Sunnudagur 23.10.2016 - 14:32 - FB ummæli ()

Eru Vestfirðingar óttaslegnir?

Grímur Atlason, settist í hljóðstofu RÚV á föstudaginn og ræddi AirWaves tónlistarhátíðina. Frábæran tónlistarviðburð, sem er orðin einn af hornsteinum tónlistarsenu Íslands.

Í hliðarskrefi við umræðuefnið fór Grímur að ræða fortíð sína og þá um leið hans tengingu við Vestfirði.

Grímur hefur nefninlega áhyggjur af Vestfjörðum, þar eru allir hræddir. Allir að fara flytja, menn að vinna með atvinnuuppbyggingu eins og laxeldi, er álverið ekki örugglega að koma hugsar fólk og það býr engin í Súðavík, segir Grímur leiður.

Til að sefa Grím og áhyggjurnar er rétt að eftirfarandi komi fram:
• Á suðursvæði Vestfjarða hefur verið 5% fólksfjölgun síðustu ár.
• Vestfirðir er stóriðjulausir, hafa verið það og verða það áfram samkvæmt ákvörðun sveitarfélaga á Vestfjörðum. Álverið er því ekki á leiðinni og engin að bíða.
• Laxeldi er matvælaframleiðsla sem er háð ströngu umhverfismati.
• Í Súðavíkurskóla hefur fjölgað börnum undanfarið, sem er sjálfsagt einn besti mælikvarði á íbúaþróun sveitarfélaga. Einungis réttindakennarar hafa umsjón með bekkjardeildum við grunnskólann. Skólastjórinn lauk nýverið meitararagráðu við HÍ í kennslufræðum og stjórnum skóla.
• Sveitarfélagið er með gjaldfrjálsan leikskóla. Þar hefur börnum fjölgað undanfarið.
• Í Súðavík býr tónlistarmaður sem verður eitt af aðalnúmerum Gríms á AirWaves í ár, Mugison.

Vestfirðingar er því ekki óttaslegnir, eða hræddir. Hitt þó heldur. En Vestfirðingar ræða stöðu sína og baráttumál, sakna þeirra sem flytja burt og fagna þeim sem setjast að. Eins og önnur byggðalög.

Það er til að mynda fjörug umræða þessa dagana um íbúaþróun miðbæjarins, í samhengi við uppgang ferðaþjónustu á svæðinu. Skyldu íbúar miðbæjarins vera hræddir og óttaslegnir. Eru íbúar miðbæjarins orðnir svo veikgeðja að þeir væru ginnkeyptir fyrir þriðja álverinu? Nei, þar mæta menn sjálfsagt verkefninu af festu og ábyrgð. Eins og Vestfirðingar.

En sjálfsagt að hafa áhyggjur af geðlagi Vestfirðinga.

Irónían í orðum Gríms er kannski sú að á meðan Grímur hefur áhyggjur af laxeldi á Vestfjörðum, situr hann í hljóðstofu í rvk sem er föðmuð af tveimur kraftmiklum álverum.

Það hafa margir komið að uppbyggingu Vestfjarða. Þeim hefur farnast misjafnlega. Það veit Grímur, sennilega er það sú vitneskja sem truflar hann í viðtalinu. Hann veit betur.

Vestfirðingar taka sinn tilvistadans við undirleik örlaganna. Stundum eru hreyfingarnar þungar og kraftmiklar, og stundum léttar og dúnleikandi.

En aldrei verður óttinn dansfélagi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Pétur Georg Markan
Höfundur er sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga.
RSS straumur: RSS straumur