Þriðjudagur 16.05.2017 - 21:04 - Rita ummæli

Yfirtaka á Fjölbrautaskólanum við Ármúla

Hugmyndir menntamálaráðherra um breytingar á rekstri Fjölbrautaskólans við Ármúla finnast mér fráleitar hvort sem litið er út frá faglegum sjónarmiðum eða rekstrarlegum.

Menntamálaráðherra Kristján Þór Júlíusson sagði í þættinum Víglínunni á Stöð2 laugardaginn 13. maí að þeir sem gagnrýna þá fyrirætlan hans að láta hagsmunaaðila í atvinnulífinu yfirtaka rekstur Fjölbrautaskólans við Ármúla þurfi að svara því hvernig mæta eigi þeim áskorunum sem framhaldsskólakerfið stendur frammi fyrir. Ráðherrann gerir þessar kröfur til okkar sem gagnrýnum fyrirhugaðar aðgerðir en gerir ekki þá sömu kröfur til sín þegar að kallað er eftir því að hann rökstyðji breytingarnar sem hann leggur til á rekstri skólans.

Hvaða áskorunum standa framhaldsskólarnir í landinu frammi fyrir nú um stundir?

Þeir standa frammi fyrir því að:

  • Tryggja eins gott aðgengi að námi og mögulegt er enda eru framhaldsskólar hornsteinar byggða um allt land.
  • Bregðast við styttingu námstíma til stúdentsprófs vegna þess að nemendum fækkar við það í bóknámi og veldur mestum breytingum í hreinum bóknámsskólum.
  • Takast á við tímabundna náttúrulega fækkun nýnema.
  • Fámennari skólar þurfa að vinna meira saman til að tryggja fjölbreytt námsframboð ýmist með staðbundnu námi eða fjarnámi.
  • Vinna gegn brottfalli nemenda.
  • Efla starfsmenntun.

Hvernig skyldi menntamálaráðherra vilja leggja framhaldsskólunum lið við að takast á við þessar áskoranir? Hann segist helst vera að huga að því að sameina tvo stóra skóla í Reykjavík. Hann vill láta Tækniskólann sem er stærsti skóli landsins og býður nemendum upp á fjölbreytt ná í tæknigreinum taka yfir góðan rekstur á 900 nemenda skóla sem sérhæfir sig í námsframboði á heilbrigðissviði og þjónar auk þess þrettánhundruð nemendum með fjarnámi.

Er nema von að menn spyrji hvað ráðherranum gangi til og velti fyrir sér samhenginu?

Ef breytingin tekur gildi á næsta skólaári hafa hvorki nemendur né kennarar möguleika á að bregðast við með því að velja sér annan skóla til náms eða starfa og réttindi starfsfólksins ótryggð.

Ef ráðherrann lætur til skara skríða er það skemmdaverk fremur en stuðningur við þær áskoranir sem framhaldsskólarnir standa frammi fyrir og skipta svo miklu máli fyrir einstaklinga og menntunarstig í landinu.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur