Þriðjudagur 06.10.2015 - 15:37 - Lokað fyrir ummæli

Seðlabankinn lúffar fyrir kröfuhöfum

Í sumar voru lög samþykkt á Alþingi um að leggja 850 milljarða skatt á þrotabú föllnu bankanna. Þessum skatti var ætlað að tryggja að greiðslujöfnuði þjóðarbúsins verði ekki ógnað þegar þrotabúin verða gerð upp og fjármagnshöft losuð.

Ógnin sem um ræðir er að kröfuhafar fari út úr landi með verulegar upphæðir í formi gjaldeyris. Fái þeir að gera það án mótvægisaðgerða, mun gengi krónunnar lækka og þar með myndast verðbólguþrýstingur innanlands. Við slíkar aðstæður munu verðlag og verðtryggðar skuldir almennings hækka og þar með yrði veruleg skerðing á lífskjörum almmenings.

Í sömu lögum var samþykkt að gefa kröfuhöfum kost á því að leggja fram tillögur um framlag af þeirra hálfu í stað skattsins. Umræddar tillögur áttu að verja sömu þjóðarhagsmuni og skatturinn. Seðlabanka Íslands var falið að gera stöðuleikamat og bera tillögur kröfuhafa saman við það og samþykkja síðan tilboð þeirra aðeins að því gefnu að stöðugleika væri ekki ógnað á Íslandi.

Nú liggja þessi tilboð fyrir af hálfu kröfuhafa. Þau eru í meginatriðum þannig að slitabúin leggja til að þau greiði aðeins um 340 milljarða króna í stað skattsins, en fái að halda restinni af íslenskum eigum búanna. Umræddar eigur eiga að vera fastar innanlands í 7 – 10 ár og bera markaðsvexti á þeim tíma.

Mikið ber á milli og það er erfitt að sjá hvernig slík lausn geti uppfyllt þau markmið að verja lífskjör almennings og tryggja stöðugleika. Verði tillögur slitabúanna samþykktar, stendur ríflega helmingur vandans eftir óleystur. Eftir standa um 400 -500 milljarða króna á fullum vöxtum, sem munu skaða lífskjör almennings og ógna efnahagslegum stöðugleika þegar kröfuhafar fá að taka þær út úr íslensku hagkerfi, líklega eftir 7 ár.

Uppfært 9.10,2015: Miðað við upplýsingar á vef fjármálaráðuneytisins, standa eftir u.þ.b 400 milljarðar af íslenskum eigum í höndum erlendra kröfuhafa verði stöðuleikaskilyrðin samþykkt.
http://www.fjarmalaraduneyti.is/frettir/nr/19605

Við í Indefence hópnum höfum leitað eftir skýringum á þessu misræmi og kallað eftir því að Seðlabankinn upplýsi okkur og almenning ítarlega um þær forsendur og þá aðferðafræði sem er notuð til að framkvæma hið svonefnda stöðuleikamat – þ.e.a.s. mat á því hvort tillögur slitabúanna hafi skaðleg áhrif á lífskjör almennings og efnahagslegan stöðugleika á Íslandi.

Á nýlegum fundi okkar með Seðlabankastjóra gaf hann okkur til kynna að fyrirliggjandi tillögur slitabúanna standist stöðugleikamat bankans í stórum dráttum, en þegar við báðum um upplýsingar um forsendur og framkvæmd matsins, fór Seðlabankastjóri undan í flæmingi.

Þetta vekur því miður grun um að verið sé að semja við kröfuhafa um tillögur slitabúanna án þess að fullnægjandi greining á langtímaáhrifum þeirra hafi verið gerð. Vonandi er það ekki rétt.

 

Hér að neðan er hlekkur á bréf InDefence hópsins til Efnahags- og viðskiptanefndar um málið:

Stöðugleikaskilyrði – bréf til Efnahags- og viðskiptanefndar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Höfundur

Ólafur Elíasson

Píanóleikari og tónlistarmaður.
Er einnig með MBA í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands.

Er ekki tengdur neinum sérstökum hagsmunaaðilum né pólitískum samtökum.
Starfaði með InDefence hópnum gegn Icesave samningunum.
RSS straumur: RSS straumur