Fimmtudagur 28.04.2011 - 17:29 - 1 ummæli

Aðeins um fótbolta „leikara“

Stundum horfi ég á fótbolta og hef gaman af. Ég horfi mikið á dómarana enda eru prinsippin í dómgæslu oft þau sömu og hjá okkur körfuboltadómurum. Ég læt hafa mig í það að horfa á meistardeildina og get alveg notið hennar þegar vel tekst til. Annars er enski boltinn minn bolti.

Í gær spiluðu Real Madrid og Barcelona og gríðarspenna eins og alltaf þegar þau spila og ekki síst núna þar sem þau mætast oft á stuttum tíma. Þessir leikir ættu ef allt væri sem best að vera veisla fyrir fótboltaáhugamenn. Þjálfari Real er magnaður karakter sem kann að stela sviðsljósinu og kynda undir og það getur verið skemmtilegt. Dýrasta fótboltalið sögunnar í höndum hans að spila við….

….hugsanlega eitt besta lið sögunnar sem hefur innanborðs eitt af undrum fótboltans í Messi. Gríðarlegur ljómi yfir Barca og vilji þeir halda boltanum í 90 mínútur þá gera þeir það. Af sögulegum ástæðum eru þessir leiki el classico fyrir alla fótboltaáhugamenn hvar sem er í heiminum.

Eftir leikinn í gær rífast menn yfir rauðu spjaldi og forheimskum dómara og það munu menn gera svo lengi sem fótbolti verður stundaður. Ég hef meiri áhuga á öðrum punkti þessarar sögu.

Af hverju tala fáir um það hversu óþolandi er að horfa á þessa milljónamæringa eyða nánast heilum leik í að blekkja dómara? Feiknagóðir leikmenn liggja eins og afvelta grasbítar emjandi af kvölum án ástæðu og rísa svo upp frá dauðum þegar andstæðingurinn er kominn með ósanngjarna refsingu eða að dómarinn sýnist ekki ætla að falla fyrir trikkinu. Og þá alheilir….

Allt er leyfilegt og tilgangurinn helgar meðalið. Það væri verulega áhugavert að taka saman tölfræði í þessu efni og gera samanburð. Þið verðið að afsaka að mér er alveg sama hversu „góðir“ þessir gæjar eru í fótbolta, ég get ekki borið virðingu fyrir mönnum sem reyna án afláts að hafa rangt við.

Í gær fékk leikmaður sem er reyndar allt að því ofbeldismaður í fótbolta rautt spjald fyrir að koma eiginlega ekkert við einn af þessu rándýru leikurum. Margir, dómarinn þar með, trúðu leikaranum sem vann magnaðann leiksigur enda ekki að annað að sjá við fyrstu sýn að um gróft brot væri að ræða.

Hvers á dómarinn að gjalda? Þeir sem halda að auðvelt sé að sjá i gegnum svona nokkuð hafa líklega aldrei dæmt kappleik í neinu sporti. Í gær töpuðu allir og fótboltinn varð algert aukaatriði. Snilldartilþrif Messi megna ekki að fá mig til að hugsa um annað en þessa hörmung sem þessir „leikmenn“ nenna að bjóða okkur upp á.

Mikið óskaplega vona ég að hvorugt þessara lið vinni stóru dolluna. Mér finnst fair play skipta miklu og það er hugtak sem leikmenn spænsku risanna þekkja ekki.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Hjartanlega sammála. Mun halda grimmt með Man Utd í þessum úrslitaleik. Hreint óþolandi að horfa á þetta væl og tuð trekk í trekk.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur