Þriðjudagur 11.10.2016 - 14:19 - FB ummæli ()

Á að aðskilja fjárfestingarbanka frá viðskiptabönkum?

Hugtakið „alhliða bankar“ (e. universal banks) er notað þegar talað er um banka sem bæði eru fjárfestingarbankar og viðskiptabankar. Munurinn þar á milli er sá að fjárfestingarbankar sjá um t.d. skráningu fyrirtækja á markaði, aðstoð á yfirtöku á fyrirtækjum, útgáfu skuldabréfa fyrir fyrirtæki og stofnanir, þróun afleiða og viðlíka starfsemi. Viðskiptabankar eru hins vegar bankar sem veita almenna bankaþjónustu sem maðurinn á götunni þekkir: þeir veita lán til smærri fyrirtækja og einstaklinga (og halda slíkum lánum oft á eiginn efnahagsreikningi, þ.e. þeir pakka lánunum sjaldnast saman í skuldabréfavafninga sem síðan eru seldir á fjármálamarkaði líkt og fjárfestingarbankar gjarnan gera), þeir selja tékkareikninga, debetkort, kreditkort og almenna sparnaðarkosti á borð við fjárfestingarsjóði í hluta- og skuldabréfum o.s.frv.

Fyrir 2008 var almennt litið svo á að alhliða bankar – þar sem starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka er sameinuð í einn banka – gætu þrýst niður kostnaðinum við að veita bankaþjónustu, hvort sem það væri viðskiptabankastarfsemi eða fjárfestingarbankastarfsemi. Stærðarhagkvæmni (því stærra því ódýrara) og skalarhagkvæmni (sömu upplýsingarnar, t.d. viðskiptasaga viðskiptavinar, notuð til að veita fjölbreyttari þjónustu) myndu verða til þess að ekki aðeins myndi aðgengi framleiðslufyrirtækja og einstaklinga að fjármagni aukast heldur yrði það ódýrara líka. Því væri um „win-win“ dæmi að ræða að sameina fjárfestingar- og viðskiptabankaþjónustu í eitt.

Eftir 2008 hefur það almennt verið viðurkennt hjá þeim sem ekki eiga hagsmuni að gæta að kostir alhliða banka voru ekki allir þar sem þeir voru séðir. Þá kom í ljós að ókostirnir voru mun alvarlegri en upphaflega hafði verið talið.

Örstutt um meginkostinn

Það er rétt að alhliða bankar áttu hlut í máli þegar kom að iðnvæðingu Þýskalands í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. (vinsælt dæmi meðal þeirra sem vilja benda á kosti alhliða banka). Mjög náið viðskiptasamband þróaðist og hefur löngum verið milli stórra iðnfyrirtækja í Þýskalandi og stærstu bankanna þar sem eru einmitt bæði fjárfestingar- og viðskiptabankar. Og þegar stór þýsk iðnfyrirtæki vildu stækka eða þróa aðra framleiðsluhætti en þau höfðu verið með gátu þau fundið alla bankaþjónustu á einum stað. Og það er staðreynd að fjármögnunarkostnaður fyrir þýsk fyrirtæki í byrjun 20. aldar var lægri en t.d. bandarísk. Ein ástæðan fyrir því er talin vera sú staðreynd að alhliða bankar voru til staðar í Þýskalandi en ekki í Bandaríkjunum (sjá t.d. Calomiris, 1995).

En síðan 1995 hefur margt gerst sem hefur orðið til þess að augu manna sem vildu sjá opnuðust. Og ég ætla bara að nefna nokkur dæmi.

Iðnvæðing Þýskalands: ekki allt alhliða bönkum að þakka

Í fyrsta lagi var uppgangur þýsks iðnaðar í lok 19. og byrjun 20. aldar meðal annars drifinn áfram af opinberum aðilum, þ.e. keisaranum sjálfum. Þýskaland var fátækt land og nýsameinað undir einum fána áður en umrædd iðnvæðing hófst. En það var ekki bara því að þakka að bankarnir þar voru alhliða bankar að iðnvæðingin var tiltölulega hröð þegar hún fór af stað á annað borð heldur voru bankarnir eggjaðir áfram af stjórnvöldum. Ástæðan var að stjórnvöld hins nýsameinaða ríkis vildu iðn- og hervæðast sem fyrst samhliða viðlíka þróun á þeim tíma í nágrannalöndum Þýskalands (sjá t.d. Calomiris og Haber). Alhliða bankar voru því ekki það eina sem keyrði iðnvæðingu Þýskalands og má spyrja hvort opinber stefna stjórnvalda hafi ekki haft svipuð eða meiri áhrif en sú staðreynd að þarlendir bankar voru alhliða bankar.

Þá er rétt að minnast á að fæstir bankar í Þýskalandi eru alhliða bankar. Langflestir bankar eru litlir „bankar fólksins“ (þ. Volksbank) og „samvinnubankar“ (þ. Raiffeisenbank). Þessir bankar eru m.a. samvinnufélög sem hafa það fyrst og fremst að markmiði að veita almenna viðskiptabankaþjónustu í því héraði sem þau starfa. Ríflega 1,000 slíkir bankar eru í sambandi slíkra banka í Þýskalandi.

Betra aðgengi að fjármagni fyrir suma

Í öðru lagi áttaði fólk sig á því að þótt aðgengi að fjármagni gæti verið betra og fjármögnunarkostnaður lægri fyrir stór fyrirtæki innan alhliða banka var ekki þar með sagt að hið sama gilti um lítil og meðalstór fyrirtæki (sem eru fyrirtækin að baki meirihluta virðisaukningu og atvinnumyndun: 58% af virðisaukningu framleiðslu innan ESB á sér stað innan lítilla og meðalstórra fyrirtækja og 66% af þeim sem eru með vinnu vinna hjá slíkum fyrirtækjum, sjá European Commission).

Það er t.d. vitað að lítil fyrirtæki, sem þurfa ekki á miklu fjármagni að halda og því þarf ekki stóra banka fyrir slík fyrirtæki, geta verið skilin útundan þegar stórir bankar búa til lánsfé fyrir fyrirtæki almennt. Þetta er sérstaklega vandamál þegar alþjóðlegir bankar, sem oftast eru mjög stórir, setja upp bankastarfsemi innan nýrra landa. Er þá talað um að þessir bankar „fleyti rjómann í burtu“ þegar kemur að því að lána út í atvinnulífið í hinu nýja landi: stærstu fyrirtækin og elstu fyrirtækin fá lánsfjármagn frá þessum bönkum en önnur fyrirtæki, t.d. sprotafyrirtæki og yngri fyrirtæki sem enn eru að byggja upp rekstur, fá ekki neitt. Ástæðurnar eru einfaldar: a) þau eru of lítil til að alþjóðlegir bankar nenni að tala við þau og b) þau eru ekki með eins langa viðskiptasögu sem sýnir hvernig reksturinn hefur þróast (sjá stutta umfjöllun og heimildir um þetta atriði í doktorsritgerð minni, bls, 103).

Það er nefnilega svo að stórir bankar vilja lána út mikið í einu, einmitt vegna þess að þeir telja það hagkvæmara: það er auðveldara og ódýrara að skoða greiðslugetu eins stórs lántaka en margra smárra. Þá er erfitt fyrir stóra og ópersónulega banka að kynnast ungum og litlum fyrirtækjum með stutta viðskiptasögu. Að lokum endar það svo að stóri bankinn skiptir sér því ekki af litlum og ungum fyrirtækjum og einbeitir sér í staðinn að stórum og gömlum fyrirtækjum – með tilheyrandi skorti á nýmyndun í almennri fyrirtækjaflóru í viðkomandi hagkerfi.

Minni samkeppni

Í þriðja lagi kom það í ljós að þótt kostnaður við fjármögnun stórra fyrirtækja gæti lækkað innan alhliða banka þá minnkaði samkeppni milli bankanna þegar þeir stækkuðu og urðu færri á markaði. Minni samkeppni hvatti þá alhliða banka til þess að stinga ábatanum af stærðar- og skalahagkvæmni alhliða bankastarfsemi frekar í eiginn vasa en að koma honum áfram til lántaka.

Öðruvísi áhættusækni

Eitt það mikilvægasta var þó að fólk áttaði sig á að fjárfestingarbankaarmur alhliða banka væri í hlutarins eðli allt öðruvísi en viðskiptabankaarmurinn og að blanda þeim saman væri því miður ekki gáfulegt til langs tíma, jafnvel þótt fræðilega væri mikill kostur að ná fram stærðar- og skalahagkvæmni innan bankakerfisins.

Viðskiptabankastarfsemi á í eðli sínu að vera frekar leiðinleg ef svo má að orði komast. Þú sem bankastjóri viðskiptabanka þróar væntanlega langtíma samband við lántakana í þínu útibúi: þú þekkir þá ekki aðeins persónulega heldur þekkirðu störf og starfsemi þeirra nokkuð vel, jafnvel fjölskyldu og vini. Ef þú ert bankastjóri lítils samvinnubanka þá eru þínir viðskiptavinir einnig eigendur bankans sem þú starfar hjá. Þú ert líka ábyrgur fyrir því að lánin séu borguð til baka – sem er ekki alltaf í fjárfestingarbankastarfsemi – og vegna alls þessa ertu náttúrulega áhættufælinn þegar þú ákveður að viðskiptabankinn skuli búa til lánsfé handa ákveðnum lántaka.

Fjárfestingarbankastarfsemi er í eðli sínu öðruvísi en viðskiptabankastarfsemi. Þú sem bankastjóri fjárfestingarbanka hugsar fyrst og fremst um að nóg sé um að vera á markaði, það sé mikið af nýjum fyrirtækjum sem verið er að skrá á markað, sum fyrirtæki að kaupa önnur fyrirtæki og mikið af stórum fyrirtækjum sem vilja gefa út skulda- og hlutabréf á markaði, e.t.v. einmitt vegna þess að litlir bankar eru of litlir til að veita þeim fjármagn til fjárfestinga. Fjárfestingarbankar fá sölulaun þegar þeir tengja saman fjárfesta á borð við lífeyrissjóði, tryggingafélög og mjög ríka einstaklinga við þá aðila sem þurfa fjármagn til fjárfestinga, t.a.m. stór fyrirtæki sem gefa út hluta- og skuldabréf. Og vitanlega, líkt og gildir með fasteignasala, því meira sem selt er, því meiri er gróðinn – jafnvel þótt viðkomandi fyrirtæki fari á hausinn síðar og fjárfestarnir í skuldabréufm þess sitji eftir með sárt ennið.

Gallinn er að fjárfestingarbankar eru oft ekki, ólíkt viðskiptabönkum, með „skin in the game“ þegar kemur að lánveitingum. Lán og (áhættusamir) fjármálagerningar sem fjárfestingarbankar þróa og koma nálægt eru oft svo áhættusöm að viðskiptabankar myndu ekki pota í slíkt með priki! En fjárfestingarbankar, sem í mörgum tilvikum eru beinlínis tengiaðilar á fjármálamarkaði svipað og fasteignasalinn á fasteignamarkaði, geyma fjármálagerninga sem þeir koma nálægt oft aðeins í skamma stund á eiginn efnahagsreikningi. Svo lengi sem þeir ná að selja þessa fjármálagerninga aftur af eigin efnahagsreikningi er langtímaáhættan af slíkum fjármálagerningum ekki þeirra – en hið andstæða gildir um viðskiptabanka sem í raun og reynd eru með fjármálagerningana á eiginn efnahagsreikningi og eru þess vegna mjög varfærir þegar kemur að því að búa þá til. Falli lánið á gjalddaga er tapið þeirra.

Svo að í stuttu máli er áhættusókn fjárfestingarbanka mun meiri og allt öðruvísi en áhættusókn viðskiptabanka. Það er ekki svo að skilja þessi áhættusækni fjárfestingarbanka sé slæm, stundum er gott of jafnvel nauðsynlegt að taka aukna áhættu og heppnist viðskiptin vel græða allir málshafandi aðilar. En þessi aukna áhættusókn fjárfestingarbankastarfsemi getur hæglega orðið meiri og enn hættulegri fyrir bankakerfið sem heild ef um alhliða banka er að ræða: fjárfestingarbankaarmur alhliða banka er með óbeina eða beina tryggingu á eigin áhættudrifnu starfsemi í gegnum sameiginleg eignarhald með viðskiptabankaarmi viðkomandi banka. Og vegna þessarar tryggingar tekur fjárfestingararmur bankans meiri áhættu en ef hann stæði einn og óstuddur.

Ofan á þessa áhættusækni vegna samtryggingar viðskipta- og fjárfestingarbankastarfseminnar bætist áhættusækni vegna stærðar bankans sjálfs. Stærsti gallinn við alhliða banka er að þegar, ekki ef, fjárfestingararmur alhliða banka verður fyrir áfalli þá getur sá armur dregið viðskiptabankaarminn niður með sér. Og ef um stóran og kerfislega of mikilvægan banka er að ræða sem, eigi að viðhalda fjármálalegum stöðugleika, má ekki fara í gjaldþrot (e. too big to fail) þá þarf hið opinbera að stíga fram og redda málum með innistæðutryggingum og jafnvel beinum fjárframlögum til viðkomandi alhliða banka svo hann haldist á floti. Þetta vita bankarnir og taka þess vegna mun meiri áhættu en ef þeir væru minni og ómerkilegri – sem þeir einmitt væru ef þeir væru eingöngu fjárfestingar- eða viðskiptabankar.

Það er þessi áhættusækni og hætta á kerfislegum áföllum fyrir fjármálakerfið og fyrir hið opinbera sem getur auðveldlega og gjörsamlega þurrkað út samfélagslegan ágóða þess að sameina fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi í alhliða banka.

Aðskiljum fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi

Það er m.a. út af þessum atriðum hér útlistuðum að ofan að það er betra að aðskilja starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, jafnvel þótt slík starfsemi geti, sérstaklega í tilfelli stórra framleiðslufyrirtækja, lækkað fjármögnunarkostnað þeirra. Mun betra og öruggara er að aðskilja þessa starfsemi alfarið. Viðskiptabankar eiga að vera viðskiptabankar og áhættulítil starfsemi þeirra á ekki að fara hönd í hönd með áhættusamri starfsemi fjárfestingarbanka. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að skoða alvarlega að stuðla að uppbyggingu samvinnubankakerfis á Íslandi, svipuðu og því sem er til staðar í Þýskalandi.

Einhver mun þá segja að aðgengi stórra fyrirtækja að fjármagni verði ekki nægilegt, sem er líklega eitt vinsælasta atriðið að nefna þegar kemur að því að bera rök fyrir því að alhliða bankar séu jákvæð fyrirbæri. En við því er tiltölulega auðvelt að bregðast. Til dæmis er hægt að gera skráningu skulda- og hlutabréfa á fjármálamarkaði auðvelda með lágmarks reglugerðum og opinberum kostnaði. Það mætti jafnvel beinlínis hvetja til slíks. Fjárfestingarbankar geta þá með minni umsýslu og kostnaði séð til þess að stór fyrirtæki fái áfram hagstæða fjármögnun á fjármálamarkaði án þess að þurfa baktryggingu viðskiptabanka á eigin starfsemi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur