Sunnudagur 27.08.2017 - 08:16 - FB ummæli ()

Launasamanburður við önnur lönd

*Þessi pistill birtist fyrst á Patreon síðu minni þar sem mínir velunnarar fengu aðgang að honum fyrst. Þú getur styrkt bóka- og greinarskrif mín um íslensk efnahagsmál á Patreon.com. $5 á mánuði veita þér aðgang að öllu efni á síðunni + frítt eintakt af fyrstu bók minni þegar hún verður tilbúin*
—-

Margir munu ekki taka þessum pistli vel. En markmið mitt með skrifum mínum er að upplýsa fólk um hagfræði og virkni hagkerfisins frekar en að vera í einhverju liði, pólítísku eða öðru. Efnahagsumræða á að vera byggð á gögnum og raunverulegum ferlum í hagkerfinu. Þegar staðreyndir eru lagðar á borðið má ræða þær frá pólítísku sjónarhorni. En það á aldrei að fara í manninn.

Margir tóku því illa þegar Ásgeir Jónsson sagði að það gengi ekki endalaust að hækka laun hraðar á Íslandi en í nágrannalöndunum. Einhverjir fóru beint í manninn og rifjuðu upp þegar Ásgeir, líkt og svo margir aðrir (ég þar með talinn), hafði rangt fyrir sér fyrir Hrun. Því hlyti hann að hafa rangt fyrir sér nú.

Sjálfur hef ég síst verið sammála mínum gamla hagfræðikennara og yfirmanni (ég var hjá greiningardeild Kaupþings meðan ég kláraði BS í hagfræði á Íslandi, fór út í mastersnám í september 2008) í ýmsu, t.d. þegar kemur að skoðunum hans um virkni bankakerfisins (dæmi um efnahagsrumræðu sem á að vera byggð á raunverulegum ferlum í hagkerfinu, ekki úreltum og röngum módelum). En dæma verður orð af sannleiksgildi þeirra frekar en hver mælir þau. Og í þetta skiptið hefur Ásgeir rétt fyrir sér: laun á Íslandi geta ekki til lengdar hækkað hraðar á Íslandi en í nágrannalöndunum. Og það hafa þau gert upp á síðkastið.

Þetta er raunar svo augljóst að það ætti ekki að þurfa að ræða það. En spurningin er vitanlega hvort launakostnaður í dag á Íslandi sé hár í alþjóðlegum samanburði. Og svarið er: já, hann er orðinn það.

Alþjóðlegur samanburður

Myndin hér að neðan er byggð á gögnum frá OECD. Laun í löndum öðrum en á Íslandi eru umreiknuð yfir í íslenskar krónur til að auðveldara sé að átta sig á samanburðinum. Áttum okkur á því að hér er um laun fyrir skatta að ræða. Þá er vitanlega ekki tekið tillit til daglegs kostnaðar við að lifa í viðkomandi landi (lán, húsnæði, matur, rafmagn, o.s.frv.).

Einhverjum launþeganum sem er að skoða þetta þykir þetta þá vitanlega frekar slappur samanburður en fyrir stjórnanda fyrirtækis sem verður að velja hvort hann eigi að fjölga starfsfólki á Íslandi eða á Spáni er þetta einmitt samanburðurinn sem getur ráðið úrslitum hvort landið verði fyrir valinu (gefið að hægt sé að finna fólk í báðum hagkerfunum sem getur unnið viðkomandi starf). Myndin sýnir meðalárslaun í viðkomandi hagkerfi á hverjum tíma fyrir sig.

Sem sjá má er samanburðurinn Íslandi ekki sérstaklega í hag (hér má sjá skilgreiningar á laununum sem er verið að bera saman). Athugið að verulega byrjaði að draga í sundur frá ca. 2013. Og athugið líka að þessi þróun er ekki bara nafngengi krónunnar að kenna (sem er orðið of sterkt til að standast til lengdar): frá 2013 til 2016 lækkaði EUR í verði um 6,3% gagnvart krónu að jafnaði hvert ár meðan laun á Íslandi hækkuðu um 6,5% að jafnaði á hverju ári. Á sama tíma hækkuðu nafnlaun í Þýskalandi um 2,4% á ári að jafnaði (mælt í EUR).

Stjórnendur fyrirtækja geta samt andað léttar að því leyti að nafnlaunahækkanir eru lægri nú en fyrir um ári síðan:

En það breytir því ekki að raunlaun á Íslandi eru í sögulegu samhengi afskaplega há og nærri toppnum 2007 (athugið að á myndinni hér að neðan er miðað við hlutfallslegan launakostnað en hægt er að mæla raungengi á tvennan hátt, þ.e. hlutfallslegt verðlag og hlutfallslegur launakostnaður):

Það er því óþarfi að tækla Ásgeir, í þetta skiptið hefur hann rétt fyrir sér. En ég vek athygli á því að þessar tölur tala ekkert um mismunandi launaþróun mismunandi hópa, s.s. forstjórar vs. láglaunafólk, menntaðir vs. ómenntaðir, o.s.frv. Það er einfaldlega allt önnur spurning en spurningin um hvort launakostnaður á Íslandi sé hár í alþjóðlegum samanburði eða ekki. Og sannleikurinn er: hann er það.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur