Sunnudagur 14.02.2016 - 11:35 - FB ummæli ()

Meira um meinta hagkvæmni verðtryggðra lána

Það er oft tuggið á því að verðtryggð lán eigi að vera hagkvæmari en óverðtryggð. Skemmst er að minnast sérrits Seðlabankans Verðtrygging 101 þar sem m.a. segir í inngangi:

…meginkostnaður við verðbólgu er ekki rýrnun kaupmáttar heldur handahófskennd tilfærsla eigna milli skuldara og sparifjáreigenda sem stafar af óvæntri verðbólgu. Verðtrygging eyðir þessari áhættu og gagnast því bæði lánveitendum og lántakendum. Þess vegna eru raunvextir verðtryggðra lána jafnan lægri en óverðtryggðra.

Yfir höfuð ættu verðtryggð lán að vera hagkvæmari en óverðtryggð fyrir lántakann því verðtryggingin eyðir verðbólguóvissunni sem annars þyrfti að taka tillit til þegar nafnvextir óverðtryggða lánsins eru ákvarðaðir.

Ég hef áður bent á að þetta er bjartsýni í meira lagi hjá Seðlabankanum (sjá t.d. Verðtrygging 201 og Verðtryggð lán eru með hærri vexti). Gögnin sem ég hafði undir höndum í „Verðtryggð lán eru með hærri vexti“ náðu til 2012. Nú getum við uppfært þann pistil og sýnt fram á eftirfarandi: Síðan 2001 hafa verðtryggð lán að jafnaði verið með hærri raun- og nafnvexti en óverðtryggð lán. Staðhæfing Seðlabankans þess efnis að „raunvextir verðtryggðra lána [eru] jafnan lægri en óverðtryggðra“ er því verulega vafasöm.

Í myndunum hér að neðan er stuðst við gögn frá Seðlabanka Íslands og Hagstofu Íslands. Raunvextir eru reiknaðir m.v. 12 mánaða verðbólgu.

Mynd 1: raunvextir óverðtryggðra og verðtryggðra lána frá 2001. 

Vextir verdtr vs overdtr 1

Mynd 2: Nafnvextir óverðtryggðra og verðtryggðra lána frá 2001

Vextir verdtr vs overdtr 4

 

Mynd 3: raunvextir verðtryggðra og óverðtryggðra lána á hverju ári fyrir sig og frá og með 2001.

Vextir verdtr vs overdtr 3

 

Myndirnar segja okkur eftirfarandi:

  • frá byrjun 2014 hafa raun- og nafnvextir óverðtryggðra lána verið hærri en verðtryggðra. Það er sama ferli og á árunum 2005-2007. Ástæðan er stýrivaxtahækkanir Seðlabankans – sem er ætlað að berjast við ofþenslu en vegna þess hve algeng verðtryggð lán eru til heimila þá er peningastefnan máttlaus – og verðlækkun á hrávörumörkuðum, sem aftur ýtir verðbólgu niður.
  • þrátt fyrir að vextir óverðtryggðra lána hafi verið hærri síðan 2014 og á árunum 2005-2007 þá eru raunvextir slíkra lána lægri en verðtryggðra yfir allt tímabilið 2001-2015. Hvernig það fer svo saman við orð Seðlabankans að „raunvextir verðtryggðra lána [eru] jafnan lægri en óverðtryggðra“ verðið þið svo sjálf að finna út úr.

Með ofanritað í huga er gaman að muna eftir rannsókn frá Lánamálum Ríkisins, sem er hluti af Seðlabankanum, sem komst að þeirri niðurstöðu að ríkissjóður hafi sparað sér 35 milljarða króna að núvirði á árunum 2003-2014 með því að gefa frekar út óverðtryggð skuldabréf en verðtryggð.

Og hver gaf í staðinn út öll verðtryggðu skuldabréfin? Nú, heimilin í landinu í gegnum verðtryggða skuldabréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs.

Það væri þarft rannsóknarverkefni fyrir Seðlabanka Íslands að finna út hversu miklum fjármunum íslensk heimili töpuðu á því að taka verðtryggð lán í stað óverðtryggðra á tímabilinu 2003-2014? Það væri þarfara rannsóknarefni en að endurtaka í sífellu þá möntru að „raunvextir verðtryggðra lána [eru] jafnan lægri en óverðtryggðra“.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur