Föstudagur 05.07.2013 - 00:13 - FB ummæli ()

„Let them eat credit!“

Við lestur nýjustu bloggfærslu Andra Geirs Arinbjarnarsonar – Böl 40 ára lána – rifjuðust upp orðin í heiti þessa pistils. Orðin koma frá hagfræðingnum Raghuram G. Rajan úr bókinni „Fault Lines“ sem kom út árið 2010. Bókin rokseldist vegna einfaldrar ástæðu: hún er þrælgóð.

„Látum þau borða lán!“ er, samkvæmt Rajan, notað sem skammtímalausn á ákveðnu vandamáli sem bandarískir pólitíkusar standa frammi fyrir: ójöfnuði í tekjum og þá einkum og sér í lagi þróuninni í þá átt að ójöfnuður aukist. Sú þróun varð sífellt meira áberandi í Bandaríkjunum eftir því sem leið á seinni hluta 20. aldar. Samkvæmt Rajan er grundvallarástæðan fyrir þessari þróun sú að vinnuaflið vestanhafs náði ekki að fylgja eftir þeirri tækniþróun sem varð á sama tíma. Tækniþróun kallaði eftir miklu og vel menntuðu vinnuafli. Þau fáu sem uppfylltu kröfurnar gátu ekki aðeins krafist hærri launa, vegna þess hversu fá þau voru og eftirspurnin eftir þeim mikil, heldur urðu þau einnig fyrst til að skilja tækifærin sem tækniþróunin bauð upp á. Menntaða fólkið með þekkinguna og sköpunarkraftinn varð því fyrst til að fá háu launin og fyrst til að stofna ný fyrirtæki (Apple, Google, Microsoft, o.s.frv.) sem græddu mest. Þess vegna varð tekjuójöfnuðurinn meiri og meiri því menntunarstigið náði ekki að halda í við tækniþróun og eftirspurn eftir menntuðu starfsfólki og aðeins fáir útvaldir sátu að öllum bestu tækifærunum sem tækniþróunin bauð upp á.

Þessi ójöfnuður skapar vandamál fyrir stjórnmálamenn því ójöfnuðurinn lítur illa út pólitískt. Til að „friða“ þá sem ekki græða er „lausnin“ sú að gera aðgengi að lánum auðveldara svo allir geti tekið þátt í neyslusamfélaginu. Í stað þess að aðstoða hin fátæku við að mennta sig og fara sjálf út í nýsköpunarverkefni er sagt: „Let them eat credit!“

Í Bandaríkjunum þróaðist þessi „Let them eat credit!“ stefna út í það að allir áttu að fá að lifa ameríska drauminn. Stór hluti af honum var eigið húsnæði, að vera sinn eiginn herra í eigin húsnæði. Fannie Mae og Freddie Mac – „Íbúðalánasjóðir“ Bandaríkjanna – voru því notaðir í þeim pólitíska tilgangi að dæla út íbúðalánum til bandarísks almennings sem og að auðvelda öðrum íbúðalánveitendum hið sama með því m.a. að kaupa skuldabréfavafninga sem myndaðir voru af íbúðalánum. Þannig áttu allir að upplifa ameríska drauminn en ekki bara þeir sem höfðu menntun og þekkingu til þess að grípa fjárfestingartækifærin sem mestan gróða gáfu.

En þetta endaði með harmleik eins og við þekkjum flest. Fannie Mae og Freddie Mac var bjargað af bandarískum stjórnvöldum í upphafi fjármálakreppunnar. Ástæðan var mikið tap sjóðanna vegna ógáfulegrar fjárfestingarstefnu þeirra árin á undan.

Íbúðalánasjóður og íslenska útlánaveislan

Þessi skýring Rajan rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las eftirfarandi orð Andra:

Stjórnmálamenn verða að horfast í augu við þann raunveruleika að stór hópur Íslendinga getur ekki eignast eigið húsnæði á eðlilegan hátt samkvæmt lögmálum hin frjálsa og opna fjármálamarkaðs.  Að reyna enn eina ferðina að “fiffa” markaðinn mun aðeins skapa vandamál sem á endanum leiðir til kerfisáfalla.

Þetta er hárrétt! Hér varð ekki ósvipuð þróun á útlánum og varð í Bandaríkjunum: útlán jukust og skuldir þöndust út, ekki síst vegna þess að stjórnmálamenn hvöttu banka og Íbúðalánasjóð til þess: stjórnmálamenn reyndu að „fiffa“ markaðinn. Bankar tóku vitanlega hjartanlega undir, ekki bara vegna sambanda þeirra við stjórnmálamenn heldur einnig beinlínis vegna þess að hagnaður banka er háður því að þeir geti nýmyndað peninga með nýjum og nýjum útlánum.

Það skal ósagt látið hvort tekjuójöfnuður hafi verið það sem ýtti íslenskum stjórnmálamönnum út í þessa hvatningu og í að „fiffa“ íbúðalánakerfið en það var gert engu að síður. Vafalaust var hluti af ástæðunni, ég leyfi mér að segja, sú undarlega árátta að allir á Íslandi skuli „eiga“ húsnæði. Þetta er ekki ósvipað ameríska draumnum. En hví má fólk ekki leigja húsnæði ef það hefur ekki efni á því að kaupa? Og ef út í það er farið: ef það er 80%-90% lán á íbúðarhúsnæði, er þá hægt að segja að hinn skráði fasteignaeigandi „eigi“ viðkomandi íbúðarhúsnæði?

Útlánaveislan sem boðið var upp á hér á Íslandi endaði á ekki ósvipaðan hátt og sú sem boðið var upp á vestan hafs. Fólk var ánægt og fannst það ríkt því það var skráður eigandi að húsnæði sem það átti þó ekki nema 10-20% í: svona svipað og að halda því fram að eiga 100kr. þegar 80 af þeim eru teknar að láni. Sjálfsblekkingin varð svo enn meiri þegar húsnæðisverð hækkaði einmitt vegna þess að aukin útlán stóðu til boða. En líkt og lýðurinn í Róm var ánægður svo lengi sem hann fékk leiki í hringleikahúsum og brauð með voru Íslendingar ánægðir svo lengi sem boðið var upp á nægilega mikið af útlánum. Á meðan voru stjórnmálamenn ánægðir því kjósendur voru ánægðir.

En bólan sprakk og það þarf að þrífa af borðum. Fjármálakerfið sjálft er enn í vandræðum vegna hárra skulda lántaka sem óvíst er að þeir ráði við. Íbúðalánasjóður er í vandræðum sem ekki sér fyrir endann á. Fyrri tíðar „fiff“ stjórnmálamanna þarf að laga.

Eitt væri að loka Íbúðalánasjóði. Nóg komið af tapi til handa framtíðarskattborgurum vegna þeirrar stofnunar. Vilji fólk auka möguleika tekjulágra til þess að búa í betra húsnæði en þeir gera á að hækka lágmarks framfærsluviðmið þeirra sem minnstar tekjurnar hafa. Í þeim hópi eru m.a. öryrkjar. Lækka mætti skatta á þá sem minnstar tekjurnar hafa svo það fólk hafi efni á að flytja í betra húsnæði. Þeir fjármunir sem sparast við að þurfa ekki að bjarga Íbúðalánasjóði enn meira en þurfa þykir mætti nota í þetta. Og munið að fólk þarf ekki að kaupa húsnæði – með 80-90% láni – til að því líði vel þar sem það býr.

Annað væri að taka peningamyndunarvaldið frá bönkunum eða að minnsta kosti koma böndum á það með mun öflugri hætti en nú er gert. „Let them eat credit“ væri þá ekki svo auðveldlega fjármagnað með nýmynduðum lánum og peningum frá bönkum sem græða mest þegar lántakar eru flestir. „Lán er lán“ er sannarlega rétt frá sjónarhóli banka.

Hið þriðja væri að endurskipuleggja lífeyrissjóðina, sérstaklega með blessaða ávöxtunarkröfuna í huga. Það er jú sannarlega „fiff“ hjá stjórnmálamönnum að setja lög um ákveðna skyldu lífeyrissjóða til lífeyrissgreiðslna sem aftur kallar á ákveðna ávöxtun fjármuna svo sjóðirnir geti staðið við hin lögfestu loforð. Þetta er ekki skynsamlegt! Hvað á að gera ef ekki er hægt að ná lágmarksávöxtuninni? Auka áhættuna í fjárfestingum? Lögin að baki lífeyriskerfinu eru satt best að segja ekki ósvipuð því að lögfest væri að ekki mætti taka lengri tíma en þrjár klukkustundir í að keyra milli Akureyrar og Reykjavíkur til að spara tíma því tíminn er peningar. Auðvitað þyrfti fólk þá að keyra eins og vitleysingar. Að sama skapi getur 3,5% viðmiðið ýtt lífeyrissjóðum í áhættufjárfestingar sem ekki geta talist skynsamlegar.

Hið fjórða væri að hætta að nota „útlánaveislur“ til að hylja yfir vandamál sem eiga sér rætur í öðru en skorti á útlánum. Ef Rajan hefur rétt fyrir sér og vandamálið er tekjuójöfnuður – kannski spilaði sú þróun sitt hlutverk á Íslandi meir en sú hugmynd að allir eigi að vera skráðir eigendur að húsnæðinu sem þeir búa í – þá þarf að sjá til þess að aðgengi að menntun og tekjumöguleikum sé sem jafnast (innskot: er þá t.d. góð hugmynd að draga úr starfsemi LÍN?) í stað þess að draga úr einkennum þess vandamáls með útlánaveislu. „Let them eat credit“ er ekki lausnin við slíku vandamáli ekki frekar en aspírin er lyfið við gláku. „Let them eat credit“ hefur raunar aldrei verið lausnin við einu né neinu öðru en ótta og fælni stjórnmálamanna frá því að takast á við erfið vandamál.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur