Fimmtudagur 6.4.2017 - 13:41 - 1 ummæli

Trú á Guð og menn

Svo að það sé nú sagt,

Fyrir mig hefur góð predikun þau áhrif að mig langar til þess að kynnast Jesú meira, langar að eignast ávextina sem lofað er. Yndislegt að sitja undir góðri predikun,

Kirkjan er leidd af fólki, þannig séð, og það fólk af Guði,

En leiðtogar kirkjunnar eru ekki Guð. Undir því rís enginn og enginn þarf að reyna það,

Að trúa á menn er dæmt til að mistakast og hefur of oft leitt þá sem reynt hafa til ófarnaðar enda aldrei meiningin. Slík trú mun valda vonbrigðum meðal annars og ekki síst vegna þess að prestar og forstöðumenn eru í öngvu undanþegin mannlegum eiginleikum og eða breyskleika sem allir, leikir sem lærðir, burðast með,

Ég trúi á Guð og ég elska samfélagið í kirkjunni. Prestarnir eru til háborinnar fyrirmyndar og gleyma ekki að predika trú á Guð og ekki menn. Þar erum við hvert á sínu ferðalagi og þar er  pláss fyrir allt og alla,

Enginn á meira en annar þegar kemur að göngunni með Guði, öll skiptum við máli í augum Guðs sem mætir okkur hverju og einu, eins og við erum, þar sem við erum. Við erum meira en nóg eins og við erum og þurfum ekki vera neitt annað,

Trúargangan er klæðskerasaumuð, hún er persónuleg og hana getur enginn lifað eða gengið fyrir mig,

Postulasagan 5:29…..framar ber að hlýða Guði en mönnum,

Berum virðingu fyrir öllu fólki og ekki minnst þeim sem kallaðir eru til forystu en gerum ekki fólk að Guði. Það val verður ekki til nokkurs framdráttar,

Fólk, dásamlegt fólk þá og nú, varð til þess að ég fann þörf til þess að opna fyrir Guð í mínu lífi, fólk eins og ég og þú. Sumir hafa forstöðu en aðrir ekki en eiga þá lífsstefnu sameiginlega að elska fólk og trúa á Guð,

Betur verður ekki boðið

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Bloggar

Mánudagur 13.3.2017 - 11:08 - Rita ummæli

Trú; ferli eða viðburður…

Að frelsast er ekki bara einstakur viðburður heldur ferli.

Hversu miklu þægilegra væri það að öðlast í einni hendingu trú sem aldrei haggast, fallega og góða lífið og aldrei skuggi eftir það..

Þannig er það ekki hjá mér eða neinum sem ég þekki. Ég er að frelsast hvern dag, stundum tvö skref aftur á bak og eitt áfram en miklu oftar þveröfugt, skref til baka og fjölmörg áfram. Í trúnni læri ég mest af mistökum mínum…ef ég vel það og vill,

Vel Jesú,

Við fáum ítrekuð tækifæri til þess að velja ekki Jesú heldur frekar eitthvað girnilegt af allsnægtaborðinu sem fallinn heimur hefur upp á að bjóða. Dropinn holar svo steininn sem ég er í hvert skipti sem ég vel Guð,

Hafi ég reiknað með allsherjar fullnaðarsigri yfir sjálfum mér syndugum manninum þegar ég gerði Jesú að leiðtoga lífsins þá hefur reynslan kennt mér að svo er ekki. Í dag er nýr dagur með nýjum áskorunum, sigrum og ósigrum og það sem er best, með nýrri náð Guðs,

Það sem var í gær, gott eða slæmt, er þar og því verður ekki breytt né til þess litið. Jesús fyrirgefur og ég er að læra að fyrirgefa sjálfum mér og öðrum og hvað gæti verið betra en að fyrirgefa eða fá fyrirgefningu…?

Gleðin er að finna fyrir valkostinum, finna hvernig Guð vill leiða mig að góða lífinu, góðum ákvörðunum, að gildum sem biblían hefur boðað allan tímann, finna hvernig geta mín til þess að elska Guð og menn eykst, þroskast og styrkist….það er leiðin og þannig finn ég fyrir því að ég geng með Guði,

Mér mun mistakast áfram, það er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að vera manneskja, en ég veit að ferðalagið með Jesú hjálpar mér að rísa til þess sem mér er ætlað. Nefnilega að verða betri maður í dag en í gær,

Guð gefi að svo megi verða

Flokkar: Bloggar

Þriðjudagur 21.2.2017 - 13:10 - 1 ummæli

Að vera kirkja

Mér finnst kirkjan dýrmæt

Áður en ég eignaðist lifandi trú var kirkjan einhvernvegin of hátíðleg og erindið tengt atburðum sem kröfðust þess að ég kæmi þar. Bændur sem búalið uppáklædd enda spari að koma í kirkju,

Það er vissulega spari að koma í kirkju en trú snýst lítið um byggingar eða ytri umbúnað. Í mínu minni var presturinn næstum þvi Guð, ósnertanlegur og heilagur klárlega,

Kirkjan var fullkomin,

Kannski þess vegna sem löngun mín til að sækja þannig stað var takmörkuð ófullkominn sem ég var, og er. Allt um það, kirkjan var þarna og gott að grípa til hennar eftir þörfum eða smekk,

Stofnun frekar en trúarsamfélag, afgreiðslustofnun kannski, skírn, ferming, gifting og greftrun og lítið eða fátt annað. Ég man ekki til þess að hafa tengt kirkjuna við trú,

Svo gerðist það þó einn daginn,

Ég elska kirkjuna mína. Hún er að formi til eitthvað öðruvísi en þjóðkirkjan en form er form og trú hvorki lifir né deyr þar,

Ég veit fátt en það þó að kirkjan er ófullkomin og mun alltaf vera það og þarf ekki að þykjast vera neitt annað. Kirkja er nefnilega ekki stofnun heldur samfélag fólks sem hefur valið að gera Guð að leiðtoga sínum, ófullkomið fólk sem þarf Guð kannski ekki síst þess vegna,

Þarna í gamla daga fannst mér eins og ég kæmi sem gestur til kirkju. Eins og til þess að heimsækja Guð, Nú upplifi ég þetta öðruvísi,

Við komum færandi hendi, við sem sækjum kirkjuna. Komum með Guð í hjartanu og þannig verður kirkja kirkja,

Kirkja er ekki húsnæði heldur samfélag, mitt og þitt, og þar erum við öll eins og jöfn frammi fyrir Guði, ekki bara sum, öll,

Fólk með ólikar sögur á perónulegu ferðalagi en finnum fyrir einum og sama kærleika sem Guð gefur,

Samkomudagar í kirkjunni er yndislegir og þaðan fer ég glaður og bæn mín sú að mér auðnist að lifa trú mína utan þeirra veggja, að mér takist að vera kirkja hvar sem ég kem því þannig er raunveruleg kirkja og þannig ætti trú mín að birtast,

Guð gefi að svo verði

 

 

 

 

 

Flokkar: Bloggar

Fimmtudagur 26.1.2017 - 14:41 - 1 ummæli

Ég trúi

Hvað gerðist eiginlega, hvað kom fyrir?

Þannig voru viðbrögðin þegar ég eignaðist trú á Guð. Aumingja kallinn, gersamlega búinn að missa það,

Loksins þegar ég er að komast til manns,

Spurningin samt þessi og ég veit ekki nákvæmlega, eða skil alltaf til fulls, hvað gerðist eða kom fyrir en lífið hefur ekki verið það sama. Að eiga lifandi trú á Guð breytir…

Fordómarnir mínir tóku kipp þarna þegar þetta allt byrjaði en mig langaði samt að kynnast því lífi sem þeir eiga sem ganga með Guði. Hafði þó lært að frelsaða liðið er víst örugglega meira og minna alveg snar,

Furðulegur söfnuður vondra með biblíu í annarri hendinni meðan hin seilist ofan í vasa safnaðarins eftir aurunum, 

Auðtrúa einfeldningar án vafa….Kynntist því þó fljótt að ekki er alltaf auðvelt að ganga með Guði, til þess þarf heilmikla trú sem er hvorki auðveld né einföld,

Bilun segja þeir og hafa sagt í meira en 2000 ár, rúmlega 2000 ára bilun og trúin enn að breyta lífi fólks um allan heim. Fólks sem á ekkert annað sameiginlegt en að trúa á Guð,

Les bók og biður bæna, biður til Guðs…

Þetta er ekki fornsaga eða dægurfrétt heldur raunveruleg nútímasaga því trúin er að breyta lífinu enn þann dag í dag,

Vá, hvað gerðist eiginlega hjá þér maður?

Vildi geta útskýrt það á auðskiljanlegan hátt en eitthvað gerðist og er að gerast á hverjum einasta degi því trú er ekki tekin inn í eitt skipti fyrir öll heldur á hverjum degi og oft á dag,

Þessi dagur er einmitt þannig dagur

 

 

 

Flokkar: Bloggar

Fimmtudagur 13.3.2014 - 09:49 - 2 ummæli

Rörsýnin

Íslensk stjórnmálaumræða er sérstök. Við erum flest með rörsýn sem beinir augum okkar í eina átt og það er rétta áttin. Áttin þar sem okkar menn eru….

Nú berast þau tíðindi að ESB hafi samið um makríl veiðar, og skilið okkur Íslendinga eftir,

Þá spretta menn upp hér og hvar og hjóla í utanríkisráðherra. Vel má vera að það sé gefandi að þola hann ekki en eru menn að taka í gikkinn áður en þeir vita nógu mikið?

Fyrir ekki alltof mörgum klukkutímum síðan höfðu menn fæstir nokkuð við vinnulag okkar í þessu máli að athuga en það breytir ekki því að félaga Össur skolar nú upp á yfirborðið og segist hafa séð þetta fyrir,

Fátt er nýtt undir sólinni,

Nú mun þetta vera viljandi gert til að spilla fyrir samskiptum okkar við ESB,

Íslensk stjórnmálaumræða er orðin einn alsherjar spuni þar sem þeir sem bjóða upp á mesta safann alveg óháð staðreyndum fá mesta plássið ef bara viðkomandi fjölmiðill er á sama máli og spunameistarinn,

Einhver ruglar um sumarbústaðaferðir vondra mann í pólitík, algerlega út í bláinn, og það ratar á síður blaða sem annað veifið gefa sig út fyrir að vera alvöru fjölmiðlar,

Það er ekki höfuðsynd að vera ósammála um málin. En það er afleitt að láta það ýta okkur út á það forað sem umræða á netinu og í fjölmiðlum sumum er komin út í.

Röggi

 

 

Flokkar: Bloggar

Mánudagur 3.3.2014 - 16:05 - 1 ummæli

Að snúa vörn í sókn

Innköllum kvótann,

Hver sveik það risastóra loforð? Og hverjir mótmæltu því ekki……?

Stjórnmálin í kring um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að slíta viðræðum við ESB er ósköp venjuleg gamaldags íslensk pólitík. Pólitík sem snýst ekkert sérstaklega um ást manna á lýðræðislegum rétti fólks til að tjá sig í þjóðaratkvæðagreiðslum, 

Frekar prinsippin um það hvað mér finnst best og hagstæðast akkúrat núna,

Kannski bakkar ríkisstjórnin með málið og finnur þannig skemmtilegt frumkvæði og hlustar á það sem hún heyrir, 

Það væri nýtt og styrkur frekar en veikleiki,

Og hugsanlega leið til að snúa knappri vörn í sókn,

Röggi

Flokkar: Bloggar

Mánudagur 24.2.2014 - 10:51 - 2 ummæli

Þjóðaratkvæðagreiðslur fyrr og nú

Í byrjun er vert að hafa það í huga að mín skoðun er, eindregin, að besta leiðin sé að taka ákvarðanir um meginstefnu í ESB málum í nánu samráði við þjóðina. Þjóðaratkvæðagreiðsla er þar kjörin aðferð. Hefði jafnvel getað fellt mig við slíka afgreiðslu mála í icesave málunum en þar voru ég og ríkisstjórn þess tíma ósammála,

Ég hef haft þessa skoðun áður og fyrr. Nú þegar ákveðið hefur verið að slíta viðræðum sem búið var að gefast upp á er ég enn þessarar skoðunar,

Sem er meira en hægt er að segja um suma,

Ég hafði þessa skoðun afgerandi árið 2010 þegar stjórnarandstaða þess tíma barðist um á hæl og hnakka við þing og ríkisstjórn, VG og Samfylking hafi einhver gleymt, um að gefa þjóðinni kost á að kjósa um það hvort við ættum að halda áfram aðildarviðræðum.

Minnugir menn og konur ættu að geta ryfjað upp hvernig og hverjir börðu allt slíkt niður enda skoðanakannanir þá óvenju skýrar í andstöðu við málið allt. Þá gleymdist lýðræðisástin og aðdáun á því sem stundum er kallað þjóðarvilji,

Í fjögur ár reyndi ósamstíga ríkisstjórn, þvert á títtnefndan þjóðarvilja og án þess að bera það undir þjóðina, að semja við ESB, með þeim árangri að hún ákvað að gera hlé á viðræðunum eins og það er kallað. Enn á ný án þess að bera það undir nokkurn mann eða nokkra konu,

Uppgjöf er eitt orðið yfir það,

Samfylkingin gékk svo, einn flokka, til kosninga hnarreyst með ESB sem sinn eina valkost. Minnugir ættu einnig að geta kastað því  upp í snarhasti, enda fremur stutt síðan, hvernig hin margumtalaða þjóð tók þeim boðskap,

Nú þegar ný ríkisstjórn sem inniheldur tvo flokka sem hafa komist að þeirri niðurstöðu að þeir vilji ekki inn í ESB, það vissu allir áður en síðasta þjóðaratkvæðagreiðsla fór fór fram þ.e. þingkosningar, tekur ákvörðun um að slíta viðræðum sem fyrrverandi þingmeirihluti studdi í orði en ekki á borði, dúkka upp aðildarsinnar allt að því andsetnir af hneykslan og hrópa um þjóðaratkvæðagreiðslu á sex mínútna fresti í tali og á prenti,

Hvað er svona lagað kallað?

Þó er það bót í máli að einhversstaðar stendur, er það ekki, að ekki verði tekin ákvörðun um að hefja viðræður við ESB á nýjan leik, viðræður sem Össur stöðvaði, nema að spyrja þjóðina álits.

Það eru nýmæli í þessari nútímasögu málsins því slíkt mátti ríkisstjórnin sem bæði hóf, og lauk málinu án þess að ræða það við þjóðina, aldrei heyra nefnt á nafn,

Ég hef eins og ég sagði efst á blaðsíðunni samúð með þeim málsstað að best hefði verið að taka ákvörðun um framhaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu,

En finnst hreinlega ótrúlegt að fylgjast með ýmsum mjög góðum mönnum og málsmetandi aðildarsinnum hamast sem aldrei fyrr með stóryrðin lýðræði og þjóðarvilja að vopni í umræðunni núna,

Röggi

 

 

Flokkar: Bloggar

Fimmtudagur 24.10.2013 - 11:30 - 3 ummæli

Mótmæli og lögregla

Nú ryðja vinnuvélar stórtækar hrauni úr vegi í gálgahrauni. Sumir mótmæla því, af ýmsum ástæðum, mögulegum og ómögulegum,

Hraunið ku vera friðlýst þar sem vinnuvélar athafna sig. Það hefur þá væntanlega farið framhjá stofnunum sem fara af kostgæfni, gegn vægri þóknun, yfir framkvæmdir af þessu tagi áður en stimpill eftirlitsiðnaðarins smellur á pappírnum,

Í gær komst sá kvittur svo á kreik að vondir menn af engeyjarætt muni hagnast á öllu saman. Skiptir þá ekki öllu hvort það er satt og rétt eða hvort þeir menn megi almennt ekki hagnast, Þessi ótíðindi eru sem olía á eld…

Vandlifað í henni veröld þegar menn, góðir sem vondir, geta ekki treyst á rétt sinn og frið til þess að vinna sín verk þrátt fyrir að hafa þrætt frumskóg leyfisbréfa og umhverfismata,

Gott og vel,

Ekki legg ég til að fólk sé svipt rétti til andmæla. Það á að vera réttur hvers manns að koma skoðunum sínum á framfæri og ég þekki fáa sem vilja gera breytingar þar á,

Ég þekki aftur á móti allmarga sem vilja setja þennan rétt ofar öðrum réttindum eða skyldum, altso þegar menn hafa „almennilegan“ málsstað að verja, vel að merkja,

Mér finnst næstum eins og öllum framkvæmdum sem nöfnum tjáir að nefna sé mótmælt, ja nema kannski þegar menn þrengja götur sem fyrir þóttu helst til þröngar,

Eins og stundum áður þá hófst þessi sena á því að mótmælendur fundu lögreglunni flest til foráttu. Töldu valdsmenn beita henni á fólk, eins og þeir kalla það sem ekki skilja hlutverk lögreglunnar í siðuðum samfélögum,

Svona var andrúmið líka þegar verið var að æsa fólk upp í byltingunni sem kennd er við búsáhöld,

Þann hrunadans endilangan stóð lögreglan sig með óhemjuprýði. Og það við fáránlegar aðstæður þar sem maður gékk undir manns hönd að reyna að grafa undan störfum lögreglu sem sinnti því sem henni ber að sinna,

Ég hélt ef satt skal segja að skömmin sem lá yfir þeim sorglega hluta þessa annars stórmerkilega viðburðar í okkar sögu myndi ekki renna svo fljótt af,

Friðsöm mótmæli segja þeir. Hvað eru friðsöm mótmæli?

Er friðsemdin mæld í því að menn fara ekki um velli  réttandi samborgurum sínum einn á lúðurinn? Hvaða friðsemd er það að ryðjast inn á vinnusvæði fólks og koma í veg fyrir að menn geti sinnt vinnu sinni? Heimfærum þetta á hvaða vinnustað sem er í hvaða geira sem er og reiknum svo út frá meginreglu sem um alla þarf að gilda,

Með lögum skal land byggja. Þeir sem vilja taka þau í eigin hendur þegar þeim ofbýður persónulega vilja hafa undanþágur á þessum annars nokkuð viðurkenndu vísindum. Ég vill engar undanþágur vegna þess að þannig er líklegast að allir séu jafnir fyrir lögunum og það er einmitt mikilvægt,

Nú kann að vera heimskulegt að leggja þennan veg. Jafnvel sérlega vegna þess að kærumál eru í gangi í dómskerfinu. Og þá er ekki endilega óeðlilegt að einhverjum sé misboðið og finni hjá sér hvöt til þess að mótmæla,

Þeir sem vilja gera það þannig að þeir brjóta á rétti annarra í leiðinni þurfa þá að hafa reisn til þess að sætta sig við að slíkt hefur og á að hafa afleiðingar, jafnvel handtöku ef svo ber undir,

Hvað annað? Hver ætlar að úrskurða um það hvað er svo góður málsstaður að ekki megi hrófla við mótmælendum sem ekki hlýta lögreglu?

Neibbs. Mótmælum eins og við teljum okkur þurfa og njótum þess að búa í landi þar sem frelsi til þess að tjá skoðanir sínar er óheft….

…reyndar landi þar sem frelsi til þess að fara ekki eftir umferðarreglum er takmarkað,

En eigum við ekki hætta að grafa undan lögreglumönnum sem standa í þeirri leiðindavinnu að halda uppi lögum og reglu? Lögregluembættið hefur enga skoðun á því hvort málsstaður þeirra sem mótmæla röngu megin við strikið er góður eða vondur.

Röggi

 

 

Flokkar: Bloggar

Sunnudagur 25.8.2013 - 11:32 - 8 ummæli

Að hata skoðanir

Hrunið og byltingin sem það hratt af stað hefur tekið á sig ýmsar myndir. Og mun án efa halda áfram að gera það. Sumt gott annað heldur lakara….

Bætt umræðuhefð og virðing fyrir skoðunum var eitt baráttumálið, og er. Ég þekki engan sem ekki er til í þá baráttu enda svigrúm hjá okkur flestum til bætingar þar.

Við tjáum okkur orðið mjög beinskeytt, skilin á milli að skerpast. Þetta var fyrirséð og þarf alls ekki að vera slæmt. 

Eitt vekur sífellt meiri undrun  hjá mér. Það er þegar fólk kallar skoðanir annarra hatur. 

Ýmsir málsmetandi bloggarar og álitsgjafar hafa tekið þetta ömurlega orð til handargagns og klína því án hiks á þá sem ekki eru sammála, eða kjósa að styðja eitthvað sem hinir rétthugsandi vita að er vont.

Þetta er alveg fáránleg nálgun og hrokinn lekur af. 

Fólk sem kallar skoðanir annarra hatur er að mínu mati orðið uppgefið á rökræðunni og kýs því að afgreiða málið með þessum hætti.

Hvaðan kemur þetta hatur allt saman?

Röggi

 

Flokkar: Bloggar

Miðvikudagur 21.8.2013 - 18:45 - 13 ummæli

Rétthugsandi Heimir Már

Nú tíðkast þau breiðu spjótin

Heimir Már Pétursson skrifar pistil um þá sem hann telur hafa rangar skoðanir og telur slíka menn til óþurftar. Heimir dregur ekki af sér þegar hann gefur hinum rangt hugsandi einkun. 

Ég velti því fyrir mér hvort skoðanir þeirra sem sjá slagsíðu í fréttamati fréttastofu RÚV séu með einhverjum hætti verðminni en þeirra sem ekki sjá þetta. Ég velti því líka fyrir mér hver er þess umkominn að verðleggja skoðanir manna eins og Heimir gerir svikalaust í greininni. 

Nú þegar hann hefur kveðið upp úrskurð um þessar skoðanir þá kemst hann að þeirrri niðurstöðu að slíkir menn séu ekki einasta óþarfir heldur hættulegir. Heimir hefur mannkynssöguna til vitnis um þetta. Hvorki meira né minna…

Mannskynssagan kennir okkur að fólk sem hugsar eins og Heimir virðist gera hefur gert mikið ógagn. Rétttrúnaðurinn fær nýtt andlit í þessum skrifum. Mogginn er Pussy Riot Heimis Más….

Þetta er eitt…

Mér finnst að Heimir ætti að íhuga það alvarlega að gefa út leiðbeiningar  um það hverjir mega hafa skoðanir á RÚV um leið og hann segir okkar hvernig þeim skoðunum skal komið á framfæri. 

Nú hikar hann sjálfur ekki við að hafa upplýstar skoðanir og kemur þeim á framfæri með gildishlöðnum stóryrðum bæði um menn og málefni. Slík forréttindi tilheyra væntanlega hinum rétthugsandi…

Það er eitthvað að samfélagi sem ekki getur þolað mönnum að hafa skoðanir á ríkisfjölmiðli. Í prinsippinu. Það er ekki bara leyfilegt heldur hreinlega nauðsynlegt og alger óþarfi að gera það að aðalatriði þó persónur og leikendur komi við sögu þegar rætt er um efnistök og meðhöndlun. 

Í þessum efnum eru engar skoðanir rangar eða hættulegar heldur bara þeir sem vilja sortera hverjir kunna að gagnrýna og hverjir ekki. 

Við eigum RÚV öllsömul og við verðum að þola hvort öðru ólíka sýn á hlutina. Hvað annað er betra í boði en það?

Röggi

 

Flokkar: Bloggar

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur