Miðvikudagur 25.03.2015 - 01:58 - Lokað fyrir ummæli

Íslendingar rækilega blekktir af kröfuhöfum.

Af einhverjum ástæðum virðast sumir Íslendingar hafa verulegar áhyggjur af því að kröfuhafar gömlu bankanna muni geta rekið mál gegn íslenska ríkinu fyrir aþjóðlegum eða erlendum dómstólum, ákveði Íslensk stjórnvöld að verja hagsmuni sína gagnvart kröfum þeirra.

Sumir hafa haldið að ef stjórnvöld veiti kröfuhöfum ekki undanþágu frá íslenskum gjaldþrotalögum og jafnvel gjaldeyrislögum, þá verði þjóðin knésett fyrir erlendum dómstólum. Þessar áhyggjur sumra Íslendinga eru byggðar á miklum misskilningi. Nú í síðustu viku reyndu kröfuhafar í þrotabú gömlu bankanna einmitt að fá aðstoð dómara í New York til að stilla íslenskum stjórnvöldum upp við vegg og neyða þau til að semja við sig. Sú málaleitan tókst ekki betur en svo að þeim var nánast hent út úr réttarsalnum.

 

Þegar Abid Qureshi lögmaður kröfuhafa sagði dómaranum að kröfuhafar munu ekki sætta sig við útgönguskatt sem íslensk stjónrvöld hyggjast legga á eigur þrotabúanna sagði dómarinn Stuart M. Bernstein:

„Þetta hljómar ekki eins og eitt eða neitt sem þessi dómstóll geti eða muni gera nokkuð með. Þú ert farinn að röfla“

Þar með var það  undirstrikað að þrotabúin eru í íslenskri lögsögu. Þegar þau verða gerð upp í samræmi við íslensk lög og tekin verða skref til að leiðrétta fjárhagslegt tjón þjóðarinnar vegna bankahrunsins, þá hafa kröfuhafarnir engin önnur úrræði en að leita til íslenskra dómstóla.

Þetta staðfestir þá túlkun sem ég hef áður sett fram á Eyjunni og byggðist á samtali mínu við Hans Humes, forstjóra bandarísks vogunarsjóðs, sem hefur mikla reynslu og þekkingu á þessum málum. Humes útskýrði skilmerkilega að almennt ættu aðilar (eins og vogunarsjóðurinn sem hann stjórnar) ekki möguleika á því að reka mál í tengslum við kröfur á hendur einkafyrirtækja, eins og banka, fyrir alþjóðlegum dómstólum. Slíkum deilumálum væri nánast alltaf vísað til dómstóla þeirra landa þar sem til þeirra var stofnað.

Þeir sem hafa haldið öðru fram verða nú að horfast í augu við það að þeir hafa verið fíflaðir af aðilum sem hafa aðra hagsmuni en íslensks almennings að leiðarljósi.

 

Heimildir:

Hörður Ægisson, einn öflugasti blaðamaður landsins hefur fjallað um þetta á DV:

http://www.dv.is/frettir/2015/3/13/erlendir-krofuhafar-snupradir-af-bandariskum-gjaldthrotadomstol/

Einnig má lesa um málið á Deptwire:

http://www.debtwire.com/info/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Höfundur

Ólafur Elíasson

Píanóleikari og tónlistarmaður.
Er einnig með MBA í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands.

Er ekki tengdur neinum sérstökum hagsmunaaðilum né pólitískum samtökum.
Starfaði með InDefence hópnum gegn Icesave samningunum.
RSS straumur: RSS straumur