Þriðjudagur 5.1.2016 - 12:04 - Lokað fyrir ummæli

Frjálst mat skattyfirvalda

Meginreglan í skattarétti er að aðilum beri að greiða skatt af öllum tekjum sínum. Undantekningareglan er hins vegar sú að aðilar hafi heimild til að nýta frádráttarbæran rekstrarkostnað á móti tekjum og þannig lækka skattstofn sinn sem því nemur. Almanna reglan er að skattaðila ber að sýna fram á að frádráttarbær kostnaður sé tilkominn vegna tekjuöflunar í rekstri til að mynda með gögnum. Þrátt fyrir þessa reglu þá eru fordæmi fyrir því að kostnaður hafi verið metinn að álitum þegar kostnaðargögn liggja ekki fyrir. Er þetta t.a.m staðfest í dómi Hæstaréttar nr. 92/2000. Þar lágu gögn um ferða- og dvalarkostnað ekki fyrir en ljóst var að viðkomandi hafði haft kostnað vegna starfs síns og var hann því metinn að álitum.

Dæmi eru um það að skattyfirvöld fari ekki eftir þessu fordæmi Hæstaréttar og hafni kostnaði á móti tekjum. Er þetta sérstaklega bagalegt í þeim tilvikum þar sem t.d. aðilar vilja nýta kostnað vegna ferðalaga sem eru farin í þágu rekstrarins. Ljóst má vera að aðilar sem ferðast vegna rekstrar eða vinnu sinnar hafa af því kostnað sem þeir verða að hafa möguleika á að nýta í skattalegu tilliti. Aðilar verða að geta sýnt fram á að umrædd ferðalög nýtist í rekstri eða atvinnu þeirra. Tilvik eru til þar sem aðilar geta sýnt fram á að ferð sé farin vegna atvinnu eða rekstrar en hafa ekki haldið til haga öllum fylgigögnum hvað kostnað varðar. Þá á með réttu að nýta heimild til að meta þann kostnað að álitum en ekki að hafna öllum kostnaði eins og dæmi eru um.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.1.2016 - 20:34 - Lokað fyrir ummæli

Kjararáð á villigötum

Árið var vart byrjað þegar við heyrðum fréttir af hótunum verkalýðsfélaga um hörku í kjaramálum vegna nýlegrar ákvörðunar kjararáðs um hækkun launa embættismanna um hundruði þúsunda króna á mánuði. Það getur vart dulist neinum að þessi ákvörðun kemur illa við þjóðina og þeim sem minnst hafa að bíta og brenna í þessu samfélagi okkar. Hvers vegna fara menn svona illa að ráði sínu.

Á sama tíma og þetta er að gerast lýsa bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra því yfir að aldrei hafi verið gert meira fyrir öryrkja og aldraða í þessu landi. Hverja eru þeir að reyna að blekkja? Forsætisráðherra talar um það í nýársræðu sinni að þjóðin verði að vera bjartsýn og hætta að þrífast í neikvæðni. Hvaða þjóð er forsætisráðherra að ávarpa? Eru forráðamenn ríkisstjórnarinnar orðnir svona veruleikafirrtir.

Staðreyndin er jú sú að stór hluti af þjóðinni er ekki að fá útborgaða þá krónutölu fyrir fullan vinnudag sem hækkanir kjararáðs veita opinberum emættismönnum á silfurfati. Almenningur nýtur ekki þess að fá krónutöluhækkanir heldur eru honum skammtaðar launahækkanir í formi prósentu hækkana sem virka á allt annan máta. Það er í reynd ekki eðlilegt að embættismenn sem vinna í þágu almennings geti í skjóli kjararáðs skaffað sér lífskjör sem almenningi þessa lands er neitað um og að verið sé að búa til gjá milli embættismanna og almennings hvað lífskjör varða. Ríkisstjórnin segir sig úr vinskap og tengslum við þjóðina með því að viðhalda þessu kerfi. Það er kominn tími til að ráðmenn sýni gott fordæmi og endurskoði þetta kerfi í stað þess að ala á spennu og ójöfnuði.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.1.2016 - 14:30 - Lokað fyrir ummæli

Ísland, flóttamenn og verndun kynstofnsins

Eins og svo margir nú um jólin þá fékk ég bækur í jólagjöf. Ein þeirra bóka var bókin Stríðsárin 1938-1945 eftir Pál Baldvin Baldvinsson. Hér er um mjög vandað verk að ræða og höfundi til mikils sóma. Í bókinni er að finna mikinn fróðleik um aðstæður á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni.

Það sem ég hjó eftir í bókinni er umfjöllun um umsókn flóttamanna frá Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni af gyðingaættum. Virðist sem að flestum flóttamönnum sem hingað vildu koma í seinna stríði og flýja ofsókn nasista hafi verið hafnað um landvistarleyfi hér á landi af íslenskum stjórnvöldum. Virðist sem ótti við blöndun hins hreinræktaða íslenska kynstofns hafi valdið ráðamönnum þjóðarinnar miklum áhyggjum. Er til dæmis vitnað í íslenskan vísindamann um að jafnvel blöndum við ekki fleiri en 50 gyðinga gæti valdið miklum skaða á íslenska kynstofninum á ekki lengri tíma en 2-3 mannsöldrum. Á sama tíma voru börn íslenskra ráðamanna þáttakendur og samverkamenn nasista í Evrópu í voðaverkum þeirra.

Frá örófi alda hefur mikil fóbía verið í íslenskri þjóðarsál fyrir blöndun hins svokallaða íslenska kynstofns við erlend þjóðerni og mikill áróður fyrir því að koma í veg fyrir allt sem geti stuðlað að óæskilegum tengslum við allt sem erlent er. Jafnvel í dag má heyra slíkar raddir og tala sumir ráðamenn gegn öllu sem erlent er hvort sem það er í formi samvinnu við erlend stjórnmálabandalög eða hælisleitenda sem eru að reyna að komast undan stríðsógn. Þrátt fyrir það að Íslendingar hafi frá fornu fari átt allt sitt undir samvinnu við þjóðir heimsins. Öll sú menntun og uppbygging sem hefur orðið á Íslandi hefur í reynd að miklu leiti verið samvinnu við erlend ríki að þakka. Hvar væri þessi þjóð án þeirra samvinnu? Hvar væri heimurinn án friðsamlegrar samvinnu þjóðanna?

Nú á tímum sjáum við sama mynstur, hatursumræða gegn flóttamönnum og því fólki sem leitar á náðir okkar til að flýja hörmungar, ekkert megi gefa eftir í viðleitni til að vernda þennan kynstofn, hinn íslenska kynstofn, landnámsstofninn. Umræðan í dag er á þá leið að allt muni hér hrynja ef við leyfum okkur hleypa flóttafólki inn í landið. Umræðan er í reynd ekkert ólík því sem átti sér stað hér í seinni heimsstyrjöldinni. Rétt eins og þá taka ýmsir ráðamenn þátt í þeirri umfjöllun og því miður virðist þröngsýni og fáfræði stundum ráða þar för.  Íslendingar verða líkt og aðrar þjóðir álfunnar, nú síðast Frakkar, að gera upp sína þátttöku í ofsóknum gegn gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni. Synjun íslenskra ráðamanna þá um að veita gyðingum landvistarleyfi kann að hafa skilið á milli lífs og dauða í einhverjum tilvikum. Getur verið að hið sama eigi við í dag í tilvikum þeirra sem nú sækja hér um hæli. Við sem þjóð og þátttakendur í samfélagi þjóða verðum að axla ábyrgð og leggja okkar af mörkum. Liður í því er að gera upp fortíðina og hætta að endurtaka sömu mistökin.

Flokkar: Dægurmál

Fimmtudagur 15.10.2015 - 15:05 - Lokað fyrir ummæli

Ekkert heilagt

Það fer enginn varhluta af því, sem á annað borð fylgist eitthvað með umræðunni á netinu, hvað hún getur verið óvægin og ómálefnaleg á köflum og hreint og beint einkennst af eineltistilburðum. Svo virðist sem fjöldi fólks finnist því leyfast að segja nánast hvað sem er á netinu og virðast litlar hömlur vera því í vegi að fólki láti hvað sem er flakka í þessum svokölluðu bloggheimum. Seint verður hægt að fallast á það að umræðan sé alltaf málefnaleg og að skoðanir fólks fái að njóta sín, hvað þá að borin sé virðing fyrir mismunandi skoðunum.

Að undanförnu hef ég fyrir hönd stjórnenda útvarpsstöðvarinnar Útvarps Sögu fylgst með umræðunni um stöðina og forsvarsmenn hennar og má með sanni sega að sú umræða er komin út fyrir öll velsæmismörk. Eitt er að vera ósammála um málefni og hafa ólíkar skoðanir, það er eðlilegt og nauðsynlegt í lýðræðisríki og grundvöllur þess að hægt sé að eiga rökræn skoðanaskipti. En það er annað mál að úthrópa fólki fyrir skoðanir sínar, slíkt á sér engan stað í lýðræðislegri umræðu. Það á vitaskuld að bera virðingu fyrir skoðunum fólks, þótt þær kunni að vera ólíkar, og sé maður ósammála þá mætir maður þeim með málefnalegir gagnrýni og rökum. Það er ekki boðlegt í lýðræðislegri umræðu að ráðast með óvægnum og meiðandi hætti á persónu þess sem hefur aðrar skoðanir en maður sjálfur, þaðan af síður að gera öðrum upp skoðanir. Hvaða tilgangi þjónar það að þagga niður í fólki með slíku ofbeldi? Er það gert í þágu almannaheill eða lýðræðis?

Það hefur tíðkast í þessu sambandi að fela sig á bak við tjáningarfrelsið eins og það feli í sér einhvern rétt til þess að segja hvað sem er án ábyrgðar. Það gleymist aftur á móti að frelsi fylgir ábyrgð. Í 73. gr. stjórnarskrá lýðveldisins segir orðrétt: Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Þetta tvennt verður ekki aðskilið. Það er nefnilega ekki hægt að ætla sér að nýta frelsið en bera enga ábyrgð, ef þú ætlar að nýta annað þá verður þú að gangast við hinu. Það er nefnilega ekki hægt að fela sig á bak við tjáningarfrelsið til að komast undan ábyrgð.

Stjórnendur útvarpsstöðvarinnar Útvarps Sögu hafa falið mér að sækja þá til ábyrgðar sem harðast hafa gengið fram gegn persónum þeirra með óvægnum og ómálefnalegum hætti. Það á ekki að líðast í lýðræðisríki að fólk þurfi að sitja undir persónulegum árásum á opinberum vettvangi eins og internetinu og þurfa að þola særandi og ærumeiðandi ummæli ítrekað. Það er partur af eðlilegum samskiptum að hver og einn íhugi framgöngu sína og hvaða áhrif orð geta haft á fólk þegar talað er um persónu þess og ekki síst hvaða áhrif það getur haft á fjölskyldur þeirra og aðstandendur. Skiptir engu hvort um opinbera persónu sé að ræða eða ekki, aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Flokkar: Lögfræði

Sunnudagur 27.9.2015 - 17:27 - Lokað fyrir ummæli

Ólöf og séra Ólöf

Í liðinni viku var fjallað um svokallað samviskufrelsi presta þegar kemur að hjónavígslu para af sama kyni með kirkjulegri athöfn. Eins komið hefur fram gilda engar reglur um samviskufrelsi presta innan þjóðkirjunnar sem heimila þeim að neita fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar. Innan kirkjunnar hafa aðilar aftur á móti talað fyrir því að prestar eigi slíkan rétt til að neita að gifta samkynhneigða ef trúarleg sannfæring þeirra leyfir þeim það ekki. Þetta er að mínu mati alveg ótækt enda gengur það ekki upp að kirkjan sé að mismuna fólki með þessum hætti. Líta verður jú til þess að kirkjan hefur verið að taka til í sínum ranni á ýmsum vígstöðvum, þ.m.t. afstöðu til samkynhneigðra. En betur má ef duga skal.

Mismunun á grundvelli kynhneigðar stenst ekki í dag hvorki af trúarlegum ástæðum eða lagalegum. Stjórnarskráin tekur á slíku og er rétthærri en starfsreglur þjóðkirkjunnar. Kirkjan er jú opinber stofnun sem þjónar þjóðinni og er henni skipaður slíkur formlegur sess í lögum. Hún er rekinn fyrri almanna fé og starfsmenn hennar eru opinberir starfsmenn lögum samkvæmt og hafa sem slíkir skyldum að gegna. Opinberum starfsmönnum er lögum samkvæmt ekki heimilt að mismuna einstaklingum með þessum hætti þó svo að slík mismunum finnist í hjúskaparlögum en hér er misræmi sem verður að lagfæra.

Á sínum tíma talaði Ólöf Nordal, núverandi innanríkisráðherra, fyrir því að tryggja ætti rétt presta til að neita að gefa tvo einstaklinga af sama kyni saman ef það færi gegn trúarlegri sannfæringu þeirra. Þetta er ahyglisvert í ljósi nýlegra frétta þar sem ráðherran lætur hafa eftir sér að tilefni sé til að endurskoða reglur um skipan dómara hér á landi. Var ráðherran að vísa til umfjöllunar hæfisnefndar sem metur hæfi umsækjenda til að gegna stöðu hæstaréttardómara. Gagnrýndi ráðherran að nefndin tæki ekki tillit til jafnréttissjónarmiða og taldi Ólöf mikilvægt að tekið væri tillit til þess sjónarmiðs að Hæstiréttur endurspeglaði samfélagið. Hér er virðulegum ráðherra umhugað um jafnrétti og að opinberar stofnanir endurspegli samfélagið. Manni er spurn hversu langt nær þessi afstaða ráðherrans til jafréttis og mannréttinda þegar hún hefur t.d. talað fyrir mismunun innan þjóðkirkjunnar gagnvart minnihlutahópum innan samfélagsins. Er í lagi að mismuna samkynhneigðum en ekki konum?

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.9.2015 - 16:29 - Lokað fyrir ummæli

Landsbankinn og Bjarnabófarnir

Þær eru margar sögurnar sem við heyrum af samskiptum banka hér á landi við viðskiptavini sína. Oftar en ekki hafa þær verði á neikvæðum nótum eftir hrunið. Eitt sérstakasta tilvik sem ég hef komið að varðaði ósköp venjulegan einstakling sem hafði sett sparifé sitt í hlutabréf hjá Landsbanka Íslands. Í águst 2008 ætlaði hann að selja bréfin til að rétta nákomnum ættingja hjálparhönd. Þá vildi Landsbankinn alls ekki leyfa honum að selja af því hann myndi tapa svo miklu á því. Í staðinn var Landsbankinn tilbúinn að veita honum erlent lán með veði í hlutabréfunum og bankinn taldi þessa ráðstofun mikla ráðdeild. Umbjóðandi minn var aftur á móti tvístígandi yfir þessu en lét til leiðast eftir mikið tiltal af sérfræðingum bankans enda var honum talin trú um að bréfin myndu hækka í verði. Blekið var ekki þornað á þessum gerningi þegar umbjóðandi minn var beðinn um að leggja fram meiri ábyrgðir fyrir þessu erlenda láni sem hann og gerði í þeirri trú að bankinn væri að ráða honum heilt. Þetta var korter í hrun eins og maður segir. Við vitum svo öll hvað gerðist næst.

Síðar leiddi rannsóknarnefnd Alþingis það í ljós að á umræddum tíma beittu stóru bankarnir þrír alls konar vafasömum bellibrögðum til þess að búa til falska glansmynd af bönkunum og var Landsbankinn þar engin undantekning. Verð hlutabréfa í bönkunum spilaði hér stóra rullu og reyndu bankarnir að halda því eins háu og mögulegt var. Þeir keyptu bréf í sjálfum sér upp í hámark eins og lög leyfa og beittu sér fyrir því að aðrir keyptu líka bréf í bönkunum. Þar skipti engu hver kom að borðinu, öllum var ráðlagt að kaupa í sínum banka og ef einhver var tregur til þá fékk hann bara lán eins og hendi væri veifað til að fjármagna viðskiptin. Um hagsmuni hverra var verið að hugsa þegar þessari pez-kalla ráðgjöf var dælt út korteri fyrir hrun? Svarið liggur í augum uppi. En fyrir þá sem ekki vilja sjá þá kom svarið í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nú í sumar þegar þeir Kaupþingsmenn voru dæmdir fyrir umboðssvik og stórfellda markaðsmisnotkun.

Í hverju fólst þessi stórfellda markaðsmisnotkun? Jú einmitt í því að reyna að fikta í verðmyndun eigin hlutabréfa með hinum ýmsu brellum. Deild eigin viðskipta í bankanum hafi einmitt áttað sig á því að meira framboð var af bréfum bankans en eftirspurn en til að halda verðinu uppi tók deildin í stórum stíl þátt í nafnlausum tilboðum í eigin bréf í kauphöll án þess að kaupa samt, bara til að hækka verðið. Annað sem bankinn gerði og var dæmt fyrir var að selja sín eigin hlutbréf með blekkingum og sýndarmennsku sem m.a. fólst í því að láta ranglega líta út að kaupendur væru að kaupa í bankanum en í raun var bankinn að fjármagna kaupin að fullu og hann einn bar alla markaðsáhættu, bara til að hækka verðið.

Í rannsóknarskýrslu Alþingis kemur skýrt og skýlaust fram að á umræddum tíma hafi bankarnir vitað í hvað stefndi. Í skýrslunni kemur líka fram að á sama tíma voru stóru bankarnir þrír að taka stöðu gegn krónunni og þar með gegn almenningi í landinu líka, almenningi sem þeir voru búnir að taka veð í að fullu fyrir hlutabréfum sem þeir prönguðu inn á almenning eftir að hafa falsað verð þeirra með bellibrögðum.

Það er deginum ljósara, bæði af rannsóknarskýrslu Alþingis og ekki síst fyrrgreindum dómi Héraðsdóms nú í sumar, að Landsbankinn vissi upp á hár í hvað stefndi í ágúst 2008. Það að telja umbjóðanda mínum trú um að það væri honum í hag að halda í hlutabréfin í bankanum og taka myntkörfulán í ofaná lag getur ekki verið annað en lögbrot. Réttast væri að umræddir starfsmenn væru dregnir til ábyrgða með sama hætti og gert var við þá Kaupþingsmenn.

En ábyrgðin liggur víðar. Nýji Landsbankinn, sem reis með undraverðum hætti eins og Fönix upp úr ösku þess gamla, ætlar sér enn í dag að innheimta kröfur að fullu á hendur þessa manni sem þeir sjálfir ýttu út í þessi glórulausu bréfakaup með ólögmætum hætti. Þegar umbjóðandi minn reyndi svo að leita réttar síns fyrir dómi og skoraði á bankann að leggja fram hljóðupptökur af símtölum þeirra á milli þá fundust þær ekki í bankanum, sönnunargögnin höfðu óvart týnst. Þetta minnir óþægilega á afsökunina um hundinn sem át heimalærdóminn. Það mætti halda sem svo að bankinn hefði viljandi týnt þeim sönnunargögnum sem honum voru í óhag. Hvert er siðferði þessa nýja Landsbanka? Landsbanka sem kominn er í ríkiseigu. Hver er siðferði stjórnvalda, ráðherra og þingmanna, sem sitja nú með hendur í skauti og græða á svikamyllu gömlu bankanna með því að halda svona kröfu til streitu?

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.6.2015 - 13:03 - Lokað fyrir ummæli

Réttlát málsmeðferð fyrir dómi

Það hefur gengið á mörgu í okkar litla þjóðfélagi síðustu árin og víða reynt á styrk okkar. Við höfum státað okkur af sterkum innviðum samfélags okkar, þ.á m. réttakerfi okkar þó skóinn kreppi þar á sem og annars staðar. Ég hef áður í pistlum mínum reynt að vekja athygli á því sem mér þykir mega betur fara og athuga t.d í dómskerfinu. Þegar kemur að rekstri dómsmála þá þurfa jú sumir að lúta í lægri hlut á meðan aðrir hafa betur. Slíkt er jú raunin en þegar manni finnst úrvinnsla máls af hendi t.d dómara vera með þeim hætti að það veki spurningar um ástands dómsstóla í okkar réttarríki þá fara ýmsar viðvörunarbjöllur að hringja.

Fyrir skemmstu var ég að verja aðila í sakamáli þar sem að mínum dómi voru litlar forsendur til að ætla að viðkomandi væri sekur af því sem hann var ákærður fyrir. Var veikum og óljósum sönnunargögnum til að dreifa í málinu gegn umbjóðanda mínum þótt það kunni að hafa horft öðruvísi við hjá ákæruvaldinu. Hvað sem því líður var viðkomandi sakborningur því miður sakfelldur.

Við uppkvaðningu dómsins gerðist atvik sem ég hef ekki áður lent í og ég tel alvarlegt brot á reglunni um réttláta málsmeðferð. Við uppkvaðningu tók dómarinn það fram að dómurinn væri ekki tilbúinn vegna veikinda aðstoðarmanns og því þyrfti að gefa út endurrit sem var ein blaðsíða þar sem fram kom að umbjóðandi minn væri sekur og hver þóknun lögmanns yrði. Var svo lögmanninum tjáð að hann fengi tilkynningu um þegar dómurinn væri tilbúinn. Þetta hafði þau áhrif að undirritaður gat með engu móti útskýrt fyrir hinum dæmda á hvaða forsendum hann væri dæmdur sekur. Eina sem ég gat sagt var hver þóknun mín væri fyrir málið og að hann væri sekur fundinn samkvæmt dómi sem ekki var búið að gefa út. Nú er meira en vika liðin og enn er dómurinn óbirtur.

Það sjá það allir sem vilja sjá að svona gengur ekki upp. Að ætla að það sé eðlilegt að fólk bíði í óvissu sem þessari um hvers vegna það er dæmt er ólíðandi. Það að viðkomandi fái eingöngu að vita að hann sé sekur en ekki á hvaða forsendum er með öllu í andstöðu við eina af grundvallarreglum mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Þrátt fyrir skýringar dómara um ástæður fyrir slíkum vinnubrögðum þá er ekki hægt að líða svona lagað í jafn íþyngjandi og alvarlegum málum sem þessum.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 31.5.2015 - 16:34 - Lokað fyrir ummæli

Bullið

Eftir myrkustu mánuðina fer loks að sjá til sólar. Vorið kom aldrei og þrátt fyrir að það sé kominn júní þá er lítið um hitann sem vanalega fylgir sumrinu, í kenningu allavegna. En sólin er komin og vonandi fylgir henni þetta langþráða sumar sem allir hafa beðið eftir.

En vorið eða sumarið byrjaði með látum, verkföll og kjaradeilur stigmögnuðust og ekki er séð fyrir enda á þeim deilum, kröfunar hjá þeim lægstlaunuðu eru að lægstu launin fari upp í 300.000 kr á mánuði. Forysta atvinnurekenda, stjórnvalda og jafnvel seðlabankastjóri hafa talað gegn miklum hækkunum launa og tala um aðför að efnahagslegum stöðuleika eins og sú ábyrgð sé alfarið þeirra sem lægstu launin hafa.

Ég persónulega dáist að því fólki sem vinnur fyrir lægstu launum þessa lands og nær að draga fram lífið á þeim því ég get ekki séð hvernig það er hægt miðað við hvað kostar að leigja eða borga af húsnæði í dag samhliða því að matarverð er með þeim hætti að ekki er hægt að kaupa matarpoka án þess að það kosti tugi þúsunda. Mér þykar það sérstaklega aðdáunarvert þegar þetta sama fólk nær að ala upp börn því mér er það lífsins ómögulegt að skilja hvernig það er hægt á Íslandi í dag á lágmarkslaunun. En byrðar þessa fólks eru miklar því á sama tíma segja forystumenn þessa þjóðfélags og atvinnurekendur að fjárhagsleg velferð þessa lands sé háð þvi að þetta fólk haldi áfram að skrimta og lifa sultarlífi sem þjóðfélagið hefur gert að veruleika fyrir þetta fólk. Mér er skömm í hjarta að þetta skuli vera veruleikinn í okkar þjóðfélagið. En hvers vegna skyldi þetta vera svona og hvað ræður. Er forysta stjórmálaflokkanna svo veik að hún lætur þetta fólk sig engu varða og er forysta verkalýðfélaganna líka svona vesældarleg.

Á Íslandi í dag eru að minnsta kosti þrír gjaldmiðlar, það er íslenska krónan sem er greidd til launþega og er óverðtryggð, svo er það sterkasti gjaldmiðill í heimi sem er verðtryggð íslensk króna og svo aflandskrónur sem spákaupmenn fá að braska með, með því að flytja heim og fá afslátt af hjá seðlabanka vorum. Það sem íslenskur almennningur er óheppin með er að hann fær laun sín greidd í íslenskum óverðtryggðum krónum sem eru álíka gáfulegir og matador peningar. Eins og krafan hjá launþegum hefur verið nú er óskað eftir hækkun laun upp í 300.000 þús hjá þeim lægstlaunuðu. Þetta í reynd þýðir að þegar slík launahækkun er gengin í garð þá má ætla að verðbólgan éti hana upp í formi t.d. hækkun lána sem er í íslenskri verðtryggðri krónu. Þannig þegar upp er staðið þá hækka matvæli og annað þannig að ekkert er eftir fyrir hinn almenna launþega. Hvers vegna sætta menn sig við þetta bull, er það ekki heldur vonlaus staða þegar t.d. verklýðshreyfingin sem semur um launahækkanir situr svo í stjórn lífeyrissjóða sem lána í verðtryggðri krónu og fá í reynd allt þetta til baka í formi afborgana. Er þetta sanngjarnt, getum við búið í samfélagi sem býður slík kjör og um leið arðrænir fólkið i landinu af hagvexti sem það getur nýtt til að lífa sómasamlegu lífi. Er ekki kominn tími til að við metum stöðuna upp á nýtt svo fólk fái ekki hreinlega nóg af landi voru Íslandi. Hvað er það hér á landi sem heldur í fólk með síversnandi lífskjör? Veðrið?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.5.2015 - 13:48 - Lokað fyrir ummæli

Stór dagur í réttindabaráttu samkynhneigðra

Fyrir nokkru var ég beðinn um að taka að mér mál þar sem samkynhneigðum einstaklingi var bannað að gefa blóð vegna kynhneigðar sinnar. Að mínu mati var um brot á mannréttindum viðkomandi að ræða og var farið af stað með að kanna möguleika á málsókn gegn hinu opinbera. Við vinnslu málsins kom í ljós að mikið vantaði upp á að nægileg rök lægju að baki því að banna samkynhneigðum að gefa blóð. Tækni í læknisfræði hefur fleygt það mikið fram að auðvelt er að koma í veg fyrir að sýkt blóð verði notað í læknismeðferð. Samhliða því hefur þekking á sjúkdóminum sjálfum fleygt mikið fram.

Nú nýlega var kveðinn upp sá dómur í Evrópu þar sem bann við blóðgjöf samkynhneigðra var talið brjóta í bága við mannréttindi viðkomandi. Staðfestir dómurinn niðurstöðu mína á sínum tíma um að bann við blóðgjöf samkynhneigðra bryti í bága við mannréttindi þeirra. Ég varð þess áskynja eftir samtöl mín við þá sem starfa innan þess hluta heilbrigðisþjónustunnar sem sér um þennan málaflokk að þar gætir fordóma og misskilnings. Til dæmis var við mig sagt að það væri líka réttur fólks að hafna blóði úr hommum. Slík rök eiga auðvitað ekki að vera til staðar árið 2015 og hvað varðar löggjöf um blóðgjafir þá er það alveg skýrt að ekki verður hægt að mismuna fólki nema að gild og góð rök liggi að baki. Þau rök að banna blóðgjafir samkynhneigðra til þess að tryggja öryggi blóðþega eiga bara ekki við árið 2015 þar sem allt blóð er skimað og þar af leiðandi er hægt að tryggja að ekkert sýkt blóð fari í umferð. Nú verða stjórnvöld á Íslandi að taka þetta til sín og tryggja réttindi samkynhneigðra til að gefa blóð.

Flokkar: Dægurmál · Lögfræði

Miðvikudagur 29.4.2015 - 09:33 - Lokað fyrir ummæli

Vanskilaskrá í boði bankana

Færst hefur í vöxt að bankar séu að innheimta kröfur sem eiga í reynd ekki rétt á sér. Dæmi eru um að bankar innheimti kröfur og um leið skrái einstaklinga á vanskilaskrá vegna þeirra þegar ekkert er á bak við kröfurnar, t.d. engin skuldaskjöl sem standast regluverk og lög. Ég hef komið að mörgum málum þar sem t.d. skuldaskjöl vantar og kröfur eru jafnvel fyrndar. Við þessar aðstæður er ótrúlegt að horfa upp á það að fyrirtæki eins og Creditinfo skuli viðhalda skráningu á slíkum einstaklingum inni á vanskilaskrá. Creditinfo hefur að vísu vísað á ábyrgð bankanna í þessum efnum en ég tel ekki hægt að líta fram hjá því að félög sem halda uppi opinberri skráningu í skjóli opinberra leyfa hljóta að bera ábyrgð fyrir sitt leyti enga að síður.

Samkvæmt starfsleyfi Creditinfo skal eyða upplýsingum um einstakar skuldir sé vitað til þess að þeim hafi verið t.d. komið í skil eða þær eigi í reynd ekki rétt á sér. Það er skiljanlegt að félög eins og Creditinfo leiti til kröfueigandans eða að þeir leggi ábyrgð á þá að þeir séu að upplýsa rétt um atvik máls. Hins vegar þegar ábendingar koma frá skuldara sjálfum þurfa félög eins og Creditinfo að kanna til hlítar grundvöll fyrir skráningu á vanskilum og hvað liggur þar að baki. Það að það sé banki sem eigi kröfuna og fari fram á skráninguna er ekki nægileg ástæða til þess að réttmæti skráningar sé hafið yfir allan vafa.

Viðurlög geta legið fyrir því ef ekki er rétt staðið að skráningum sem þessum og ef verið er að viðhalda skráningu sem eiga ekki rétt á sér. Ef atvik eru t.d. með þeim hætti að skuldaskjöl finnist ekki hjá kröfuhafa þá sé í reynd ekki heimilt að viðhalda kröfunni né heldur þá skráningu um vanskil. Mörg mál hafa t.d. komið upp eftir að bankar hafa verið yfirteknir af öðrum bönkum og ekki hafi verið haldið nægilega vel utan um gögn og önnur skjöl sem tilheyra kröfum bankanna. Mikilvægt er að þessu sé vel fylgt eftir og að fyrirtæki sem halda utan um skráningu vanskila og skulda einstaklinga spyrji líka spurninga og gangi ekki að því sem vísu bara af því það eru bankar sem eiga í hlut að skráningar eigi rétt á sér.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur