Fimmtudagur 13.04.2017 - 11:09 - FB ummæli ()

Vilt þú spara í erlendri mynt?

Nú þegar almenningur á Íslandi getur sparað í erlendri mynt, í kjölfar nær losunar á gjaldeyrishöftum, hafa íslenskir bankar og sjóðstjórar ýtt við fólki til að hvetja það til að spara í erlendri mynt. Það er í sjálfu sér skynsamlegt, sérstaklega nú þegar raungengi krónunnar er eins hátt og það er, en það þýðir að kaupmáttur krónunnar er hár á erlendri grundu, þar með talið þegar kemur að fjármálaafurðum.

Gallinn er að íslenskir bankar og sjóðir sem fjárfesta erlendis fyrir Íslendinga eru dýrir. Hiklaust má reikna með að kostnaðurinn við að fjárfesta í erlendum sjóði sem markaðssettur er til Íslendinga sé í kringum 1-2% á ári. Og þá á eftir að taka til greina gjald við kaup og sölu sem er í kringum 1-2%. Þannig myndi það t.d. kosta 2% gengismun milli kaup og sölugengis (20.000kr ef fjárfest er fyrir milljón) ef fjárfest er í KF Global Value hjá Arion banka. Bankinn tekur að auki 1,5% (15.000kr ef fjárfest er fyrir milljón) á ári í umsýsluþóknun. Þannig þyrfti 3,5% ávöxtun, samtals 35.000kr ef fjárfest er fyrir eina milljón, á fyrsta árinu til þess eins að ná upp í gjöldin fyrir að fjárfesta erlendis. Öll áhættan af fjárfestingunni er þín en bankinn fær sín gjöld, sama hvernig gengur.

Með þessum háu gjöldum eru milligönguaðilar þessara sjóða að fleyta rjómann af þeim ágæta kosti fyrir Íslendinga að geta sett hluta sparnaðar síns erlendis. Ein ástæða þess að þessi gjöld eru há er vegna skorts á samkeppni. Önnur ástæða er sú að íslenskir sjóðstjórar reyna að gera betur en markaðurinn með því að ákveða í hverju skuli fjárfest – aktíf sjóðstjórn –  frekar en fylgja einfaldlega markaðinum – passíf stjóðstjórn. Kostnaðarmunurinn á milli aktífrar og passífrar stjóðstjórnunar getur auðveldlega verið tvöfaldur hið minnsta. En séu íslenskir sjóðstjórar álíka góðir og alþjóðlegir sjóðstjórar má gera ráð fyrir að fæstum takist að skila ávinningi til sinna sjóðfélaga m.v. ef þeir hefðu ekki reynt að velja úr fjárfestingar heldur einfaldlega fylgt markaðnum: aktív sjóðstórn, eftir kostnað, skilar að jafnaði minni ávinningi en passíf.

En núna eftir að höftunum er aflétt og í umhverfi nútíma tækni geta Íslendingar fjárfest í erlendum passífum sjóðum án þess að fara í gegnum íslenska sjóðstjóra.

ETF og sjálfvirkni til bjargar

Íslendingar gætu íhugað að spara með ETF sjóðum. Þeir eru nær óþekktir á Íslandi – Landsbankinn er með ETF fyrir íslensku hlutabréfavísitöluna þó – en eru vinsælir sem aldrei fyrr á heimsvísu. Ástæðurnar eru einkum tvær: þeir eru ódýrir og einföld leið til þess að fjárfesta í margvíslegum fjármálaafurðum.

Í Evrópu er nú hægt að velja passífa sjóðstjóra sem fjárfesta í ETF sjóðum. Þeir eru sjálfvirkir með sáralítinn mannfjölda á bakvið sig – sem gerir þá ódýra – og þeir fylgja almennt passífri sjóðstýringu. Hér má sjá lista yfir nokkra.

Ísland kemur ekki fram sem land sem nokkur af þessum sjálfvirku sjóðstjórum bjóða sína þjónustu í. En ef farið er á heimasíðu þeirra kemur í ljós að þeir bjóða upp á sína þjónustu einnig á Íslandi. ETFmatic er til dæmis einn af þeim. Og samkvæmt upplýsingum frá Easyvest í Belgíu og Scalable Capital í Þýskalandi geta Íslendingar opnað fjárfestingarreikninga með þeim. Aðrir sjóðir gera það kannski líka, ég hef ekki skoðað það sérstaklega.

Sjálfvirkir passífir sjóðir eru mun ódýrari en íslensku aktífu sjóðirnir. Í stað 2-3% kostnaðar, eða meira, í tilfelli íslensku aktífu sjóðanna kosta þessir erlendu sjálfvirku passífu sjóðir ca. 0,7-1,25% á ári. Sjálf spörum við hjónin í sjóði hvers kostnaður er 0,7% á ári, allt með talið. Og munið að passífir sjóðir skila að jafnaði betri nettó ávöxtun en aktívir.

Eftir stendur að flytja féð frá Íslandi til hins erlenda passífa sjóðstjóra. Það er hægt í dag vegna afléttingar á höftum. Íslenskir bankar taka vitanlega þóknun m.a. í formi gengismunar þegar slíkt er gert. Einnig er þó hægt að notast við þjónustur á borð við TransferWise og CurrencyFair og margar fleiri. Hvort þær virki fyrir Íslendinga eða hvort þær séu alltaf ódýrari en almenn þjónusta íslenskra banka þegar kemur að gjaldeyrisviðskiptum læt ég ósagt látið því ég hef ekki skoðað það almennilega. Þennan kostnað er rétt að hafa í huga þegar þið ákveðið hvort og þá hversu mikið þið viljið spara hjá ódýrum erlendum passífum sjóðstjórum.

Og að lokum: farið varlega! Gerið ykkar eigin athuganir á því hvort fyrirtækið sem þið eruð að skoða sé t.d. undir eftirliti þarlends fjármálaeftirlits. Ef fyrirtækið notar ekki milligönguaðila sjálft til þess að halda utan um sjóðina er hætta á því að þið tapið ykkar sparnaði ef fyrirtækið fer á hausinn. Skoðið alltaf FAQs hluta heimasíðna þeirra og skoðið vefsíður sem gefa notendum kleift að gefa fyrirtækjum einkunnir fyrir veitta þjónustu.

Gott gengi!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur