Miðvikudagur 26.04.2017 - 09:47 - FB ummæli ()

Eru lífeyrissjóðirnir þess virði?

DV var nýlega með frétt  þess efnis að Gildi lífeyrissjóður hafi verið með 4,4 milljarða í rekstrarkostnað síðustu tvö ár.
Í tilefni þessara talna ákvað ég að skoða nýjustu gögnin frá FME fyrir lífeyrissjóðakerfið í heild. Þar kemur fram að árið 2015 hafi samtala fjárfestingargjalda og rekstrarkostnaðar verið samtals ríflega 8,1 milljarður króna fyrir lífeyrissjóðina alla, samtals. Skjáskot af gögnunum frá FME er hér að neðan:
Nú hef ég tvennt við þetta að athuga:
1)
Samkvæmt Landssambandi Lífeyrissjóða  er tilgangur lífeyrissjóða „[a]ð tryggja sjóðfélögum ellilífeyri til æviloka og verja þá og fjölskyldur þeirra fyrir tekjumissi vegna örorku og andláts með því að greiða áfallalífeyri (örorku-, maka- og barnalífeyri).“ Þetta gera lífeyrissjóðir með því  „[a]ð taka við iðgjöldum sjóðfélaga, ávaxta þau og greiða lífeyri.“
Í hagkerfi á borð við það íslenska – þar sem um er að ræða sjálfstætt land með eigin gjaldmiðil sem er gefinn út af hinum innlenda seðlabanka – er 100% óþarfi að hafa lífeyrisskerfi sem „tekur við iðgjöldum sjóðfélaga, ávaxtar þau og greiðir lífeyri“ sé tilgangurinn „að tryggja sjóðfélögum ellilífeyri til æviloka og verja þá og fjölskyldur þeirra fyrir tekjumissi.“ Þetta er beinlínis og algjörlega óþarfi!
Ástæðan er einföld: ríkissjóður mun aldrei upplifa skort á ISK peningum í hagkerfi á borð við það íslenska, því Íslendingar geta búið til eins mikið af krónum og þeir vilja hvenær sem þeir vilja – alveg eins og Bretar geta búið til pund eða Bandaríkjamenn dollara eða Japanir jen. Leggja mætti lífeyriskerfið niður og taka upp 100% gegnumstreymiskerfi án þess að það væri nokkur hætta á því að ekki væri hægt að borga út ellilífeyri í samræmi við það sem Alþingi ákveddi að væri hæfilegur, með öll sjónarmið í huga.
Vandamálið er þannig ekki að finna peninga (krónur) til þess að borga út lífeyri heldur hvort hagkerfið allt sé að framleiða þær vörur og þjónustu sem allir peningar í hagkerfinu eru, samanlagt, að eltast við á hverjum tíma. Hættan er ekki „gjaldþrot“ á gegnumstreymiskerfinu heldur hvort raunveruleg gæði, sem peningarnir myndu kaupa, séu framleidd og þau til staðar. Og það er allt annað vandamál en hlutverk lífeyrissjóða – “ [a]ð taka við iðgjöldum sjóðfélaga, ávaxta þau og greiða lífeyri“ – er að reyna að leysa: lífeyrissjóðir eru að flytja peninga, sem hægt er að framleiða hvenær sem er, milli tímabila (og til hvers er þá verið að flytja þá?) en þeir eru ekki að tryggja að raunveruleg gæði – þ.e. vörur og þjónusta – séu framleidd á þeim tíma sem peningarnir eru greiddir út til ellilífeyrisþega. Séu vörurnar ekki til staðar þegar ellilífeyririnn er greiddur út – hvort sem hann er greiddur út af lífeyrissjóði eða ríkissjóði – er hætta á að a) það verði verðbólga og b) lífsgæði skerðist. Það er vert að undirstrika í þessu samhengi að það skiptir engu máli hvort lífeyririnn sé greiddur af lífeyrissjóði eða ríkissjóði.
…there is nothing to prevent the Federal Government from creating as much money as it wants and paying it to somebody. The question is, how do you set up a system which assures that the real assets are created which those benefits are employed to purchase?

Með þetta í huga – þá staðreynd að hinn íslenski ríkissjóður getur búið til krónur þegar hann vill – er vitanlega tilgangslaust að byggja upp sjóði í íslenskum krónum til að borga ellilífeyri. Og það er rétt að muna að ólíkt krónum getur ríkissjóður ekki búið til dollara eða pund eða evrur. Það er því ástæða til þess að safna erlendum gjaldeyri. Og það gerir Seðlabankinn nú þegar (og ætti að gera meira af) og engin ástæða fyrir Íslendinga að vera með annað dýrt opinbert batterí sem safnar erlendum eignum meðan Seðlabankinn gerir það nú þegar. Vitanlega mega einstaklingar spara eins og þeir vilja í hvaða mynt sem þeir vilja. En það er engin ástæða til að skylda þá til þess í gegnum lífeyrissjóði hvers tilgangur á að vera að borga ellilífeyri, í krónum, í framtíðinni.
Athugið líka að innan lífeyrissjóða er margt hæft fólk sem mörg fyrirtæki vildu gjarnan ráða. Þetta væri starfsfólk sem gæti unnið í framleiðslu- og þróunarhlutverkum innan fyrirtækja og þar með ýtt undir tækni- og vöruþróun innan íslenska hagkerfisins. Að flytja peninga milli tímabila er satt best að segja ekki góð nýting á þekkingu þessa fólks og væri það með vinnu annars staðar í hagkerfinu væri e.t.v. frekari von til þess að í framtíðinni, þegar  núverandi sjóðfélagar lífeyrissjóða fara á ellilífeyri og vilja kaupa raunveruleg gæði með þeim peningum sem þeir fengju í lífeyri, væru til vörur og þjónusta sem ellilífeyririnn gæti keypt.
2)
Jafnvel þótt Íslendingar vildu vera með sjóðsöfnunarkerfi – hvers tilgang má telja vafasaman meðan Íslendingar eru með eigin mynt og seðlabanka – hví er verið að reka það svona illa?
8,1 milljaður króna eru miklir peningar. Mjög lauslega reiknað og byggt á grófum gögnum um kostnað ýmissar opinberrar þjónustu má áætla að hægt hefði verið að leggja bundið slitlag á ca. 800km af malarvegum landsins fyrir þessa upphæð. Eru Íslendingar alveg örugglega að fá það sem þeir eru að borga fyrir þegar kemur að rekstrar- og fjárfestingarkostnaði lífeyrissjóðanna? Er lífeyrissjóðakerfið 800km virði af nýju árlegu bundnu slitlagi?
Það er vitað mál í dag að í flestum tilvikum ná sjóðstjórar aktífra sjóða ekki að ávaxta pund sinna sjóðfélaga betur en markaðurinn sjálfur: 82% af bandarískum aktífum fjárfestingarsjóðum voru með verri ávöxtun, eftir að taka tillit til kostnaðar, en þeirra markaðsviðmið síðustu 15 ár samkvæmt frétt Wall Street Journal. Betra væri því að reyna ekki að vera með hærri ávöxtun en markaðurinn: jafnvel þótt þér takist það á brúttó leveli er hætta á að kostnaðurinn við að ná slíku væri svo hár að nettó væri verra en að hafa fjárfest passíft  í viðkomandi markaði. Passífir sjóðir eru að jafnaði ódýrari og skila hærri ávöxtun  en sjóðir þar sem sjóðstjórar taka margar fjárfestingarákvarðanir með tilheyrandi kostnaði. Ég leyfi mér að halda því fram að svipað er uppi á teningnum á Íslandi þar til annað kemur í ljós.
Lausnin er þá að segja flestum sjóðstjórum íslenskra lífeyrissjóða upp og kaupa bara passífar fjárfestingarvörur á borð við ETFs.
Einn bandarískur lífeyrissjóður hefur gert þetta: Þar er einn einasti maður „að sýsla með“ (hann gerir liggur við ekkert, hann aðallega fylgist með) 35 milljarða dollara í umsýslu. Það eru 3.800 milljarðar króna eða um 300 milljörðum meira en allir íslensku lífeyrissjóðirnir  samtals. Þessi eini starfsmaður er með tæplega 130.000 dollara í árslaun: um 1,2 milljónir króna á mánuði. Berið þetta saman við launakostnað lífeyrissjóðanna á Íslandi. Og þessi eini starfsmaður er að skila sínum sjóðfélögum betri ávöxtun að jafnaði fyrir síðustu 1 ár, 3 ár, 5 ár og 10 ár en lífeyrissjóðir hvers starfsmenn skipta tugum.
Einhver myndi segja að illa væri farið með iðgjöld sjóðfélaga á Íslandi.
Að lokum: ef við viljum vera með sjóðsöfnunarkerfi á Íslandi, hví eru sjóðirnir ekki skyldaðir til að vera með markaðsviðmið (e. benchmarking) til að athuga hvort sjóðirnir séu í alvörunni að ná þeirri ávöxtun sem þeir eiga að vera að ná a.t.t. áhættu og kostnaðar? Þá fyrst geta lífeyrissjóðirnir sagt, með gögn á bakvið sig, hvort þeir séu að skila sjóðfélögum sínum þeirri ávöxtun sem þeir ættu að vera að skila eða ekki a.t.t. áhættu og kostnaðar. Það er því öllum til bóta ef lífeyrissjóðirnir myndu setja sér markaðsviðmið því það myndi, hefðu forsvarsmenn lífeyrissjóða rétt fyrir sér þegar þeir segjast vera að skila góðri vinnu, byggja upp traust á kerfinu öllu. Ef þetta er ekki gert er það einfaldlega merki þess að forsvarsmenn lífeyrissjóða vilja ekki vera bornir saman við markaðsviðmið sem endurspeglaði áhættutöku og kostnað lífeyrissjóðanna sjálfra.
(Þessi pistill birtist fyrst á Patreon síðunni minni þar sem mínir Stuðningsmenn gátu lesið hann fyrst. Þú getur stutt skrif mín um íslensk efnahagsmál með því að gerast Stuðningsmaður minn.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur