Þriðjudagur 03.05.2016 - 22:50 - Lokað fyrir ummæli

Getuleysi stjórnsýslunnar

Það er ekki ofsögum sagt að segja að stjórnsýsla Íslands er því miður meingölluð og illa skilvirk. Í huga mér koma þrjú mál sem ég tel endurspegla kerfið sem við búum við og hversu hættulegt það er í reynd þegar kemur að réttlátri og gegnsærri málsmeðferð. Við teljum okkur eiga að búa við stjórnsýslu sem eigi að vera gegnsæ og skilvirk. Því miður verður nú að segja að það er víða pottur brotinn hvað það varðar í kerfinu sem við búum nú við og í reynd tel ég mikil hætta stafa af því kerfi sem nú er við líði hvað réttaröryggi varðar. Svo virðist vera að innan stjórnsýslunnar starfi einstaklingar sem hafa mikinn valkvíða þegar kemur að því að taka ákvarðanir í málum, er þetta t.d. sérstaklega áberandi þegar kemur að málum sem t.d. snúa að embættum sýslumanns og svo ákværuvaldsins.

Má af þessu tilefni nefna fjölskyldudeild sýslumannsembættisins sem eitt gott dæmi. Nú er rekið mál hjá embættinu þar sem sótt er um ættleiðingu á munaðarlausu barni. Starfsmenn embættisins hafa að mínu mati ekki farið eftir settum reglum hvað varðar úrvinnslu málsins heldur látið ráðast af ótta og óvæginni fjölmiðlaumræðu. Í málinu liggur fyrir beiðni um ættleiðingu sem er komin á annað ár í aldri. Á miðju tímabili málsmeðferðarinnar fór af stað umræða í þjóðfélaginu um staðgöngumæður. Sú umræða og önnur er varðar frágang slíkra máli virðist hafa haft áhrif á úrvinnslu slíkra mála hjá embættinu og annarra er varða ættleiðingu. Sú ótrúlega staða kom upp að starfsmenn embættisins að mínu mati fóru út fyrir þann lagaramma sem gildir um slík mál og tóku upp vinnuaðferðir sem engin lagaheimild var í reynd fyrir. Illa gekk að fá skýr svör við úrvinnslu málsins og allan tímann sem málið var í vinnslu hjá embættinu var málsaðilum ekki svarað þó þau hefðu sent ítrekað erindi um málið og óskað eftir svörum. Samhliða þessu leituðu starfsmenn embættisins eftir áliti aðila út fyrir embættið vegna málsins en fyrir slíku er lagaheimild þó það sé í reynd mjög sérstakt og sjaldgæft. Með engu var tekið tillit til stöðu málsaðila, hagsmunir barnis voru ekki metnir út frá því hvað var í reynd því fyrir bestu en í málinu lá fyrir mat sérfræðinga þar sem þeir mæltu með því að barnið yrði ættleitt. Í þessu máli má ljóst vera að starfsmenn embættisins voru í reynd hræddir við að taka ákvörðun í málinu og ber málið þess merki að starfsmenn embættisins ætla sér að leggja ábyrgðina á herðar 3ja aðila og firra sig af allri ábyrgð við töku ákvörðunarinnar.

En hér er ekki um einsdæmi að ræða. Ætla mætti að þetta sé líka viðtekin venja hjá ákæruvaldinu. Ég hef orðið var við þetta í sakamálum þar sem einstaklingar eru ákærðir fyrir sakir sem lítlar eða engar sannanir eru til staðar fyrir. Þessi umræða er ekki ný af nálinni en ég hef rekið mig á það í málum og leitað eftir skýringum. Það er nefnilega þannig að samkvæmt 145. gr. laga um meðferð sakamála ber ákæruvaldinu að meta hvort það sem fram er komið í málinu sé nægilegt eða líklegt til sakfellis, sé svo ekki á þar við að sitja. Þær skýringar sem ég hef fengið frá ákæruvaldinu eru oft á tíðum loðnar og gefa því miður tilefni til að ætla að stundum sé farið af stað með veikburða mál í stað þess að taka faglega afstöðu til tilefni saksóknar út frá ofangreindri lagareglu. Menn virðast þá frekar vilja eyða tíma og skattpeningum í að láta reyna á veikburða mál fyrir dómi til að firra sig af allri ábyrgð um ákvörðunartöku. Oft á tíðum virðist þetta líka vera gert í þeirri von að eitthvað nýtt komi fram í málinu fyrir dómi sem gæti sannað sekt ákærða, t.d. vitni segi eitthvað meira fyrir dómi en það gerði hjá lögreglu. Ég tel þetta hafa aukist í kjölfar aukinnar umræðu um kynferðisbrot. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að mikil umræða hefur sprotið upp um hversu illa hefur gengið að ákæra aðila sem eru grunaðir um kynferðisbrot og höfum við því miður séð hvernig almenningur hefur t.d. safnast saman við lögreglustöðvar og krafist í reynd að þeir sem eru grunaðir fyrir slíkt verði ákærðir og refsað þrátt fyrir að mál séu jafnvel á frumstigi rannsóknar. Við slíkar aðstæður má ætla að þeir sem beri ábyrgð á málunum á rannsóknarstigi verði fyrir ómældum þrýstingi vegna skrílsins sem heimtar blóð og hafi því meiri tilhneigingu en ella að setja málið af stað og leggja það í hendur dómsstóla að taka ábyrgðina í stað þess að meta málið sjálfir út frá faglegri athugun. Þetta er jú hættan í litlu samfélagi en hættan er líka mikil ef saklausir einstaklingar verði fyrir ómældum skaða vegna slíkra aðstæðna. Við þessu verður að bregðast.

Þriðja dæmið um þetta er svo stofnun sem ber heitið Íbúðarlánasjóður. Það þekki ég alveg hreint ótrúlegt mál þar sem lántaki var með lán til 40 ára en af óskiljanlegum ástæðum og fyrir mistök starfsmanna sjóðsins var lánstíma umræddra lána styttur um fjölda ára. Afleiðingar þessara aðgerða voru þær að afborganirnar hækkuðu úr öllu hófi og viðkomandi lántaki lenti í alvarlegum vanskilum og missti svo eignina á uppboði. Staðreyndin málsins er sú að sjóðnum og öðrum kröfuhöfum voru gerð grein fyrir stöðunni og hverjar afleiðingarnar væru. Þá var og embætti sýslumanns einnig gerð grein fyrir málavöxtum en allt kom fyrir ekki. Eftir að uppboðinu var lokið var lántakanum tilkynnt að um mistök hefði verið að ræða en að hann ætti að höfða mál gegn sjóðnum vegna málsins og kosta til fjárútláta vegna þess á eigin reikning. Af málinu að dæma má sjá að málsaðilar vísa hver á annan og þar með forðast að bera ábyrgð á málinu og þeim mistökum sem urðu í því. Afleiðingarnar eru að viðkomandi missti húseign sína og þarf að reka mál fyrir dómsstólum til að fá einhverja bót sinna mála.

Það getur ekki dulist neinum sem til þekkja að fara þarf í algjöra uppstokkum á því kerfi sem nú er rekið og þá í því augnamiði að gegnsæi og skilvirni sé með þeim hætti að hægt sé að treysta faglegri úrvinnslu mála og að þeir sem sinni málum innan embættanna séu óhræddir við að taka þær ákvarðanir sem þeim ber að gera á faglegum grunni en láti ekki óviðkomandi hagsmuni hafa þar áhrif. Geturleysi innan kerfisins þegar kemur að því að taka ábyrgð er slíkt að ætla má að hagsmunum málsaðila stafi hætta af.  Sífellt sjáum við fleiri dæmi um þetta í þjóðfélagsumræðunni.

Flokkar: Lögfræði · Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur