar stutt og aðrar lengi – allt eftir því hvort að verslunin telji að aukin arðsemi fylgi auknum opnunartíma.
Hér áður fyrr var það undir sveitarstjórnum á hverjum stað komið hver opnunartími verslana mátti vera og því muna eldri Reykvíkingar t.d. eftir því að hafa þurft að keyra út á Seltjarnarnes til að kaupa mjólk eða aðrar nauðsynjavörur utan opnunartíma verslana í Reykjavík.   Opnunartíminn var síðan gefinn frjáls og hefur smám saman verið að þróast í átt til þess sem við þekkjum í dag.
Samkeppniseftirlitið leggur mikið upp úr því að hvert fyrirtæki fyrir sig ákveði sjálfstætt hvernig það ætlar að hegða sér á markaði.  Að mati Samkeppniseftirlitsins fellur samstarf eða samráð aðila í verslunarrekstri sem lýtur að því að samræma opnunartíma verslana undir bannákvæði 10. greinar samkeppnislaga og 12. greinar sé samstarfið stundað á vettvangi samtaka fyrirtækja.  Segir eftirlitið að opnunartími verslana sé einfaldlega hluti af þjónustu þeirra og einn af samkeppnishvötum verslananna.   Þetta má glöggt sjá í auglýsingum þar sem gjarnan er vakin athygli á opnunartíma – ekki síst ef hann er rýmri en opnunartími keppinautanna.
Markaðurinn verður því einfaldlega að reikna með að verslunareigendur reki fyrirtæki sín á eins hagkvæman hátt og frekast er kostur – og að markaðurinn sé að nýta öll tækifæri sem til staðar eru.  Ef ekki er markaðurinn einfaldlega opinn fyrir nýja aðila til að sækja inn á – um það höfum við Íslendingar mýmörg dæmi.
En það sem á að skipta neytandann mestu máli er að hafa val.   Ef allar verslanir væru opnar allan sólarhringinn og byðu hátt verð væri samkeppnin einfaldlega óvirk.   En þannig er markaðurinn ekki að hegða sér því sumar verslanir hafa stuttan opnunartíma og bjóða lágt verð á meðan aðrar verslanir sjá tækifæri í því að hafa opið allan sólarhringinn gegn hærra verðlagi.   Neytandinn getur því beint viðskiptum sínum þangað sem hann vill og ef enginn verslar á nóttunni mun verslunin bregðst við þvi vali neytandans með því að stytta opnunartímann.   Hingað til hefur hegðun neytandans hins vegar verið þannig að sumar verslanir sjá tækifæri í sólarhringsopnun.

Flokkar: Bloggar · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál