Laugardagur 13.04.2013 - 12:32 - FB ummæli ()

Hugleiðingar um peningakerfið

Eitt af kosningamálunum er peningakerfið. Svei mér ef flestir ef ekki allir flokkarnir ætli sér að gera eitthvað með málefnið. Mest áberandi „kostirnir“ sem í boði eru fyrir kjósendur er evruupptaka (í kjölfarið á ESB inngöngu) eða það sem kallað hefur verið „Betra peningakerfi“ eða „heildarforðakerfi“. Þetta kerfi hefur einkum verið kynnt á vefnum Betra peningakerfi en systurfélög sem stefna að svipuðum markmiðum má finna í öðrum löndum t.d. Positive Money í Bretlandi.

Betra peningkerfi hugmyndin byggir, í grundvöllinn, á þeirri staðreynd að það eru bankar sem búa til mest alla þá peninga sem notaðir eru. Frá 1994 hefur, samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands, hlutfallið verið á bilinu 96-99%, sé miðað við stærsta mælikvarða peningamagns í umferð sem gefinn er út hér á landi.

Undir nýja peningakerfinu yrði þetta hlutfall 0%; bankar byggju ekki til neina af þeim peningum sem eru viðurkenndir sem lögeyrir (sem við skulum hér miða við að sé sú greiðsla sem hægt sé að nota við að borga skatta). Hugmyndin er að seðlabankinn þenji út hlutverk sitt sem útgefandi peninga úr því að ná aðeins yfir seðla og mynt yfir í alla peninga, þar með talið það sem kallað hefur verið „rafpeningar“. Það hugtak er notað yfir annars konar peninga en seðla og mynt, þ.e. innistæður á bankareikningum – einkum og sér í lagi tékkareikningum.

Ég ætla ekki að fara í út í það hér hverju yrði náð fram, fólk getur m.a. kynnt sér síðuna Betra peningakerfi til þess. Ég vil heldur koma á fram eftirfarandi hugleiðingum. Og hér finnst mér rétt að geta þess að þótt ég sé einn þeirra sem nafn birtist á Betra peningakerfi sem „aðstandendur“ þá eru þetta eigin hugleiðingar.

Hvaða peninga á seðlabankinn að búa til?

Eitt sem skoða verður er hvaða peninga Seðlabankinn á að búa til.

„Gallinn“ við peninga er þeir eru flókið fyrirbæri. Þeir eru annað og meira en bara seðlar og mynt eða innistæða á tékkareikningi sem tengdur er við debetkort. Peningar eru hvert það fyrirbæri sem viðurkennt er sem fullnaðargreiðsla fyrir ákveðinni skuldbindingu. Þessi eiginleiki peninga byggist á því hvort viðtaki greiðslunnar sé tilbúinn til þess að horfa skuldbindinguna sem uppfyllta gegn afhendingu einhvers fyrirbæris sem þá myndi vera „peningur“ því skuldbindingin er, samkvæmt viðtaka greiðslunnar, uppfyllt.

Þannig getur kaffibollinn sem ég er að drekka úr – fyrirbærið – verið peningur fyrir einhverri þjónustu – skuldbindingu – ef sá sem mun framkvæma þjónustuna samþykkir kaffibollann sem fullnaðargreiðslu. Að sama skapi þarf fyrirbærið ekki að vera eitthvað sem hægt er að halda í hendi. Loforð getur nægt eða það sem kallað er á ensku „I.O.U.“ (sem stendur fyrir „I owe you“ eða „ég skulda þér“). Raunar er loforðið líklega elsta form peninga sem til er (sjá Graber – Debt: The First 5,000 Years) og kom það löngu á undan lánum eða peningum.

Að sama skapi getur bókhaldsfærsla í viðskiptabanka verið peningur ef almennt er viðurkennt að slíkt sé fullnaðargreiðsla fyrir skuldbindingu. Það er svo sannarlega í dag; m.a.s. hið opinbera viðurkennir bankainnistæðu sem greiðslu fyrir skattskuld sem líklega er harðasta skuldbinding sem hægt er að búa til því hið opinbera getur fangelsað þig (eða skikkað þig í þrældóm eins og tíðkaðist hér fyrr á öldum) ef þú uppfyllir ekki þá skuldbindingu.

Raunar er það svo að hver sem er getur búið til peninga, vandamálið er að fá þá viðurkennda (fræg orð frá Hyman Minsky). Ég hef t.d. heyrt af því að á meðan hruninu stóð voru sum fyrirtæki byrjuð að viðurkenna annars konar peninga en þau voru vön að gera. Þá viðurkenndu þau það sem „greiðslu“ að viðskiptavinurinn, köllum hann Jón, gæfi út skuldabréf til þeirra, þ.e. loforð um greiðslu, án þess að nokkur banki kæmi nálægt. Þar með var Jón að búa til peninga: skuldabréfið var viðurkennd greiðsla.

Þá kemur spurningin: ef hver sem er, Jón þar á meðal, getur búið til peninga, hvaða peninga á Seðlabankinn að búa til í nýja peningakerfinu? Einstök skuldabréf sem ganga kaupum og sölum einstaklinga á milli án aðkomu fjármálastofnana eru ólíkleg til þess að hafa meiriháttar áhrif svo það er óhætt að horfa framhjá þeim.

En hvað með banka sem eru langstærslu milligönguaðilar greiðslna og nota það hlutverk sitt í dag til þess að búa til peninga eins og þeim lystir? Já, undir nýja kerfinu væri þeim bannað að búa til bókhaldsfærslur sem hægt væri að nota sem „rafpeninga“, s.s. til greiðslu skatta. (Slíkir peningar yrðu geymdir á bókum Seðlabankans.) En hvað með aðrar bókhaldsfærslur banka, s.s. afleiðuviðskipti, kaup á hlutabréfi með framvirkum samningi eða kreditkortaviðskipti?

Allt, og miklu meira til, eru þetta bókhaldsfærslur hjá bönkum sem gætu virkað sem peningar (kredikort gera það þegar í dag). Alveg eins og í tilviki Jóns hér að ofan væri það ekkert sem stoppaði banka í því að búa til bókhaldsfærslurnar til hvers þess sem þeir vildu. Það eina sem myndi stoppa bankana væri vilji mótaðila þeirra í viðskiptum til þess viðurkenna bókhaldsfærslu bankans sem greiðslu, þ.e. peninga.

Það sem ég er að koma að er spurningin hvort skilgreina þurfi hlutverk banka enn betur en það eitt að þeir geti ekki búið til lengur þá peninga sem viðurkenndir eru sem fullnaðargreiðsla á almennum skuldbindingum, skattskuldbindingum einkum og sér í lagi. (Skattskuldbindingar eru mjög mikilvægar því næstum allir hafa þær og því er hvað það sem viðurkennt er sem greiðsla skatta verðmætt vegna þess eins og mun mjög líklega verða viðurkennt sem peningar í framhaldinu.) Þar með talið er t.d. að skoða hvort það sé sniðugt að bankar geti verið fjárfestingar- og viðskiptabankar á sama tíma en það myndi draga úr getu banka til þess að búa til „annars konar peninga“ – „money substitutes“ eins og það er kallað á ensku – ef þeir væru aðskildir.

Skuldlausir peningar?

Eitt af því sem haldið er fram er að hægt sé að búa til peningana án þess að einhver skuld eða skuldbinding standi að baki þeirra.

Sjálfur hef ég vissar athugasemdir um hvort þetta sé hægt. Ég ritaði „skuldbinding“ margoft hér að ofan. Í raun er það grundvöllur peninga að það sé einhvers konar skuld eða skuldbinding sem greiðsla þeirra er að uppfylla: ef greiðsla þeirra uppfyllir ekki skuldbindinguna sem þeir eiga að uppfylla þá eru þeir ekki peningar.

Spurningin er hvort það sé hægt að bóka peningamyndunina í nýja peningakerfinu aðeins sem eignamyndun. Ég verð að viðurkenna að það þætti mér merkilegt því mér finnst að þá sé verið að brjóta grundvallarreglu tvíhliða bókhalds; credit færsla kallar á jafnháa debit færslu. Ef til vill er þetta hægt, ég er ekki meistari í bókhaldi og reglunum þar á bakvið.

Það hins vegar er í raun ekki vandamál hvort það sé hægt að bóka peningamynduna sem skuldlausa eða ekki. Það eina sem þarf að sjá til er að skuldin sem myndast við peningamyndunina verði aldrei greidd né heldur að það sé nokkurt greiðsluflæði (afborganir og vextir) sem þarf að standa skil á vegna hennar.

Peningamyndunina í nýja kerfinu má auðveldlega bóka til dæmis á eftirfarandi hátt. Seðlabankinn býr til 1.000.000 króna með því að bóka, samtals, 1.000.000kr. hækkun á tékkareikningum fólks sem geymdir eru á skuldahlið Seðlabankans. Í staðinn færir Seðlabankinn til bókar 1.000.000kr. eign sem skal vera skuld ríkissjóðs. Þar með er ríkissjóður í raun búinn að taka að láni 1.000.000kr. hjá Seðlabankanum og greiða inn á tékkareikninga fólks (sjá síðar hví ég set þetta svona upp). Efnahagsreikningur Seðlabankans hefur þanist út um 1.000.000kr.

Nú hugsar einhver hvort það sé ekki slæmt að ríkissjóður skuli skulda 1.000.000kr. vegna peningamyndunar Seðlabankans. Það er hins vegar svo að þessi skuld verður aldrei greidd til baka! Og það er raunar mjög mikilvægt eins og útskýrt verður rétt strax.

Þetta er skuldabréf er opið – nokkurs konar „lánalína“ eins og það heitir á máli fjármálamarkaða eða einfaldlega „yfirdráttarheimild“ í daglegu tali – og ber enga vexti og engar afborganir. Þetta skuldabréf skal alltaf vera á bókum seðlabankans og verður alltaf skuld ríkissjóðs til seðlabankans. En þar sem skuldabréfið hefur engar samningsgreiðslur er greiðslubyrði þess engin. Og þar sem greiðslubyrðin er engin er skuldabyrðin engin.

Það er mjög mikilvægt að þetta skuldabréf verði aldrei greitt til baka. Ástæðan er sú að peningamagnið í umferð í hagkerfinu er byggt upp af því að skuldabréfið sé til: peningarnir á tékkareikningum fólks eru búnir til með því að hækka höfuðstól skuldabréfsins. Ef ríkissjóður tæki sig til, heimtaði skatt af fólki og notaði þær skatttekjur til að greiða inn á skuldabréfið væri peningamagnið í umferð að minnka. Og það kallar á allan fjárann af efnahagsvandræðum: verðhjöðnun, skort á fjárfestingu, atvinnuleysi, o.s.frv.

Í raun er með þessu fyrirkomulagi verið að gera þá staðreynd að peningar séu skuld augljósa! Skuld ríkissjóðs til Seðlabankans eru peningarnir í hagkerfinu: „I.O.U“ nótan sem ríkissjóður gefur út til Seðlabankans verður að peningum í daglegu lífi fólks. Þessir peningar verða aðeins til staðar svo lengi sem „I.O.U“ nótan verður aldrei greidd til baka!

Það skemmtilega er að það er til að minnsta kosti eitt dæmi þess í sögunni að ekki ósvipuð atburðarás hafi átt sér stað (aftur, Graber segir söguna). Árið 1694 tók Englandskonungur lán hjá enskum bönkum. Lánið var upp á 1.200.000 punda og var m.a. ætlað til uppbyggingar á flota Englands (flota sem varð grundvöllurinn að breska heimsveldinu). Ofan á 8% vexti fengu bankarnir einokunarvald, í gegnum Bank of England (sem þá var í eigu bankanna sem veittu lánið), til þess að gefa út peningaseðla sem urðu að lögeyri. Þessir peningaseðlar voru í raun tryggðir af skuldabréfinu (svipað og gullfótur nema þarna var það „skuldabréfsfótur“).

Þetta er mjög mikilvægt í okkar samhengi. Staðreyndin er sú að þetta 1.200.000 punda lán hefur aldrei verið greitt til baka og það verður aldrei greitt til baka. Ef það gerist gæti grundvöllur peningakerfis Bretlands auðveldlega hrunið, svipað og ef allt gull heims hefði þurrkast út á einhvern hátt í tímum gullfótarins. Fótunum væri kippt undan peningakerfinu á svipstundu. Á sama hátt mætti skuld ríkissjóðs Íslands við Seðlabanka Íslands aldrei vera greidd upp í hinu nýja peningakerfi: skuldin væri peningarnir í umferð og án hennar væri ekkert peningakerfi!

Og vitanlega ætti skuldabréfið að vera vaxtalaust. Í fyrsta lagi yrði til staðar greiðslubyrði af láninu ef vextir yrðu til staðar og það væri beinlínis gegn tilgangi nýja peningakerfisins sem m.a. er að draga úr skuldabyrði hins opinbera. Í öðru lagi: hver væri tilgangurinn með því að hafa vexti á bréfinu? Svo Seðlabankinn fengi vexti af eign sem hann bjó til með því einu að skrifa tölur inn í tölvuna hjá sér?? Seðlabankinn er líka í eigu ríkisins. Það eru því engin rök fyrir því að hafa vexti á bréfinu.

Blessaðir pólitíkusarnir

Að koma peningunum í umferð er eitt málefni sem á eftir að ræða. Ein hugmyndin er að Seðlabankinn afhendi ríkissjóði peningana með innleggi á tékkareikning ríkissjóðs í Seðlabankanum. Með króníska tilhneigingu stjórnmálamanna til að skora eld að eigin köku líst mér persónulega mjög illa á það. Ég sé það í anda: ráðherrar myndu keppast við að lofa upp í ermina á sér ýmis konar verkefnum í eigin kjördæmi sem þeir ætluðu að fjármagna með peningunum frá Seðlabankanum. Það má ekki gerast!

Ég hygg að það sé betra að Seðlabankinn greiði ríkissjóði aldrei eina einustu krónu. Það er hugmyndin hér að ofan. Í stað þess að Seðlabankinn greiði ríkissjóði þá peninga sem búnir eru til þá skuli greiða Íslendingum þá.

Hver og einn Íslendingur með tékkareikning – eða þeir sem eru fjárráða ef fólk vill það frekar – fengi greiddan sinn jafna skerf af þeim peningum sem Seðlabankinn telur rétt að búa til. Tékkareikningar fólks yrðu hvort eð er geymdir á bókum Seðlabankans svo það væri auðvelt: bókhaldsfærslur beggja megin efnahagsreiknings Seðlabankans svipuðum þeim sem lýst er hér að ofan.

Það er margt sem næðist fram með þessu. Í fyrsta lagi gæti fólk eytt peningunum eins og því lysti, það hefði fullkomið frelsi til slíks (þetta myndi þá draga úr áhyggjum fólks um að þetta sé sovéskt kerfi).

Í öðru lagi yrði almenningur meira á verði varðandi framgang peningastefnunnar. Það sæi innleggið (það mætti vera mánaðarlegt) frá Seðlabankanum og skildi betur hvað væri í gangi, allt eftir því hvernig innleggið breyttist. Ég efast stórlega um að fólk myndi nenna að fletta því upp jafnoft og það flettir upp stöðunni á tékkareikningum hvað ríkissjóður væri að fá mikið frá seðlabankanum ef hann fengi peningana beint. Skortur á gegnsæi yrði samstundis til staðar. Og það kallar á pólitíska spillingu.

Í þriðja lagi mætti ríkissjóður enn fá sinn skert af þessum peningum en það ætti að gerast á sama hátt og í dag: með skattlagningu. Það yrði þá hluti af lýðræðislegum kosningum hvort og þá hversu mikið ríkissjóður ætti að taka af þessum peningum (sem einnig ætti að draga úr áhyggjum fólks um sovétið).

Og í fjórða lagi yrði þetta sanngjarnasta leiðin: allir fengju sinn jafna skerf, enginn væri uppáhalds og enginn gæti notað sér pólitísk vinasambönd til þess að fá meira af þessum peningum en aðrir (að minnsta kosti yrði vandamálið ekki meira áberandi en það er þegar í dag hvað varðar pólitíska spillingu).

Breyting til batnaðar ef rétt er haldið á spilunum

Þetta eru svona mínar helstu hugleiðingar um kerfið en þær eru margar aðrar. Þær bíða þó betri tíma.

Í grundvallaratriðum er hugmyndin að baki nýju peningakerfi mjög góð. Það skiptir hins vegar máli hvernig hún er framkvæmd, sérstaklega þegar kemur að því að skoða hlutverk banka í hagkerfinu önnur en að búa til peninga eins og þeir gera í dag. Þá finnst mér ekkert að því að horfast í augu við þá staðreynd að ólíklega sé hægt að bóka peningana sem skuldlausa (það er mitt álit). En þótt það væri ekki hægt að bóka peningamyndunina sem skuldlausa þá þarf það ekki að vera vandamál.

Að minnsta kosti finnst mér ljóst að þetta kerfi yrði skárra en það sem við höfum í dag, svo lengi sem það yrði framkvæmt á réttan máta.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur