Sunnudagur 21.02.2016 - 10:48 - Lokað fyrir ummæli

Landsbankinn felldur

Föstudaginn síðastliðin féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Landsbankans gegn Einari V. Ingimundarssyni, umbjóðanda mínum. Niðurstaða dómsins var sú að umbjóðandi minn var sýknaður af kröfum bankans. Saga málsins er löng og sorgleg og enn eitt dæmið um yfirgang og óbilgirni banka í garð skuldara. Málavextir eru þeir að Landsbankinn stefndi umbjóðanda mínum vegna fjárskuldbindinga í erlendri mynt.  Umbjóðandi minn hafði fyrir efnahagshrunið stofnað til skuldar við Landsbankann á sérstökum gjaldeyrisreikningi með yfirdráttarheimild en það hafði hann gert skv. ráðgjöf bankans. Umbjóðandi minn hafði átt verðbréf sem hann hafði ætlað að selja í byrjun árs 2008 til að fjármagna íbúðarkaup. Bankinn hafði ráðlagt honum að selja ekki bréfin heldur taka yfirdráttarlán í erlendri mynt þar sem bankinn taldi bréfin myndu hækka meira í verði síðar meir. Í september  sama ár óskaði umbjóðandi minn eftir því við bankann að verðbréfaeign hans sem hafði verið veðsett til tryggingar umræddum yfirdrætti yrði seld og skuldin gerð upp en bankinn hafði ekki orðið við þeirri beiðni umbjóðanda míns. Fyrir dómi skoraði umbjóðandi minn á Landsbankann að leggja fram upptökur af símtölum hans við starfsmenn bankans þar sem þetta kom meðal annars fram en bankinn varð ekki við þeirri áskorun.

Í dómnum segir að sannað þykir að árið 2008 hafi forsvarmenn Landsbankans hindrað að hlutabréf í bankanum myndu lækka í verði, sú ráðgjöf bankans til umbjóðanda míns um  að telja honum trú um að selja ekki hlutabréf sín í janúar 2008 heldur taka lán í formi yfirdráttar, féll að þessum fyrirætlunum bankans. Héraðsdómur kemst einnig að þeirri niðurstöðu að þegar horft sé til þeirrar ráðleggingar sem umbjóðanda mínum voru veittar um lántöku, sem fól í sér verulega áhættu fyrir hann, og vanrækslu bankans á að selja verðbréf til greiðslu skuldarinnar þegar umbjóðandi minn krafðist þess, verður að telja að það sé óheiðarlegt af bankanum að bera fyrir sig þennan samning um þessa tilteknu fjárskuldbindingu umbjóðanda míns. Samningurinn um yfirdráttarlánið var því dæmdur ógildur með vísan til 33. gr samningalaga og umbjóðandi minn sýknaður af öllum kröfum Landsbankans.

Þessi niðurstaða er út af fyrir sig stórmerkileg. Hún er engu að síður eðlileg að mínu mati enda alveg ljóst af gögnum málsins að Landsbankinn hafði aðra hagsmuni að leiðarljósi en umbjóðandans þegar að þessi umdeilda ráðgjöf um lán var veitt. Tvennt annað vekur athygli mína út frá lagatæknilegum atriðum. Í fyrsta lagi slær dómarinn því föstu að nú sé alþekkt að á árinu 2008 hafi forsvarsmenn Landsbankans unnið að því að hindra að hlutabréf í bankanum féllu í verði. Samkvæmt lögum um meðferð einkamála þarf ekki að færa sönnur fyrir því sem alkunnugt er á þeim stað og tíma sem dómur fellur. Af þessum dómi má álykta sem svo að héðan í frá þurfi ekki að færa sönnur fyrir því að Landsbankinn hafi reynt allt sem hann gat til þess að koma í veg fyrir að bréfinu í banknum féllu árið 2008. Í öðru lagi segir í dómnum að fullvíst sé að umbjóðanda mínum hafi ekki dottið þetta lánaform í hug sjálfum og leggja verði til grundvallar að bankinn hafi ráðlagt honum að taka gengistryggt yfirdráttarlán. Hér virðist dómarinn beita öfugri sönnunarbyrði um það hvorum aðilum hafi dottið þetta lánaform í hug. Þótt öfug sönnunarbyrgði sé almennt undantekningin í dómsmálum þá er þetta samt eðlileg og réttmæt nálgun hjá dómaranum. Hafa verður í huga að ekki var um eðlilega lántöku að ræða heldur gengistryggt yfirdráttarlán, lán sem ekki mörgum almennum neytendum myndi detta í hug. Almennt er það nú svo að þegar einstaklingar leita til viðskiptabanka sinna um lán þá er það bankinn sem leggur fram þá möguleika sem bankinn telur í stöðunni. Tillögur að óvenjulegum lánum eru því af þessum sökum nær undantekningarlaust runnar undan rifjum bankanna.

Þessi dómur vekur upp þær spurningar hvort ekki megi beita sömu nálgun varðandi önnur fjármálafyrirtæki og önnur lánaform?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur