Föstudagur 15.08.2014 - 11:22 - FB ummæli ()

Hinn bitri sannleikur um krónuna

Eftirfarandi innslag er lengri útgáfa af grein sem birtist í nýjasta tölublaði Kjarnans. Kafað er dýpra í grundvöll gjaldmiðla og hvernig einkageirinn fylgir hinu opinbera eftir. Einnig er rætt lítillega betur um vaxtamuninn milli hagkerfa í samhengi við landsframleiðslu á mann.

Vonandi er örlitlu kjöti bætt á beinin samanborið við styttri útgáfu greinarinnar í Kjarnanum. Þó má fjalla mun dýpra um málefnið, t.d. áhrif seðlabanka á lengri enda vaxtarófsins og hvernig seðlabankinn getur stjórnað langtímavöxtum eins og hann vill með peningamálastefnunni. Þá er ekkert farið í hvað kæmi í staðinn fyrir peningamálastefnu keyrða á stýrivaxtabreytingum en skynsamlegasti kosturinn er líklega margnotuð aðferð seðlabanka í gegnum tíðina: lánastýring (sem m.a. hefur verið kölluð „credit controls“ á ensku en fleiri nöfn eru notuð fyrir hugtakið). Lánastýring getur komið í mörgum formum og myndum og getur farið út um þúfur eins og aðrar aðferðir við peningamálastjórnun. En fáar aðrar aðferðir eru þó jafn áhrifaríkar þegar á hólminn er komið.

———————

Krónan, líkt og langflestir gjaldmiðlar, er gefin út af hinu opinbera.  Grundvöllurinn fyrir tilvist hennar er sú sama og flestra annarra gjaldmiðla í gegnum tímann: þú, íbúi Íslands, borgar skattana þína í krónum. Ef þú borgar þá ekki ferðu í steininn og þar sem fæstir vilja enda í tugthúsinu býr þetta til eftirspurn eftir krónum. Þetta gerir það að verkum að einföld bókhaldsfærsla á borð við innistæðu á tékkareikningi, áður gerð á leirtöflur en nú á tölvuskjá, verður eftirsóknarverð þar sem innistæðu þessa má nota sem greiðslu fyrir skattaskuldum yðar.

Þess vegna er krónan til: hið opinbera segir að þú skulir borga skattana þína í krónum ellegar enda í grjótinu. Einkaaðilar, sem þurfa að borga skatta, fylgja svo hinu opinbera eftir og setja upp samninga þar sem upphæðir eru í krónum, t.d. verð mjólkurlítra út í búð. Bankar, sem eru milligönguaðilar milli hins opinbera og skattborgara, búa svo til bókhaldsfærslur, í krónum, á sínum efnahagsreikningum og hafa þar með áhrif á magn króna í umferð sem samþykktar eru sem fullnaðargreiðsla milli einkaaðila: debetkortafærsla er safn bókhaldsfærslna á efnahagsreikningum bankastofnana kaupanda og seljanda þeirrar vöru sem greitt er fyrir.

Eftir sem áður verða bankar alltaf að hafa „forða“ í formi eigin innistæða hjá Seðlabanka Íslands. Hafi þeir það ekki geta þeir ekki verið milligönguaðilar í viðskiptum manna á milli því það eru þessar innistæður sem ganga milli banka þegar viðskiptavinir þeirra sveifla debetkortinu. Eini útgefandi þessara innistæða er Seðlabanki Íslands, þ.e. hið opinbera. Þessar innistæður eru bókhaldsfærslur og í krónum. Þar sem þessar krónur, líkt og aðrar, eru bókhaldsfærslur getur hið opinbera búið til eins mikið af krónum og það vill hvenær sem það vill, eins og t.d. sást þegar Seðlabanki Íslands fékk 270 milljarða nýtt eigið fé, í formi ríkisskuldabréfs, árið 2008. Þessar krónur komu hvergi, enginn hafði nýverið borgað þær í skatta og enginn prentaði þær. Þær voru einfaldlega stimplaðar inn í tölvu á Kalkofnsvegi 1. En þótt myndun króna fyrir hið opinbera sé eins auðveld og raun ber vitni er sannleikurinn samt sá að bankar gefa út ca. 95% af þeim krónum sem notaðar eru sem fullnaðargreiðsla í viðskiptum manna á milli á Íslandi. Hlutfallið er svipað í mörgum öðrum löndum.

Allt þetta er ekkert nýtt og ekkert framandi. Og allt þetta er mjög svipuð grundvallaruppbygging að baki gjaldmiðli og uppgjörskerfi viðskipta og í hverju öðru landi, stærsta spurningin er hvort viðkomandi opinberu stofnanir geti búið til bókhaldsfærslurnar að vild eða ekki, þ.e hvort hið opinbera hafi fullveldi þegar kemur að útgáfu peninga. Sem dæmi er Bretland fullvalda ríki þegar kemur að útgáfu eigin peninga, þ.e. pund, en það eru evrulöndin ekki því hinn endanlegi útgefandi evrunnar er Seðlabanki Evrópu, sem er fjölþjóðastofnun. Ísland er fullvalda ríki þegar kemur að útgáfu krónunnar.

Krónan er því eins og hver annar gjaldmiðill. Hún er gjaldmiðill því hið opinbera segir að hún sé það, þ.e. með henni og henni einni skalt þú borga skatta á Íslandi. Það er því umhugsunarefni hví Íslendingar virðast vilja kenna þessum gjaldmiðli um hitt og þetta sem öðrum gjaldmiðlum er ekki kennt um. Grein Bjarna Janusarsonar í Kjarnanum 7. ágúst síðastliðinn var góð að því leyti að í henni kristölluðust svo mörg af þeim atriðum sem krónunni er kennt um. Ég ætla að nefna eftirfarandi og reyna að útskýra hví þau atriði eru röng.

Krónan og vextir

Röksemdafærslan fyrir því að krónan hafi áhrif til hækkunar á vaxtastig á Íslandi er í stuttu máli sú að þar sem svo fáir eru að nota krónuna (hagkerfið er svo lítið) þá er eftirspurn eftir henni lítil og vextir verða að vera hærri til að lokka aðila inn í þá stöðu að eiga krónur. Væri þetta raunin ætti þetta að gilda í öðrum hagkerfum líka, þ.e. lítil hagkerfi, með eigin mynt, ættu að vera með hærri vexti en stór hagkerfi með eigin mynt.

Raunin er að fylgnin þar á milli er svo veik – sjá Mynd 1 – að hættulegt og jafnvel beinlínis rangt væri að halda því fram að þetta væri almennt reglan.

Mynd 2 sýnir raunar að sambandið er mun sterkara milli landsframleiðslu á mann og vaxtastigs: því meira sem framleitt er á haus í hagkerfinu, því lægri eru vextirnir. Uppbyggilegt stofnanalegt umhverfi hefur mikilvæg áhrif á báða þessa þætti og því er ekki ólíklegt að fylgnin sem sést á Mynd 2 sé ekki að lýsa ströngu orsakasamhengi milli þessara þátta heldur kristöllun á mismunandi stofnanalegu umhverfi landanna sem um ræðir. Sum löndin hafa einfaldlega komið sér upp stofnanalegu umhverfi sem er jákvætt fyrir bæði vaxtastig og meðaltekjur (landsframleiðslu á mann). Þótt vissulega verði að hafa í huga hugsanlegt tvíhliða orsakasamhengi milli þessara þátta þá væri þetta í góðu samræmi við niðurstöðu Acemoglu og Robinson (2013): rík lönd hafa komið sér saman um stofnanalega þætti sem styðja við einkaframtak, pólitíska og efnahagslega miðstjórn sem er byggð á sanngirni og óskum heildarinnar en ekki háværra þrýstihópa, almenna framþróun og ódýra en hæfilega mikla fjármögnun til þeirra sem eiga hana skilið (en ekki vegna þess að þeir eiga „vini“ á réttum stöðum). Í stuttu máli það sem almennt mætti kalla „sanngjarnt“og „siðferðislega þroskað“ (e. fair and moral) þjóðfélag.

vextir og landsframleidsla_mynd1 vextir og landsframleidsla_mynd2 Ath.: Unnið upp úr tölum frá OECD. Gögn fyrir 2012 og 2013, USD á PPP, grunnár 2005. Ísland er litað rautt. Vextir langtímaríkisskuldabréfa leiðréttir fyrir verðbólgu. Eingöngu unnið með lönd sem notast við eiginn gjaldmiðil sem ekki er notaður í gjaldeyrisforðum annarra landa (USD, EUR, GBP, JPY, CHF sleppt) líkt og raunin er með krónuna. Löndin eru, í minnkandi röð eftir vöxtum: Ungverjaland, Síle, Nýja Sjáland, Ísrael, Svíþjóð, Kórea, Ísland, Kanada, Ástralía, Danmörk, Tékkland, Noregur.

Allt í allt sýnir þetta að minnsta kosti að að krónan, sem gjaldmiðill, hefur hverfandi og líklegast engin áhrif á vaxtastig á Íslandi.

En ef gjaldmiðillinn hefur engin áhrif á vexti, hvað er það þá? Og hvað eru vextir?

Vextir eru, í grundvallaratriðum og burtséð frá mikilvægum stofnanalegum áhrifum, það verð sem þú vilt fyrir að gefa eftir tafarlaus yfirráð yfir ákveðinni upphæð reiðufjár. Þú færð ekki vexti fyrir það að eyða ekki peningunum þínum, þ.e. spara, því þú getur ákveðið að spara sömu upphæð í formi reiðufjár eða með því að lána fyrirtæki úti í bæ. Sparir þú ákveðna upphæð í formi reiðufjár geturðu eytt viðkomandi upphæð hvenær sem þú vilt, sem veitir þér hugarró og getu til að mæta ófyrirsjáanlegum útgjöldum. Þetta getur þú ekki ef þú lánar til fyrirtækis úti í bæ því þú verður að bíða eftir því að lánið verði greitt til baka. Þess vegna heimtar þú vexti af láninu til fyrirtækisins en þú færð enga vexti þegar þú sparar í formi reiðufjár: þú færð vexti fyrir að samþykkja að gefa eftir þá getu þína að geta eytt peningunum þínum hvenær sem þér dettur í hug eða hvenær sem þú virkilega þarft þess.

Keynes, sem var peningahagfræðingur umfram allt, benti réttilega á skammtíma vextir gætu verið hverjir sem er. Fyrir utan 4. áratug síðustu aldar, þegar hið opinbera fylgdi ráðgjöf Keynes og sýnt var fram á í verki að hann hafði rétt fyrir sér, hefur kreppan eftir 2008 sýnt hið sama: stýrivextir, þ.e. skammtímavextir, víðsvegar um heiminn eru nú nærri núlli. Seðlabanki Íslands getur gert nákvæmlega hið sama og stærstu seðlabankar heims þegar kemur að stýrivöxtum á Íslandi. Það er ekki krónan sem stoppar stýrivexti á Íslandi frá því að vera „hverjir sem er“. Það er hagfræðimódel Seðlabanka Íslands og sú (ranga) hugmynd að best sé að hafa áhrif á gang hagkerfis með stýrivaxtabreytingum.

Meginvandamálið, samkvæmt Keynes, var þó langtímavextir og hvernig ætti að koma böndum á þá svo ekki skapaðist óstöðugleiki í hagkerfinu. Þótt málið væri flóknara þegar kæmi að langtímavöxtum var það ennþá stofnanaumgjörðin sem skipti mestu máli. Dæmi um augljós áhrif stofnanaumgjarðarinnar á Íslandi á langtímavexti er uppbygging lífeyrissjóðakerfisins. Það þarf ekki að segja mörgum það að ef stærsti aðilinn á einhverjum markaði er lagalega skyldugur til þess að heimta ákveðið, og hátt, verð fyrir vöruna sem hann höndlar með mun það hafa teljandi áhrif á markaðinn allann. Er virkilega einhver sem heldur því fram að 3,5% viðmiðið hafi ekki teljandi áhrif á langtímavexti á Íslandi? Sá hinn sami vill þá væntanlega halda því fram að verðlagsráð hins opinbera hafi ekki haft áhrif á mjólkuverð á Íslandi eða að vaxtaþök og –gólf hins opinbera á bankakerfið á sínum tíma hafi ekki haft áhrif?

Fylgjandi ráðleggingum Keynes sýndi hið opinbera í Bretlandi að ekki aðeins væri hægt að hafa skammtímavexti hverja sem er heldur gilti hið sama um langtímavexti. Það sem þurfti var að beita peningamálastefnunni á ákveðinn máta, sem og var gert með góðum árangri (þar til Keynes dó árið 1946). Hægt væri að nota svipaða peningamálastjórn á Íslandi og með henni væri komið í veg fyrir yfirgengilegar sveiflur í vöxtum. Vandamálið sem stafar af lífeyrissjóðakerfinu er hins vegar utan við áhrifasvið peningamálastefnunnar. Það vandamál verður að leysa á annan hátt: að horfast í augu við það og taka á því.

Athugið að hér hefur ekkert verið minnst á gjaldmiðilinn enda ekki ástæða til: áhrifin af litlum gjaldmiðli á vexti er engin og í versta falli hverfandi – sem sjá má á Mynd 1. Hins vegar, líkt og stofnanalegir þættir, hafa væntingar mikil áhrif á vaxtastig (og þetta vissi og notfærði Keynes sér). Og einn áhrifaþáttur væntinga er verðbólga.

Krónan og verðbólga

Krónan hefur misst mest allt upprunalegt verðgildi sitt síðan hið opinbera setti hana á stofn. Með öðrum orðum hefur verðbólga „verið fylgifiskur krónunnar“ eins og einhver gæti komist að orði.

Nú tel ég mig sæmilega að mér kominn, þótt ég segi sjálfur frá, þegar kemur að kenningum um orsakir verðbólgu. Nefna má aukna eftirspurn, áföll á framboðshliðinni, átök á vinnumarkaði, aukið peningamagn, breytingar í smásöluálagi, skattabreytingar og þannig mætti áfram telja. Ég hef hins vegar aldrei séð alþjóðlega viðurkennda kenningu þess efnis að gjaldmiðlinum sjálfum sé kennt um eigin virðisrýrnun. Samt á það að vera raunin í tilviki Íslands. Orð Bjarna í fyrrnefndri grein eru dæmi: „Krónan veldur einnig hærri verðbólgu. Verðbólgan er mikil af því að við erum með litla og veika mynt.“

Tökum augljósasta dæmið um áhrifavald verðbólgu: peningamagn í umferð. Við getum öll verið sammála um að krónan, sem gjaldmiðill, ræður engu um það hvað mikið er búið til af henni. Það eru bankar sem búa til ca. 95% af krónum, þ.e. peningum, í umferð á Íslandi. Og frá 1886, sem er ártalið sem tölur Hagstofunnar ná aftur til, til ársloka 2013 jókst peningamagn í umferð ríflega 211.000.000-falt.

Þrátt fyrir að hagkerfið hafi stækkað töluvert síðan þá er sú stækkun hverfandi í samanburði við þessa tölu. Þess vegna hefur verðbólga „verið fylgifiskur krónunnar“ síðan hún var sett á fót: virðisrýrnun krónunnar hefur ekkert með það að gera að hún sé „lítil og veik mynt“ heldur vegna þess að það er búið að búa til of mikið af henni í gegnum tíðina. En það er ekki henni að kenna heldur okkur sjálfum.

Krónan og verðtrygging

Verðtrygging er hluti af stofnanaumgjörð íslenska hagkerfisins. Líkt og svo margir aðrir stofnanalegir þættir var verðtrygging sett á laggirnar sem svar við þáverandi vandamáli: verðbólgu. Við höfum þegar séð að verðbólga hefur ekkert með gjaldmiðilinn að gera og því er fráleitt að halda því fram að gjaldmiðillinn hafi eitthvað með verðtryggingu að gera: ef A (krónan) leiðir ekki af sér B (verðbólgu) en B leiðir af sér C (verðtrygging) leiðir A ekki af sér C.

En verðtryggingin hefur hvetjandi áhrif á verðbólgu. Þetta atriði var augljóst í upphafi þegar laun voru verðtryggð og í fyllilegu samræmi við þá fræðilegu niðurstöðu að því algengari sem verðtrygging er í hagkerfi, því hærri verður verðbólga (því nafnstærðir innan hagkerfisins munu sífellt hækka á víxl en hundurinn nær aldrei að bíta í skottið á sér, sama hversu hratt hann hleypur). Þegar verðtrygging launa var tekin úr sambandi minnkuðu þessi áhrif. En þau eru ennþá til staðar. Verðbólga á Íslandi hefur verið há m.a. vegna þess að verðtrygging er algeng og þótt hundurinn hlaupi ekki jafn hratt í hringi og hann gerði þá hleypur hann enn.

Þess aukin heldur hefur verðtryggingin áhrif á peningamálastefnu Seðlabankans: lántakar verðtryggðra lána eru varðir fyrir stýrivaxtabreytingum svo þörf verður á enn meiri breytingum, þ.e. sveiflum, í stýrivöxtum til að ná fram áætluðum áhrifum á hagkerfið. En einmitt þessar stýrivaxtabreytingar eru að stórum hluta ábyrgar fyrir spákaupmennsku með krónuna sem aftur veldur því að gengi hennar verður sveiflukennt til skamms tíma. Langtímasveiflan eykst líka því ekki tekst að halda aftur af útþenslu peningamagns í umferð með peningamálastefnunni eins og hún er framkvæmd í umhverfi verðtryggingar. Afleiðingin verður verðbólga, viðskiptahalli og gengisfall sem jafnvel getur endað, eins og raunin varð, með gjaldeyrishöftum til að stoppa gengisfallið.

Skilningur á þessu er blessunarlega að aukast, samanber orð Afnámsnefndarinnar um verðtryggingu: „ Hækkun stýrivaxta Seðlabankans hefur í för með sér hækkun útlánavaxta lánastofnana… Með þessu móti hafa stýrivextirnir mun meiri áhrif á eftirspurn heimila með óverðtryggð lán en heimila með verðtryggð jafngreiðslulán… Bætt leiðni stýrivaxta ætti að vera jákvæð fyrir peningastefnu Seðlabankans og gerir hlutverk hans ábyrgðarmeira.“

Að finna blóraböggul

Sannleikurinn um krónuna er bitur. Hann er bitur því þótt mörgum þyki það þægilegt þá er ekki hægt að benda á hana sem blóraböggul fyrir heimatilbúin vandamál Íslendinga. Háir vextir, verðbólga, viðskiptahalli og gengissveiflur hafa ekkert með krónuna að gera heldur stofnanalegt umhverfi hagkerfisins. Krónan er saklaus bakari í hagkerfi sem smiðurinn – Íslendingar – hefur búið til stofnanalega umgjörð um sem hefur ákveðnar efnahagslegar afleiðingar. Og sem endranær er lausnin ekki að hengja bakarann þegar smiðurinn er sekur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur