Miðvikudagur 25.10.2017 - 10:58 - 1 ummæli

Sigurður Ingi eitt, Lilja annað

Skrýtið – á fundi umhverfissamtaka í Norræna húsinu fyrir viku lagðist formaður Framsóknar, Sigurður Ingi Jóhannsson, gegn kolefnisgjaldi, eða að minnsta kosti breytingum á núverandi kolefnisgjaldi. Enda stóð Framsókn að verulegri lækkun kolefnisgjaldsins í samstjórn Bjarna og Sigmundar Davíðs. Sigurður Ingi taldi upp ýmsa vankanta, svo sem að á landsbyggðinni væru menn háðari bílunum (sem er rétt – en er það ekki dæmigert úrlausnarefni fyrir stjórnmálamenn með ívilnunum og sólarlagsákvæðum?).

Framsókn keyrir kosningabaráttuna á tveimur persónum, Sigurði Inga formanni og Lilju Alfreðsdóttur varaformanni – og maður býst þessvegna við að þau séu þokkalega samferða.

En það er ekki í kolefnisgjaldinu. Þvert á móti segir Lilja sem flutningsmaður (rapporteur) í nýlegri skýrslu um umhverfismál á alþjóðavettvangi (hjá Nató!) að kolefnisgjald sé sjálfsagt mál í loftslagsaðgerðum. Punktur 61 í skýrslunni hefst nokkurnveginn svona:

Það er … heilbrigð efnahagsleg ráðstöfun að skatta kolefni þannig að verðið sýni raunverulegan kostnað við notkun þessa eldsneytis. Sá kostnaður verður að koma fram í verðinu til þess að fyrirtæki og neytendur geti á skilvirkan hátt tekið ákvarðanir um orkunotkun.

Lilja segir sumsé annað í Brussel en Sigurður Ingi í Norræna húsinu. Kannski er það ekkert undarlegt að Framsókn sé næstum lægst á nýja loftslagsprófinu. Þar má þó að minsta kosti hugga sig við að vera hærri en gamli samstarfsflokkurinn — sem féll í loftslagsmálum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.11.2016 - 12:04 - 8 ummæli

Samfylkingin í ríkisstjórn

Logi formaður hefur með sínum hætti gefið merkilega yfirlýsingu fyrir hönd flokksins – á fésbókarsíðu sinni. Þar spáir hann því að Jafnaðarmenn verði sú litla skrúfa sem gerir vélina starfhæfa:

Við munum nálgast þá stöðu af fullri ábyrgð og skoða aðkomu okkar að ríkisstjórn, verði áherslur okkar stór hluti af málefnasamningi.

Logi nefnir nokkrar þeirra áherslna: Auðlindagjald – jöfnun lífskjara – innviðasókn – almannaþjónusta fyrir alla.

Þetta er merkileg og góð yfirlýsing, og passar við það sem ég heyri frá félögum mínum og samjafnaðarmönnum. Eftir kjaftshöggið um daginn eru langflestir staðráðnir í að halda áfram og vinna fyrir málstaðinn og hreyfinguna.

Hún er líka nákvæmlega tímasett – einmitt þegar Bjarni hlýtur að skila af sér og Katrín tekur við með mið-vinstristjórn fyrir augum.

Athugið að Logi er hér ekki að tala um hlutleysi eða stuðning frá máli til máls – heldur þátttöku í ríkisstjórninni, stað við borðið með ráðherra eða ráðherrum.

Flokkur jafnaðarmanna er raknaður úr rotinu og mættur til leiks á vettvangi dagsins.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.10.2016 - 23:52 - 7 ummæli

Límið í umbótastjórninni

Mér finnst kosningabaráttan hafa fengið annan svip eftir að Píratar buðu til viðræðna um málefnaáherslur nýrrar ríkisstjórnar – sem nú er farið að kalla umbótastjórnina – og verð var við að fólk er glatt og hefur fengið nýja von og markmið eftir langa pólitíska þreytu.

Samfylkingarformennirnir Oddný og Logi komu daginn eftir að hitta Birgittu og kó, og svo VG eftir ofurlítið hik og BF líka, lokið er tveimur fundum á Lækjarbrekku og sá þriðji eftir núna á fimmtudag fyrir kosningar. Einsdæmi í stjórnmálasögunni – og Viðreisn fylgist vel með. Þá verður líka að rifja upp að samstarf þessara afla í stjórnandstöðunni á þingi í fjögur skrýtin ár hefur verið harla gott. Ekki síður að væntanlegt samstarf í stjórnarráðinu á sér fyrirmynd í meirihlutanum í ráðhúsi Reykjavíkur þar sem fólk úr sömu fylkingum siglir góðan byr með Dag B. Eggertsson við stýrið.

Við skulum vona að þetta gangi eftir – að framboðin fái þann meirihluta sem til þarf, og BD-liðið þær kveðjur sem það á skilið. Viðræðurnar núna merkja – mikilvægast! – að S-V-A-P hafa skuldbundið sig siðferðilega til að ræða saman í algjörri alvöru daginn eftir kosningarnar ef meirihluti er fyrir hendi.

Það þarf djörfung til að taka frumkvæði af þessu tagi – takk Píratar. Það þarf líka reynslu, hyggindi, eldmóð til að mynda slíka stjórn, og allra helst til að halda henni saman sem liði í gegnum stórsjóina sem alltaf fylgja raunverulegum breytingum – sem eru gerðar á vegum almennings en ekki fyrir sérhagsmunapotarana og forréttindastéttina.

Að vera með í umbótastjórninni

Mitt framlag til umbótastjórnarinnar verður að kjósa Samfylkinguna. Það kemur kannski ekki á óvart – en eftir viðræðufréttirnar geri ég það með stolti og án nokkurs fyrirvara. Mínir jafnaðarmenn hafa einmitt þá reynslu og hyggindi, og eldmóð, sem til þarf þegar á brattan er að sækja, góður blandaður kór af körlum og konum, ungu hugsjónafólki og reynsluboltum, í samhengi sögulega og alþjóðlega.

Þá liggja stefnur og straumar líka þannig á þessari væntanlegu siglingu að hreyfing jafnaðarmanna hefur málefnaskörun við öll hin framboðin talsvert umfram samhljóm þeirra á milli. Skoði menn sjálfir þau mál sem geta orðið viðkvæm í þessu stjórnarmunstri – með Viðreisn eða án – og alstaðar er S í miðjunni, á sér samræðuflöt við alla hina flokkana og getur orðið miðlari mála þegar fer að hitna í kolunum. Hún getur gefið nýju stjórninni hinn stefnulega kjarna, og myndað límið sem þarf í samstarfið.

Menn kjósa auðvitað hver og einn eftir sinni íhugun og tilfinningum, líðan og skapi, tilhlökkun og vonbrigðum, trúnaði við frambjóðendur og flokka, og svo sókninni í annað (… að komast burt, Rimbaud …). Jafnaðarmenn, ljósir og leyndir, sem vilja framar öðru styrkja komandi umbótastjórn – það gera þeir best og mest með því að kjósa Samfylkinguna.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Miðvikudagur 7.9.2016 - 17:19 - 2 ummæli

Helgi Hjörvar

Ég kýs Helga Hjörvar í prófkjörinu núna um helgina. Ég vil að hann fái tækifæri til að nýta forustuhæfileika sína og ýmsar gáfur okkur jafnaðarmönnum og öllum almenningi til gagns, og ég vil að hann verði ráðherra – í ríkisstjórn frjálslyndra og vinstrimanna. Það er sérkennilegt með Helga að maður getur ímyndað sér hann alstaðar á vellinum – menntamálaráðherra, velferðarráðherra, atvinnumálaráðherra, umhverfisráðherra … Væri líklega bestur sem líberó í boltanum. Sem sýnir auðvitað reynslu og færni en líka að hann er fljótur að koma í verk hugsjónum og hugmyndum.

Ég geri það sem mér sýnist skynsamlegt, sagði hann einusinni þegar hann lét ekki eftir mér að leggjast á árarnar þangað sem ég vildi. Ég var fúll útí Helga á eftir – þangað til ég sá að það reyndist vera skynsamlegt sem honum sýndist skynsamlegt og hafði hugrekki til að taka mark á. Þar með er ekki sagt að hann sé tilfinningalaus sem alltof lengi hefur átt að vera pólitíkusum til hróss. Glíma hans við erfiða fötlun hefur bæði þroskað hann og eflt í honum  þá samkennd sem er grundvallarforsendan í liberté égalité fraternité.

Sannarlega kjósum við ýmsa aðra – margt spennandi ungt fólk í boði – og svo til dæmis Magga Tryggva í Kraganum að öðrum ólöstuðum, nýjum og gömlum. Það skiptir miklu máli að velja í forustusveitina fólk sem getur – tekið skynsamlegar ákvarðanir, og kann – að bregðast við nýjum aðstæðum án þess að gleyma glóðinni í hjartanu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.8.2016 - 14:46 - 4 ummæli

Til Samfylkingarmanna

Ágætu Samfylkingarmenn, félagar, vinir, kjósendur

Nú eru að verða síðustu forvöð að gefa kost á sér í efstu sæti Reykjavíkurlistanna fyrir kosningarnar í haust – og erindi þessa bréfs er að segja ykkur að þetta ætla ég ekki að gera. Það kann að auðvelda öðrum að taka sína ákvörðun.

Ástæðurnar eru fyrst og fremst persónulegar. Ég hef verið í einu þessara sæta við allar þingkosningar síðan flokkurinn varð til, alþingismaður 2003–2007 og 2010–2013 og að auki viðloðandi þingið sem varamaður frá 1995, alls rúm tuttugu ár. Það er sumsé orðið ágætt, og verkefni af ýmsu tagi vantar ekki.

Þarmeð er ég ekki ,hættur í pólitíkʻ – hef eiginlega aldrei skilið það orðalag – og ætla að starfa af krafti með ykkur áfram í flokknum og annarstaðar, við endurreisnina, fyrir sósíalismann og grænu málin. Svo hef ég alltaf haft áhuga á borginni minni, fólki, sögu, skipulagi og framförum – hver veit hvað verður vorið 2018?

Hlakka til að vinna með ykkur í kosningastarfinu framundan. Þar þarf alla menn á dekk!

Með góðum kveðjum — Ykkar einlægur Mörður Árnason

Flokkar: Lífstíll

Föstudagur 17.6.2016 - 11:18 - 10 ummæli

Efi: Forsetakosningarnar og Ríkisútvarpið

Mér finnst Ríkisútvarpið hafa staðið sig vel hingað til í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar. Þessvegna er leiðinlegt að þurfa að gera þessa athugasemd:

Fram er komið að Ríkisútvarpið ætlar ‒  í fyrsta sinn ‒  að láta skoðanakönnun ráða umfjöllun um kosningar, með því að skipta frambjóðendum í 1. og 2. deild í umræðum kvöldið fyrir kjördag eftir úrslitum könnunar sem á að gera, 4 fylgismestu í könnuninni í fyrri þætti og restin, 5, í síðari þætti. Ég hef um þetta efasemdir og vil gera grein fyrir þeim af því að ég er einn af fulltrúum almennings í stjórn Útvarpsins.

Ríkisútvarpið hefur sem almannaútvarp ákveðnar lýðræðislegar skyldur. Það má meðal annars ekki gera frambjóðendum mishátt undir höfði en það á líka að gera áhorfendum og hlustendum grein fyrir framboðunum, því sem er í húfi og gangi mála í kosningabaráttunni.

Þetta hyggst kosningaritstjórnin nú leysa með því að fyrst séu allir frambjóðendur jafnir fram á síðasta dag. Kvöldið fyrir kosningar á svo að skipta –undir gunnfánum djúprar og innihaldsríkrar umræðu og  betri þjónustu við almenning,. Sem ekki yrði af ef allir níu væru saman í lokaþætti ‒  eða ef skipting þeirra væri með öðru móti en eftir skoðanakönnun.

Þótt í litlu sé (eða hvað?) eru skoðanakannanir hér með farnar að ráða vinnubrögðum Ríkisútvarpsins kringum kosningar.

Rök forsvarsmanna í Efstaleitinu eru þau að með þessu sé stuðlað að áðurnefndri dýpt og innihaldi og gætt upplýsingaréttar almennings. Vísað er til ábendinga ÖSE sem þótti skorta á slíka dýpt í síðustu kosningum, án þess þó að nefna skoðanakannanir sem bjargráð. Það var hinsvegar gert í almennri skýrslu frá Evrópuráðinu ásamt fleiri atriðum ‒  en bakgrunnur þeirrar skýrslu var stjórnmálaástandið í hinum nýfrjálsu ríkjum Mið- og Austur-Evrópu þar  sem allt að 25‒30 framboð hafa komið fram í  þingkosningum opg hvorki almannaútvarp né aðrir þokkalega ,frjálsir’ fjölmiðlar ráða neitt við neitt.

Hugmynd af þessu tagi var send frambjóðendum og sett á vefinn í apríl, og kynnt fyrir stjórn Ríkisútvarpsins í maílok. Þá komu fram efasemdir innan stjórnarinnar og einnig á síðari stjórnarfundi, sem sjá má í bókun okkar Friðriks Rafnssonar á þeim fundinum. Sjónarmið okkar, og fleiri fundarmanna, var að hér gæti vissulega verið vandi á ferð, en þegar menn væru búnir að bjóða sig fram í kosningum ætti almenningur kröfu á að kynnast þeim. Ef það ætti að skerða framboðsmöguleika yrði að stemma á að ósi ‒ breyta lögunum en ekki beita ad hoc-reglum á Ríkisútvarpinu.

Breytingar í nútímaátt?

Stóra málið er náttúrlega hvort á að gefa könnunum svona mikið áhrifavald. Ég er ekki hrifinn af því flat- og plat-lýðræði sem kemur út úr fullkomnu sekúndujafnrétti allskyns framboða. Hinsvegar er að míknu viti óeðlilegt að einhver staða í fylgi ráði því hver fær að tala hvenær og við hvern kvöldið fyrir kjördag. Og mér leiðist að Efstaleitisfólk skuli ekki hafa reynt að finna aðrar leiðir – tala við alla einsog gafst ágætlega um daginn, draga í 2 til 3 þætti, eða hafa keðjusamtal einsog stundum hefur verið reynt í prófkjarakynningum – fyrst tali saman þrír, svo fari einn og annar tekur við, eða eitthvað enn annað.

Smærri mál eru auðvitað ábyrgð á afli könnunarinnar, spurningin um það af hverju nú þegar er búið að ákveða skiptinguna 4 og 5 (en ekki 5 og 4 – eða eitthvað allt annað …). Og í tilkynningunni frá í gær segir heldur ekkert um vikmörk, sem öllu máli geta skipt, hverty sem útlitið er núna. Þetta sýnir auðvitað að Ríkisútvarpið er í raun búið að ákveða að í efstudeildarþættinum verði Andri Snær, Davíð, Guðni og Halla. Ruslframbjóðendurnir fá svo að rugla eitthvað á eftir.

Hvernig verður þetta svo næst ‒  í þingkosningunum í haust? Einsog staðan er núna er útlit fyrir einmitt níu til tíu framboð: Þingflokkarnir eru fimm, við bætast líklega Viðreisn, Dögun, Alþýðufylkingin og Þjóðfylkingin … hvernig á að skipta þarna kvöldið fyrir kjördag? Hafa Framsókn með Albaníu-Valda af því hún fékk 9,9% og varð númer fimm á eftir Viðreisn með 10?

Ætli það þurfi ekki annars að endurskoða alla umfjöllun um kosningar í Útvarpinu? Þannig að annarsvegar sé formleg kynning sem fer fram með margvíslegum hætti, en byggist á sem fullkomnustu jafnræði framboða þannig að kjósendur-áhorfendur-hlustendur fái allar upplýsingar og fylgist með í rökræðunni. Hinsvegar sé fréttastofa og fréttatengd dagskrá þar sem kalt fréttamat er í fyrsta sæti. Þetta gerir að vísu miklar kröfur til frétta- og dagskrárgerðarmanna ‒  en mín trú er sú að frábært starfslið í Efstaleitinu standist slíkar kröfur.

Lýðræðishlutverk forsetans ‒ og frambjóðendanna?

Skrýtið að forsetaframbjóðendurnir skuli ekki hafa gert athugasemd við þessi áform. Hvorki þeir sem þetta bitnar helst á, þeir sem undanfarið hafa vermt sætin 5, og niðrúr ‒  og ekki síður þeir sem líklega verða í fjórum efri sætunum í könnuninni góðu. Það er einmitt einhver þeirra sem líklegast verður næsti forseti, og á meðal annars að vera helsti gæslumaður okkar um lýðræði og mannréttindi í landinu.

Fyrirgefið: Ástþór kærði náttúrlega, til fjölmiðlanefndar sem taldi engin lög brotin. En það hélt enginn að málið varðaði beinlínis við lög,  nema Ástþór, því þetta snýst ekki um lagakróka heldur um lýðræðishlutverk almannaútvarpsins. Fjölmiðlanefnd bæti svo við hugleiðingum frá eigin brjósti, sem sjá má í tilkynningunni að neðan. Þær útrýma ekki mínum efasemdum.

 

Tilkynningin til forsetaframbjóðenda, send í gær, 16. júní:

Góðan dag,

Í næstu viku eru tveir umræðuþættir á dagskrá RÚV. Sá fyrri verður í útvarpinu mánudaginn 20. júní kl 18‒ 19:15 og gert er ráð fyrir öllum frambjóðendum í þættinum.

Seinni umræðuþátturinn verður í sjónvarpinu föstudaginn 24. júní

  • Þátturinn hefst kl 19:55 og lýkur klukkan 21:45 (110 mínútur)
  • Umsjónarmenn verða Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Einar Þorsteinsson
  • Settið verður það sama og í fyrri sjónvarpsumræðunum
  • Öllum frambjóðendum er boðið í þáttinn
  • Þættinum verður skipt í tvennt, helmingur frambjóðenda stendur fyrir svörum í hvorum hluta.

Eins og kynnt var í bréfi til frambjóðenda þann 22.apríl verður hópnum skipt eftir stöðu í könnun frá Gallup sem RÚV kaupir og birtir þennan sama dag.

  • Þeir 4 frambjóðendur sem njóta mest fylgis í könnuninni verða teknir tali í fyrri hluta þáttar (ca 45 mínútur)
  • Þeir 5 frambjóðendur sem njóta minna fylgis í könnuninni verða teknir tali í seinni hluta þáttar (ca 55 mínútur)
  • Seinni hlutinn verður lengri enda fleiri frambjóðendur

Þar sem ekki liggur fyrir hverjir verða í fyrri hlutanum og hverjir í þeim seinni fyrr en samdægurs er ekki hægt að gefa út tíma í förðun strax. Gert er ráð fyrir að frambjóðendur verði farðaðir milli klukkan 19 og 20.

Rétt er að taka fram að Fjölmiðlanefnd hefur ákveðið að ekki sé tilefni til að taka til efnislegrar meðferðar kvörtun sem barst nefndinni vegna þeirra áforma að skipta þættinum í tvennt með þessum hætti. Niðurlag fjölmiðlanefndar hljómar svo: „Í ljósi alls framangreinds telur fjölmiðlanenfd að fyrirhuguð tilhögun kosningaumfjöllunar Ríkisútvarpsins og framkvæmd þeirrar skoðanakönnunar, sem hér hefur verið vísað til, fái samræmst ákvæðum laga um Ríkisútvarpið um hlutlægni, jafnræði og fagleg vinnubrögð. Þá sé tilhögun kosningaumfjöllunarinnar í samræmi við framangreindar ábendingar ÖSE og Evrópuráðsins, með  þeim hætti að hún geti stuðlað að dýpri og innihaldsríkari umræðu og taki þannig hliðsjón af upplýsingarétti almennings.“

Með góðri kveðju, / Heiðar Sigurfinnsson / Kosningaritstjórn RÚV

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.6.2016 - 13:11 - 8 ummæli

Múlattafræði

Hannes Hólmsteinn Gissurarson spurði á Fésbók:

Er það rétt, að í hinni upphaflegu orðabók Árna Böðvarssonar hafi orðið ekki verið? (Ég er ekki með hana hér.) Og að í endurútgáfu Marðar Árnasonar hafi orðið ekki verið með neinum sérstökum tilvísunum? (Án þess að ég telji það neitt aðalatriði.) Ég spyr.

Ekki nema sanngjart að svar fræðimannsins birtist líka utan ,,bókar“:

 

Já, það er rétt, Hannes, í 1. útgáfu Íslenskrar orðabókar (ÍO) frá 1963 er ekki þetta orð, múlatti. Ef til vill má þar greina áhrif frá Blöndalsbók, sem er einskonar móðurbók ÍO, en þar þótti ekki til siðs að sinna ,dönsku’ orðfæri. Orðið er hinsvegar að finna í 2. endurskoðaðri útgáfu ÍO frá 1982 og er skilgreiningin þá: „kynblendingur hvíts manns og svertingja.“

Um tilurð þessarar flettu veit ég ekki. Um það mál mætti ef til vill fræðast betur af vinnslugögnum eldri ÍO-útgáfnanna sem eru geymd á Þjóðskjalasafninu. ,Múlattinn’ kynni að hafa bæst við í viðamikilli yfirferð Ásgeirs Blöndals Magnússonar um orðaforða rit- og talmálssafns Orðabókar Háskólans, en Ásgeir starfaði við endurútgáfuna með Árna Böðvarssyni. Í orðsifjabók ÁBlM er skilgreiningin þó orðuð öðruvísi: „afkvæmi hvíts manns og blökkumanns.“

Þriðja útgáfa ÍO í ritstjórn minni og samstarfsmanna var ekki heildarendurskoðun hinna eldri heldur beindum við sjónum að sérstökum sviðum og þáttum (sjá um það inngang ÍO3, bls. vii‒ viii). Almennur nafnorðaforði var ekki þar á meðal, nema ýmislegar nýjungar og viðbætur, og við fórum því miður ekki sérstaklega yfir orðfæri á þessu sviði, um kynþætti o.þ.u.l., sem full ástæða er til að gera, þó ekki væri nema til að gefa stíl- og málsniðsupplýsingar. ‒ Nú er framundan, síðsumars eða í haust, svolítil vinna við ÍO á öðrum verksviðum, og alveg upplagt að nýta þá törn og taka til í þessu orðfæri (árangur af slíkri vinnu sést strax á Snöru).

Áður en yfirsýn fæst um orðfæri á þessu sviði er erfitt að segja til um hvaða meðferð múlattinn á skilið ‒ en miðað við málsniðsmerkingar í ÍO3 (sjá bls. xiii–xiv) sýnist mér helst eiga við að vekja athygli notandans á að orðið sé ,,gam.“ — ,,gamallegt mál eða gamaldags, þó ekki horfið úr nútímamáli“. Þegar orðið múlatti barst í málið, líklega um 1800 (fyrstu dæmi frá Magnúsi Stephensen!) virðist það ekki hafa niðrandi merkingu í sjálfu sér ‒ fyrir utan lífseiga andúð á „kynblendingum“ og fordómum í þeirra garð fyrr og síðar ‒ heldur sýnist vera tiltölulega tæknilegt heiti um þvílík ,fyrirbæri’, einsog að orði var komist um daginn. Á okkar tímum tíðkast hinsvegar að fara afar varlega í orðavali á einmitt þessu sviði, og því rétt að umsjónarmenn orðabóka og orðasafna gefi notendum fyllri upplýsingar en í boði eru í ÍO3.

 

Við þetta svar mætti svo bæta því að í téðri orðabók er að finna fjölmörg orð sem íslenskir málhafar vita að þeir nota ekki nema þau henti viðáttu og kringumstæðum — svosem orðin masgepill, ofrembingur og skítakarakter — en það ætlar fræðimaðurinn ekki að gera að sinni heldur er farinn að búa undir sig leiki dagsins á stórmóti Evrópusambands knattspyrnumanna.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.6.2016 - 11:29 - 11 ummæli

Einangra, þreyta, drepa

Taktík Davíðs Oddssonar forsetaframbjóðenda er tiltölulega einföld. Hún er í þremur áföngum ‒ og minnir, að breyttu breytanda, á rándýr á veiðum.

Einangra

Fyrsti þáttur: Einangra skæðasta andstæðinginn, koma hinum í burtu. Davíð hefur ekki möguleika í stöðunni ef hann er bara einn af mörgum frambjóðendum ‒ kostur fyrir harða hægrimenn á sama hátt og Sturla fyrir ákveðinn vonbrigðahóp úr hruninu, Halla fyrir mið- og hástéttarkonur til hægri við miðju, Elísabet fyrir hippa og lífskúnstnera, Andri Snær … Davíð vill útiloka aðra frambjóðendur sem ómerkinga og gera kosningabaráttuna að einvígi milli sín og þess andstæðings sem helst þarf að vinna á: Guðna Th. Jóhannessonar.

Þessi staða er að skapast, með dyggri aðstoð fjölmiðla á borð við Stöð tvö ‒ gulu og hálfgulu pressuna, Fréttastofu Ríkisútvarpsins sem hefur ákveðið að segja almenningi sem allra minnstar fréttir af því sem er að gerast í kosningabaráttunni ‒ og auðvitað Morgunblaðsins sem forsetaframbjóðandinn sjálfur skrifar í nafnlausa leiðara og staksteina á hverjum degi!

Þreyta

Annar þáttur: Davíð veit að hann vinnur aldrei ef leikurinn snýst um framtíð Íslendinga, um eðli forsetadæmisins, um utanríkisstefnu og ímynd, um heiðarleika, traust og trúnað. Frank Underwood á ekki séns nema honum takist að draga andstæðinginn niður í sama drullusvað og hann þrífst best í sjálfur. Í leðjuslagnum á hann raunhæfa möguleika ‒ og þessvegna þarf að draga Guðna þangað (nú eða Andra Snæ ef þannig stæði á, eða Höllu, Sturlu …). Svo koma hin kunnu fangráð sem lesa má um í leiðtogabók Ásdísar Höllu: Skítkastið og smjörklípurnar og þær flugur sem laxinn kynni að taka:

Ég gerði öll mál tortryggileg … jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim.

Drepa

Þriðji þáttur: Nú hefur tekist að draga andstæðinginn niður í drullupollinn ‒ hann er farinn að svara Mr. Underwood fullum hálsi og rifja upp allan hans óþverra, en búinn að gleyma eigin erindi við kjósendur. Davíð er á heimavelli, og tilbúinn í lokaþáttinn: Við erum báðir blóðugir og drullugir uppfyrir haus ‒ ég er hinsvegar miklu reyndari drullusokkur en Guðni (Andri/Halla/Sturla …). Þið vitið hvað þið fáið þegar um mig er að ræða,  kjósið Davíð í staðinn fyrir þjóðníðinginn/vitleysinginn /óreiðumanninn …

Ef þetta er ekki alveg búið í lok kosningabaráttunnar kemur svo fýlubomba allra fýlubombna, í Mogganum til dæmis, of seint til að hægt sé að svara, einhver eitraður hálfsannleikur til að sjá um nokkátið.

Gjafar gefnar

Leikritið hefur verið fullskrifað og komið í góðan gang. Þá skín bara við okkur tilvistarspurning Bergþóru forðum:

Gjafar eru yður gefnar feðgum og verðið þér litlir drengir af ef þér launið engu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.5.2016 - 08:31 - 2 ummæli

Formaður með plan

Formannsefnin fjögur í Samfylkingunni eru öll fín – og ég held að innan flokksins og kringum hann verði engin eftirmál af þessu formannskjöri, öfugt við það sem stundum hefur gerst áður. Þau eru góðir jafnaðarmenn öll, ekkert þeirra er pólitískt langt frá „miðjunni“ í flokknum – öfugt við fráfarandi formann, og öll hafa, að vísu nokkuð misjafnlega, sýnt vilja til samstöðu stjórnarandstöðuafla í næsta áfanga. Ég þekki þetta fólk persónulega og hef átt við þau góða samvinnu – undantekning hér er Guðmundur Ari Sigurjónsson en þegar ég frétti að hann væri barnabarn meistara Kjartans Ólafssonar hvarf allur efi …

Og ég ætla að kjósa Helga Hjörvar. Skiptir máli að mér finnst hann formannslegastur, hefur mesta reynsluna en samt ungur, snjall ræðumaður, góður taktíker, hjartað tryggilega vinstramegin … og svo framvegis. Skiptir líka máli að hann talar um breiða forustu í flokknum – öfugt í þriðja sinn við reyndina undanfarið – og vill sameina þar hugmyndir um pólitíska fjöldahreyfingu og skipulegan starfsflokk. Leggur sitt til mála með yfirlýsingu um að hann ætli sem formaður ekki að sækjast eftir fyrstusætunum í kjördæmi sínu.

Mestu skiptir samt að hér er maður með plan. Flokkurinn fer í kosningarnar í haust í nánu bandalagi við önnur stjórnarandstöðuöfl – og þau heita kjósendum því sameiginlega að mynda ríkisstjórn sem situr stutt kjörtímabil og vinnur fá en skýr mál til lausnar: Stjórnarskrá, heilbrigðis- og velferðaráfanga, aðgerðir gegn hávöxtum og bankaokri, þjóðgarð á hálendinu, samræðulok við ESB  … Önnur framfaraverkefni verða svo sett af stað – til að ljúka á þarnæsta kjörtímabili ef það tekst ekki strax, svo sem breytingar á kvótakerfinu.

Þetta plan merkir að samstarf við núverandi Sjálfstæðisflokk, þennan undir Tortólafánanum, kemur ekki til greina, og það eiga kjósendur að vita fyrir kosningar.

Við erum að tala um alvöru-pólitík, pólitík til að breyta samfélaginu – en við erum líka að tala um endurreisn Samfylkingarinnar, einnar eða með öðrum, vegna þess að pólitík af þessu tagi skapar traust og trúverðugleika sem nú vantar svo sárlega.

Þessvegna styð ég Helga.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 21.1.2016 - 23:00 - 1 ummæli

Vanhæfisdellunni lokið

Mörður Árnason er ekki vanhæfur til starfa í stjórn Ríkisútvarpsins. Þetta er niðurstaða forseta alþingis og forsætisnefndar á grunni lögfræðiathugunar frá þartilgerðum embættismönnum. Þar með er sú saga úti sem hófst rétt fyrir jól með tölvuskeyti Elfu Ýrar Gylfadóttur og erindi menntamálaráðuneytisins til stjórnarformanns Ríkisútvarpsins. Sjálfur frétti ég fyrst af þessu kvöldið áður en bréfin fóru af stað, þegar blaðamaður á Morgunblaðinu spurði út í viðkomandi lagagrein.

Rök þingforseta eru einföld. Hann segir réttilega að alþingi hafi ekkert úrskurðarvald um túlkun laga – til þess eru dómstólarnir – en bendir á að

í merkingu stjórnarskrárinnar, laga um kosningar til Alþingis eða þingskapa Alþingis

séu kjörnir þingmenn eitt og varaþingmenn allt annað. Bréfinu fylgir allnokkurt og fróðlegt minnisblað frá lagaskrifstofu þingsins. Sjá bréf og fylgiskjal hér: Bréf forseta alþingis til stjórnar Ríkisútvarpsins.

Þetta eru í sjálfu sér sömu rök og mér fannst eiga við í upphafi máls – einfaldlega þau að frambjóðandi sé ekki kjörinn nema hann sé kjörinn – eða gegni i forföllum störfum kjörins fulltrúa.

Af hverju þetta fór af stað í kringum mína persónu, tíu mánuðum eftir að ég tók sæti í RÚV-stjórninni, hálfu ári eftir að ég fór á þing eina viku í júní,  á því skeiði að Ríkisútvarpið, fjárhagur þess, ráðherrann, tilteknir þingmenn og stjórn Ríkisútvarpsins voru mjög í fréttum – það hreinlega veit ég ekki. Ekki heldur afhverju framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar lét líta út fyrir að „ábending“ hennar væri komin frá fjölmiðlanefndinni eða af hverju starfsmenn menntamálaráðherra sögðu útvarpsstjórninni að dæma sjálf um vanhæfið þótt engin lög styddu það, og heldur ekki hversvegna blaðamaður á Mogga hafði haft veður af þessu áður en bréfaskiptin hófust. Fréttatíminn spurði mig um þetta áðan,og ég svaraði að hér væri líklega fiskur undir steini. Ég nenni ekki að leita að fiskinum, en steinninn er væntanlega úr pólitískri bergtegund.

Hafi þeir af maklegan heiður sem málið hófu – en ég þakka öðrum ýmsan stuðning og ráðgjöf í þessu bírókrató-pólitíska dellumakeríi. Og held svo áfram að vinna í þágu almennings og almannaútvarpsins.

 

(Fyrri Eyjupistlar um málið: Hér, hér og hér.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur