Laugardagur 16.1.2016 - 12:50 - Rita ummæli

Ráðuneyti á flótta

Fyrir áhugamenn um hæfi stjórnarmanna í Ríkisútvarpinu:

Menntamálaráðherra hefur látið ráðuneytisstarfsmenn sína svara spurningum mínum frá 22. desember, sem sannarlega skal þakkað. Svarið sýnir að ráðherrann og ráðuneytið hafa ákveðið að leggja á flótta frá þessu undarlega máli, og segjast bara hafa verið að sendast.

Í bréfi mínu fyrir jól (hér, neðarlega) var spurt tveggja spurninga. Annarsvegar var spurt hver ráðherrann teldi að ætti að kanna hæfi stjórnarmanna – þar á meðal að þeir séu ekki „kjörnir fulltrúar“ – fjölmiðlanefnd, hann sjálfur með ráðuneyti sínu eða aðrir. Hinsvegar var spurt hvaðan ráðherranum og hans  mönnum kæmi sú afstaða að hin þingtilnefnda stjórn Ríkisútvarpsins ætti sjálf að úrskurða um hæfi einstakra stjórnarmanna, óskað skýringa á þeim efnisatriðum  bréfsins – og „upplýsinga um lagagrundvöll staðhæfinga sem þar koma fram“.

Skemmst er frá að segja að svör ráðherrans eru engin. Hann var bara að æfa lögreglukórinn:

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur borist bréf yðar, dags. 22. desember 2015, þar sem óskað er skýringa á tilteknum atriðum í bréfi ráðuneytisins til formanns stjórnar Ríkisútvarpsins, dags. 21. desember 2015, sem sent var í kjölfar ábendingar sem borist hafði frá fjölmiðlanefnd um ætlað vanhæfi stjórnarmanns í félaginu.

Hlutverk ráðuneytisins í framangreindu máli var einungis að taka við ábendingu fjölmiðlanefndar og koma henni til afgreiðslu hjá þar til bærum aðila, stjórn Ríkisútvarpsins. Að öðru leyti tekur ráðuneytið ekki afstöðu til efnisatriða málsins.

Undir þetta rita einsog áður tveir starfsmenn „[f]yrir hönd ráðherra“ – þau Ásta Magnúsdóttir og Jón Vilberg Guðjónsson.

Nú er rétt að taka fram að síðan síðast hefur komið í ljós að umrædd „ábending“ kom ekki frá fjölmiðlanefnd heldur frá einstaklingnum Elfu Ýri Gylfadóttur, sem gegnir störfum framkvæmdastjóra nefndarinnar. Sú bending barst til „Illuga og Magnúsar“ – þ.e. útvarpsstjórans Magnúsar Geirs Þórðarsonar, framkvæmdastjóra sem starfar í umboði stjórnar Ríkisútvarpsins. Hafði erindi Elfu Ýrar því þegar borist Ríkisútvarpinu, óháð því hvort það svo er hinn „þar til bæri aðili“.

Þetta eru smáatriði. Aðalfréttin er sú að ráðherrann og ráðuneytið neita nú allri hlutdeild að málinu og hafa til þess enga afstöðu. Öðruvísi en fyrir jól. Batnandi mönnum et cetera.

Fréttaauki

Það er annars að frétta að yðar einlægur starfar í stjórninni sem aldrei fyrr og hyggst halda því áfram – meðan beðið er niðurstöðu alþingis, væntanlega forseta og forsætisnefndar. Af Ríkisútvarpinu sjálfu aðallega það að enn standa yfir viðræður við ráðherrann títtnefnda um nýjan þjónustusamning, og hafa dregist nokkuð á langinn miðað við vonir. Meðan samningaviðræðurnar standa yfir er niðurskurðarmálum frestað.

Maður mætir bara til vinnu einn dag í einu

sagði við mig reyndur Rúvari í gær.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 27.12.2015 - 16:17 - Rita ummæli

Elfa Ýr sjálf og ein

Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri sendi ein og sjálf athugasemdir í nafni fjölmiðlanefndar um vanhæfi Marðar Árnasonar í RÚV-stjórninni (21. des.) og studdist ekki við neinskonar ákvörðun nefndarinnar á fundi. Hvorki nefndin né framkvæmdastjórinn könnuðu hæfi annarra stjórnarmanna, enda er slík athugun ekki á verksviði nefndarinnar (né framkvæmdastjórans). – Þetta kemur fram í svörum Elfu Ýrar við spurningum mínum frá því á þriðjudaginn. Framkvæmdastjórinn svaraði strax þann dag, og ég þakka fyrir þann viðbragðsflýti. Spurningar og svör er að finna í upphafsblogginu en hér er svolítil hugleiðing í tilefni af þessu viðbragði Elfu Ýrar.

Í svari við fyrstu spurningu kemur í ljós að fjölmiðlanefnd hefur ekki tekið málið – vanhæfi stjórnarmanns í Ríkisútvarpinu – fyrir á fundi. Þetta er skýrt þannig að ekki sé um „meiriháttar efnislega ákvörðun að ræða“ og vísað í starfsreglur nefndarinnar. Þegar þær eru skoðaðar kemur í ljós að framkvæmdastjórinn á að „koma fram fyrir hönd“ nefndarinnar og „tekur þær ákvarðanir fyrir hönd hennar sem ekki heyra undir nefndina sjálfa“. Soldið skrýtið orðalag en varla hægt að lesa úr þessu annað en að framkvæmdastjórinn, Elfa Ýr Gylfadóttir, hafi ákveðið fyrir hönd nefndarinnar að „koma fram“ og taka fyrir nefndina þá ákvörðun að færa ráðherra og útvarpsstjóra (en af hverju honum og ekki alþingi?) ábendinguna góðu um vanhæfi stjórnarmannsins.

Ekki er ljóst hvort „fjölmiðlanefnd“ í eiginlegum skilningi – nefndarmennirnir Karl Axelsson, Hulda Árnadóttir, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson (eldri), Arna Schram og Salvör Nordal, eða viðkomandi varamenn, samankomnir á nefndarfundi – þekkti til málsins, og einnig óljóst hvort nefndarmennirnir þekktu það hver og einn. Ég hef þegar óskað þess við framkvæmdastjórann að fá afrit af öllum gögnum málsins – en þegar er ljóst að framkvæmdastjórinn notar orðið „fjölmiðlanefnd“ um sjálfa sig og ekki endilega nefndina (úr tölvuskeytinu 21.12.): „Fjölmiðlanefnd telur rétt að benda á …“ – „Fjölmiðlanefnd telur þessa skipun varla samræmast …“

Það er eitthvað skrýtið við svona vinnubrögð – sem leiða svo til frétta um að fjölmiðlanefnd hafi komist að tiltekinni niðurstöðu um hæfi þessa blessaða einstaklings.

Í svari við annarri spurningu kemur fram að hvorki fjölmiðlanefnd né framkvæmdastjóranum kemur málið formlega við. Þess vegna var í bréfinu góða bara minnst á einn af stjórnarmönnunum. Engin athugun fór fram um hæfi hinna stjórnarmannanna – svo sem Kristins Dags Gissurarsonar, Friðriks Rafnssonar eða Úlfhildar Rögnvaldsdóttur. Þetta hefur verið bara svona af því bara. Hvað finnst nú lögmönnunum Karli,  Huldu og Vilhjálmi um slíkan málatilbúnað? Örnu, fyrrverandi formanni Blaðamannafélags Íslands? Salvöru siðfræðingi?

Um önnur svör Elfu Ýrar verður ekki fjallað hér, enda byggjast þau að mestu á fyrstu tveimur svörunum. Skylt er þó að geta þess að Elfa Ýr segir að „hvorki framkvæmdastjórinn né nefndin sjálf“ (ath.: þarna er allt í einu greinarmunur, og mætti halda að „nefndin sjálf“ hafi vitað um þetta, þá utan fundar?) hafi rætt um málið við fjölmiðla áður en bréfið var sent. Fram hefur komið í fjölmiðlum að Elfa Ýr kom ábendingu sinni um meiningar fjölmiðlanefndar „óformlega“ á framfæri við forystumenn í Ríkisútvarpinu og í mennta- og menningarmálaráðuneytinu vikunni áður en bréfið var sent. Ég hef spurst fyrir í Ríkisútvarpinu – þar kannast tiltekinn starfsmaður við að hafa setið með Elfu Ýri á fundi þar sem sú síðarnefnda spurði hann afar óformlega um málið. Starfsmaðurinn ræddi það ekki frekar fyrr en bréfið barst, og alls ekki við fjölmiðla. Um ráðuneytið veit ég svo ekkert nema það fornkveðna, að milli Morgunblaðs, ráðuneyta og ráðherra liggur leyniþráður.

Mennta- og menningarmálaráðherra á nú eftir að svara spurningum mínum til hans frá 22. desember – þau svör verða líka birt í upphafsblogginu þegar þau berast. Á meðan bíðum við svo úrskurðar alþingis í þessu einkennilega máli.

———————

Viðauki, á þrettándanum: Mánudaginn 4. janúar svaraði Elfa Ýr óskum mínum um að fá afrit af öllum gögnum málsins hjá fjölmiðlanefnd eða framkvæmdastjóra hennar. Töluskeytið var svona: „Sæll vertu, / Ekki er um nein gögn að ræða þar sem aðeins var um ábendingu í tölvupósti að ræða. / Að öðru leyti er vísað til fyrri svara. / Kveðja, Elfa“.

Í svarbréfi við svarbréfinu þakkaði ég Elfu Ýri fyrir og bætti við: „Ég dreg þá ályktun að málið hafi aldrei verið rætt á
vettvangi nefndarinnar. Þér hafi hinsvegar dottið í hug þessi „ábending“ nú í desember og dreift henni, munnlega og í tölvupósti, í nafni nefndarinnar. Ég beini því til nefndarmanna að skoða hvort slík stjórnsýsla stenst almennar reglur en þakka þér fyrir greið svör. // Mörður Árnason“.

Þar með er að sinni lokið samskiptum mínum við framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar. Ekkert hefur á hinn bóginn heyrst frá menntamálaráðherra og starfsmönnum hans ennþá, enda í mörgu að snúast og ekki einusinni búin jólin.

 

 

Flokkar: Óflokkað · Íþróttir

Þriðjudagur 22.12.2015 - 12:05 - Rita ummæli

Fiskur undir steini?

Sérkennilegt að vera persónulega orðinn skotskífa í þeim átökum sem staðið hafa undanfarnar vikur – og reyndar miklu lengur – um fjárhags- og tilverugrundvöll Ríkisútvarpsins. Í gær var samt byrjað að efast um að ég ætti seturétt í RÚV-stjórninni af því ég væri „kjörinn fulltrúi“

Ég hef síðan vorið 2013 verið annar varamaður Samfylkingarinnar í Reykjavík suður, og komið tvisvar á þing sem slíkur. Svo varð ég stjórnarmaður í Ríkisútvarpinu í janúar (alþingi) og febrúar (aðalfundur RÚV með eina hluthafanum, menntamálaráðherra). Ég hef ekki litið á mig sem „kjörinn fulltrúa“ eftir kosningarnar 2103 – en varamaður sem tekur sæti aðalmanns er vissulega „kjörinn fulltrúi“. Það var ég vissulega í júní leið þá viku sem ég sat á þingi í forföllum Helga Hjörvars, og hefði þá líklega átt að senda Ríkisútvarpinu bréf um að varamaður minn tæki við störfum sem stjórnarmaður á meðan – en gerði ekki, sem eru mistök. Mea maxima culpa – þótt málið snúist ekki um þetta.

Góður farvegur

Það er hinsvegar góð afgreiðsla hjá stjórn Ríkisútvarpsins í gær að biðja alþingi að fjalla um þetta mál, og að auki svipuð mála annarra stjórnarmanna, svo sem Kristins Dags Gissurarsonar sem er varabæjarfulltrúi í Kópavogi og sat þar bæjarstjórnarfund  í október, Friðriks Rafnssonar sem var fjórði maður á öðrum Reykjavíkurlista Bjartrar framtíðar en ehfru ekki sest á þing – ennþá. Og því ekki líka mál Úlfhildar Rögnvaldsdóttur, sem var í 30. sæti á B-listanum á Akureyri við bæjarstjórnarkosningarnar 2014 að loknum fulltrúastörfum á fyrra kjörtímabili.

Hæfi annarra stjórnarmanna í þessari pólitískt skipuðu stjórn þarf varla að kanna í þessu tilliti, ekki fyrrverandi stjórnarformanns Orkuveitunnar á vegum Framsóknarflokksins,  ekki núverandi sveitarstjóra í Vesturbyggð sem var ekki á lista síðast en á sínum tíma sveitarstjórakandídat D-listans, ekki framkvæmdastjóra VG-flokkanna í Norðurlandaráði, ekki fyrrverandi oddvita Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði áður en hann fluttist í bæinn, hvað þá framkvæmdastjóra Landssambands Sjálfstæðiskvenna.

Endilega ekki þingmenn

Ég er hlynntur ákvæðinu um að kjörnir fulltrúar sitji ekki í stjórn RÚV. Það var sett inn þegar átti að draga úr flokkspólitískum áhrifum í stjórninni og hélst þegar Illugi breytti aftur í flokkspólitíska stjórn. En ég held með þessari grein, þarna eiga ekki vera þingmenn eða sveitarstjórnarmenn – og má auðvitað spyrja sig um annarskonar atvinnumenn í stjórnmálum.

Spurningin sem alþingi þarf nú að velta fyrir sér er áhugaverð: Hvenær er varamaður „kjörinn fulltrúi“? Eru allir á lista sem fékk mann kjörinn þá útilokaðir frá þessari stjórnarsetu? Eða bara þeir sem um hríð hafa verið kallaðir til starfa á þing eða sveitarstjórn? Skiptir máli að hafa fengið kjörbréf? Hvað þýðir kjörbréf varamanns? Á að túlka þetta ákvæði vítt, einsog manni sýnist um ákvæðið í lögum Katrínar Jak vor 2013, eða þröngt, einsog manni sýnist eðlilegt um póltísku stjórnina sem Illugi bjó til haust 2ö13?

Fiskur?

Ég er ekki maður samsæriskenninga. Skrýtið samt að málið skuli koma upp núna, í desember, og ekki í janúar-febrúar eða í júní – einmitt þegar yfir stendur þessi harða umræða um Ríkisútvarpið sem ég hef tekið talsverðan þátt í nauðugur viljugur.

Til að skýra málið ákvað ég að skrifa fjölmiðlanefnd og ráðherra fjölmiðlamála bréf sem er best að birtist hér opinberlega. Svo reynir yðar einlægur að brasa umræddum orðsendingum nefndarinnar og ráðuneytismannanna einhvernveginn hér inn líka.

Já – eitt gleymdist: Gleðileg jól!

 

Bréf til fjölmiðlanefndar:

Í framhaldi af tölvuskeyti sem stílað er á „Illuga og Magnús Geir“, þ.e. mennta- og menningarmálaráðherra og útvarpsstjóra, og sent þeim auk Ástu Magnúsdóttur, Jóns Vilbergs Guðnasonar, Þorgeirs Ólafssonar, Margrétar Magnúsdóttur, Sigríðar Hallgrímsdóttur, Heiðdísar Lilju Magnúsdóttur og Huldu Árnadóttur kl. 9.26 í gær með efnisheitinu „Athugasemd vegna skipan  [svo] stjórnar RÚV“, og ég fékk fréttir af í símtali sem hófst kl. 14.14. við Guðlaug Þ. Sverrisson starfandi formann stjórnar Ríkisútvarpsins ohf., leyfi ég mér að biðja um svör fjölmiðlanefndar eða framkvæmdastjóra hennar eftir atvikum við þessum spurningum:

1. Á hvaða fundi sínum ákvað fjölmiðlanefnd að fela framkvæmdastjóra að senda ofantöldum umrædda athugasemd, þar sem sérstaklega er vitnað til afstöðu nefndarinnar í málinu? Afrit af viðeigandi færslu úr fundargerð óskast.

2. Hefur fjölmiðlanefnd rannsakað hæfi annarra stjórnarmanna en mín í þessu sambandi, svo sem þeirra sem sátu á framboðslistum við síðustu alþingis- og sveitarstjórnarkosningar? Ef ekki – hvers vegna beindist athugun fjölmiðlanefndar einungis að Merði Árnasyni?

3. Undirritaður hefur verið varaþingmaður frá vori 2013. Hann var tilnefndur á alþingi og kjörinn á aðalfundi stjórnarmaður í Ríkisútvarpinu í janúar og febrúar á þessu ári, 2105, en kallaður á þing í júnímánuði. Hvenær frétti fjölmiðlanefnd að viðkomandi varaþingmaður hefði verið tilnefndur og kjörinn í stjórn Ríkisútvarpsins ohf.? Hvers vegna berast athugasemdir við „þessa skipan“ fyrst síðari hluta desembers, en ekki í janúar-febrúar eða í júní?

4. Hefur nefndin orðið ber að vanrækslu í störfum sínum með því að kanna ekki hæfi Marðar Árnasonar fyrr? Hafi nefndin ekki kannað hæfi annarra stjórnarmanna um leið og þetta mál kom upp – telur nefndin að hún hafi með því sýnt vanrækslu í störfum?

5. Komið hefur fram í fjölmiðlum að nefndin hafi „farið að skoða“ þetta mál „í síðustu viku“ en grípur ekki til aðgerða fyrr en á mánudagsmorgni, sama dag og haldinn er mikilvægur fundur í stjórn Ríkisútvarpsins. Tengist þessi tímasetning stjórnarfundinum?

6. Kom fjölmiðlanefnd eða framkvæmdastjóri hennar athugasemdum sínum á framfæri við fjölmiðla áður en tölvuskeytið var sent? – sbr. viðtal við Morgunblaðsins við undirritaðan síðdegis sunnudaginn 20. desember.

Svör óskast sem alla fyrst.

 

Svör frá framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri nefndarinnar, svaraði samdægurs, en jólahald tafði birtingu hér þar til nú, þriðja í jólum. Hugleiðingar um þessi svör má finna í nýjum bloggpistli.

  1. Í starfsreglum nefndarinnar er fjallað um meiri háttar efnislegar ákvarðanir sem bera skal undir fjölmiðlanefnd til samþykktar eða synjunar. Ábending til mennta- og menningarmálaráðuneytis um að taka til skoðunar hvort stjórnarmaður í Ríkisútvarpinu uppfylli almennar hæfisreglur skv. 5. mgr. 9 laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013 telst ekki til meiriháttar efnislegrar ákvörðunar. Málið var því ekki til umfjöllunar á fundi fjölmiðlanefndar.
  2. Fjölmiðlanefnd er ekki ætlað að hafa frumkvæðiseftirlit með því að þeir fulltrúar sem skipaðir eru í stjórn Ríkisútvarpsins og tilnefndir eru af Alþingi uppfylli almennt hæfi samkvæmt lögum. Fjölmiðlanefnd hefur því ekki skoðað hæfi allra stjórnarmanna í þessu sambandi, enda var aðeins um ábendingu að ræða sem send var í tölvupósti til ráðuneytisins. Þar var bent á að tilefni væri til þess að mennta- og menningarmálaráðuneytið tæki málið til skoðunar. Í 5. mgr. 9. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 segir að kjörnir fulltrúar til Alþingis og sveitarstjórna séu ekki kjörgengir í stjórn Ríkisútvarpsins. Á vef Alþingis kemur fram að aðalmaður í stjórn er jafnframt varaþingmaður Samfylkingarinnar og hafi hann setið á þingi í júní 2015.
  3. Vísað er til svars við 2. tl. Einnig er rétt að geta þess að hvorki var um tæmandi athugun að ræða að hálfu nefndarinnar né niðurstöðu fjölmiðlanefndar í málinu enda er það ekki hlutverk nefndarinnar að hafa eftirlit með skipun stjórnar Ríkisútvarpsins. Í tölvupóstinum var bent á almennar hæfisreglur laganna og að tilefni væri fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið til að skoða málið.
  4. Eins og áður segir sinnir fjölmiðlanefnd ekki frumkvæðiseftirliti með því að þeir fulltrúar sem skipaðir eru í stjórn Ríkisútvarpsins og tilnefndir eru af Alþingi uppfylli almennt hæfi samkvæmt lögum. Að öðru leyti er vísað til svars við 2. tl.
  5. Erindið tengist ekki á nokkurn hátt stjórnarfundi Ríkisútvarpsins. Þegar fjölmiðlanefnd spurðist fyrir um það hjá Ríkisútvarpinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu í síðustu viku hvort komið hefði til skoðunar hvort stjórnarmaðurinn uppfyllti almennar hæfisreglur í ljósi þess að hann er varaþingmaður kom í ljós að málið hafði farið fram hjá báðum aðilum. Í kjölfarið sendi fjölmiðlanefnd tölvupóst þar sem bent er á almennar hæfisreglur laga um Ríkisútvarpið og að í stjórn sitji varaþingmaður. Í tölvupóstinum kemur fram að fjölmiðlanefnd telur þessa skipun varla [leturbreyting] samræmast  5. mgr. 9. gr. laga um Ríkisútvarpið og bendir ráðuneytinu á að taka málið til skoðunar. Nefndin fullyrðir þannig ekkert um málið en bendir á að ástæða sé að skoða það. Bent skal á að í samþykktum Ríkisútvarpsins stendur að ný stjórn skuli skipuð á aðalfundi sem halda skuli fyrir lok janúar ár hvert. Fjölmiðlanefnd taldi rétt að benda ráðuneytinu á að skoða málið, sérstaklega í ljósi þess að stjórn skal skipuð samkvæmt tilnefningu frá Alþingi á aðalfundi sem haldinn skal í næsta mánuði.
  6. Hvorki nefndin sjálf né framkvæmdastjóri nefndarinnar ræddi um málið við fjölmiðla áður en tölvupósturinn var sendur.

 

 

Bréf til mennta- og menningarmálaráðherra:

Í tilefni af bréfi sem Ásta Magnúsdóttir og Jón Vilberg Guðjónsson rituðu í gær Guðlaugi Sverrissyni starfandi formanni stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. „fyrir hönd ráðherra“ (MMR 15120197/2.1) og sendu í tölvupósti kl. 14.08, en mér bárust fréttir af í símtali skömmu síðar, óska ég eftir svörum við þessum spurningum:

1. Í bréfinu segir að fjölmiðlanefnd fari með „eftirlit með starfsemi Ríkisútvarpsins“ skv. V. kafla útvarpslaga. Er það álit þitt að nefndinni sé þar með falið að kanna hæfi stjórnarmanna Ríkisútvarpsins ohf. þannig að aðrir aðilar séu undanþegnir slíkri könnun? Ef ekki – hvers vegna brást mennta- og menningarmálaráðuneytið ekki við þegar alþingi tilnefndi mig og m.a. Kristin Dag Gissurarson sem stjórnarmenn Ríkisútvarpsins í janúar sl.? Er eðlilegt að slíkt hæfismat skuli ekki hafa farið fram í ráðuneytinu undir þinni stjórn áður en handhafi hlutabréfsins, nefnilega mennta- og menningarmálaráðherra, kaus stjórnina á aðalfundi Ríkisútvarpsins 4. febrúar sl.?

2. Hvaðan kemur bréfriturum sú viska að stjórn Ríkisútvarpsins ohf. beri að taka afstöðu til þess hvort einstakir stjórnarmenn séu vanhæfir? Í þeim lagagreinum sem vísað er til í bréfinu finnast engin rök fyrir þessu. Þvert á móti er gert ráð fyrir því í öðrum lagaákvæðum, 64. grein hlutafélaga, að „[s]á sem kjörið hefur eða tilnefnt stjórnarmann [geti] vikið honum frá störfum“ – og þá ekki aðrir nema í sérstökum undantekningartilvikum. Samþykkt um vanhæfi í þingtilnefndri stjórn á borð við stjórn Ríkisútvarpsins mundi gera þeim sem um ræðir nánast ókleift að sinna stjórnarstörfum – ef hér væri um almenna reglu að ræða gæti meirihluti stjórnar í hlutafélögum, þar á meðal pólitískt skipaðra stjórna í opinberum hlutafélögum, því í reynd haft í hendi sér hverjir skipa minnihlutann.

Óskað er skýringa á síðari efnisgrein bréfsins, einkum síðari málsgrein hennar, hvað þetta snertir, og upplýsinga um lagagrundvöll staðhæfinga sem þar koma fram. Vakin skal athygli á því að stjórn Ríkisútvarpsins ohf. ákvað að fara ekki að þessum tilmælum í bréfi ráðuneytismanna f.h. ráðherra á fundi sínum í gær heldur vísaði málinu til umfjöllunar alþingis.

Þar sem það tók ráðherra og ráðuneytismenn aðeins dagpart (frá kl. 9.56 til kl. 14.08) að koma ábendingu framkvæmdastjóra Fjölmiðlanefndar á framfæri við stjórnarformann Ríkisútvarpsins – sem er lofsverður málshraði – hlýt ég að vænta svipaðra vinnubragða við afgreiðslu erindis míns í þessu bréfi.

 

Svör menntamálaráðherra

Ráðherrann svaraði svona (með aðstoð starfsmannanna Ástu Magnúsdóttir og Jóns Vilbergs Guðjónssonar í bréfi sem dagsett er 4. janúar en barst 15. janúar):

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur borist bréf yðar, dags. 22. desember 2015, þar sem óskað er skýringa á tilteknum atriðum í bréfi ráðuneytisins til formanns stjórnar Ríkisútvarpsins, dags. 21. desember 2015, sem sent var í kjölfar ábendingar sem borist hafði frá fjölmiðlanefnd um ætlað vanhæfi stjórnarmanns í félaginu.

Hlutverk ráðuneytisins í framangreindu máli var einungis að taka við ábendingu fjölmiðlanefndar og koma henni til afgreiðslu hjá þar til bærum aðila, stjórn Ríkisútvarpsins. Að öðru leyti tekur ráðuneytið ekki afstöðu til efnisatriða málsins.

Sjá um þetta blogg 16. janúar.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.12.2015 - 20:14 - 3 ummæli

Öll völd til Vigdísar

Í ágúst 2103 gerði fréttastofu Ríkisútvarpsins þau mistök að hafa eftir Vigdísi Hauksdóttur að IPA-styrkirnir frá Evrópusambandinu væru „illa fengið glópagull“. Eftir að þingmaðurinn hafði kvartað yfir þessu leiðrétti fréttastofan frétt sína og baðst afsökunar, Vigdís hefði aðeins sagt „glópagull“.

Samdægurs sagði Vigdís í viðtali að Ríkisútvarpið fengi alltof mikla peninga og fréttastofan væri bæði vinstrisinnuð og höll undir Evrópusambandið. En „ég er náttúrlega í hagræðingarnefndinni“. Sem ekki var hægt að skilja öðruvísi en sem hótun um niðurskurð fjár til RÚV.

Það var varla að menn tækju mark á þessu – hálfgerð skrípóútgáfa af þeirri hryllingsmynd að pólitíkusar skrúfuðu fyrir hina fjárhagslegu líflínu ef eitthvað kæmi þeim illa í fréttum eða dagskrá almannafjölmiðilsins. Þetta væri bara venjulegur kjaftagangur og rugl í þingmanninum.

En nú hefur Vigdís náð fram hefndum – og lagt í leiðinni hinn svokallaða mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarsson, þannig að enginn getur lengur tekið mark á því sem hann segir. Ekki síður er mikils um vert að Vigdís og félagar sneru niður bæði forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann, sem létu þau boð berast fyrir átta mánuðum – í apríl – að Illugi nyti stuðnings þeirra í málinu.

Vigdís Hauksdóttir er orðin valdamesti þingmaðurinn á Alþingi.

Til hamingju, Ísland.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.10.2015 - 14:14 - 1 ummæli

Engar nefndir, bara efndir

 

Það sem þarf að gerast til að Ríkisútvarpið haldi áfram að vera til næstu árin er fyrst og fremst þrennt:

1)   Alþingi gefi Ríkisútvarpinu ótvíræða heimild til að selja umdeildan part af Efstaleitislóðinni. Um þetta er fyrirvari í sölusamningnum sem RÚV landaði um daginn. Heimildin þarf að koma í fjáraukalögum fyrir áramót.

2)   Ríkisútvarpið fái allt útvarpsgjaldið – nefskattinn – sem ekki hefur verið frá því eftir hrun. Þetta gjald þarf auðvitað að vera í samræmi við verðlag á hverju ári – og nú þarf þingið að breyta lögum til að það lækki ekki um áramótin næstu og þarnæstu, einsog stjórnarmeirihlutinn var búinn að ákveða.

3)   Ríkið þarf að létta af Ríkisútvarpinu drápsklyfjum af gömlum lífeyrissjóðsskuldbindingum, sem hefur fyrir löngu verið létt af öllum öðrum ríkisstofnunum (nema ÁTVR?) og meira að segja nýverið af heilbrigðisstofnunum sem ríkið á ekkert í (Hrafnistu o.s.frv.). Allir menntamálaráðherrar – a.m.k. frá 2003 þegar ég byrjaði að spyrja um lífeyrisskuldina á þinginu – hafa viðurkennt að fyrr eða síðar verði að bæta hér úr.

Í nýju Eyþórsskýrslunni kemur þetta þrennt enn einusinni fram – þótt áherslur skýrsluhöfundanna og fyrirsagnir fjölmiðla séu settar á Vódafónsamning og hæpinn og villandi samanburð við almannaútvörp í miklu stærri löndum.

Hver eru viðbrögð Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra í þessari stöðu? Jú: Skipa enn einn starfshópinn. Þann þriðja á kjörtímabilinu hingað til. Hann á að skila af sér í vor, sem verður í sumar eða haust eða um áramót þarnæstu miðað við reynsluna af nefndum og starfshópum ráðherrans. Og eftir þann starfshóp er alltaf hægt að sjá til með nýjan starfshóp.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fékk ráðherrann á sig ályktun um „að selja RÚV“ – þvert á sjónarmið sem Illugi lýsti í nýlegum ræðum um Ríkisútvarpið (útvarpsþingi í september, aðalfundi Ríkisútvarpsins í janúar).

Ráðherrann virðist vera á stöðugum flótta undan erfiðum verkefnum. Hann telur sig líklega ekki hafa pólitískan styrk til að taka ákvörðun á eða af í málefnum RÚV.

Og þá skipar menntamálaráðherrann nýja nefnd.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.5.2015 - 22:14 - 3 ummæli

Mikilvægur sigur

Nei, ég er ekki að tala um KR-leikinn á mánudaginn þótt sá sigur hafi verið bæði nauðsynlegur og mikilvægur — 😉 — heldur sigur sameinaðrar stjórnandstöðu á öfgaliði stjórnarflokkanna í rammaslagnum núna í kvöld.

Merkilegt. Einar K. Guðfinnsson virðist hafa tekið forystuna einmitt þegar allir voru hættir að hafa nokkra trú á atgervi hans sem þingforseta – og gerði það eina rétta í stöðunni: Henti tillögu Jóns Gunnarssonar og félaga í ruslatunnuna gegn því að fá hjálp stjórnarandstöðunnar við að ljúka þinginu.

Þetta á sér auðvitað forsögu í fundi atvinnuveganefndar þingsins í morgun – að frumkvæði Kristjáns Möllers – þar sem í ljós kom að verkefnisstjórnin hafnaði þrýstingi um óðagotsmeðferð Þjórsárvirkjana og Skrokköldu. Þar með var sá séns út úr kortinu – en áður höfðu lögfræðingar slegið niður aðrar undankomuleiðir stjórnarmeirihlutans sem lagalega ótækar. Eftir þetta var ekkert í spilunum fyrir B og D nema framhaldandi störukeppni – þar sem engin uppgjafarmerki sáust á stjórnarandstöðunni.

Og þar liggur sigurinn. Sameinaður frontur þar sem flokksmerkin skiptu ekki máli og persónumetnaður var settur til hliðar — í efnislegu andófi auðvitað gegn virkjanaþráhyggju Fram og Sjall, en umfram allt í baráttu fyrir því að lög skyldu halda og orð skyldu standa, að rammahugmyndin sjálf um skynsamlegar leikreglur yrði ekki eyðilögð með gamalkunnum yfirgangi freku kallanna sem öllu þykjast ráða.

Takk, góðu og duglegu 25 þingmenn frá Pírötum og Bjartri framtíð og Vinstrigrænum og Samfylkingunni. Vel að verki staðið.

Takk líka mótmælendur og almenningsálit — svona sigrar vinnast ekki nema þingmennirnir finni vindinn í bakið.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.5.2015 - 09:37 - 5 ummæli

Fagmenn þegar þeir eru sammála okkur

Haustið 2012 héldu frekikallarnir því fram að rammatillaga Svandísar umhverfisráðherra og Oddnýjar iðnaðarráðherra fyrir þingið hefði verið búin til með baktjaldamakki og að á henni væru skítug pólitísk fingraför. Það ætti að láta fagmennina ráða.

Ferillinn þá var þannig (hófst áður en rammalögin sjálf voru sett) að hópur sem í voru formenn faghópa og formaður verkefnisstjórnar gekk frá tillögudrögum til ráðherra. Þau drög fóru svo í almennt umsagnarferli, og að því loknu gekk umhverfisráðherra (Svandís) frá rammatillögunni til þingsins í samráði við iðnaðarráðherrann (Katrínu Júl., seinna Oddnýju). Breytingarnar frá tillögu formannahópsins voru þær – sem frægt er orðið – að sex (eða fimm) kostir/svæði í tveimur landshlutum voru nú í biðflokki en áður í orkunýtingarflokki. Forsendurnar voru upplýsingarskortur, annarsvegar um laxagengd, hinsvegar um þjóðgarðsmörk.

Þetta var í samræmi við lögin sem mæla fyrir um að ráðherrar taki mark á umsagnarferlinu við mótun lokatillögunnar. Að öllu öðru leyti fylgdu ráðherrarnir niðurstöðum formannahópsins. En gleymum því snöggvast – Svandís og Oddný voru jú ráðherrarnir sem sjá um pólitíkina. Formenn faghópa og verkefnisstjórnar — þeir eru þá væntanlega fagmennirnir sem á að taka mark á.

Norðlingaalda hvað sem það kostar 

Ein tillaga formannahópsins um svæði/kost í verndarflokk – ekki í bið heldur í vernd – vakti sérstaka athygli: Norðlingaölduveita. Vegna þess að þarmeð héldu menn að væri búið í eitt skipti fyrir öll að bjarga Þjórsárverum. Og þessi tillaga var ein af þeim rúmlega sextíu sem fór óbreytt í þingmálið.

Hljóta þá ekki stuðningsmenn hinna faglegu vinnubragða að hafa sætt sig við þetta?

Bjarni Benediktsson á flokksráðsfundi í Valhöll 17. mars 2012, eftir tillögudrög formannahópsins, löngu fyrir tillögu ráðherra, og vísaði sérstaklega til Þjórsárvera (nánar hér):

… öfgamenn í umhverfismálum eru hreinlega að taka orkumál á Íslandi – og þar með verðmætasköpun til langrar framtíðar – í gíslingu. Um það getur aldrei tekist nein sátt!

Og Jón Gunnarsson sá sérstaka ástæðu til að mótmæla tillögunni um Norðlingaölduveitu í verndarflokk þótt hún væri komin frá fagmönnunum. Hann vissi betur en þeir að þessi framkvæmd skemmir alls ekki Þjórsárver og svo sé búið „að finna lausn á því að halda vatnsmagni á fossakerfi svæðisins frá vori fram á haust, eða þegar fólk getur verið þar á ferð til að njóta náttúrunnar“ (viðtal í Mogga, hér). Þessir formenn í faghópunum voru víst bara að rugla því það var löngu búið að

… mæta öllum helstu viðmiðunum sem voru um Norðlingaölduveitu með góðum árangri og friða Þjórsá gagnvart þessum framkvæmdum.

Ergó: Bjarni og Jón telja fagmennina fína þegar niðurstaða fagmannanna er í flútti við skoðanir  Jóns og Bjarna. Fagmenn sem halda einhverju því fram sem ekki er í samræmi við fyrirætlanir Bjarna og Jóns, þeir fagmenn eru hinsvegar barasta:

öfgamenn í umhverfismálum

Það kemur þessvegna ekki á óvart að nú eigi að láta þingið afgreiða virkjanatillögu þvert á alla fagmennsku í verkefnisstjórninni og í lögum nr. 48/21011.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.5.2015 - 09:31 - 1 ummæli

Takk, Sigmundur Davíð

Fyrir utan hæpna notkun agnarsagnarinnar benda á er það alveg rétt hjá Hallgrími Indriðasyni í inngangi ágætrar fréttaskýringar um rammadeiluna, Þjórsá og Skrokköldu (á sunnudaginn, hér) að af hálfu virkjunarsinna hafi

verið bent á að það að setja virkjunarkost í nýtingarflokk þýðir alls ekki að það verði virkjað

Margir af frekiköllunum hafa hent á lofti einmitt þessa röksemd – allra fremstur sjálfur Jón Gunnarsson í þingræðum og fréttaviðtölum. Þetta sé í raun og veru ekkert merkilegt, mikil vinna og margar ákvarðanir eftir, menn geti andað alveg rólega.

 

Já, soldið, en aðallega nei

Þótt alþingi hafi – að tillögu verkefnisstjórnar samkvæmt rammalögunum – sett tiltekið náttúrusvæði/virkjunarkost í orkunýtingarflokk  er auðvitað ljóst að áður en framkvæmdir geta hafist þarf meðal annars umhverfismat og starfsleyfi frá sveitarfélagi, stundum verður ekki framkvæmt án eignarnáms sem ráðherra þarf að heimila vegna brýnnar nauðsynjar, og svo þarf auðvitað að selja hina væntanlegu orku með margskonar samningum við kaupandann.

Fyrir orkufyrirtækið sem ætlar að virkja og stóriðjufyrirtækið sem hyggst kaupa orkuna er málið rétt að byrja þegar ákvörðun er tekin um orkunýtingarflokkinn. Fyrir andstæðinga virkjunar á náttúrusvæðinu er slagurinn heldur ekki tapaður.

Eftir stendur að þegar búið er að flokka kosti/svæði í rammaferlinu er búið að taka sjálfa ákvörðunina. Upp úr því eru raunveruleg átakaefni fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Menn takast á um niðurstöður umhverfismatsins (þar sem sveitarstjórnin ræður að lokum, a.m.k. að nafninu til), um nauðsynleg skilyrði eignarnáms, um einstaka þætti framkvæmdanna, um orkuverð miðað við efnislegan og félagslegan kostnað við virkjunina o.s.frv. o.s.frv. Og svo getur staðan breyst í einstökum málum, þetta tekur alltsaman mikinn tíma. Tíminn vinnur með náttúruverndarsjónarmiðum og gegn stóriðjustefnunni – og stóriðju/orkufyrirtækin verða alltaf viðkvæmari og viðkvæmari fyrir að blandast í deilur um umhverfismál.

Árni Páll Árnason benti til dæmis á það í vikunni niðrá þingi (í samræðu við Guðmund Steingrímsson, hér) að rammaslagurinn núna og náttúruspjöll í framhaldi af honum væru kannski ekki sérlega heppilegt PR við hugsanlega rafmagnssölu gegnum sæstreng á almennan markað í norðurevrópskum ríkjum þar sem umhverfisvitund er öflug.

 

Að benda á

Agnarsögnin að benda á merkir að rifja upp staðreynd, vekja athygli á einhverju sem er fyrir hendi, nákvæmlega að vísa með fingrinum til einhvers þess sem við blasir. Og það sem blasir við er þetta:

Þótt jarðýtur, skurðgröfur og hvellhettur fari ekki í gang daginn eftir ákvörðun um orkunýtingarflokk er með henni búið að gefa út einskonar skotleyfi á náttúrusvæðið til orkunýtingar. Þrátt fyrir talið um hvað flokkunin í orkunýtingu sé ómerkileg líta orkufyrirtæki og peningamenn svo á að kostur/svæði í orkunýtingarflokki sé til ráðstöfunar. Og það álit er algerlega rökrétt miðað við sjálfa hugmyndina um rammaáætlun – á sama hátt og að orkufyrirtæki og viðkomandi peningamenn eiga að gleyma kostum/svæðum sem hafa verið sett í verndarnýtingarflokk, sem á að nota öðruvísi en til orkuöflunar.

 

QED

Það tal Jóns Gunnarssonar og félaga að ákvörðunin um að setja Þjórsá, Skrokköldu, Hagavatn og svo framvegis í orkunýtingarflokk sé nánast ekkert að marka – er auðvitað bara blekking, hvort sem Jón Gunnarsson trúir þessu sjálfur eða ekki.

Og með síðustu yfirlýsingum sínum um tilgang rammatillögunnar frægu hefur forsætisráðherrann gert þjóð sinni þann greiða að kippa fótunum undan þessum málflutningi. Tillögurnar um fimm – átta – fjóra kosti í orkunýtingarflokk umfram þennan eina kost frá verkefnisstjórninni – segir forsætisráðherra vera til þess að „auka verðmætasköpun“ sem aftur „tengist stöðunni á vinnumarkaði“ (hér og r). Það kann að vera eftir eitthvert tæknigauf og orkusamningastreð, en í huganum er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þegar búinn að virkja á þeim náttúrusvæðum sem Jón Gunnarsson ætlar að setja í nýtingarflokkinn.

Takk, Sigmundur Davíð, fyrir að afhjúpa þessa gerviröksemd. Quod erat demonstrandum, einsog þeir segja í stærðfræðinni: Einsog sanna átti. Ákvörðun um að setja Þjórsá neðri, Skrokköldu og Hagavatn í orkunýtingarflokk er ákvörðun um að þessi náttúrusvæði verði nýtt með því að reisa á þeim virkjanir.

Hvað sem verkefnisstjórn rammaáætlunar og almenningur í landinu kunna að hafa sagt eða mundu hafa sagt eða telja sig eiga eftir að segja.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.5.2015 - 09:23 - 1 ummæli

Forgangur amma þín hvað?

Rammaáætlunin „er auðvitað eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar“ sagði forseti alþingis í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær. Það er einmitt sami Einar K. Guðfinnsson sem ræður því að ramminn er svo sannarlega í forgangi í þingstörfunum og hefur nú verið í linnulausri umræðu heila viku.

Ramminn forgangsmál? Já, en hvaða rammi? Upphaflega var það Sigurður Ingi Jóhannsson þáverandi umhverfisráðherra sem lagði fram tillögu um einn virkjunarkost, Hvammsvirkjun, að tillögu verkefnisstjórnarinnar. Er það sú tillaga, svokölluð stjórnartillaga, frá í haust, sem er forgangsmál ríkisstjórnarinnar?

Eða er það breytingartillaga Jóns Gunnarssonar um skotleyfi á fimm virkjunarkosti, sem fjórir þeirra eru enn óafgreiddir í verkefnisstjórninni? Er tillagan um Þjórsá sinnum þrír, Skrokköldu og Hagavatn þetta forgangsmál ríkisstjórnarinnar sem forseti alþingis er að þjónusta?

Í síðustu viku gerðist það svo að umhverfisráðherrann „komst að samkomulagi“ við Jón og félaga um að sleppa Hagavatni – og þá eru eftir Þjórsárkostirnir þrír og Skrokkalda – er það huganlega þetta sem núna er forgangsmál ríkisstjórnarinnar?

Í gær var rifjað upp hér í bloggi að haustið 2012 lýstu sjö þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks því yfir að Urriðafoss mætti/yrði/ætti/þyrfti að skoða betur (sjá samklipp Láru Hönnu), þar af tveir sem nú eru ráðherrar plús einn þingflokksformaður og auðvitað hinn röggsami formaður fjárlaganefndar. Er forgangsmálið þá tvær virkjanir í Þjórsá og Skrokkalda?

Í Fréttablaðinu í dag segir svo Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra að hún geti ómögulega gefið upp hvað hún styðji af öllum þessum tillögum:

Við bara sjáum hvernig atkvæðagreiðslan fer.

Er téð Sigrún þá kannski alls ekki hluti þeirrar ríkisstjórnar sem hefur rammatillöguna að forgangsmáli? Eða er það hernaðarleyndarmál hvaða forgangsrammatillögu ríkisstjórnin styður?

Skýringar óskast – og nú er langeðlilegast að svari hæstvirtur forseti alþingis, Einar K. Guðfinnsson, hinn sjálfskipaði upplýsingafulltrúi um forgangsmál ríkisstjórnarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.5.2015 - 09:59 - 2 ummæli

Urriðafoss – af hverju þegja þau núna?

Þegar rætt var um rammann haustið 2012 var ljóst að laxarök Orra Vigfússonar og félaga gegn virkjunum í Þjórsá neðanverðri höfðu veruleg áhrif. Það voru þau sem gerðu útslagið um að kostirnir þrír voru settir í biðflokk í tillögum ráðherranna eftir umsagnarferlið – og þessi rök virkuðu líka á suma þingmenn í Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki sem þá lá í endalausu málþófi gegn rammatillögunni. Í umræðunni á þinginu var eiginlega komin samstaða um að halda Urriðafossi í bið – og setja hann jafnvel í verndarflokk.

Af hverju heyrist ekkert núna um þetta frá þeim þingmönnum Fram&Sjálf sem töluðu og töluðu haustið 2012?

Í þeim hópi var hvað fremstur Sigurður Ingi Jóhannsson, nú ráðherra. Hann hamaðist gegn verndarflokkstillögunum en gerði undantekningu um Urriðafoss:

Ég hef hins vegar verið á þeirri skoðun eftir að rök komu fram meðal annars um áhrif á laxastofna og reyndar fleira að skynsamlegt sé að láta duga að setja í nýtingarflokk efri tvær virkjanirnar, þ.e. Hvamms- og Holtavirkjun, og láta Urriðafoss vera í bið einmitt til þess að rannsaka betur og kanna áhrifin. (11. des., nánar hér.)

Og aftur sama dag (nánar hér):

Ég hef lagt til að Urriðafoss verði settur í biðflokk.

Í hópi þeirra sem vildu skoða Urriðafoss betur var líka sjálfur formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, nú ráðherra:

Ég ætla hins vegar að taka fram, af því við vitum að neðri hluti Þjórsár er eitt af stóru deilumálunum hér og hann er allur tekinn úr nýtingarflokki í þingskjali ráðherrans, að ég tel að það kunni að hafa komið fram einhver sjónarmið þar, kannski sérstaklega varðandi Urriðafoss, sem hafi verið ástæða til að taka til frekari skoðunar. (27.9., nánar hér.)

Einar K. Guðfinnsson, gallharður virkjanasinni, nú forseti alþingis, var heldur ekki viss í desember 2012:

Látum Urriðafossinn liggja á milli hluta að sinni vegna þess að hann er sannarlega umdeildari kostur. (17.12., nánar hér.)

Fleiri hikuðu úr virkjanaliðinu, svo sem Ragnheiður Ríkarðsdóttir, nú formaður þingflokks hjá Sjöllunum:

… ég virði að skoða frekar Urriðafossvirkjun. (17.12., nánar hér.)

Jafnvel hinn málglaði orkubolti Vigdís Hauksdóttir, nú formaður fjárlaganefndar fyrir hönd Framsóknarflokksins, var hugsi yfir Urriðafossi í samræðum við fyrrnefnda Ragnheiði:

Ég þakka þetta andsvar og get tekið undir sjónarmiðin sem komu bæði fram í ræðunni og þessu andsvari varðandi Urriðafossvirkjun, að sjálfsagt mál sé að hlífa henni að sinni á meðan frekari rannsóknir fara fram. (17.12, nánar hér.)

Svipuð viðhorf komu fram hjá stjórnarandstöðuþingmönnum sem nú eru horfnir til annarra starfa, allavega þeim Ásbirni Óttarssyni (t.d. hér) og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni flokksins og fyrrverandi ráðherra (hér og hér).

 

Hvar eru þau nú?

Mér sýnist að enginn þessara þingmanna hafi tekið þátt í umræðunni sem nú stendur á alþingi um tillöguna frá fulltrúum frekikallanna í meirihluta atvinnuveganefndar – þar sem á að setja Urriðafoss í orkunýtingu þvert gegn ráðum núverandi verkefnisstjórnar. En sú faglega verkefnisstjórn vill fá að rannsaka rök Orra miklu betur í staðinn fyrir að höggva – bara svona óvart – einn af stærstu laxastofnum Evrópu og í leiðinni kraftmesta foss á Íslandi.

Af hverju þegja þau nú um Urriðafoss, Bjarni Benediktsson og Einar K. Guðfinnsson og Ragnheiður Ríkarðsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson og Vigdís Hauksdóttir?

— — —

PS daginn eftir: Lára Hanna er auðvitað búin að líma þetta saman, sjá hér Urriðafossyfirlýsingarnar 2012 í hreyfimyndum.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur