Fimmtudagur 10.02.2011 - 10:43 - Rita ummæli

Stundum langar mig svo mikið að skilja af hverju ég get ekki skilið þá sem eru algerlega á annarri skoðun en ég. Ég hef fyrir nokkru lært að flestir eru vel meinandi og varla er ég betur gefinn en gengur og gerist og ég veit að ég hef óþægilega oft rangt fyrir mér þó ég geti líka dottið niður á rétta hluti.

Mig langar alveg ofboðslega mikið að fatta hvaða trix núverandi ríkisstjórn sér í því að kaffæra okkur í álögum og sköttum. Við erum flest sammála um að tekjur ríkissins þurfa að aukast til muna og draga verður úr kostnaði sem enn er að mesta sniðin að þörfum gamla landsins sem var fyrir kreppu.

Tekjur ríkissjóðs detta ekki af himnum ofan. Þær renna úr vösunum mínum og þínum og þannig verða til peningar til að standa straum af sameiginlegum rekstri. Og flest viljum við gott öryggisnet og blandað hagkerfi og ættum ekki að þurfa að þrasa um það.

Hægri og vinstri menn rífast um megingildi í pólitík og hafa gert alla tíð og munu gera áfram Hægri menn telja lága skatta góða en vinstri menn sjá þetta pínu öðruvísi. Þeir telja almennt orðað að best sé að ríkið, og þá stjórnmálamenn, hafi sem mest með það að gera hvað verður um launin okkar.

Meira að segja í eðlilegu árferði gengur mér ekkert að skilja þau fræði að jarðfræðingur sem kosinn er til þings sé betur til þess fallinn en ég að ákveða hvað verður um peningana mína þó ég vilji auðvitað borga mitt til samfélagsins og halda þeirri samfélagsgerð sem við búum við.

Núna eru harðindatímar. Atvinnuþref og hörmungar miklar. Allt virðist hækka nema launin og skuldir ríkissins ótrúlegar. Þá þarf að fá meira í ríkisskassann, eðlilega….

Við þurfum meiri skatttekjur. Þannig er það bara og við erum sammála þar. Hvernig verða skatttekjur til spyr ég eins og fávís kona? Steingrímur J virðist telja að þær verði til með því einu að sækja bara nógu mikið í veskið mitt alveg óháð því hvernig veskinu mínu reiðir af.

Hvað er hagvöxtur? Er ég líklegur til þess að eyða að rúlla peningum mínum í gegnum hagkerfið ef þeir eru ekki til og komnir í kassann hjá Grímsa? Hvaða hlutar atvinnulífsins hagnast á því ef einkaneysla dregst saman? Hver hefur sýnt fram á það að ríkið framleiði peninga? Hvernig verða skatttekjur til?

Við erum öll sammála um að ríkið þarf auknar tekjur til að mæta útgjöldum og flest erum við líka sammála um að báknið verður að minnka verulega.

Ég hef reynt af öllum mætti að reyna að skilja prinsippin í því að lemja á bæði launþegum og atvinnulífinu með auknum álögum í mjög harkalegri niðursveiflu en fæ ekki botn í málið. Samt langar mig svo mikið að fatta trixið.

Hvað er það sem ég fatta ekki?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur