Þriðjudagur 14.06.2011 - 14:00 - 3 ummæli

Staða biskups

Hvað á maður að halda um þjóðkirkjuna? Margir ríghalda í trúna og vilja stunda kirkjuna sína og þykir undurvænt um siðina. Við höldum jól og sækjum brúðkaup og jarðsyngjum hvert annað í faðmi kirkjunnar. Börnin okkar flestra eru fermd og skírð í kirkju og tónlistarlíf væri fátækara ef ekki hefðum við haft kirkjukórana.

Og við höfum prestana. Þeir eru af holdi og blóði eins og við og verða varla háheilagir þó þeir ljúki embættisprófi og fái brauð. Það er þannig að við heyrum mun meira af því sem miður fer og svoleiðis er það klárlega með kirkjuna því innan kirkjunnar er auðvitað unnið frábært starf.

En ef við viljum meta gæði hlutanna er best að byrja á slæmu dögunum. Kirkjan er að ganga í gegnum slæma daga hin síðustu ár þegar hvert hneykslismálið virðist reka annað. En það eru viðbrögðin við sögunni og þeim mistökum sem hún hefur að geyma sem gera íllt verra.

Karl Sigurbjörnsson virðist ætla að taka einkahagsmuni sína fram yfir kirkjunnar og vei kirkjunni ef honum tekst það. Rannsóknarskýrsla kirkjunnar á glæpum Ólafs Skúlasonar fer þeim höndum um Karl að hann á engan kost annan en stíga til hliðar. Þannig og aðeins þannig á hann einhvern möguleika á fyrirgefningu.

Kannski upplifir biskup sig sem fórnarlamb tíðarandans á einhvern hátt. Við horfðum á Ólaf Skúlason tala um áskanir sem á hann voru bornar og kærðum okkur kollótt flest og héldum áfram með okkar verk. En við vissum ekki það sem sumir aðrir vissu…

Karl Sigurbjörnsson gerir ekki tilraun til að andæfa niðurstöðu skýrsluhöfunda en reynir að segja okkur hvers vegna hann gat ekki breytt rétt. Ég hef þá skoðun að þær skýringar séu til heimabrúks og geri ekkert gagn fyrir kirkjuna.

Staðreyndin er sú að upp er komin staða sem Karl kemst ekki frá nema segja sig frá starfi. Hann þarf að hugsa stórt og af auðmýkt og hann þarf að hugsa um hag kirkjunnar fyrst og fremst.

Það gerir hann með því að stíga til hliðar. Þannig axlar hann ábyrgð og reynir að læra af misökum sínum.

Einungis þannig….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Anonymous

    „Þjóðkirkjuna“ á að leggja niður í núverandi mynd. Fela söfnuðum að reka sína kirkju og sinn prest ef þeir svo vilja.Hlífa skattgreiðendum við kostnaðinum.Hugsandi fólki við boðskapnum.Og heiðarlegu fólki við lyginni og óheilindunum.

  • Anonymous

    Eina raunhæfa leiðin til að ná fram breytingum innan ríkiskirkjunnar er sú að sem ALLRA flestir skrái sig úr hennihttp://www.fmr.is/pages/1037Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

  • Anonymous

    „Rannsóknarskýrsla kirkjunnar á glæpum Ólafs Skúlasonar fer þeim höndum um Karl að hann á engan kost annan en stíga til hliðar.“Þú hefur semsagt ekki lesið skýrsluna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur