Fimmtudagur 02.06.2016 - 11:29 - 11 ummæli

Einangra, þreyta, drepa

Taktík Davíðs Oddssonar forsetaframbjóðenda er tiltölulega einföld. Hún er í þremur áföngum ‒ og minnir, að breyttu breytanda, á rándýr á veiðum.

Einangra

Fyrsti þáttur: Einangra skæðasta andstæðinginn, koma hinum í burtu. Davíð hefur ekki möguleika í stöðunni ef hann er bara einn af mörgum frambjóðendum ‒ kostur fyrir harða hægrimenn á sama hátt og Sturla fyrir ákveðinn vonbrigðahóp úr hruninu, Halla fyrir mið- og hástéttarkonur til hægri við miðju, Elísabet fyrir hippa og lífskúnstnera, Andri Snær … Davíð vill útiloka aðra frambjóðendur sem ómerkinga og gera kosningabaráttuna að einvígi milli sín og þess andstæðings sem helst þarf að vinna á: Guðna Th. Jóhannessonar.

Þessi staða er að skapast, með dyggri aðstoð fjölmiðla á borð við Stöð tvö ‒ gulu og hálfgulu pressuna, Fréttastofu Ríkisútvarpsins sem hefur ákveðið að segja almenningi sem allra minnstar fréttir af því sem er að gerast í kosningabaráttunni ‒ og auðvitað Morgunblaðsins sem forsetaframbjóðandinn sjálfur skrifar í nafnlausa leiðara og staksteina á hverjum degi!

Þreyta

Annar þáttur: Davíð veit að hann vinnur aldrei ef leikurinn snýst um framtíð Íslendinga, um eðli forsetadæmisins, um utanríkisstefnu og ímynd, um heiðarleika, traust og trúnað. Frank Underwood á ekki séns nema honum takist að draga andstæðinginn niður í sama drullusvað og hann þrífst best í sjálfur. Í leðjuslagnum á hann raunhæfa möguleika ‒ og þessvegna þarf að draga Guðna þangað (nú eða Andra Snæ ef þannig stæði á, eða Höllu, Sturlu …). Svo koma hin kunnu fangráð sem lesa má um í leiðtogabók Ásdísar Höllu: Skítkastið og smjörklípurnar og þær flugur sem laxinn kynni að taka:

Ég gerði öll mál tortryggileg … jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim.

Drepa

Þriðji þáttur: Nú hefur tekist að draga andstæðinginn niður í drullupollinn ‒ hann er farinn að svara Mr. Underwood fullum hálsi og rifja upp allan hans óþverra, en búinn að gleyma eigin erindi við kjósendur. Davíð er á heimavelli, og tilbúinn í lokaþáttinn: Við erum báðir blóðugir og drullugir uppfyrir haus ‒ ég er hinsvegar miklu reyndari drullusokkur en Guðni (Andri/Halla/Sturla …). Þið vitið hvað þið fáið þegar um mig er að ræða,  kjósið Davíð í staðinn fyrir þjóðníðinginn/vitleysinginn /óreiðumanninn …

Ef þetta er ekki alveg búið í lok kosningabaráttunnar kemur svo fýlubomba allra fýlubombna, í Mogganum til dæmis, of seint til að hægt sé að svara, einhver eitraður hálfsannleikur til að sjá um nokkátið.

Gjafar gefnar

Leikritið hefur verið fullskrifað og komið í góðan gang. Þá skín bara við okkur tilvistarspurning Bergþóru forðum:

Gjafar eru yður gefnar feðgum og verðið þér litlir drengir af ef þér launið engu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Elín Sigurðardóttir

    Ég skil ekkert í Guðna að samþykkja fyrirkomulagið á Stöð 2 eða hvar sem það var í þætti Björns Inga þar sem hinir frambjóðendurnir voru útilokaðir. Enda fékk hann það í hausinn. Þarna strax átti hann að segja nei. Það var ekki Björns Inga að setja leikreglur og útiloka aðra frambjóðendur.

  • Mjög vel mælt Mörður.

  • Viskíprestur

    Ekkert af þessu hefur heppnast hingað til. Davíð á því aðeins eitt vopn eftir – og hann veit það sjálfur. Hann mun brynna músum einsog Bjarni Ben um árið, viðurkenna einhvern smávægilegan hluta af hruninu eða vísa í hvað þetta hafi verið erfitt fyrir sig og fjölskyldu sína, tala um veikindi móður sinnar og missa sig dálitið. Og ef það tekst vel – þar sem það tókst hjá Bjarna Ben – gæti það haft verri áhrif á íslenskt þjóðlíf en fjögur Eyjafjallagos. Ég er ekki að segja að hann geri þetta, en þetta er samt möguleiki.

  • 5 kvöld í röð álitsgjafi rúv virðist spjara sig ágætlega.

  • Reynir Eggertsson

    Mér finnst ,,Hefurðu enga sómakennd?“ eiginlega vera nokkát sem Davíð hefur ekki enn risið upp úr og talningin gengur á hann. Mogginn og hinir innvígðu og innmúruðu munu reyna að styðja hann aftur á fætur en hver verður slagkrafturinn í honum úr því sem komið er? En, jú, Rocky Balboa hafði það fyrir rest. Næstu vikur verða fróðlegar fyrir ,,dirty tricks“ greinendur.

  • Halldór Halldórsson

    Ég held að þetta sé ekki rétt hjá þér, Mörður! Ég held að Davíð sé of vitlaus eða hrokafullur til að vera svona mikill plottari. Svona lýsing finnst mér miklu fremur eiga við pólitíkusa eins og þig sjálfan, eða Össur Skarphéðinsson.

    Ég held að Davíð ætli sér þetta allt á hrokanum og þá getur allt farið á bólakaf ef hann ætlar sér um of; eins og hérna um árið þegar hann ætlaði sér að finna höggstað á Ólaf Ragnar með því að ráðast að dóttur hans, fyrir að vera í sumarstarfi hjá Baugi eða Högum hér um árið!

    Hann var ansi lúpulegur á eftir, þá að hann væri að reyna að bera sig mannalega, þegar hann sá að þetta voru mikil mistök og að jafnvel hliðhollt fólk sneru við honum baki á eftir!

  • Davíð oddson er ekki vandamálið !
    Það er Náhirðin , sem stendur að þessu framboði !

    Að samtök atvinnulífsins og kvótagreifarnir skuli detta í hug að koma að þessu framboði eins og sést á þeim stjórna ?

  • Sómakenndin hefur aldrei vafist fyrir Merði og engin nýlunda að fá illkvittnar fabúleringar frá þeim manni. Frambjóðendur til forsetakjörs fá hver sinn skammtinn, Sturla er vonbrigðamaður, Halla hástéttarkona, Elísabet hippi, Andri Snær fær þrjá punkta þ.e. ekki orða verður og illmennið Davíð hefur dregið sómadrenginn Guðna með sér oní drullupyttinn.
    Þessar lýsingar eru vissulega magnaðar og á köflum ívið skáldlegar en draga ekki kjark úr þjóðinni til þess að velja sér forseta. Þjóðin þekkir Mörð, takta hans og innræti og veit með vissu að nefndir frambjóðendur og líka þeir sem komust ekki á blað hjá honum eru allir hið ágætasta fólk með marga góða forsetakosti en auðvitað mannlegir líka og enginn er með öllu fullkominn.
    Fyrirsögnin: „Einangra, þreyta, drepa“, er að líkindum tekin beint úr handbók Samfylkingar þar sem lýst er pólitískri aðferðafræði gegn andstæðingum en eins og stundum vill verða snúast vopnin í höndum manna og beinast ekki síður að samherjum. Þess vegna er Samfylkingin í dauðateygjunum vegna innbyrðis deilna og átaka og þar er hlutur Marðar ekki hvað minnstur. Lokaorðin eiga því vel við hann sjálfan vegna bjagaðs hugarfars, illyrða og hefndarþorsta. „Gjafar eru yður gefnar feðgum og verðið þér litlir drengir af ef þér launið engu“.

  • GSS — Einsog sakamaðurinn sagði eftir réttarhaldið: Ég þakka vinsamleg orð í minn garð. — Og ekki síður lipurlegan útúrsnúning úr orðum mínum um aðra þátttakendur. Einkar vel við hæfi í samræðum um kosningabaráttu Davíðs Oddssonar.

  • Þorsteinn Jón Óskarsson

    Þakka þér frábæra grein Mörður. Aðeins einn Náhirðar-draugur ( GSS)birtist hér á skjánum. Vindurinn var að mestu farinn úr Guði þeirra á Gömlu Gufunni í morgun. Hann sletti samt sporðinum í pólitískum dauðateigjum í drullunni í von um að sletta á mótframbjóðandann er hann óttast mest. Ógeð.

  • Halldór Halldórsson

    Mörður? Hvers vegna koma ekki nöfn þeirra sem eru hér að setja fram álit sín fram? Má ekki upplýsa hver GSS er? Og hinir líka?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur