Þriðjudagur 12.01.2016 - 12:11 - FB ummæli ()

Sameiginlegir hagsmunir

Það er fagnaðarefni þegar að góðar fréttir berast vestur frá Alþingi Íslendinga.

Nú er það staðfest að 15 milljónum hefur verið varið á fjárlögum næsta árs til að kosta undirbúningsvinnu við hringtengingu raforku Vestfjarða.  Það vel og þessu ber að fagna.

Hringtenging raforku á Vestfjörðum er lykilatriði og ein af forsendum fyrir því að hér verði viðsnúningur í atvinnulífi og menningu. Snúið verði frá þeirri þróun sem lýst í skýrslu byggðastofnunnar, þar sem fjallað er um hagvöxt landshluta 2009 – 2013, en þar segir m.a.;

„Mest dróst framleiðsla saman á Suðurnesjum og á Vestfjörðum frá 2009 til 2013, eða um 11-12%. Einkum virðist vera ástæða til þess að hafa áhyggjur af þróun mála á Vestfjörðum. Samtals hækkuðu launagreiðslur þar 10% minna en laun á landinu öllu. Á sama tíma fækkaði fólki á Vestfjörðum um 5%. Vísbendingar eru um að höfuðatvinnugreinin, sjávarútvegur, standi höllum fæti í þessum landshluta. Framleiðsla hefur lengi dregist saman á Vestfjörðum, dráttur í sjávarútvegi virðist vera meginskýringin á falli framleiðslu á Vestfjörðum undanfarin ár, en þar hafa byggingar, fjármálaþjónusta og skyldar greinar einnig dregist mikið saman.“

Lýsing skýrslunnar talar einfalt og skýrt mál. Hér þarf átak og samhentan vilja til breytinga. Vestfirðingar eiga auðlindir, og nú þarf átak til að treysta og byggja upp innviðina svo hér verði hægt að nýta þær til fullnustu.  Skapa hér kröftugri aðstæður til athafna og menningar, fjölgunar og allrahanda hagvaxtar.

Hringtenging raforku á Vestfjörðum spilar þar langan og fallegan sólókafla í tónverki sem verður söngur Vestfjarða inn í komandi framtíð.

Hringtenging Vestfjarða mun án efa veita stórum fjárfestingarverkefnum verkefnum brautargengi, eins og komið hefur fram í atvinnuuppbyggingarumræðu síðustu missera.  Uppbygging innviða svæðisins er forsenda nýrra tækifæra í atvinnumálum Vestfjarða.

Uppbygging atvinnumála á Vestfjörðum snýst ekki um einstök sveitarfélög eða einstaka menn. Heldur einstakt svæði, Vestfirði.  Hér viljum ala manninn, fjölga okkur og rækta framtíðina. Til þess þurfum bærilegar aðstæður, til jafns við aðra landsmenn.

Framundan er samráðsfundur sveitarfélaga á Vestfjörðum. Þar verður væntanlega rætt af festu um raforkumál Vestfirðinga, þá hringtengingu Vestfjarða.  Hér þurfum við að tala einni röddu, enda sameiginlegt hagsmunamál okkar allra, fyrir einstakt svæði.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Pétur Georg Markan
Höfundur er sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga.
RSS straumur: RSS straumur