Sunnudagur 15.12.2013 - 14:50 - FB ummæli ()

Verðbólgan og ofmælingin á henni

Ég sá að Vilhjálmur Birgisson vísaði í orð mín þess efnis að verðbólga væri ofmetin á Íslandi með þeim afleiðingum að verðtryggð lán hækka í raun hraðar en verðbólgan (virðisrýrnun gjaldmiðils) er í raun og veru.

Ekki er minnst á neinar heimildir sem er óneitanlega eitthvað sem væri betra þegar svona löguðu er haldið fram, sérstaklega með þær fjárhagslegar afleiðingar sem ofmat á verðbólgu hefur á lántaka verðtryggðra lána – líkt og Vilhjálmur bendir á. Vonandi bætir þessi póstur úr heimildaleysinu.

1. Þessi ársgamli póstur vísar í Bjarna, Oddgeir, Stefaníu, 2011 ásamt  Kára, 2009. Þeirra mat var aðeins á einum af þeim þætti sem veldur því að verðbólga er ofmetin í mælingum. Þeirra mat, á þessum eina þætti, var 0,2-0,3 prósentustig fyrir Ísland. Þá á eftir að skoða aðra þætti sem hafa áhrif.

2. Sami póstur vísar í Moulton, 1996. Í töflu 1 má finna samantekt á nokkrum rannsóknum á heildarbjaganum í tilviki Bandaríkjanna. Minnsta neðra gildi er 0,2 próstentustig en hæsta efra gildi er 2,5. Meðaltal neðri gilda er 0,6 próstentustig, meðaltal efri gilda er 1,6 prósentustig.

3. Þá er einnig minnst á Wynne, 2005. Þar er matið, í tilviki verðbólgumælinga í Evrópu 1,0-1,5 próstentustig á ári.

4. Aðrar nýlegri rannsóknir eru t.d. Lebow og Rudd, 2003, sem uppfæra matið frá því á 10. áratugnum fyrir Bandaríkin. Þeir setja ofmatið á bilið 0,3-1,4 prósentustig með 0,9 sem líklegasta gildi. Handbury, Watanabe og Weinstein, 2013, benda á að ofmatið fer eftir því hversu há verðbólga er: því lægri sem hún mælist, því hærra er ofmatið. Með öðrum orðum virkar neysluverðslagsvísitalan betur eftir því sem verðbólga er hærri.

5. Svo að lokum má benda á Hagstofu Íslands sem hefur þetta um máið að segja í tilviki Íslands:

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Ekki hafa verið gerðar sérstakar rannsóknir á skekkju í íslensku neysluverðsvísitölunni

Það er því alls óvíst hversu mikil skekkjan er í íslensku neysluverðsvísitölunni. Besta (?) giskið er þá e.t.v. að miða, að minnsta kosti gróflega, við skekkjuna (ofmatið) í öðrum löndum. Þar er hún, sem fyrr segir, líklega á bilinu 0,2-2,5 prósentustig með ca. 1,0 prósentustig sem líklegasta gildi. Það gildi fer þó líklega eftir því hversu há verðbólgan er. Þá er ólíklegt að ofmatið sé alltaf það sama milli tímabila.

Það þýðir að 20 milljón króna verðtryggt lán hækkar um ca. 200.000kr. á einu ári vegna þessarar mæliskekkju í verðlagsmælingum einni saman.

Ekki þarf að taka það fram að þetta er slumpreikningur en eftir sem áður er um töluverðar upphæðir að ræða. Eða það finnst mér að minnsta kosti.

Þannig að kannski væri best að sleppa verðtryggingunni þangað til við vitum betur hvað við erum að gera?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur