Þriðjudagur 06.09.2016 - 14:19 - Lokað fyrir ummæli

Hrægamma­bónusar

FÉLAGAR Í INDEFENCE HÓPPNUM SKRIFA.

Það er búið að vera skrýtið að fylgjast með umræðunni um ofurbónusana sem starfsmenn slitabúanna eru að fá þessa dagana.

Margir eru reiðir yfir þessum bónusum, en færri virðast átta sig á því að þeir eru greiddir út á kostnað almennings.
Þiggjendur bónusgreiðslnanna eru íslenskir erindrekar vogunarsjóðanna. Sjóða sem keyptu nánast heila landsframleiðslu á slikk í kreppunni – til að græða á efnahagsþrengingum Íslendinga.

Þetta eru mennirnir sem tókst að slá ryki í augu stjórnmálamanna, embættismanna og almennings. Þeim tókst að telja öllum trú um það að best væri að gefa vogunarsjóðunum sem mest eftir. Þeir myndu mæta 39% stöðugleikaskatti með lögsóknum. Niðurstaðan var að kröfuhafarnir greiddu miklu lægri stöðugleikaframlög og fengu þar með að losna undan fjármagnshöftum með stórfé.

Þannig færðu bónusþegar umbjóðendum sínum hundruð milljarða af fé sem réttilega hefði runnið í ríkissjóð. Nú eru þeir að fá „silfurpeninga“ sína, sem eru aðeins brotabrot af þeim upphæðum sem kröfuhafarnir höfðu úr þrotabúum gömlu föllnu bankanna.

Allt er þetta beinlínis á kostnað okkar hinna, sem enn sitjum föst í fjármagnshöftum. Það er síðan grátlegt að fylgjast með ráðherrum klóra sér í hausnum og hneykslast yfir bónusgreiðslum, sem þeir sköpuðu svigrúm fyrir með slökum nauðasamningum við kröfuhafana um þessi aumu stöðugleikaframlög.

 

Ólafur Elíasson, MBA
Agnar Helgason, mannfræðingur
Ragnar Ólafsson, félagssálfræðingur
Davíð Blöndal, eðlis- og tölvunarfræðingur
Torfi Ólafsson, verkfræðingur
Sveinn Valfells, eðlis- og hagfræðingur

Höfundar eru meðlimir í InDefence hópnum. Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Höfundur

Ólafur Elíasson

Píanóleikari og tónlistarmaður.
Er einnig með MBA í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands.

Er ekki tengdur neinum sérstökum hagsmunaaðilum né pólitískum samtökum.
Starfaði með InDefence hópnum gegn Icesave samningunum.
RSS straumur: RSS straumur