Laugardagur 16.07.2016 - 12:13 - FB ummæli ()

Ísafjarðarbær 150 ára – hugleiðing og kveðja

Ég er giska 7 ára á leiðinni vestur. Framundan er sumardvöl hjá frændfólki. Fram að þessu hafði ég lært að veröldin getur verið hættuleg. Bílarnir, kallarnir, sjórinn og allt þetta hitt sem feður og mæður eru verndandi fyrir.

Mánuður á Ísafirði og viðhorfið hafði breyst.

Ég labbaði sjálfur niður í bæ og keypti mér snúð með hörðu súkkulaði…og kringlu. Maður lifandi hvað kringlur er vont fyrirbæri nema fyrir vestan. Þar eru þær bakkelsi guðanna. Ég lá fram á bryggjukantinn í Hnífsdal, veiddi manna og húkkaði kola. Hjólaði síðan heim í einfaldri röð, Steini á undan til að láta mig vita af stórum bílum.

Viðhorfið hafði breyst. Lífið var frelsi, veröldin víð og ævintýrin sönn.

Ég er giska 19 ára borgarbarn á leiðinni vestur. Föðurlaus tinkarl í leit að hjarta. Framundan síðasti leggur menntaskólagöngunnar, knattspyrna og þetta sem rúnar alla í framan í tímans rás; ástin, átök og ábyrgð. Stór ákvörðun að flytja vestur og sumpart erfið. Kannski verður engin ákvörðun stærri en sú besta sem þú tekur í lífinu.

Ísafjörður varð mitt leiksvið næstu árin.

Það er engin ástæða að læðast með það sem satt er. Þessi ár fyrir vestan eru mér ekki bara ógleymanleg, ég er vegna þeirra.

Kom með tóman poka.

  • Fór sem stúdent.
  • Fór sem reynslumikill knattspyrnumaður.
  • Fór með tónlist í eyrunum og gítar í kjöltunni.
  • Fór með vini sem duga þar til lífið segir stopp.
  • Fór með félagsmál og pólitík í beinmergnum.
  • Fór með skýra hugmynd um hver ég vildi verða, hvert ég vildi fara.

Viðhorfið hafði breyst. Ég hafði breyst.

Ég er 31 árs á leiðinni vestur á Ísafjörð. Ég er að fara að ljúka knattspyrnukaflanum, loka hringnum. Hér fékk ég tækifærið, hér varð ég fyrst fyrirliði, hér lýk ég sem fyrirliði.

Ég er enn fyrir vestan.

Ég er auðvitað smátt korn í tímaglasi Ísafjarðarbæjar. Eitt af þúsundum sem bærinn hefur nært og nostrað við. Sumir staldra stutt við, sumir allt lífið.

Takk fyrir hjartað. Til hamingju með afmælið.

150 ár er afar merkilegur áfangi fyrir hvert bæjarfélag. Ísafjarðarbær hefur glæsta sigra, þungar sorgir, magnaða sögu ólíkra þéttbýliskjarna, stórbrotna menningararfleið og iðandi íþróttalíf í sínum sögu handritum.

Hlutverk Ísafjarðarbæjar í sveitarfélagaflóru Vestfjarða er afar mikilvægt. Hvort sem litið er til stjórnsýslu, menningar eða íþrótta þá er Ísafjarðarbær kompás sem önnur sveitarfélög taka sitt mið af.

Ísafjarðarbær er heimsbær sem hefur í sinni þroskasögu gert veröldina að sínum áhrifavaldi. Þessara áhrifa gætir síðan í lífi og starfi annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum, hefur dýpkað þau og gert sterkari. Fyrir það verður seint þakkað nægilega.

Fyrir hönd Súðavíkurhrepps þakka ég Ísafjarðarbæ fyrir samfylgdina, óska sveitarfélaginu blessunar um ókomin ár og kalla kveðjuna yfir: Ísafjarðarbær lengi lifi, húrra!

Gleðilegt afmæli.

Pétur G. Markan
Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Pétur Georg Markan
Höfundur er sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga.
RSS straumur: RSS straumur