Sunnudagur 12.06.2016 - 20:41 - Lokað fyrir ummæli

Munaðarlaust barn í óskilum

Á Íslandi viðgengst svokallað fósturforeldrakerfi þar sem börn sem einhverra hluta vegna geta ekki dvalið hjá blóðforeldrum sínum eru vistuð hjá fósturforeldrum. Ég þekki þetta kerfi persónulega og hef hjálpað mörgum fósturforeldrum í gegnum tíðina. Mér þykir þetta kerfi því miður gallað að mörgu leyti og í reynd þannig vaxið að réttur fósturforeldra eru engin, hvað þá þeirra barna sem eru vistuð í þessu kerfi. Snýr þetta aðallega að þeim aðstæðum þar sem ljóst er að viðkomandi fósturbörn munu ekki fara aftur til blóðforeldra sinna, í þeim tilvikum er ættleiðing oft eðlilegasti kosturinn. Því miður hefur komið bakslag í þetta kerfi eftir umræðu síðasta sumars um staðgöngumæðrun. Algjör kúvending hefur nú orðið í afgreiðslu ættleiðingarmála hjá sýslumanni og virðist niðurstaða mála oft ráðast af hræðslu en ekki hvað sé barninu fyrir bestu. Mun ég nefna dæmi um eitt mál sem ég þekki til þar sem réttur bæði fósturforeldra er brotinn og barnsins sem er í fóstri.

Fyrir ca 4 árum fengu fósturforeldrar sem hér um ræðir barn í fóstur sem kom frá aðstæðum sem voru það hræðilegar að það er þyngra en tárum taki að fjalla um. Um var að ræða munaðalaust barn þar sem hvorugt blóðforeldranna var til staðar. Var umræddum fósturforeldrum falið barnið til fósturs og um leið gefið í skyn að þau gætu ættleitt barnið eftir ár þar sem foreldrar þess væru ekki til staðar. Var farið í ferli þar sem unnið var í því að sækja um ættleiðinguna hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og fóru umræddir fósturforeldrar í mikið hæfismat. Stóðust fósturforeldrarnir matið með sóma. Í kjölfar upphófst einhver ótrúlegasta málsmeðferð sem sögur fara af. Í marga mánuði heyrðist ekkert frá sýslumanni. Hjónin fara þá að hringja í sýslumann til að spyrja tíðinda en fá engin svör. Þau fá heldur ekki að tala við starfsmenn fjölskyldudeildar sýslumannsins af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Þau senda tölvupósta á fjölskyldudeild sýslumannsins en allt fyrir ekkert, engin svör koma til baka. Einu upplýsingarnar sem fósturforeldrarnir fengu komu í gegnum þriðja aðila, barnaverndarnefnd sem er lögboðinn umsagnaraðili í málinu. Barnaverndarnefnd gerði úttekt á aðstæðum fósturforeldranna og barnsins og mæltu með því að ættleiðingin yrði heimiluð. Þá gerðist það sem ekki hafði gerst áður að sýslumaður véfengir umsögn barnaverndarnefndar og óskar eftir nýrri umsögn. Barnaverndarnefnd verður við beiðninni og gerir nýja og ýtarlegri greiningu á aðstæðum barnsins og er niðurstaðan sú að það séu ótvíræðir hagsmunir barnsins að vera ættleitt. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum vill sýslumaður ekki fara eftir lögboðinni umsögn fagaðilans og ákveður að óska eftir umsögn ættleiðingarnefndar.

Ættleiðingarnefnd er stjórnsýslunefnd sem starfar í hálfgerðu tómarúmi, um störf hennar og valdsvið hafa ekki verið settar neinar reglur. Hlutverk hennar í regluverkinu er ekki skýrt. Af lögskýringargögnum að dæma virðist hlutverk hennar einkum vera það að veita umsögn um hæfi og aðstæður umsækjenda ættleiðingar. Þrátt fyrir það veitir nefndin umsagnir um ýmis málefni og mörg önnur efnisatriði í ættleiðingarmálum, þ.á m. hvort hún telji að fallast eigi á ættleiðingu eður ei. Sú var raunin hér þar sem nefndin fjallaði minnst um aðstæður og hæfi fósturforeldranna en mest um rétt barnsins til þess að þekkja uppruna sinn og mögulega ættingja þess erlendis sem barnið hafði engin tengsl við. Það skal haft í huga að foreldrum sem ættleiða ber lögum samkvæmt að upplýsa barnið um uppruna sinn og sá réttur barnsins er lögvarinn. Ættleiðing stendur því ekki í vegi að barn kynnist uppruna sínum, þvert á móti er sá réttur tryggður í lögum. Þótt þessi sjónarmið kunni að eiga rétt á sér að einhverju leyti þá verður að vega þau og meta á móti aðalmarkmiði ættleiðingarlaganna sem er hvað sé barninu til hagsbóta. Í þessu tilviki hefði eðlilega niðurstaðan verið að tryggja öryggi og stöðugleika munaðarlauss barns og leyfa því að tilheyra fjölskyldu með öllum lögfylgjum sem því fylgir, eins og t.d. erfðum.

Einu og hálfu ári eftir að fósturforeldrarnir sóttu um ættleiðinguna barst þeim loksins fyrsta bréf frá sýslumanni. Í því bréfi var þeim kynnt niðurstaða ættleiðingarnefndar og þeim boðið að draga umsókn sína til baka. Það er alveg ljóst að meðferð málsins hjá sýslumanninum á höfðuborgarsvæðinu var haldinn verulegum vanköntum sem gætu auðveldlega valdið ógildinu lokaákvörðunar í málinu. Það má velta því fyrir sér hvort sýslumaður hafi af þessum sökum reynt að fá fósturforeldrana til þess að draga umsókn sína til baka og komast þannig hjá því að þurfa að taka fyrirsjáanlega ógildanlega ákvörðun. Fósturforeldrunum var aldrei svarað eða þeim tilkynnt um meðferð málsins, þau fengu aldrei að tjá sig eða koma að sjónarmiðum vegna umsagna í málinu. Í stað þess að veita fósturforeldrunum lögvarinn andmælarétt, t.d. um umsögn ættleiðingarnefndar, þá var þeim boðið að draga umsókn sína til baka. Þau fengu heldur ekki neinar leiðbeiningar um hvaða réttaráhrif sú ákvörðun kynni að hafa fyrir þau og barnið.

Þegar þetta mál er skoðað og önnur sambærileg mál þá má spyrja sig um rétt fósturforeldra og barnanna sjálfra. Í núverandi kerfi eru börnum komið fyrir hjá fólki sem á að ganga þeim í foreldrastað ef svo má að orði komast. Hins vegar hafa fórsturforeldrar engan rétt, þau fá svokallaðan fóstursamning sem er í reynd samningur um hlutverk og skyldur fósturforeldra en er ekkert öruggari en aðrir samningar, eins og gengur og gerist. Það sjá það allir sem vilja sjá að slíkt er ekki boðlegt í svona málum því eins og í tilvikum sem þessum myndast sterk tengsl og þá sérstaklega þegar blóðforeldrar eru ekki til staðar. Það að ala upp barn og eiga það alltaf yfir höfði sér að hægt sé að segja foreldrunum upp er ekki boðlegt, hvorki fyrir fósturforeldra og allra síst fyrir barn sem á engan annan að. Stundum mætti halda að þessi mál væri afgreidd með álíka hugarfari og bílaviðskipti, þú fær bílinn en ekki afsalið, þú mátt ala barnið upp og gefa því allt, gefa þig allan en þú færð engan rétt, ekkert tilkall til barnsins. Það er löngu orðið tímabært að móta skýra stefnu í þessum málum. Það að framkvæmd jafn alvarlegra mál og ættleiðinga geti tekið stakkaskiptum eftir geðþótta sýslumanns í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar er ekki það öryggi og stöðugleiki sem lýðræðislegt réttarkerfi á að halda uppi. Það þarf að skerpa betur á rétti fósturforeldra og sérstaklega barna sem eru foreldralaus að þau geti með einfaldari hætti gengið í ættleiðingu þegar öll skilyrði eru fyrir hendi.

 

 

Flokkar: Lögfræði

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur