Föstudagur 21.01.2011 - 12:53 - Rita ummæli

Ég deili skoðunum með þeim sem vilja að auðlindir landsins séu í þjóðareign. Ég reyndar veit ekki alveg hvað þjóðareign merkir stundum og hef sem fyrr enga sannfæringu fyrir því að ríkið og stjórnmálamenn geri allt betur en einstaklingarnir.

það er eins með andófið gegn Magma og andóf gegn hvalveiðum, iðnaði og ég veit ekki hvað. Þetta verður bransi og karríer hjá fólki og rök skipta þá oft heldur litlu. Tilfinningar ráða för og pólitískar kreddur oft í bland.

Björk og co söfnuðu undirskriftum og ef mér skjöplast ekki stórlega snérust þær um að auðlindir okkar ættu og yrðu í þjóðareign og þvi þyrfti með hraði að koma Magma úr landi. Hvað í þessu stemmir ekki? Er verið að selja auðlind úr landi með viðskiptum Magma?

47 000 manns vilja að ríkið kaupi Magma í burtu frá því nýtingarrétti á auðlindinni. Ég reikna með því að mörgum þyki gaman að því að búa til þrætu um það hvort nýtingarréttur sé ekki í raun eign en ég hef ekki nennu í orðaleiki eins og þá. Eignarrétturinn er klárlega í okkar höndum þó nýtingarrétturinn sé leigður út.

Þessi hópur fólks vill að ríkið taki risalán til að kaupa útlendinga frá því að geta nýtt auðlindir okkar okkur til hagsbóta. Þetta fólk vill frekar að við borgum risavexti til erlendra banka en að sá möguleiki geti komið upp að erlent fyrirtæki geti grætt hér.

Mér gengur ekkert að skilja þetta óþol gagnvart erlendri fjárfestingu. Við getum auðvitað haldið áfram að selja og lána hvert öðru alíslenska þúsundkalla fram og til baka og talið okkur trú um að í því felst sérstök sæla til lengri tíma.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur