Miðvikudagur 12.03.2014 - 23:34 - FB ummæli ()

Seðlabanki Englands um peningamyndun

„Fyrir löngu síðan“, þegar umræðan um skuldaniðurfellingu var fjörug, skrifaði ég grein þar sem ég reyndi að útskýra hvernig peningar myndast. Þar ritaði ég m.a.:

Einstaklingur fer í banka og biður um lán. Treysti bankinn (og lántakinn sjálfur) honum fyrir því að geta borgað lánið til baka og treysti einstaklingurinn á að geta eytt láninu á þann hátt sem honum sýnist mun útlánið og innlán lántaka samhliða því verða búin til. Úr algjörlega engu! 
Útlánið og innlánið sem lántakinn ætlar að nota til að gera hvað sem honum lystir við eru búin til á eftirfarandi hátt: bankinn bókar hjá sér að lántaki skuldi honum upphæð lánsins og bókar um leið að lántaki eigi hjá sér innistæðu sem er jafnhá upphæð lánsins.

Margir hristu hausinn yfir þessu. Ég fékk slatta af athugasemdum frá fólki sem spurði mig, í raun og reynd, hvort ég væri að grínast Sérstaklega átti ég að vera að grínast því „gamla góða hagfræðin“ var búin að svara spurningunni „hvernig verða peningar til?“ fyrir margt löngu síðan. Og ég var búinn að heyra það svar fyrir margt löngu síðan meðan ég var í BSc. námi í hagfræði við Háskóla Íslands. Svarið er m.a.s. á Vísindavefnum en þar er spurningunni svarað með hinum margfræga „peningamargfaldara“ bankakerfisins (ég mæli eindregið með því að fólk lesi svarið í heild – og gleymi því svo snarlega!):

Ef seðlabanki lætur aukið magn af seðlum og mynt í umferð þá eykst innstæða á margs konar reikningum mun meira vegna svokallaðra margfeldisáhrifa. Það gerist til dæmis vegna þess að þegar einn aðili leggur fé inn á bankareikning þá lánar bankinn hluta fjárins út aftur. Sá sem fær féð að láni eða viðskiptavinir hans leggja svo aftur einhvern hluta þess sem þeir fá inn á bankareikninga. Það fé er svo aftur lánað út og þannig koll af kolli. Heildarinnstæður á bankareikningum aukast því um margfalda þá upphæð sem upphaflega bættist við peningamagn í umferð.

Peningamargfaldarasagan er klassíska svarið við spurningunni „hvernig verða peningar til?“ Bankar endurlána, aftur og aftur, sama peninginn. Hér má lesa um peningamargfaldarann á Wikipedia.

Hvað er peningamargfaldarinn aftur?

Rétt er að taka örstutt saman hvað peningamargfaldarinn er. Það má lesa um hann í erindi sem ég sendi nefndasviði Alþingis í nóvember 2012. Ég ætla að segja ykkur strax að þetta er EKKI ferlið að myndun peninga í raun og reynd, ég vík að því síðar:

Í kennslubókum í hagfræði finnst venjulega útskýring í ætt við eftirfarandi á því hvernig peningar myndast.

Segjum til einföldunar að það sé aðeins einn banki í hagkerfinu. Lesandinn er beðinn um að ímynda sér að fyrir hverjar 100 kr. sem lagðar eru inn á innlánsreikning í banka skuli bankinn halda eftir til dæmis 10 kr. til öryggis í lausafé. Þetta hlutfall (10/100) er „bindiskylduhlutfall“ eða „bindiskylda“ og það er seðlabankinn sem ræður þessu hlutfalli. Bankinn getur því lánað út 90 kr. fyrir hverjar 100 kr. sem viðskiptavinur leggur inn í bankann. Bankinn veit að það er óhætt að lána út svo mikið því það eru þúsundir viðskiptavina sem eru með sín innlán hjá bankanum og það er harla ólíklegt að allir komi á sama tíma að ná í peningana sína. Bankinn er því í raun að notfæra sér „lögmál stórra talna“ (e. law of large numbers) með því að lána út 90 kr. af hverjum 100 kr. sem lagðar eru inn.

Þessum 90 kr. sem lánaðar eru út er eytt í vöru og þjónustu. Ef við segjum að A leggi 100 kr. inn í bankann og B tekur 90 kr. lán til að kaupa mjólk af C eru allar líkur á því að C muni leggja þessar 90 kr. inn í bankann aftur. Af þessum 90 kr. getur bankinn lánað 81 kr. til D og svo koll af kolli.

Þannig býr bankakerfið til nýja peninga að auki fyrir þá sem voru lagðir inn í upphafi með því að  endurlána sama peninginn aftur og aftur en þó sífellt lægri upphæð. Hægt er að reikna út nákvæmlega hve mikið af peningum verður í hagkerfinu að lokum þegar aðilar B, C, D, o.s.frv. eru allir búnir að taka sín lán. Heildarmagn peninga verður: 100/0.1 = 1000kr. Peningamargfaldarinn er með öðrum orðum 1/bindiskylduhlutfall.

Afleiðingar kenningarinnar um peningamargfaldarann eru m.a. eftirfarandi:

1. Frumskilyrði er að bankinn verður að fá pening fyrst í hendurnar áður en hann getur endurlánað hann aftur og aftur. Einhver – s.s. einstaklingur eða jafnvel seðlabankinn – verður að leggja pening inn í banka í upphafi til að bankinn geti lánað peningana út.

2. Seðlabankinn á að geta stjórnað því hversu mikið af peningum er í hagkerfinu með því að breyta bindiskylduhlutfallinu og stjórna nýprentun peninga.

3. Það er stærðfræðilegt hámark á því hversu mikið af peningum getur verið í hagkerfinu. Þetta hámark er upprunalegt innlegg margfaldað með peningamargfaldaranum.

4. Bankar eru hreinir milligönguaðilar lausafjár, þ.e. banki verður að finna lausafé fyrst hjá einum aðila sem hann svo lánar öðrum aðila. Lausafé bankans ætti því að minnka við lánveitingu samkvæmt þessari kenningu.

 Hér er líklega best að benda á að þessi kenning um myndun peninga hefur verið lengi við lýði á Íslandi, e.t.v. ekki síst hjá þeim sem eru áberandi í heimi hagfræðinnar á Íslandi. Hér er Eiríkur Guðnason, heitinn, sem síðar varð einn þriggja Seðlabankastjóra, að lýsa myndun peninga árið 1978. Þar notast hann við peningamargfaldarann. Gylfi Magnússon er höfundur svarsins á Vísindavefnum sem áður var vitnað í en það birtist árið 2000. Hér, árið 2013, er minn gamli lærifaðir, Ásgeir Jónsson, að notast við peningamargfaldarann til að útskýra aukningu peningamagns í umferð, sérstaklega í kjölfar lækkunar bindiskyldunnar árið 2003. Og hér eru glærur af vef Háskóla Íslands, mér sýnist úr Þjóðhagfræði I muni ég rétt (allavega er kennslubókin örugglega eftir Mankiw), þar sem peningamargfaldarinn er útskýrður (glæra 42 og áfram). Og ég ætla ekki að gleyma því að sjálfur notaðist ég í mörg ár við peningamargfaldarann til að (reyna að) skilja bankastarfsemi! Það er aðeins nýlega (ca. síðan 2009) að augu mín opnuðust.

Seðlabanki Englands um peningamyndun

En þetta er orðinn langur inngangur að ástæðunni fyrir því hví ég byrjaði að skrifa „á blað“. Ástæðan er nýr pappír frá Seðlabanka Englands. Höfundarnir eru þrír aðilar frá „Framkvæmdastjórn Peningagreiningar“ (e. Monetary Analysis Directorate). Einhver myndi halda að slíkir einstaklingar af „framlínu“ peningakerfisins vissu eitthvað um hvað þeir eru að tala þegar kemur að peningakerfinu. Pappírinn útskýrir m.a. hvernig greiðslukerfið virkar – eitthvað sem var aldrei kennt í BSc. náminu í hagfræði en ætti, að mínu mati, réttilega að vera það.

En eftirfarandi beinar tilvísanir eru sérstaklega hvað varðar peningamargfaldarann. Ég leyfi mér að notast beint við enska textann þegar ég vísa í þá. Afsakið ef einhverjum þykir tilvísanirnar vera að segja það sama, ég vil vera viss um að meiningin komist til skila:

Money creation in practice differs from some popular misconceptions — banks do not act simply as intermediaries, lending out deposits that savers place with them, and nor do they ‘multiply up’ central bank money to create new loans and deposits.

Og:

In the modern economy, most money takes the form of bank deposits. But how those bank deposits are created is often misunderstood: the principal way is through commercial banks making loans. Whenever a bank makes a loan, it simultaneously creates a matching deposit in the borrower’s bank account, thereby creating new money.

The reality of how money is created today differs from the description found in some economics textbooks:

• Rather than banks receiving deposits when households save and then lending them out, bank lending creates deposits.

• In normal times, the central bank does not fix the amount of money in circulation, nor is central bank money ‘multiplied up’ into more loans and deposits.

Og:

The vast majority of money held by the public takes the form of bank deposits. But where the stock of bank deposits comes from is often misunderstood. One common misconception is that banks act simply as intermediaries, lending out the deposits that savers place with them. In this view deposits are typically ‘created’ by the saving decisions of households, and banks then ‘lend out’ those existing deposits to borrowers, for example to companies looking to finance investment or individuals wanting to purchase houses.

In fact, when households choose to save more money in bank accounts, those deposits come simply at the expense of deposits that would have otherwise gone to companies in payment for goods and services. Saving does not by itself increase the deposits or ‘funds available’ for banks to lend. Indeed, viewing banks simply as intermediaries ignores the fact that, in reality in the modern economy, commercial banks are the creators of deposit money. This article explains how, rather than banks lending out deposits that are placed with them, the act of lending creates deposits — the reverse of the sequence typically described in textbooks.

Another common misconception is that the central bank determines the quantity of loans and deposits in the economy by controlling the quantity of central bank money — the so-called ‘money multiplier’ approach.

Enska orðið „misconception“ þýðir misskilningur, ranghugmynd, eða rangtúlkun. Seðlabanki Englands kallaði s.s. peningamargfaldaramódelið um myndun peninga misskilning. Íslenskir hagfræðingar hafa s.s. margir verið haldnir misskilningi um hvernig peningar myndast – kannski á svipaðan hátt og þegar Hildur Líf misskildi sjálfa sig hér um árið? Vafalaust hafa einhverjir aðrir verið haldnir þeim misskilningi m.v. þær athugasemdir sem ég fékk eftir að ég skrifaði textann sem ég vísa í í byrjun þessarar greinar.

Og hvað með það þótt peningamargfaldarinn sé rugl?

Staðreyndin um að peningamargfaldaramódelið um myndun peninga er „misskilningur“ er ekki léttvæg.

Eins og ég vék að í erindi mínu til nefndasviðs Alþingis þá er ein afleiðing módelsins m.a. sú að Seðlabanki Íslands getur haft teljandi áhrif á peningamagn í umferð. En sannleikurinn er að hann getur það ekki því peningamyndun bankakerfisins er ekki í samræmi við peningamargfaldaramódelið. Seðlabanki Íslands „leiðir“ ekki bankana þegar kemur að myndun peninga: það er akkúrat öfugt!

Peningamargfaldaramódelið tengist líka vaxtastefnu seðlabanka. Þótt ég fari ekki í þá sálma hér þá eru margir hagfræðingar sem halda og hafa haldið því fram að vaxtastefna seðlabanka sé, jafnvel, svo gott sem gagnslaus til þess að halda aftur af peningamyndun. Einhverjir Íslendingar gætu hugsað nokkur ár aftur í tímann og spurt sig hvort það sé ekki svo gott sem augljóst! Og ef vaxtastefna seðlabanka virkar, ætti þá ekki að vera mikil aukning lánsfjármagns í t.d. Evrópu þar sem stýrivextir Evrópska Seðlabankans eru 0,25%? En svo er ekki: aukning lánsfjármagns nú er mun minni en hún var þegar stýrivextir evrópska Seðlabankans voru mun hærri.

En vaxtastefna seðlabanka er ekki tilgangslaus þótt hún hafi, að öllum líkindum, afskaplega takmörkuð áhrif á peningamyndun. Keynes benti á að sé hagkerfi með eiginn gjaldmiðil getur það ráðið eigin vöxtum – algjörlega – sé peningastefnan notuð rétt (og það er hún ekki í dag)! Að hans mati átti að notast við sjálfstæðan seðlabanka til þess að lækka langtímavexti innan hagkerfisins niður í hvaða tölu sem talin væri skynsamleg til þess að ná fullu atvinnustigi öllum stundum. Bretar notuðu hans kenningar í stuttan tíma og náðu langtímavöxtum verulega niður (sjá örstutt innlegg um það hér). Þetta væri líka hægt á Íslandi: vextir gætu verið mun lægri væri peningastefnu Seðlabankans beitt rétt.

Margir hagfræðingar sem komu í kjölfar Keynes studdu notkun magntakmarkana á lána- og þar með peningamyndun bankakerfisins í stað vaxtatækisins (ekki það sama og hugmynd monetarista um fastan vöxt peningamagns). Margir seðlabankar í heiminum (UK, US, Frakkland, Þýskaland, Japan,…) hafa notast við magntakmarkanir á lánaveitingum banka í stað vaxtatækisins til þess að hafa áhrif á hagkerfið. Og í mörgum tilvikum gekk það mjög vel. Þessir hagfræðingar skildu að bankakerfið virkar ekki eins og peningamargfaldarinn segir til um.

Það þarf að ræða og nálgast stjórnun peningamála á Íslandi af alvöru. Hluti af því ferli er að átta sig á því hvernig peningakerfið virkar – og það virkar ekki eins og peningamargfaldaramódelið segir til um. Og þetta breytir svo miklu: um leið og það er skilið almennilega að bankar starfa ekki í samræmi við peningamargfaldarann opnast dyr í rétta átt að því að stjórna peningakerfinu eins og á að stjórna því!

Til dæmis verður, í ljósi þess að peningamargfaldarinn er í raun ekki til, að ræða hvort það sé þá skynsamlegt að ætla að notast við „Verðbólgumarkið plús“eins og minnst hefur verið á eftir að við losnum við höft (hvenær sem það á gerast…)? Og ef svo, hvernig á þá að byggja upp Verðbólgumarkið plús? Er e.t.v. betra að setja beinar magntakmarkanir á lána- og þar með peningamyndun banka? Hvernig ættu þær að vera uppbyggðar? Og hvað með að banna bönkum yfir höfuð að búa til peninga og láta Seðlabankann um það allt saman – hugmyndir í ætt við þær sem Betra Peningakerfi (og fleiri félög í öðrum löndum) er með?

Þess vegna er það ekki léttvægt að peningamargfaldaramódelið sé rugl. Burtséð frá því að hagfræðinemum við Háskóla Íslands er kenndur „misskilningur“ þá skiptir þetta máli varðandi uppbyggingu peningakerfisins sjálfs. Þess vegna verður að skilja hvernig bankar búa til peninga!

P.S. Hvernig væri að breyta svarinu á Vísindavefnum? Varla á að láta rangt svar standa þar óhreyft lengi, eða hvað?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur