Laugardagur 5.8.2017 - 16:32 - Lokað fyrir ummæli

Eru allir sáttir við þetta?

 

Góður vinur minn, Björn Logi Þórarinsson, Sérfræðingur í taugalækningum á Landspítalanum hefur að undanförnu bent á þá staðreynd að mjög árangusrík meðferð við blóðtappa í heila er ekki í boði hérlendis vega fjárskorts.

Meðferðin snýst um að blóðtappinn er fjarlægður með æðaþræðingu en ekki leystur upp með lyfjum.

Þessi meðferð er nú í boði í öllum Evrópulöndum nema Svartfjallalandi, Georgíu og Íslandi.

Að þeim 300 einstaklingum sem eru svo óheppnir að fá heilablóðfall þá getur þessi meðferð gagnast um 60 þeirra. Samkvæmt reynslu og rannsóknum nágrannaþjóða okkar þá myndu um 10 af þessum 60 ná fullum bata en margir hinna fengju bata að hluta.

Það sem virðist stoppa innleiðingu þessarar meðferðar virðist vera fjárskortur á spítalanum, skortur á þjálfuðum hjúkrunarfræðingum og geislafræðingum.

Kostnaðurinn við þessa meðferð er áætlaður um 50 milljónir á ári. Sú upphæð er þó ekki nema brot af þeim kostnaði sem fellur til við að sinnar lömuðum sjúklingum sem fá ekki þessa meðferð.

Getur verið að svona sé komið fyrir heilbrigðiskerfinu okkar?

Posted by Björn Logi Þórarinsson on 17. júlí 2017

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.9.2016 - 14:19 - Lokað fyrir ummæli

Hrægamma­bónusar

FÉLAGAR Í INDEFENCE HÓPPNUM SKRIFA.

Það er búið að vera skrýtið að fylgjast með umræðunni um ofurbónusana sem starfsmenn slitabúanna eru að fá þessa dagana.

Margir eru reiðir yfir þessum bónusum, en færri virðast átta sig á því að þeir eru greiddir út á kostnað almennings.
Þiggjendur bónusgreiðslnanna eru íslenskir erindrekar vogunarsjóðanna. Sjóða sem keyptu nánast heila landsframleiðslu á slikk í kreppunni – til að græða á efnahagsþrengingum Íslendinga.

Þetta eru mennirnir sem tókst að slá ryki í augu stjórnmálamanna, embættismanna og almennings. Þeim tókst að telja öllum trú um það að best væri að gefa vogunarsjóðunum sem mest eftir. Þeir myndu mæta 39% stöðugleikaskatti með lögsóknum. Niðurstaðan var að kröfuhafarnir greiddu miklu lægri stöðugleikaframlög og fengu þar með að losna undan fjármagnshöftum með stórfé.

Þannig færðu bónusþegar umbjóðendum sínum hundruð milljarða af fé sem réttilega hefði runnið í ríkissjóð. Nú eru þeir að fá „silfurpeninga“ sína, sem eru aðeins brotabrot af þeim upphæðum sem kröfuhafarnir höfðu úr þrotabúum gömlu föllnu bankanna.

Allt er þetta beinlínis á kostnað okkar hinna, sem enn sitjum föst í fjármagnshöftum. Það er síðan grátlegt að fylgjast með ráðherrum klóra sér í hausnum og hneykslast yfir bónusgreiðslum, sem þeir sköpuðu svigrúm fyrir með slökum nauðasamningum við kröfuhafana um þessi aumu stöðugleikaframlög.

 

Ólafur Elíasson, MBA
Agnar Helgason, mannfræðingur
Ragnar Ólafsson, félagssálfræðingur
Davíð Blöndal, eðlis- og tölvunarfræðingur
Torfi Ólafsson, verkfræðingur
Sveinn Valfells, eðlis- og hagfræðingur

Höfundar eru meðlimir í InDefence hópnum. Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.1.2016 - 00:43 - Lokað fyrir ummæli

Sýndu manndóm Steingrímur

Hún er leiðinleg þessi tilhneiging manna að geta ekki viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér.

Í kjölfar bankahrunsins hafa margir tengdir bönkunum verið dæmdir í refsivist, en þeir eiga það allir sameiginlegt að enginn þeirra finnur hjá sér sök. Að eigin mati eru þeir allir fórnarlömb illsku almennings og refsiglaðra dómstóla sem stýrast af hefnigirni. Ég held að flestir séu þeirrar skoðunar að betra væri fyrir þá sem hafa hlotið refsingu að viðurkenna brot sín og biðjast afsökunar á þeim. Ég held að það sé almenn stemming í þjóðfélaginu fyrir því að fyrirgefa mistök, játi menn þau á annað borð.

Því miður er þessi tilhneiging til að viðurkenna ekki mistök sín alveg jafn áberandi í stjórnmálunum á Íslandi.

Nýlegt dæmi um þetta eru greinarskrif Steingríms J. Sigfússonar í Kjarnanum um Icesave málið. Þar gerir hann lítið úr ávinningnum af því að Icesave málið hafnaði  fyrir dómstólum og fullnaðarsigur vannst í því fyrir Íslendinga.

Að margra mati er Steingrímur einn af merkustu stjórnmálamönnum síðari tíma. Hann var við stjórnvölinn á tímum sem voru fordæmalausir og allir vita að hann stóð frammi fyrir mörgum erfiðum ákvörðunum og leysti ágætlega úr mörgum málum, sem hefðu getað farið verr. Hann hafði fá fordæmi til að miða ákvarðanir sínar við og þurfti að spila af fingrum fram. Ef einhver íslenskur stjórnmálamaður hefur efni á því að viðurkenna mistök sín þá er það hann.

En þar sem Steingrímur virðist alls ekki ætla að viðurkenna mistökin í Icesave málinu, þá er rétt að rifja upp nokkur lykilatriði:

  1. Hefðu Íslendingar samþykkt fyrstu Icesave samningana þá stæði skuld Íslands við Breta og Hollendinga  nú í 230 milljörðum í erlendri mynt og ættu fyrstu greiðslur að hefjast á þessu ári.

Þessi upphæð hefði lagst ofan á þær greiðslur sem Bretar og Hollendingar hafa nú fengið úr þrotabúi Landsbankans. Um er að ræða umsaminn vaxtakostnað (5,6% af u.þ.b.700 milljörðum) sem hefði safnast upp á þeim tíma sem tók að koma eigum bankans í verð. Með því að fella fyrstu Icesave samningana, sluppu Íslendingar við að greiða þessa óréttmætu kröfu Breta og Hollendinga.

2. Þvert á venjur og reglur sem gilda um fall einkabanka, gerðu Icesave samningarnir ráð fyrir að íslenska þjóðarbúið tæki á sig ábyrgð á að borga kröfu Breta og Hollendinga í þrotabú Landsbankans, óháð því hvað fengist úr þrotabúinu.

Þótt komið hafi í ljós að þrotabúið hafi náð að selja eigur upp í alla upphæðina, þá var gríðarleg áhætta sem fylgdi samningunum. Ef sala eigna bankans hefði ekki dugað þá hefði mismunurinn, auk 230 milljarðanna, verið greiddur af Íslendingum.

3. Það er nú almenn grundvallarregla sem er búið að leiða í lög, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, að almenningur eigi ekki að bera kostnað af falli fjármálafyrirtækja. Vandséð er af hverju annað ætti að gilda hérlendis. http://ec.europa.eu/finance/bank/crisis_management/

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.10.2015 - 15:37 - Lokað fyrir ummæli

Seðlabankinn lúffar fyrir kröfuhöfum

Í sumar voru lög samþykkt á Alþingi um að leggja 850 milljarða skatt á þrotabú föllnu bankanna. Þessum skatti var ætlað að tryggja að greiðslujöfnuði þjóðarbúsins verði ekki ógnað þegar þrotabúin verða gerð upp og fjármagnshöft losuð.

Ógnin sem um ræðir er að kröfuhafar fari út úr landi með verulegar upphæðir í formi gjaldeyris. Fái þeir að gera það án mótvægisaðgerða, mun gengi krónunnar lækka og þar með myndast verðbólguþrýstingur innanlands. Við slíkar aðstæður munu verðlag og verðtryggðar skuldir almennings hækka og þar með yrði veruleg skerðing á lífskjörum almmenings.

Í sömu lögum var samþykkt að gefa kröfuhöfum kost á því að leggja fram tillögur um framlag af þeirra hálfu í stað skattsins. Umræddar tillögur áttu að verja sömu þjóðarhagsmuni og skatturinn. Seðlabanka Íslands var falið að gera stöðuleikamat og bera tillögur kröfuhafa saman við það og samþykkja síðan tilboð þeirra aðeins að því gefnu að stöðugleika væri ekki ógnað á Íslandi.

Nú liggja þessi tilboð fyrir af hálfu kröfuhafa. Þau eru í meginatriðum þannig að slitabúin leggja til að þau greiði aðeins um 340 milljarða króna í stað skattsins, en fái að halda restinni af íslenskum eigum búanna. Umræddar eigur eiga að vera fastar innanlands í 7 – 10 ár og bera markaðsvexti á þeim tíma.

Mikið ber á milli og það er erfitt að sjá hvernig slík lausn geti uppfyllt þau markmið að verja lífskjör almennings og tryggja stöðugleika. Verði tillögur slitabúanna samþykktar, stendur ríflega helmingur vandans eftir óleystur. Eftir standa um 400 -500 milljarða króna á fullum vöxtum, sem munu skaða lífskjör almennings og ógna efnahagslegum stöðugleika þegar kröfuhafar fá að taka þær út úr íslensku hagkerfi, líklega eftir 7 ár.

Uppfært 9.10,2015: Miðað við upplýsingar á vef fjármálaráðuneytisins, standa eftir u.þ.b 400 milljarðar af íslenskum eigum í höndum erlendra kröfuhafa verði stöðuleikaskilyrðin samþykkt.
http://www.fjarmalaraduneyti.is/frettir/nr/19605

Við í Indefence hópnum höfum leitað eftir skýringum á þessu misræmi og kallað eftir því að Seðlabankinn upplýsi okkur og almenning ítarlega um þær forsendur og þá aðferðafræði sem er notuð til að framkvæma hið svonefnda stöðuleikamat – þ.e.a.s. mat á því hvort tillögur slitabúanna hafi skaðleg áhrif á lífskjör almennings og efnahagslegan stöðugleika á Íslandi.

Á nýlegum fundi okkar með Seðlabankastjóra gaf hann okkur til kynna að fyrirliggjandi tillögur slitabúanna standist stöðugleikamat bankans í stórum dráttum, en þegar við báðum um upplýsingar um forsendur og framkvæmd matsins, fór Seðlabankastjóri undan í flæmingi.

Þetta vekur því miður grun um að verið sé að semja við kröfuhafa um tillögur slitabúanna án þess að fullnægjandi greining á langtímaáhrifum þeirra hafi verið gerð. Vonandi er það ekki rétt.

 

Hér að neðan er hlekkur á bréf InDefence hópsins til Efnahags- og viðskiptanefndar um málið:

Stöðugleikaskilyrði – bréf til Efnahags- og viðskiptanefndar

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.7.2015 - 16:22 - Lokað fyrir ummæli

Miskilningur Össurar.

Fyrir nokkrum dögum sendi InDefence hópurinn inn umsögn til Alþingis með ítarlega gagnrýni á nokkur afmörkuð en mikilvæg atriði í þeim frumvörpum sem lögð hafa verið fram til að losa fjármagnshöft á Íslandi. Markmið með þessari umsögn var að ýta undir málefnalega umræðu um það hvort hægt sé að minnka áhættu við þær lausnir sem unnið er að og reyna að ná fram hagfelldari niðurstöðu fyrir þjóðina í einu mikilvægasta hagsmunamáli hennar.
Því miður kýs Össur Skarphéðinsson að nota umsögn hópsins til að að afvegaleiða umræðuna með notkun á orðum eins og „Sigmundarsamningnum“, „landráðamenn“, „þöggunarbarsmíðum“. Hann misskilur síðan athugasemdir InDefence sem snérust ekki um það hversu mikill skattaafslátturinn er, heldur áhrif hans á greiðslujöfnuð en segir svo ranglega að InDefence taki undir gagnrýni hans.

InDefence hópurinn hvetur Össur og aðra sem fjalla um málið að falla ekki í þá gryfju að gera eitt mikilvægasta mál sem þjóðin hefur þurft að glíma við að pólitískum leðjuslag.

 

 

 

Umsögn_Indefence

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.3.2015 - 01:58 - Lokað fyrir ummæli

Íslendingar rækilega blekktir af kröfuhöfum.

Af einhverjum ástæðum virðast sumir Íslendingar hafa verulegar áhyggjur af því að kröfuhafar gömlu bankanna muni geta rekið mál gegn íslenska ríkinu fyrir aþjóðlegum eða erlendum dómstólum, ákveði Íslensk stjórnvöld að verja hagsmuni sína gagnvart kröfum þeirra.

Sumir hafa haldið að ef stjórnvöld veiti kröfuhöfum ekki undanþágu frá íslenskum gjaldþrotalögum og jafnvel gjaldeyrislögum, þá verði þjóðin knésett fyrir erlendum dómstólum. Þessar áhyggjur sumra Íslendinga eru byggðar á miklum misskilningi. Nú í síðustu viku reyndu kröfuhafar í þrotabú gömlu bankanna einmitt að fá aðstoð dómara í New York til að stilla íslenskum stjórnvöldum upp við vegg og neyða þau til að semja við sig. Sú málaleitan tókst ekki betur en svo að þeim var nánast hent út úr réttarsalnum.

 

Þegar Abid Qureshi lögmaður kröfuhafa sagði dómaranum að kröfuhafar munu ekki sætta sig við útgönguskatt sem íslensk stjónrvöld hyggjast legga á eigur þrotabúanna sagði dómarinn Stuart M. Bernstein:

„Þetta hljómar ekki eins og eitt eða neitt sem þessi dómstóll geti eða muni gera nokkuð með. Þú ert farinn að röfla“

Þar með var það  undirstrikað að þrotabúin eru í íslenskri lögsögu. Þegar þau verða gerð upp í samræmi við íslensk lög og tekin verða skref til að leiðrétta fjárhagslegt tjón þjóðarinnar vegna bankahrunsins, þá hafa kröfuhafarnir engin önnur úrræði en að leita til íslenskra dómstóla.

Þetta staðfestir þá túlkun sem ég hef áður sett fram á Eyjunni og byggðist á samtali mínu við Hans Humes, forstjóra bandarísks vogunarsjóðs, sem hefur mikla reynslu og þekkingu á þessum málum. Humes útskýrði skilmerkilega að almennt ættu aðilar (eins og vogunarsjóðurinn sem hann stjórnar) ekki möguleika á því að reka mál í tengslum við kröfur á hendur einkafyrirtækja, eins og banka, fyrir alþjóðlegum dómstólum. Slíkum deilumálum væri nánast alltaf vísað til dómstóla þeirra landa þar sem til þeirra var stofnað.

Þeir sem hafa haldið öðru fram verða nú að horfast í augu við það að þeir hafa verið fíflaðir af aðilum sem hafa aðra hagsmuni en íslensks almennings að leiðarljósi.

 

Heimildir:

Hörður Ægisson, einn öflugasti blaðamaður landsins hefur fjallað um þetta á DV:

http://www.dv.is/frettir/2015/3/13/erlendir-krofuhafar-snupradir-af-bandariskum-gjaldthrotadomstol/

Einnig má lesa um málið á Deptwire:

http://www.debtwire.com/info/

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.12.2014 - 22:12 - Lokað fyrir ummæli

Á ofurlaunum við að vinna gegn hagsmunum almennings

Umræða um dóm hæstaréttar sem féll í nóvember síðastliðnum veitir athyglisverða innsýn inn í það umsátursástand sem ríkir í baráttunni við erlenda kröfuhafa.

 

Erlendu kröfuhafarnir eru með á þriðja hundrað manns af okkar bestu lögfræðingum í vinnu til að hámarka hagsmuni sína á kostnað íslensks almennings. Þeim hefur nú tekist að rugla alla umræðu um lagalegar hliðar á afnámi fjármagnshafta. Þannig virðast margir nú trúa því að dómurinn komi í veg fyrir að hin svokallaða gjaldþrotaleið sé fær vegna þess að kröfuhafar geti krafið þrotabústjóra um greiðslur í erlendum gjaldeyri, sé hann á meðal eigna þrotabúsins.

Þetta er útúrsnúningur og þvæla, þar sem lög um gjaldeyrishöft koma í veg fyrir það að þrotabústjóri geti greitt út í erlendri mynt.

 

Á undanförnum dögum hafa mætir menn á borð við Össur Skarphéðinsson og Árna Pál Árnason haldið fram þessari röngu túlkun á dómnum í greinaskrifum. Það er ekki gott að leiðtogar stjórnmálaafls séu ekki betur upplýstir. Það er slæmt að þeir skuli gera þennan málflutning að sínum, þar sem hann kemur úr herbúðum aðila sem hafa aðra hagsmuni en íslenska þjóðin.

 

Ég hvet alla sem hafa áhuga á hinu rétta í þessu máli að hafa t.d samband við lagadeild Háskóla Íslands og fá útskýringu á dómnum og hvernig hann breytir engu um gjaldþrotaleiðina. Jafnframt hvet ég Íslendinga til að hafa vara á málflutningi frá aðilum sem eru á ofurlaunum við að vinna gegn hagsmunum almennings.

Uppfært 9. 12. 2014:
Hér er efnið nánar útskýrt í viðtali við mig á Bylgjunni.

http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP31944

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.11.2014 - 16:31 - Lokað fyrir ummæli

Má ekki skattleggja þrotabúin?

Í kjölfar leiðréttingarinnar hafa ýmsir aðilar viðrað undarlegar efasemdir um að skattur á þrotabú bankanna standist íslensk lög.

En ég bara spyr:

Er virkilega einhver hér á landi sem telur að íslenska ríkið hafi ekki rétt á að skattleggja þrotabú bankanna?

Hefur ríkið þá ekki vald til þess að skattleggja fyrirtæki sem hafa valdið þjóðinni fjárhagsskaða upp á hátt í 800 milljarða? Fyrirtæki sem hafa neytt þjóðina til þess að auka skuldsetningu sína um tvo þriðju af þjóðarframleiðslu, eða um 1200 milljarða, með tilheyrandi vaxtakostnaði sem er langt umfram það sem kostar að reisa nýjan landsspítala á hverju ári.

Öll þessi umræða um að ekki megi skerða hagsmuni banka og kröfuhafa hér á landi er alla vega ekki alveg í takt við það sem er að gerast í Evrópusambandinu. Framkvæmdastjórn þess keppist nú við að semja lög og reglur sem koma í veg fyrir það að fall fjármálastofnana lendi á almennum skattgreiðendum.

http://europa.eu/rapid/press-release_STATEMENT-14-119_en.htm?locale=en

Það væri fagnaðarefni ef íslenskir blaða og fréttamenn kynntu sér þessa þróun í umheiminum í kringum okkur og tækju mið af henni í fréttaflutningi sínum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.10.2014 - 20:20 - Lokað fyrir ummæli

Hárrétt hjá Stefáni Ólafssyni.

Í bloggi sínu hér á Eyjunni vekur Stefán Ólafsson athygli lesenda á þeim mikla kostnaði sem almenningur hefur tekið á sig vegna bankahrunsins.

Það er löngu orðið tímabært að Íslendingar fari að fjalla málefnalega um þann skaða sem gömlu bankarnir ollu með starfsemi sinni.  Andvaraleysi almennings gagnvart þessu máli er ekki til þess fallið að minnka hann.

Nú hafa bæði Evrópusambandið og Bandaríkjastjórn hafa nú komið sér saman um regluverk sem á að koma í veg fyrir að almenningur sitji eftir með kostnað af falli banka. Lítið hefur farið fyrir umræðu um það hérlendis.

Ég leyfi mér að endurbirta hér að neðan grein sem ég ritaði ásamt nokkrum félögum mínum úr  InDefence hópnum í Fréttablaðið fyrir skömmu.

 

Hvernig á að bæta skaðann sem bankarnir ollu þjóðinni?

Íslenskir skattgreiðendur hafa nú þegar orðið fyrir gríðarlegum kostnaði vegna gjaldþrots einkarekinna banka og enn hvíla óuppgerð þrotabú þeirra á þjóðinni eins og mara.

Í vinnuskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 2012¹ kemur fram að fjárhagskostnaður íslenska ríkisins vegna hruns bankanna á Íslandi hafi verið um 44% af þjóðarframleiðslu, eða u.þ.b. 740 milljarðar. Auk þess þurfti ríkissjóður að auka skuldir sínar um 70% af landsframleiðslu eða um 1.200 milljarða með tilheyrandi kostnaði vegna falls þessara fyrirtækja.

Það er fráleitt óréttlæti að skattgreiðendur á Íslandi hafi þurft að bera slíkan ofurkostnað vegna gjaldþrota einkarekinna banka. Raunar stríðir slík ráðstöfun einnig gegn yfirlýstri stefnu Evrópusambandsins² og Bandaríkjastjórnar³ um gjaldþrot einkarekinna banka. Þar er gert ráð fyrir því að hluthafar og kröfuhafar eigi að bera kostnaðinn af falli slíkra fyrirtækja og jafnvel aðrir aflögufærir bankar, en alls ekki skattgreiðendur.

Í ljósi þessa er furðulegt að orðræðan á Íslandi skuli snúast mest um hagsmuni og meintan rétt kröfuhafa föllnu bankanna í stað þess að snúast um óréttmætt fjárhagstjón íslenskra skattgreiðenda. Sumir ganga svo langt að tala um íslenskar og erlendar eignir þessara kröfuhafa í þrotabúum bankanna. Hið rétta er að þeir eiga engar slíkar eignir. Þeir eiga aðeins kröfur í þrotabúin sem eru algerlega háðar íslenskum gjaldþrotalögum og verða ekki að eignum fyrr en þrotabúið hefur verið gert upp samkvæmt þessum lögum. Þrotabúin hafa nú fengið fimm ár til að hámarka heimtur, og það er orðið löngu tímabært að klára uppgjör þeirra í samræmi við lög um gjaldþrotameðferð og gjaldeyrishöft. Eina eðlilega niðurstaðan er sú að kröfuhafar fái greitt úr þrotabúum eingöngu í íslenskum krónum eins og dómafordæmi er fyrir. Á sama tíma ber stjórnvöldum skylda til að sækja bætur fyrir þann skaða, sem bankarnir ollu þjóðinni, í þrotabú þeirra. Íslenska ríkið ætti með réttu að vera stærsti kröfuhafinn í þrotabú föllnu bankanna.

Til samanburðar mætti hugsa sér dæmi um olíufyrirtæki starfrækt á Íslandi, sem hefði mengað náttúru landsins með þeim afleiðingum að íslenska ríkið hefði þurft að kosta til meira en 1.000 milljörðum til að hreinsa eftir það. Nú væri fyrirtækið farið í gjaldþrot og þá ætluðu kröfuhafar í þrotabú olíufyrirtækisins að fá allar eigur þrotabúsins en íslenska ríkið ætti ekki að fá neitt. Það er ljóst að slík ráðstöfun stenst ekki skoðun. Það sama gildir um uppgjörið á þrotabúum bankanna.

Í samræmi við þær reglur sem Evrópusambandið og Bandaríkjastjórn hafa sett til að verja skattgreiðendur þegar einkareknir bankar verða gjaldþrota, ættu íslensk stjórnvöld að beita sektum, sköttum eða öðrum meðölum sem leynast í vopnabúri fullvalda ríkis til að sækja bætur fyrir það fjárhagstjón sem fall bankanna olli íslenskum skattgreiðendum. Ríkissjóður Íslands má undir engum kringumstæðum fara óbættur frá málinu.

Ólafur Elíasson, Agnar Helgason, Torfi Þórhallsson og Ragnar F. Ólafsson

Heimildir
1. https://www.imf.org/external/pubs/ft/wp/2012/wp12163.pdf
2. http://europa.eu/rapid/press-release_MEMO-13-1140_en.htm?locale=en
3. http://www.fdic.gov/about/srac/2012/gsifi.pdf

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.10.2014 - 01:54 - Lokað fyrir ummæli

Viljum við virkilega losa okkur við Rás2?

Á síðustu áratugum hafa margar íslenskar popphljómsveitir og popptónlistarmenn náð alveg ævintýralegum árangri á erlendum vettvangi. Skapað miklar tekjur fyrir þjóðarbúið og haft mikil áhrif á ímynd landsins sem hefur skilað okkur miklum ferðamannatekjum og svona mætti lengi telja. Þetta er eitthvað sem allir vita og ekki þarf ræða nánar. En ég spyr? Gera menn sér grein fyrir því á hvaða vettvangi þessir tónlistarmenn stíga sín fyrstu skref. Mér finnst augljóst að Rás2 á umtalsverðan þátt í þeirri velgengni sem okkar frambærilega popptónlistarfólk hefur notið. Rás2 hefur í áratugi veitt ungu tónlistarfólki tækifæri til að koma tónlist sinni á framfæri og verið því vettvangur til að þroska list sína. Það hlýtur að vera öllum ljóst að án Rásar2 væri landslagið í grasrót þessarar mikilvægu útflutningsgrein okkar, popptónlistarinnar, talsvert fátæklegra.

Ef það á að spara í ríkisgeiranum, þá mundi ég halda að það að losa okkur við Rás2 ætti að vera mjög neðarlega á sparnaðarhugmyndalistanum. Hvaða útvarpsstöð önnur en Rás2 leikur nýja íslenska frumsamda popptónlist? Verði þessi stofnun lögð niður eða seld einkaaðilum, hver á þá að vera vettvangur þessara listamanna? Einkareknar útvarpsstöðvar sem leika bara vinsælustu lögin?

Og hvað græðist á því. Hver vill kaupa útvarpsstöð?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Ólafur Elíasson

Píanóleikari og tónlistarmaður.
Er einnig með MBA í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands.

Er ekki tengdur neinum sérstökum hagsmunaaðilum né pólitískum samtökum.
Starfaði með InDefence hópnum gegn Icesave samningunum.
RSS straumur: RSS straumur