Laugardagur 21.04.2018 - 11:29 - FB ummæli ()

Fyrirlesturinn í HÍ: um eðli peninga (með glærum)

*Þessi pistill birtist fyrst á Patreon síðu minni þar sem mínir velunnarar fengu aðgang að honum fyrst. Þú getur styrkt bóka- og greinarskrif mín um íslensk efnahagsmál á Patreon.com. $3 á mánuði veita þér aðgang að öllum pistlum og bætirðu $2 við sendi ég þér eintak af fyrstu bók minni þegar hún verður tilbúin, vonandi á þessu ári.*

—————————–

Ég mætti á málstofu hjá hagfræðistofnun Háskóla Íslands á föstudaginn. Það gekk ljómandi vel, það var gaman að sjá nánast fullan sal og þó nokkuð af nemendum. Vil ég þakka hagfræðistofnun fyrir boðið, vonandi tekst okkur að endurtaka leikinn fljótlega!

Peningar eru óhlutbundnir mælikvarðar

Í fyrirlestrinum stiklaði ég á (mjög) stóru varðandi eðli peninga. Í stuttu máli má skilja peninga á tvenna vegu: sem óhlutbundna eða sem hlutbundna.

Hlutbundinn skilningur er hinn hversdagslegi skilningur sem við ölumst öll upp við. Við snertum peningaseðil, myntir og (hér áður) gullpeninga og greiðum með þessum hlutum fyrir það sem við viljum greiða fyrir. Þannig er, út frá hversdagslegri reynslu okkar, það nánast augljóst að peningar hljóta jú að vera hlutbundnir. Við höfum jú öll snert þá.

En það er ekki allt sem sýnist: það er ekki sólin sem snýst um jörðina heldur er það jörðin sem snýst um jörðina. Og hið sama gildir um eðli peninga: þótt peningar sýnist vera hlutbundnir eru þeir það ekki.

Hlutverk gjaldmiðla, t.d. ISK, USD, GBP, o.sfrv., er að vera mælikvarði. Líkt og meter er mælikvarði á lengd er ISK mælikvarði á virði. Og líkt og enginn hefur snert meter hefur enginn snert krónu eða fahrenheit. En hins vegar, líkt og með tommustokk, höfum við öll snert peningaseðil og mörg okkar höfum snert hitamæli.

Grundvöllur virðis peninga, út frá óhlutbundnum skilningi, er þannig ekki virði málmsins sem er í myntinni eða virði pappírsins sem er í seðlinum heldur er það traustið sem við leggjum á viðkomandi hlut eða aðgerð til þess að vera samþykkt sem fullnaðargreiðsla í viðskiptum.

Þannig eru bókhaldsfærslur aðgerð sem hefur verið notuð í margar aldir til þess að færa viðskipti til bókar. Þessar bókhaldsfærslur eru allar gerðar með einhverja mælistiku á virði í huga, þ.e. einhvern gjaldmiðil ´í huga. Talan „100“ er gagnslaus út af fyrir sig. En talan „100 ISK“ er tommustokkur á ákveðið virði þar sem mælieiningin er ISK. Þessi tala (100 ISK) er rituð niður á blað til að mæla virði t.d. vöru á lager eða fjárhagslegrar skuldbindingar.

Peningar eru skuldbindingar hvers virði er byggt á trausti

Fjárhagslegar eignir eru þeim eiginleika gæddar að einhver skuldar þær: fjárhagsleg eign eins er fjárhagsleg skuldbinding annars. Þetta er ekki svo með ófjárhagslegar eignir: einhver á reiðhjólið án þess að nokkur skuldi það. Að baki virði hverrar fjárhagslegrar skuldbindingar er traust okkar í garð hennar. Ekkert traust, ekkert virði.

Á ítölsku, upprunalega úr latínu, þýðir sögnin credere „að trúa“ eða „að treysta“. Ti credo = ég treysti/trúi þér. Það er héðan sem orðið credit á ensku kemur en meining þess er m.a. „traust“ en einnig „lán“, í skilningi þess „að taka að láni“.

Þegar banki veitir lán (credit) er hann að treysta viðkomandi lántaka fyrir því að geta borgað lánið til baka í samræmi við undirliggjandi skuldabréf. Það er einmitt lántakinn sem gefur út lánið, þ.e. skuldbindinguna, og samþykki bankans á því að kaupa skuldbindingu lántakans er merki þess að lántakinn sé traustsins verður í samræmi við lánasamninginn. Traustið sem lántakinn hefur hefur ákveðið virði sem er a.m.k. sama virði og upphæð lánasamningins: lánasamningurinn er ákveðinn mælikvarði á það traust sem bankinn samþykkir að viðkomandi lántaki hafi.

Á sama ´tíma er lántakinn að treysta bankanum. Bankinn borgar fyrir skuldabréfið sem lántakinn selur bankanum (þegar hann tekur lán) með skuldbindingu sem bankinn sjálfur gefur út. Þessi skuldbinding er innlánið í bankanum. Lántakinn samþykkir þessa skuldbindingu því hann treystir því að geta notað þessa skuldbindingu (credit) bankans sem fullnaðargreiðslu í viðskiptum. Bæði lántaki og banki segja við hvorn annan: ti credo!

Hver sem er getur búið til peninga því peningar eru skuldbindingar byggðar á trausti. Hins vegar, líkt og með traustið, er vandamálið að fá peninga, þ.e. skuldbindingarnar, samþykkta sem fullnaðargreiðslu í viðskiptum. Fólk verður að trúa því og treysta að útgefandi peninganna, þ.e. skuldbindinganna, standi við það sem skuldbindingin felur í sér, hvort sem það er kíló af salti eða að samþykkja hana sem fullnaðargreiðslu á sköttum, sem er það sem hið opinbera á Íslandi gerir – og ákveður þannig fyrir hagkerfið allt hvað skuli vera mælikvarði virðis (sjá einnig chartalisma).

Á Íslandi mælum við þetta traust í garð útgefanda fjárskuldbindinga með mælieiningunni ISK. Og ef ekkert traust er á skuldbindingu, t.d. því útgefandinn er búinn að gefa of mikið út af henni, fellur virði hennar. Of mikið af fjárhagslegum skuldbindingum í samanburði við raunverulegar vörur og þjónustu þýðir líka að virði fjárhagslegu skuldbindinganna, þ.e. peninganna, fellur í virði. Það þýðir að almennt verðlag, mælt með viðkomandi mælieiningu (ISK), hækkar. Helstu útgefendur skuldbindinga, þ.e. peninga, á Íslandi eru vitanlega bankarnir og ríkissjóður.

Þar sem peningar eru óhlutbundnir þurfa bankar ekki krónu í lausafé til þess að veita lán. Bankar kaupa skuldbindingu lántakans og greiða fyrir hana með skuldbindingu sem þeir gefa út sjálfir samhliða kaupunum. Þessar skuldbindingar, þ.e. innlán í banka, eru hluti af peningamagni í umferð. Enginn þarf þess vegna að leggja krónu (vöru) í banka til þess að viðkomandi banki geti veitt lán.

Hví skiptir þetta máli?

Peningamargfaldarinn og margar aðrar kenningar og ferlar í hagfræði og í hagkerfinu eru byggðar á því að bankar séu vara. Peningamargfaldarinn er þannig ekki til í raunveruleikanum og blessunarlegu eru helstu seðlabankar heims byrjaðir að benda á það í fúlustu alvöru að við verðum að hætta að notast við þetta módel ef við viljum skilja hvernig banka- og peningakerfið virkar í raunveruleikanum.

Lífeyrissjóðir sem byggjast á sjóðssöfnun byggjast einnig á þeirri trú að það verði að setja peninga (vörur) til hliðar sem síðan eru notaðar í framtíðinni til þess að kaupa aðrar vörur sem neytt er þegar maður er orðinn gamall.

En þar sem peningar eru óhlutbundnir og allir peningar eru skuldbindingar, þ.e. loforð, er hægt að búa þá til hvenær sem er. Það skiptir t.d. engu máli fyrir greiðslugetu ellilífeyrisþega í ISK hvort fjárhagsleg skuldbinding í ISK sé búin til í dag, árið 2018, og hún ávöxtuð með misgáfulegum hætti (kannski vel, kannski illa) og svo greidd út árið 2040 (eða hvenær sem) eða hvort fjárhagslega skuldbindingin, ásamt ígildi ímyndaðra vaxta yfir tímabilið, sé búin til, þ.e. rituð niður á efnahagsreikning útgefandans, í heild sinni árið 2040. Það sem skiptir máli er hvort nægilegt magn af vöru og þjónustu sé framleitt árið 2040 sem viðkomandi skuldbindingar, þ.e. peningar, eiga að kaupa – en það skiptir engu máli hvenær skuldbindingin er búin til.

Ég vil þó taka fram að það getur verið gáfulegt, fyrir heildarframleiðslugetu hagkerfisins, að gefa skuldbindinguna, þ.e. peningana, út í dag. Það verður þá að fjárfesta þessar skuldbindingar á skynsaman hátt, t.d. í eignum sem eru með svipaðan líftíma og skuldbindingin sjálf, þ.e. til afar langs tíma í tilviki lífeyrisskuldbindinga.

Augljóstasta dæmið um slíkar eignir eru fasteignir. Þess vegna væri það mjög skynsamlegt ef íslenskir lífeyrissjóðir myndu byggja upp mikið og gott eignasafn í fasteignum. Óhikað mætti stefna á að 10-15% af heildareignasafni íslensks lífeyrissjóðs sé í formi húsnæðis sem hann á og leigir út. Til samanburðar eru umrætt hlutfall um 20-25% hjá svissneskum lífeyrissjóðum.

Fyrir áhugasama má finna glærurnar mínar frá því á málstofunni hér: glærur. Þar má m.a. finna heimildir, t.d. í alla seðlabankana sem hafa bent á að peningamargfaldarinn er ekki til.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur