Miðvikudagur 17.09.2014 - 11:29 - FB ummæli ()

Áburður, atvinna og unga fólkið

Stjórnmálamenn skortir vanalega ekki hugmyndir til að búa til störf og lækka atvinnuleysi (og stuðla þar með að eigin endurkjöri). En hugmynd Framsóknarmanna um að byggja áburðarverksmiðju er líklega ein af þeim hugmyndum sem seint myndi komast hátt á lista hugmynda raðað eftir því hversu áhrifaríkar þær eru við atvinnusköpun að teknu tilliti til kostnaðar: 150-200 bein störf er ekki mikið. En ef hugmyndin með uppbyggingu íslenskrar áburðarverksmiðju er „að skapa ný vel launuð störf hér á landi til að vinna bug á atvinnuleysi, til að laða brottflutta Íslendinga aftur heim og til að vekja ungum Íslendingum von í brjósti um að stjórnvöld ætli sér að skapa þeim tækifæri og atvinnuöryggi í framtíðinni“ þá get ég bent á aðra betri hugmynd.

Atvinnuleysi og hið opinbera

Fyrst skulum við átta okkur á því að það er venjulega einkageirinn sem skapar „vel launuð störf“. Einkageirinn skapar hins vegar ekki starf fyrir starfsmann nema eftirspurn sé eftir því sem viðkomandi starfsmaður mun framleiða. Eftirspurn skapast vegna þess að fólk hefur tekjur og einkageirinn mun þá og því aðeins viðhalda eða þenja út hringrás tekna innan sjálfs síns ef væntingar eru fyrir hendi að hægt sé að selja framleiðsluna sem einkageirinn framleiðir. Þessar væntingar, sem eru svo mikilvægar fyrir ákvarðanir innan einkageirans þegar kemur að ráðningu starfsmanna, eru undir miklum áhrifum af hagtölum á borð við atvinnuleysi. Hátt atvinnuleysi þýðir að fólk innan hagkerfisins hefur lægri tekjur en ella og því er útlit fyrir lægri sölutekjur en ella – því fólk hefur ekki efni á því að kaupa hluti. Hátt atvinnuleysi þýðir m.ö.o. að einkageirinn dregur saman seglin sem í alvarlegustu tilvikunum leiðir til þess að atvinnuleysi hækkar enn frekar: neikvæð afturverkun (e. negative feedback) myndast þar sem atvinnuleysi nærist á sjálfu sér.

Þetta er, í mjög stuttu máli, það sem gerðist í Kreppunni miklu. Til að koma í veg fyrir að neikvæða afturverkunin nái fótfestu er það almennt viðurkennt í dag að viðhalda verður tekjum innan hagkerfisins þegar atvinnuleysi eykst. Þetta er gert með opinberum aðgerðum, s.s. atvinnuleysisbótum. Önnur aðferð eru opinberar framkvæmdir – eins og t.d. að byggja áburðarverksmiðju – en þær eru stundum síður en svo sérstaklega gáfulegar.

Ekki áburð heldur beina atvinnusköpun

Þriðja leiðin og sú allra áhrifaríkasta er að hið opinbera búi til störfin beint eða verði það sem er kallað „Vinnuveitandi af síðustu sort“ (e. employer of last resort) sem ég ætla hér að skammstafa VISS.

VISS hefur verið notað á margvíslegan hátt í gegnum tíðina og hægt er að finna dæmi um hugmyndina a.m.k. aftur til 17. aldar (hjá einum af upphafsmönnum laissez-faire stefnunnar í Englandi, William Petty – þótt hugmyndir hans um atvinnusköpun hafi ekki alltaf verið í gáfulegri kantinum). Frægust eru öll prógrömmin sem voru sett upp af Roosevelt á kreppuárunum (sjá t.d. Works Progress Administration, Civil Conservation Corps, National Youth Administration, Rural Utilities Service). Í Argentínu var Plan Jefes  y Jefas sett upp árið 2002 og þótt það hafi verið takmarkað að stærð (hver sem er gat ekki fengið vinnu í gegnum það) voru heildaráhrifin á atvinnuleysi og fátækt mjög jákvæð (sjá t.d. Tcherneva og Wray, 2005). Á Indlandi er National Rural Employment Guarantee rekið.

Á Íslandi væri hægt að fjármagna VISS prógramm með atvinnuleysisbótum í dag. Ca. milljarður er greiddur út í atvinnuleysisbætur á hverjum mánuði og þessa fjármuni mætti einfaldlega nota til að borga fólki fyrir að vinna í staðinn fyrir að vera atvinnulaust. Sé miðað við að VISS prógram myndi borga laun ekki fjarri grunn neysluviðmiðum mætti borga 4.000 manns (til samanburðar voru 6.000 einstaklingar atvinnulausir í júní síðastliðnum) 250.000 á mánuði (heildarlaunakostnaður einn milljarður og til samanburðar eru grunnatvinnuleysisbætur 179.000 á mánuði) fyrir ýmis konar störf sem kæmi samfélaginu vel. Nokkur dæmi um slík störf væru:

– uppgræðsla lands

– hreinsun gatna, garða og lands

– viðhald í kirkjugörðum

– uppbygging stíga og annarrar aðstöðu við helstu ferðamannastaði Íslands

– mönnun æskulýðsstöðva

– mönnun á bílastæðagæslu og fleira tilfallandi þegar kemur að atburðum á borð við íþróttaviðburði, tónlistarviðburði o.fl.

– skrásetning sagna úr héruðum (sjálfur kem ég úr Skagafirði og hefði gaman af því ef allar sögurnar úr þeirri sveit væru til á prenti/á rafrænu formi og ég þykist vita að svipað sé uppi á teningnum í öðrum landshlutum)

– viðhald á húsnæði hins opinbera

– gæsla við leik- og grunnskóla, s.s. við gangbrautir

– lagning og uppbygging vega, stíga og annarra innviða

– smalanir búfjár á haustin

– menntun starfsfólks, s.s. viðhald hæfileika eða námskeið við atvinnuleit svo viðkomandi einstaklingur finni vinnu fyrr

– … o.s.frv.

Allt eru þetta verkefni sem krefjast vinnuafls og sum verkefna væri hægt að sérsníða að hæfileikum og kunnáttu viðkomandi einstaklings: mannfræðingur gæti fengið vinnu í gegnum VISS prógramm við að skrá sagnir úr héruðum meðan smiður gæti fengið vinnu við að viðhalda húsnæði hins opinbera. Þá er það vitanlega ekki ætlunin að þetta sé framtíðarstarf heldur eru þetta skammtímastörf sem hægt er að vinna meðan leitað er að betri vinnu í einkageiranum, vinnu sem myndi borga betur en 250.000 á mánuði.

Athugið að kostnaður væri hverfandi eða enginn fyrir hið opinbera því mun minna, eða ekkert, væri greitt í atvinnuleysisbætur á meðan. Og til að sjá hversu áhrifaríkt VISS prógramm væri við atvinnusköpun má nefna að uppbygging áburðarverksmiðju á að kosta ca. 120 milljarða og skapa 150-200 bein störf. 120 milljarðar á núvirði myndu fjármagna VISS prógramm fyrir 4.000 manns í 13 ár m.v. 250.000 krónur í (raun)laun á mánuði.

Áhrifin af VISS prógrammi

Atvinnuleysisbætur hafa þann kost að þær stoppa neikvæðu afturvirknina svo atvinnuleysi hættir að nærast á sjálfu sér. VISS prógramm myndi gera nákvæmlega hið sama. Kostirnir við VISS prógramm umfram atvinnuleysisbætur eru hins vegar margir aðrir.

Í fyrsta lagi er hæfileikum fólks viðhaldið og þeir jafnvel auknir í staðinn fyrir að viðkomandi geri ekki neitt á meðan hann leitar – eða leitar ekki – að vinnu. Þetta er jákvætt í augum einkarekins fyrirtækis sem vill ekki ráða til starfa starfsfólk sem hefur takmarkaða reynslu eða þekkingu. Þetta er sérstaklega mikilvægt í tilviki ungs fólks.

Í öðru lagi er komið í veg fyrir að fólk skrái sig á atvinnuleysisbætur í von um „frían pening frá ríkinu“. Í VISS prógrammi er unnið fyrir laununum en þau eru líka nægilega há til að sjá viðkomandi farborða (m.v. neysluviðmið).

Í þriðja lagi er hægt að notast við VISS prógramm til að framkvæma samfélagslega jákvæð störf sem einkageirinn sér sér ekki hag í að framkvæma: hreinsun gatna og garða, uppbygging innviða á borð við vegi, rafmagnskerfi, o.s.frv., gæsla ýmis konar í samstarfi við löggæslu og björgunarsveitir, o.fl.

Í fjórða lagi er ALLTAF hægt að finna vinnu í gegnum VISS prógramm og þar sem tekjurnar eru miðaðar við lágmarksgrunnframfærslu kemur prógrammið í veg fyrir sára fátækt. Á sama tíma, vegna þess að launin eru aðeins við grunnframfærslu, er fráleitt að halda því fram að VISS prógramm væri verðbólguhvetjandi, sérstaklega ef dregið er úr útgreiðslu atvinnuleysisbóta á sama tíma.

Í fimmta lagi fer fólk út fyrir hússins dyr, ef svo mætti segja. Það einangrast ekki, það tekur þátt í samfélaginu og finnur tilgang í lífinu þrátt fyrir skammtíma erfiðleika í formi atvinnumissis. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á samband atvinnuleysis og andlegrar vellíðan og oftar en ekki er orsakasamhengið að atvinnuleysi veldur andlegri vanlíðan (sjá t.d. Isaksson, 1989; Paul & Moser, 2009; Murphy & Athanasou, 1999). Komið væri í veg fyrir þessi neikvæðu áhrif af atvinnuleysi með VISS prógrammi.

Að lokum er VISS prógramm jákvætt fyrir einkageirann. Sjái einkageirinn að ákveðin grunntrygging er á tekjum einstaklinga í gegnum VISS prógramm er væntingum einkageirans um framtíðarsölutekjur viðhaldið. Einkageirinn sér sér því hag í því að þenjast út og ráða fólk til þess að hægt sé að framleiða þær vörur sem væntingar eru fyrir að hægt sé að selja, einmitt vegna þess að tekjum er og verður viðhaldið fyrir ofan ákveðið lágmark vegna VISS prógrammsins. Laun innan einkageirans eru hærri en innan VISS prógrammsins – sem miðar við grunnframfærsluviðmiðið – og þar með rætist draumurinn að baki hugmyndinni um uppbyggingu áburðarverkmiðju um „ný vel launuð störf“ eins og sagt er í tillögunni um þingsályktun um stofnun áburðarverksmiðju. Einkageirinn sér um að skapa þessi nýju vel launuðu störf.

Í stuttu máli sagt: ekki byggja áburðarverksmiðju! Notum frekar peningana í beina atvinnusköpun. Það er áhrifaríkara, ódýrara og samfélagslega jákvæðari aðgerð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur