Föstudagur 27.05.2016 - 08:31 - 2 ummæli

Formaður með plan

Formannsefnin fjögur í Samfylkingunni eru öll fín – og ég held að innan flokksins og kringum hann verði engin eftirmál af þessu formannskjöri, öfugt við það sem stundum hefur gerst áður. Þau eru góðir jafnaðarmenn öll, ekkert þeirra er pólitískt langt frá „miðjunni“ í flokknum – öfugt við fráfarandi formann, og öll hafa, að vísu nokkuð misjafnlega, sýnt vilja til samstöðu stjórnarandstöðuafla í næsta áfanga. Ég þekki þetta fólk persónulega og hef átt við þau góða samvinnu – undantekning hér er Guðmundur Ari Sigurjónsson en þegar ég frétti að hann væri barnabarn meistara Kjartans Ólafssonar hvarf allur efi …

Og ég ætla að kjósa Helga Hjörvar. Skiptir máli að mér finnst hann formannslegastur, hefur mesta reynsluna en samt ungur, snjall ræðumaður, góður taktíker, hjartað tryggilega vinstramegin … og svo framvegis. Skiptir líka máli að hann talar um breiða forustu í flokknum – öfugt í þriðja sinn við reyndina undanfarið – og vill sameina þar hugmyndir um pólitíska fjöldahreyfingu og skipulegan starfsflokk. Leggur sitt til mála með yfirlýsingu um að hann ætli sem formaður ekki að sækjast eftir fyrstusætunum í kjördæmi sínu.

Mestu skiptir samt að hér er maður með plan. Flokkurinn fer í kosningarnar í haust í nánu bandalagi við önnur stjórnarandstöðuöfl – og þau heita kjósendum því sameiginlega að mynda ríkisstjórn sem situr stutt kjörtímabil og vinnur fá en skýr mál til lausnar: Stjórnarskrá, heilbrigðis- og velferðaráfanga, aðgerðir gegn hávöxtum og bankaokri, þjóðgarð á hálendinu, samræðulok við ESB  … Önnur framfaraverkefni verða svo sett af stað – til að ljúka á þarnæsta kjörtímabili ef það tekst ekki strax, svo sem breytingar á kvótakerfinu.

Þetta plan merkir að samstarf við núverandi Sjálfstæðisflokk, þennan undir Tortólafánanum, kemur ekki til greina, og það eiga kjósendur að vita fyrir kosningar.

Við erum að tala um alvöru-pólitík, pólitík til að breyta samfélaginu – en við erum líka að tala um endurreisn Samfylkingarinnar, einnar eða með öðrum, vegna þess að pólitík af þessu tagi skapar traust og trúverðugleika sem nú vantar svo sárlega.

Þessvegna styð ég Helga.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (2)

  • Samfylkingin á að auglýsa: „Ef þið hafið kjósendurnar, þá höfum við þingmannsefnin, Einnig höfum við mörg málefni fyrirliggjandi á loforðalistum.“

  • Reynir Vilhjálmsson

    Ég er hjartanlega sammála Merði. Ég mun kjósa Helga Hjörvar vegna þess að ég tel hann best fallinn til að gefa flokknum nýjan kraft. Það þarf að styrkja innviði hans og gefa flokksmönnum þá tilfinningu að flokkurinn þeirra þoli mótbárur og gagnrýni án þess að hann liðist í sundur. Formaðurinn þarf að vera góður samnigamaður sem getur sannfært flokksfélaga um að ekki sé vaðið yfir þá heldur leitað að málamiðlun þannig að þeim finnist skoðanir sínar virtar. Það er nauðsynlegt að leita fylgis líka á miðjunni en það má ekki gleymast að hjarta jafnaðarmannsins slær vinstra megin. Okkur vanta meira hjarta í flokkinn, við verðum að muna að einkunnarorð jafnaðarmanna er solidaritet sem þýðir einfaldlega bræðra- og systralag. Við erum flokkur hinna fátæku og miðstéttarinnar en við erum líka flokkur hinna ríku ef þeir vilja nota auð sinn til að styrkja samfélag allra, ekki bara þeirra þeirra ríku. Það sem Helgi hefur sagt um það hvernig á að vinna eftir kosningar hefur sannfært mig.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur