Fimmtudagur 1.12.2016 - 21:41 - FB ummæli ()

Hatursorðræða er ofbeldi.

Á dögunum var greint frá því að Pétur á útvarpi sögu hefur verið ákærður fyrir hatursorðræðu. Í kjölfarið fylgdu fréttir af því að tíu einstaklingar hafa verið ákærðir fyrir hið sama, þeirra á meðal Jón Valur Jensson. Síðustu daga hefur skapast áhugaverð umræða um hatursorðræðu. Ég fagna því að við séum farin að ræða um þetta stórhættulega samfélagsmein af alvöru, sem fer vaxandi á sama tíma og við verðum vör við aukna þjóðernishyggju, fordóma og útlendingaandúð.

Að mínu mati er umræðan þó oft á tíðum á villigötum. Umræðan um hatursorðræðu blandast saman við umræðuna um tjáningarfrelsi og mikilvægi þess.  Að mínu mati er það röng nálgun. Hatursorðræða hefur í raun ekkert að gera með tjáningarfrelsi, enda felur tjáningarfrelsi ekki í sér frelsi til þess að níðast á einstaklingum og hópum sem teljast til minnihlutahópa (tja, eða almennt), sem ýtir undir mismunum í þeirra garð. Hatursorðræða er enfaldlega andlegt ofbeldi.

Hvað er hatursorðræða?

0nytt

Hatursorðræða og annars konar áróður á sér stað í öllum samfélögum í mismiklum mæli og af mismiklu kappi. Um er að ræða stórhættulegt samfélagsmein sem getur haft hrikalegar afleiðingar ef hún er látin óáreitt. Hatursorðræða elur á fordómum og hatri og getur ýtt undir þess konar ástand í samfélögum að ákveðnir hópar eru lítilsvirtir og mismunun þeirra almennt viðurkennd. Í alvarlegustu tilvikum leiðir það til samfélagsrofs. Slíkt er ekki líðandi í lýðræðislegu nútímasamfélagi.

Hatursorðræða er flókið hugtak og ekki er til nein ein alþjóðlega viðurkennd skilgreining eða skilningur á því. Flestum er orðið ljóst hversu áhrifamikil hatursorðræða og hatursáróður getur verið og því hefur myndast víðtæk alþjóðleg samstaða um að banna eigi slíkan áróður með lögum.

Í tilmælum ráðherraráðs Evrópuráðsins nr. 97(20) er að finna nokkurs konar skilgreiningu á hatursorðræðu. Þar segir meðal annars að hatursorðræða sé;

„öll tjáning sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir kynþáttahatur, útlendingahatur, gyðingahatur eða annars konar hatur sem byggist á umburðarleysi, þar á meðal umburðarleysi sem er tjáð með herskárri/óvæginni þjóðræknisstefnu/þjóðernishyggju eða þjóðhverfum sjónarmiðum, mismunun og fjandskap gegn minnihlutahópum, farandverkafólki og fólki af erlendum uppruna.“

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur einnig fjallað um hatursorðræðu og hefur vísað til hennar sem „hvers konar tjáningar, munnlegrar eða skriflegrar, sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir hatur sem byggir á umburðarleysi (einnig vegna trúarbragða).“

Það rímar ágætlega við 233. grein almennra hegn­ing­ar­laga sem hljóðar svo:

„Hver sem opin­ber­lega hæð­ist að, róg­ber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða ann­ars konar tján­ingu, svo sem með myndum eða tákn­um, vegna þjóð­ern­is, lit­ar­hátt­ar, kyn­þátt­ar, trú­ar­bragða, kyn­hneigðar eða kyn­vit­und­ar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fang­elsi allt að 2 árum.“

Það sem þessar skilgreiningar eiga amk. sameiginlegt er að þær tilgreina hvað hatursorðræða er og hvers konar tjáning í garð hvers konar einstaklinga eða hópa hún beinist gegn og hvað hatursorðræða er ekki.

Hvað er svona merkilegt við hatursorðræðu?

3a 4screenshot_2016-08-20-14-36-37

Það sem gerir hatursorðræðu sérstaka eru skilaboðin sem gerandinn sendir til þolenda um stöðu þeirra í samfélaginu. Hún hefur áhrif á og grefur undan rétti annarra til jafnréttis og þess að þurfa ekki að þola mismunun. Hún er notuð til þess að niðurlægja einstaklinga, gera lítið úr persónu þeirra og brjóta þá niður. Í hvert skipti sem hatursorðræða er látin óáreitt kostar hún einhvern hluta af þeim sjálfum, sjálfsmynd þeirra og hluta af sálarlífi þeirra.

Fæstir gera sér grein fyrir að fáein orð á Facebook eða Twitter eða kommentakerfum netmiðlanna geta haft mikil áhrif á einstaklinga og hópa auk þess sem það getur kveikt hugmynd eða sáð fræi í huga manns sem mögulega gengur þegar með einhverjar skaðvænlegar hugmyndir í kollinum enda er hatursorðræða oftast undanfari hatursglæps. Skemmst er að minnast Anders Behring Breivik í því samhengi sem og morðsins á bresku þingkonunni Jo Cox.

Á síðastliðnum árum hefur internetið orðið vinsæll vettvangur hatursorðræðu ásamt því að það er í auknum mæli notað til dreifingar á hatursáróðri. Internetið hefur gert fleiri aðilum kleift að ná til fjölda fólks á skömmum tíma án mikillar fyrirhafnar. Internetið hefur orðið áhrifaríkur vettvangur fordómafullra einstaklinga og hópa til að dreifa hatursfullum hugmyndum til þúsunda og jafnvel milljóna viðtakenda á mjög skömmum tíma og erfiðlega hefur gengið að koma böndum á hatursorðræðu á netinu.

Í skjóli tækni, fjarlægðar og nafnleyndar ná gerendur til þolenda hvar og hvenær sem er. Við erum tengd netinu allan sólarhringinn og hægt er að ná til fólks hvenær dags sem er. Þetta gerir þolendur hatursorðræðu og stafræns eineltis að mögulegum þolendum allan sólarhringinn. Jafnvel þótt þolandi slökkvi á tölvunni og/eða síma getur gerandi haldið áfram að senda efni til hans og áreitt hann. Efnið bíður viðtakandans síðan þegar hann neyðist til að kveikja aftur. Það er auðvelt að segja að þolandi eigi hreinlega bara að sleppa því að lesa það sem um hann er sagt eða það sem honum er sent en þannig er raunveruleikinn hreinlega ekki.

Hverjir verða fyrir hatursorðræðu?

5b14 7

Þeir sem verða fyrir barðinu á hatursorðræðu eru fjölbreyttur hópur og geta einstaklingar jafnt sem hópar liðið fyrir hatursorðræðu á grundvelli einnar eða fleiri mismununarástæðna. Hatursorðræða hefur því fjölbreyttar birtingarmyndir. Gerendur í þessum málum eru einnig fjölmargir. Þeir geta verið fullorðnir, unglingar og börn, opinberir starfsmenn, stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn, kennarar og fleiri. Hatursorðræða getur haft meira vægi og áhrif þegar hún kemur frá áhrifamönnum sem tjá skoðanir sínar og viðhorf á opinberum vettvangi. Vegna stöðu þessara einstaklinga setja þeir ákveðin viðmið og ýta undir staðalímyndir fyrir aðra í samfélaginu. Þær staðalímyndir ýta síðan undir fordóma sem geta þróast út í hatur.

Hatursorðræða á grundvelli kynþáttar eða trúarbragða ákveðinna hópa er sá áróður sem almenningur verður mest var við þessa dagana en þetta eru alls ekki  einu hóparnir sem verða fyrir aðkasti í orðum og/eða verki. Þeir hópar samfélagsins sem hatursorðræða getur beinst að eru m.a. fólk frá Afríku/Asíu eða af afrískum/asískum uppruna, samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og transgender einstaklingar, innflytjendur, ýmsir þjóðernishópar, trúarhópar, konur (einkum feministar), börn, fólk með fötlun og aðrir minnihlutahópar samfélagsins. Það er nokkuð misjafnt innan Evrópu hvaða hópa um ræðir en margir þeirra hafa sætt mismunun í gegnum aldirnar líkt og sagan hefur sýnt.

Breska blaðið The Guardian hefur greint hatursorðræðuna á kommentakerfunum sínum. Skoðuð voru 70 milljón komment á vefnum og þau greind. Niðurstöðurnar sýndu á skýran hátt hverjum hatursorðræðan beinist gegn. Í tilfelli The Guardian beindist hún að mestu leyti að konum, samkynhneigðum og útlendingum/lituðum einstaklingum. Hún beindist minnst að körlum og var beitt að mestu leyti af körlum – þó ekki einungis. Að sama skapi sýndu niðurstöðurnar að hatursorðræðan var hve mest þegar fréttirnar voru um málefni innflytjenda, flóttafólks, deilu Ísraels- og Palestínumanna og femínisma, m.ö.o. „viðkvæm mál.“

Það er óhætt að fullyrða að niðurstöðurnar yrðu svipaðar ef hatursorðræðan á íslandi yrði rannsökuð.

Hvernig komum við í veg fyrir hatursorðræðu?

screenshot_2016-06-14-22-26-13

Ég er ein af þeim sem fagnaði því að Pétur hefur verið ákærður fyrir útbreiðslu haturs. Viðbrögðin á kommentakerfunum og samfélagsmiðlunum undirstrikaði ágætlega mikilvægi þess að gripið verði til raunverulegra aðgerða til þess að sporna gegn því að hatursorðræða haldi áfram að breiða úr sér. Mín ánægja beinist ekkert sérstaklega að Pétri og því að hann sem einstaklingur hafi verið ákærður. Nú hefur komið á daginn að um tíu ákærur hafi verið gefnar út vegna hatursorðræðu. Það er ennþá betra. Ef dómur fellur í amk. einu af þessum málum er komið fordæmi fyrir því að andlegt ofbeldi í formi hatursorðræðu verður ekki liðið í samfélaginu okkar og fólk mun hreinlega þurfa að bera ábyrgð á orðum sínum og skrifum. Þá verður von fyrir þá fjölmörgu sem búa við daglegt áreiti og andlegt ofbeldi um að hægt sé að stöðva það, eða amk. minnka það að einhverju leyti. Því mögulega munu einhverjir hugsa sig tvisvar um áður en þeir halda áfram að níðast á fólki á internetinu og leggja það í einelti vegna uppruna þeirra, þjóðernis, litarhafts, kyns eða kynhneigðar eða annarra þátta sem einkennir líf og lífstíl fólks.

Það er skiljanlegt að þeir sem ekki þekkja hatursorðræðu eða hafa verið þolendur hennar eigi erfitt með að skilja hana og gera sér grein fyrir afleiðingum hennar. Það er líka skiljanlegt að sumu leyti að umræðan feli í sér deilur um tjáningarfrelsi. Það sem er hins vegar ljóst er að tjáningarfrelsi felur ekki í sér rétt til þess að niðurlægja og mismuna fólki. Við lifum samkvæmt lögum og reglum um jafnrétti og bann við mismunun og þurfum því að gjöra svo vel að bregðast við þegar við verðum vitni að slíku.

Rétturinn til þess að tjá sig er einn og sér ákaflega mikilvægur en hann er einnig mikilvægur í samspili við önnur réttindi. Það felast verulegir hagsmunir í því að frjáls umræða og opinber skoðanaskipti fái að þrífast. Tjáningarfrelsið er þó vandmeðfarið og getur frelsi eins til tjáningar og grundvallarréttur annarra skarast.

Misjafnar skoðanir og jafnvel deilur hafa verið uppi um það hvort tjáning sem felur í sér hvatningu til haturs – hatursáróður – eigi að njóta verndar ákvæða um tjáningarfrelsi. Alþjóðalög leyfa þó ekki aðeins heldur krefjast þess einnig að ríkin banni ákveðna tegund tjáningar á grundvelli þess að hún grafi undan rétti annarra til að njóta jafnréttis og frelsis frá mismunun og í einstaka tilvikum á þeim grundvelli að það sé nauðsynlegt til verndar allsherjarreglu.

Það er þó mikilvægt að setja skýra verkferla og skilgreina með nákvæmum hætti hvað telst til hatursorðræðu og hver viðurlög við henni skuli vera. Því er mikilvægt að stjórnvöld komi inn í þessa vinnu sem fyrst og marki sér skýra stefnu í þessum málum. Auk þess þarf að auka fræðslu og kynningu alls staðar í samfélaginu og mikilvægt er að fjölmiðlar og stjórnmálamenn setji gott fordæmi og ýti ekki undir stðalímyndir og fordóma í samfélaginu.

Þá ættum við í sameiningu að geta stöðvað útbreiðslu þessa hættulega samfélagsmein sem hatursorðræða er.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.10.2016 - 17:01 - FB ummæli ()

Stóra búrkumálið!

Þau eru mörg málin og málefnin sem rædd eru í aðdraganda kosninga, en eins og þau eru mörg málefnin eru þau mis mikilvæg. Þau sem litlu sem engu máli ættu að skipta verða þó stundum að stórum og fyrirferðarmiklum málum þegar stjórnmálamenn setja þau á dagskrá. Búrkubann er eitt af þeim.

Þar sem búrkumálið, ef svo má að orði komast, hefur verið sett á dagskrá er nauðsynlegt að bregðast við því, svo málflutningurinn sé ekki einhliða og í formi áróðurs. Það er auðvitað út af fyrir sig átakanlegt að umræða um hvort banna eigi búrkur, ákveðinn fatnað múslímskra kvenna, sé komin upp á yfirborðið á nýjan leik. Árið er 2016 og í ríki sem státar sig af því að vera framar öðrum á sviði jafnréttis, frelsis og mannréttinda er merkilegt að við séum að ræða hvort skerða eigi frelsi einstaklingsins með því að banna ákveðinn klæðnað.

Það er hins vegar engin tilviljun að við séum nú að ræða hvort banna eigi búrkur á Íslandi. Það er engin tilviljun að umræðan um að banna búrkur sé farin af stað á nýjan leik og í mun meira mæli en áður, þá á ég við hér, í Evrópu og um allan heim, en sú umræða helst auðvitað í hendur við vaxandi fordóma, andúð á múslimum og íslamófóbíu um allan heim.

búrkur

Það er mikilvægt að byrja á því að skilgreina um hvað er verið að tala. Þegar talað er um búrku er ekki skýrt um hvað er átt við því búrka er í raun klæðnaður sem varla sést nema á nokkrum stöðum í Afganistan. Þegar við ræðum um búrku erum við yfirleitt að tala um nikab. Í Evrópu finnst varla búrka og aukningin á notkun á nikab er mjög hæg. Áætlaðar tölur yfir konur í nikab eru 0,15% í Danmörku, 0,09% í Hollandi og 0,015% í Frakklandi. Um er að ræða hlutföll af áætluðum fjölda múslima í hverju landi en það eru auðvitað hvergi til nákvæmar tölur, hvorki um fjölda múslima né um hve margar konur nota nikab eða búrkur í Evrópu. Dæmi svo hver fyrir sig þörfina á að banna þennan klæðnað.

Umræðan um búrkuna er auðvitað nátengd umræðunni um málefni innflytjanda sem hafa verið mikið hitamál víðsvegar um Evrópu og í raun um allan heim síðustu ár. Að undanförnu hefur umræðan beinst sérstaklega að múslimum og íslam. Í fréttum er talað um hryðjuverk og hryðjuverkamenn og það virðist vera orðið sjálfsagt að tengja þá við íslam. Fjölmiðlar einblína á neikvæða hluti er tengjast íslamstrú og múslimum og nota neikvætt orðalag og stjórnmálamenn tala opinberlega niðrandi um múslima og koma með illa ígrundaðar fullyrðingar um þá. Slíkt er mjög varasamt og ýtir undir fordóma og andúð í þeirra garð.

Umræðan um bann á búrku snýst meðal annars um það hvort að það sé eðlilegt að konur í vestrænum samfélögum gangi um huldar og engin geti séð manneskjuna á bakvið klæðin. Umræðan er látin snúast um öryggi, frelsi og kvenréttindi. Það er ágætt að það komi fram að ég er ekki á nokkurn hátt talskona þess að konur gangi í búrkum, en ég er heldur ekki talsmaður þess að skerða eigi frelsi einstaklingsins á þennan hátt.

Það er svosum ekkert nýtt að hinn vestræni heimur hafi þá ímynd af ríkjum þar sem íslam er ríkjandi, að konur þar séu kúgaðar og þarfnist hjálpar til að öðlast betra líf. Þetta má t.d. sjá á innrásinni í Afghanistan árið 2001 þar sem markmiðið var m.a. að frelsa konur frá kúgun. Það er oft er talað um að búrkan og nikab sé tákn um að innflytjendur eða múslimar hafni vestrænum gildum og hefðum og hefur þessi klæðaburður ítrekað verið tengdur við hryðjuverkastarfsemi. Það er rangt. Það er líka algengur misskilningur að í Kóraninum sé farið fram á að konur beri slæður. Svo er ekki, ekki frekar en að konur eigi að hylja sig frá toppi til táar þó vissulega sé tekið fram að konur sem og karlar eigi að klæða sig sómasamlega og að þau eigi bæði að líta niður þegar þau mætast, til þess að halda dyggð sinni. Í gegnum tíðina hafa þessi tilmæli síðan verið túlkuð á mismunandi vegu, og túlka sumir þetta á þann hátt að fela eigi konuna alfarið. Þar liggur vandinn.

Búrkubann í Evrópu

Frelsi – jafnrétti – bræðralag – búrkubann2

Frakkland er það ríki sem hefur gengið hvað lengst í því að banna klæðnað múslímskra kvenna og hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir. Árið 2004 tóku gildi lög í Frakklandi sem bönnuðu trúartákn í skólum. Frönsk stjórnvöld héldu því fram að nýju lögin væru réttlætanleg í ljósi aðskilnaðs ríkis og kirkju í Frakklandi, sem reyndar hafði verið til staðar þar í landi í hartnær hundrað ár án þess að þörf hafi þótt á lagasetningu sem þessari. Árið 2010 tóku síðan gildi lög sem banna fólki að hylja andlit sitt á almannafæri. Opinberlega var markmið laganna að auðvelda fólki að bera kennsl hvert á annað, þar sem hulin andlit væru öryggishætta og vegna þess hve mikilvæg svipbrigði væru í samskiptum fólks.

Líkt og með fyrri lagasetninguna var hún umdeilt og þótti mörgum augljóst að lagasetningin var ekki til komin vegna vaxandi tilhneigingu franskra karla til þess að hylja andlit sitt á almannafæri með lambhússettu. Lögin beindust augljóslega að múslímskum konum. Lagasetningin þótti bera vitni um íslamafóbíu og fordóma og hún þótti hefta trúfrelsi einstaklingsins og bera vitni um forræðishyggju gagnvart konum. Ekki er langt síðan frönsk yfirvöld reyndu enn á ný að banna klæðnað sem snýr að múslímskum konum, hið svokalla búrkíní, sem er sundfatnaður sem sumar múslímskar konur klæðast. Eins og alþjóð veit neyddust stjórnvöld til þess að hverfa frá því banni eftir að hafa orðið að athlægi á alþjóðavettvangi.

Frakkland er þó ekki eina ríkið sem hefur bannað eða tekið skref í átt að því að banna klæðnað múslímskra kvenna. Belgía fylgdi á eftir Frakklandi og bannaði búrku og nikab árið 2011.  Búrka var bönnuð í Búlgaríu í september s.l en frumkvæðið að lagasetningunni átti búlgarski þjóðernisflokkurinn. Holland hefur stigið skref í átt að búrkubanni. Hluti af Sviss hefur bannað búrku á opinberum stöðum. Hið sama á við um ríkasta hérað Ítalíu. Egyptaland og Chad eru einnig á meðal ríkja sem hafa tekið skref í átt að banni.

Það sem er sameiginlegt með flestum ef ekki öllum tilfellunum þar sem búrka eða annar klæðnaður múslímskra kvenna hefur verið bannaður er að það er gert af öryggisástæðum, í nafni kvenfrelsis og jafnréttis og til þess að frelsa konur undan kúgun.Augljóst þykir að slíkt er lítið annað en yfirklór yfir fordóma, útlendingaandúð og múslimahatur hjá flestum þeim sem kalla eftir slíku banni eða umræðu þar um. Þessa umræðu var td. varla að finna fyrir árið 2001 og á síðustu 15 árum hefur hún komið upp á yfirborðið öðru hvoru, ávallt í kringum vaxandi hryðjuverkaógn, fjölgun innflytjenda og nú síðast aukinn straum flóttafólks.

Því annað sem tilfellin eiga nefnilega sameiginlegt er að það hafa verið flokkar þjóðernissinna, útlendingahatara og íhaldsmanna sem hafa átt frumkvæðið að og komið lögum um búrkubann á. Þeir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn sem hafa að undanförnu komið umræðunni af stað og reynt að koma slíku banni á falla í sömu katagoríu. Má þar td. nefna Nigel Farage og breska sjálfstæðisflokkinn, Geert Wilders og hollenska frelsisflokkinn, þjóðernissinnar og útlendingahatar á Ítalíu, í Frakklandi, á Norðurlöndunum, já og íslenska þjóðfylkingin.

Er rétt að banna búrku?

sarahg_CanadianCulturalDiversity

Stutta svarið er nei.

Fyrir það fyrsta, þá hefur öryggi hreinlega ekkert með þetta að gera og eru þau „rök“ einungis sett fram til þess að afvegaleiða umræðuna. Hið sama á við um þegar reynt er að tengja búrkubann við almannahagsmuni og hvernig banna eigi einstaklingum að hylja andlit sitt á almannafæri.

Í öðru lagi, þá er ótrúlegt, að árið 2016, eftir áratugalanga baráttu fyrir jafnrétti kynjanna og frelsi kvenna og alla þá stóru sigra sem við höfum unnið í þeirri baráttu, séum við að ræða möguleikann á því að stíga stórt skref aftur á bak í þeirri baráttu og banna ákveðinn klæðnað kvenna. Ljóst er að baráttukonur fyrir jafnrétti kynjanna og frelsi kvenna myndu snúa sér við í gröfinni ef þær vissu að við værum að ræða þetta, núna, nokkrum dögum fyrir kvennafrídaginn! Ég bíð spennt eftir þeim degi þegar heimurinn lætur af þeim ósið að segja konum hvernig þær eigi eða eigi ekki að klæða sig. Réttindabarátta kvenna hlýtur að snúast um rétt kvenna til að velja hverju þær klæðast.

Sterkustu rökin með búrkubanni eru að verið sé að kúga konur. Möguleikinn er auðvitað alltaf fyrir hendi að það sé verið að þvinga konur til að ganga með slæðu eða klæðast búrku, þá getur verið að karlkyns ættingjar þeirra aðhyllist öfgakenndari hlið af íslam og fylgi þeim túlkunum stranglega. Það getur til að mynda oft verið ástæðan fyrir því að litlar stelpur noti slæðu. Sumar konur kjósa að nota slæðu, m.a. til þess að ögra samfélaginu í kring. Dæmi er um að það hafi gerst t.d. í Frakklandi á tíunda áratugnum þegar til stóð að banna notkun slæðunnar í skólum, en þá jókst notkun hennar töluvert á meðal múslímskra kvenna.

Að banna búrku er gríðarlega vandasamt mál þar sem það getur verið erfitt að sanna eða afsanna að verið sé að kúga konur til að ganga með nikab frekar en að þær geri það af frjálsum vilja. Það er heldur ekki hægt að útiloka hvort tveggja, það er ekki annað hvort eða. Maður getur til að mynda spurt sig hvort að það sé ekki ólíkar aðstæður bakvið notkun búrku eftir því hvort hún er notuð í Afghanistan eða Danmörku.

Margt bendir til þess að búrkan sem slík sé notuð af íslömskum öfgamönnum til að halda konum á „sínum stað“ eða að þær eigi að sinna sínu hlutverki í samfélaginu og ekki vera fjölskyldunni til skammar, það er að segja samkvæmt þeirra túlkun á kóraninum. Í Danmörku var hins vegar gerð eigindleg rannsókn á vegum Kaupmannahafnarháskóla þar sem rætt var við konur sem klæðast nikab. Í þessari  rannsókn sögðu allar sjö konurnar sem rætt var við að þær kusu að nota nikab af frjálsum vilja. Það er ekki fræðilegur möguleiki á því að vita hvort eigi við hverju sinni og því gengur hreinlega ekki upp að banna slíkan klæðnað af þeim ástæðum.

Það sem skiptir mestu máli er að helsta hættan sem stafar af því að banna konum að klæðast búrku er að slíkt bann getur auðveldlega snúist upp í anhverfu sína og ómögulegt er að reyna að meta árangur þess. Hætta er á því að múslímskar konur hreinlega einangrist í samfélaginu ef búrkur verða bannaðar. Bann við búrku sem á að framfylgja með sektum og refsingum verður ekki til þess að karlmenn vakni endurfæddir og hætti hreinlega að kúga konuna sína. Með því að banna búrku væri ekki verið að frelsa konur frá kúgun heldur væri verið að ýta undir slíka kúgun og bannið gæti auðveldlega snúist upp í andhverfu sína. Karlar gætu í auknum mæli haldið konum sínum innan veggja heimilisins til að forðast sektir, frekar en leggja búrkuna af, ungar stúlkur myndu hætta að mæta í skólann enda fengju þær ekki leyfi til þess að fara út úr húsi án slíkra klæða. Það hefur verið raunin þar sem búrkan hefur verið bönnuð.

Það er mikilvægt að koma eins fram við alla og leggja áherslu á það sem sameinar okkur frekar en það sem sundrar okkur.  Við erum komin á óþægilegan stað ef grundvallar mannréttindi eins tjáningarfrelsi, trúfrelsi og frelsi einstaklingsins er skert með illsannanlegum rökum eins og að konur sem klæðist nikab eða búrku séu allar kúgaðar eða að fólki finnist nærvera þeirra óþægileg. Ekki er hægt að banna allt sem maður er á móti.

Það er ekki farsælt fyrir baráttuna fyrir réttindum kvenna að einblína á birtingarmyndir misréttis í stað orsaka þess. Búrkan sjálf er ekki vandamálið og því á ekki að einblína á hana, hún er einungis birtingarmynd kúgunar og því er það alls ekki rétta leiðin til þess að berjast kúgun kvenna að banna hana. Það á einblína á slæma stöðu kvenna múslimaríkjum. Ef þú telur einhvern vera kúgaðan þá frelsar þú hann ekki með því að leggja á hann boð og bönn heldur með því að berjast gegn kúgaranum og hugmyndafræði hans og með fræðslu og aðstoð við þann kúgaða.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 25.9.2016 - 18:18 - FB ummæli ()

Látum áróður ekki villa okkur sýn!

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa aldrei verið fleiri á flótta í heiminum en nú. Langstærstur hluti þeirra sem eru á flótta eru að flýja stríðsátök og vegna aukinna átaka, borgarastyrjalda og ofbeldis í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku hefur hlutfall þeirra sem óskað hafa eftir alþjóðlegri vernd vaxið svo um munar síðustu ár og ljóst er að ekkert lát verður þar á á næstu mánuðum og jafnvel árum. Um er að ræða milljónir manna, kvenna og barna sem eru fórnarlömb stríðs sem þau eiga engan þátt í að hafa skapað.

Umræðan um fólk á flótta er oft á tíðum mjög ósanngjörn og óréttlát og einkennist oftar en ekki af rangfærslum, hræðsluáróðri og öfgum. Hér er gerð tilraun til þess að leiðrétta nokkur atriði sem heyrast oft í umræðunni.

Hér er allt að fyllast af flóttafólki og hælisleitendum segja margir. Einungis 30 ríki heims hafa skuldbundið sig til þess að taka á móti ákveðnum fjölda kvótaflótta­manna á hverju ári. Ísland er eitt af þeim.

Fyrsta flóttafólkið kom til Íslands frá Ung­verja­landi árið 1956. Alls tóku íslensk stjórn­völd á móti 204 einstaklingum á flótta á tæp­lega 40 ára tíma­bili, frá 1956 til 1991. Eftir að Flótta­manna­ráð (nú Flóttamannanefnd) var sett á lagg­irnar árið 1995 hefur Ísland tekið á móti 393 flótta­mönn­um, á tímabil­inu 1996 – 2016. Það eru 597 einstaklingar á 60 árum!

Um það bil ein milljón fólks á flótta kom til Evrópu árið 2015. Þrátt fyrir þann fjölda er það einungis dropi í hafið miðað við stöðuna á heimsvísu en meira en 65 milljónir manna, kvenna og barna eru á flótta í heiminum í dag.

Ísland stendur sig ekki vel gagnvart fólki á flótta. Af Vestur-Evrópulöndum eru það aðeins Portúgal og Spánn sem veita færri dvalarleyfi en Ísland.

Dæmi: Árið 2011 sóttu alls 76 einstaklingar um hæli á Íslandi. Útlendingastofnun afgreiddi 50 umsóknir á sama ári og veittu samtals 13 hælisumsækjendum réttarstöðu sem flóttamenn.

Dæmi: Á fyrstu sex mánuðum ársins 2016 voru 310 umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi afgreiddar. 31 einstaklingur fékk vernd. Það er 10% af afgreiddum umsóknum.

Dæmi: Í ágúst voru 38 umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi afgreiddar. 7 einstaklingar fengu alþjóðlega vernd.

Því er oft haldið fram að vegna aðildar Íslands að Schengen-landamærasamstarfinu og vegna Dyflinarreglugerðarinnar, sem fellur undir Schengen-samstarfið, sé aukning í umsóknum um hæli á Íslandi og því vilja þeir sem ekki vilja taka á móti fólki á flótta að við segjum okkur frá því samstarfi.

Dyflinnarreglugerðin mælir fyrir um hvaða aðildarríki reglugerðarinnar beri ábyrgð á meðferð umsóknar um hæli og í því felst að taka afstöðu til þess hvort umsækjandi þurfi á vernd að halda. Allar umsóknir um hæli hér á landi eru því fyrst skoðaðar með hliðsjón af því hvort öðru aðildarríki sé skylt að fjalla um umsóknina og taka aftur við umsækjanda. Beri annað aðildarríki ábyrgð á meðferð umsóknar um hæli taka íslensk stjórnvöld ekki afstöðu til þess hvort umsækjandi þurfi á vernd að halda þar sem að viðtökuríkið samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni ber meta þörfina og veita tilskylda vernd.

Samkvæmt vef Útlendingastofnunar er um helmingur alla umsókna um hæli teknar til efnismeðferðar hjá íslenskum yfirvöldum. Ljóst er að ef Ísland segir sig úr Schengen-samstarfinu og þar af leiðandi frá Dyflinarreglugerðinni munu íslensk stjórnvöld þurfa að taka hverja einustu umsókn um hæli til efnismeðferðar.

Hinir sömu halda því fram að með nýjum lögum um útlendinga sé góða fólkið að opna landamæri Íslands. Segja mætti að landamærin hafi verið tiltölulega opin allt frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tók gildi hér á landi ári 1994. Aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinum veitir einstaklingum frá 31 ríki leyfi til þess að koma hingað og búa, starfa eða læra, án nokkurra vandkvæða, og að sama skapi getum við farið án vandkvæða til sömu ríkja. Að öðru leyti eru landamærin frekar lokuð og ljóst er að lítil sem engin breyting verður á því með nýjum lögum um útlendinga.

Aðalatriðin í þeim lögum er varða fólk á flótta eru, samkvæmt þeim sem unnu að lögunum, m.a. breytingar á grein­ing­ar­ferli við komu flótta­manna til landsins, t.d. varðandi fólk í viðkvæmri stöðu. Gert ráð fyr­ir að af­greiðslu­tími í hæl­is­leit­enda­mál­um stytt­ist og stjórn­sýsla ein­fald­ist. Verið er að auka möguleika á fjölskyldusameiningu og bæta réttastöðu ríkisfangslausra. Með lög­unum er verið að auka mannúð og skil­virkni í kerf­inu.

Þeir sem vilja ekki að Ísland veiti fólki á flótta skjól og vernd notar oft á tíðum háan kostnað við fjölgun hælisleitenda sem rök fyrir ómannúðlegri stefnu sinni. Þeir sem hins vegar vilja að fólk á flótta og hælisleitendur geti haldið mannlegri reisn og virðingu sinni hafa barist fyrir því að á meðan hælisleitendur bíða úrlausnar sinna mála sé þeim veitt tímabundið atvinnuleyfi. Það er erfitt fyrir alla að sitja aðgerðalausir til langs tíma og flestir hælisleitendur þrá ekkert meira en að fá að lifa eðlilegu lífi, vinna fyrir sér og sínum og njóta þess að vera til.

Þeir sem hafa áhyggjur af kostnaði við hælisleitendur ættu því auðveldlega að geta tekið undir þessa kröfu í stað þess að nota bága stöðu annarra til þess að etja saman hópum í samfélaginu og ala á sundrungu og mismunun.

Að sama skapi heyrist sú röksemdafærsla oft að flóttafólk sé byrði á samfélaginu. Hins vegar hafa fræðimenn í hagfræði bent á að kostirnir sem fylgja móttöku flóttafólks eru langtum fleiri og þyngri á metunum en tímabundin byrði sem þeir hafa í för með sér fyrir móttökusamfélagið. Hér má nefna nýja menntun, þekkingu og hæfileika og aukna neyslu sem örvar svo atvinnulífið og ýtir undir hagvöxt. Það er því beinn efnahagslegur ávinningur sem fylgir því að taka á móti fleira flóttafólki. Þar að auki er rétt að nefna þann ríka menningararf sem kemur með fólki frá öðrum löndum sem skilar sér t.d. í fjölbreyttari menningu, listum og atvinnustarfsemi sem og opnari og víðsýnni þjóð.

Auk þess er ljóst að þjóðin er að eld­ast og ­fjölg­unin okkar er of hæg til að tryggja vel­ferð okkar til lang­frama. Þeir nýju lands­menn sem hingað hafa komið hafa ­sýnt að þeir eru vinnu­samir og dug­leg­ir, góðir náms­menn og góðir Íslend­ing­ar. Við einfaldlega þurf­um á þeim að halda. Að taka á móti flóttafólki er ekki aðeins hið rétta í stöðunni, heldur felur það einnig í sér­ efna­hags­legan ávinn­ing fyrir þjóð­ina.

Sumir vilja stjórna því hverjir fá hæli og einungis taka á móti kristnu flóttafólki. Helgi Helgason, formaður íslensku þjóðfylkingarinnar, hefur m.a. spurt „af hverju má ekki taka við kristnum hælisleitendum ef á annað borð er verið að taka inn hælisleitendur yfir höfuð?

Þessi ummæli Helga (fleiri hafa tekið undir slíkan málflutning) endurspegla ágætlega það sem raunverulega er að baki hugmyndafræði þeirra sem vilja ekki taka á móti fólki á flótta. Það á ekkert skylt við fjárhagslegar áhyggjur, opnun landamærra eða áhyggjur af stöðu öryrkja og eftirlaunaþega, ef svo væri, hvers vegna samþykkti Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ekki bætt kjör til þeirra þegar hann hafði tækifæri til, en hefur svo áhyggjur af þeim þegar kemur að fjárframlagi vegna hælisleitenda.

Í sama viðtali talaði Helgi um að við þurfum að stöðva íslamsvæðingu Íslands. Ótti við menningarleg áhrif innflytjenda á samfélagið er það sem raunverulega útskýrir hvers vegna fólk vill ekki taka á móti flóttafólki á Íslandi. Þrátt fyrir að hátt í 10% af íslensku þjóðinni eru skilgreindir sem innflytjendur, sem hafa fært þjóðinni og samfélaginu fjölmarga góða hluti, jafnt menningarlega sem og aðra, er þessi ótti enn til staðar, og hann virðist beinast sérstaklega gegn múslimum. Er sá ótti nauðsynlegur? Hafa þeir múslimar sem hér á landi eru nú þegar gefið okkur ástæðu til þess að óttast þá? Ég held ekki. Hvað með alla hina múslimana?

Árið 2010 voru 1,6 millj­arður múslima í heim­in­um. Vegna þess að við fáum oftar en ekki ákveðna birtingarmynd af múslimum og íslam í gegnum fjölmiðla, þar sem fjallað er um aðgerðir öfgahópa, hafa margir þar af leiðandi ákveðn­ar hug­myndir um múslima og tengja þá jafn­vel við hryðjuverkastarf­semi, en slíkt end­ur­speglar að sjálfsögðu ekki skoð­anir meiri­hlut­ans og er í raun frekar ýkt.

Sam­kvæmt gögnum frá FBI voru 94% hryðju­verka sem fram­kvæmd voru í Banda­ríkj­unum á árunum 1980-2005 framin af öðrum þjóð­fé­lags­hópum en múslim­um. Samkvæmt gögnum frá Europol voru framin yfir þús­und hryðju­verk í Evr­ópu á ár­unum 2010-2015 og áttu minna en 2% þeirra rætur sínar að rekja til íslam.

Margir halda því fram að Íslendingar vilji ekki flóttafólk og hælisleitendur til Íslands því við þurfum að hugsa um okkar fólk fyrst, bæta kjör öryrkja og eftirlaunafólks, greiða úr alvarlegu ástandi á húsnæðismarkaðinum.

Auðvitað á að bæta kjör öryrkja og aldraðra, sem hafa búið alltof lengi við ömurleg kjör og mun lengur en aukinn straumur flóttafólks og hælisleitenda til Evrópu fór (mjög takmarkað) að ná til Íslands. Fyrir utan hversu fráleitt það er að etja saman hópum samfélagsins og segja einn hafa af örðum er það einfaldlega rangt og einungis gert til þess af afvegaleiða umræðuna. Þessir samfélagshópar hafa afþakkað það að vera skjól stjórnmálamanna fyrir vondri stefnu í málefnum flóttafólks.

Auðvitað á að greiða úr alvarlegu ástandi á húsnæðismarkaði. Það vandamál á hins vegar ekkert skylt við flóttafólk eða hælisleitendur á Íslandi heldur aðgerðaleysi stjórnvalda í þrjú ár. Þeir sem eru reiðir vegna stöðunnar á húsnæðismarkaðinum, sem við erum flest, ættu því að beina reiði sinni í rétta átt, ekki að fórnarlömbum stríðs sem þau eiga engan þátt í að hafa skapað.

Það er hægt að gera allt af ofangreindu. Það þarf bara að forgangsraða rétt.

Við þurfum líka að huga að íslenskum gildum og menningu. Hin raunverulegu íslensku gildi endurspeglast í opnu velferðarsamfélagi  þar sem allir eru jafnir, einstaklingum er ekki mismunað vegna uppruna, trúar, þjóðernis, menningar eða öðru sem einkennir þeirra persónu og líf, td. kyni, kynhneigð eða fötlun. Þar sem allir hafa sama aðgang að mannréttindum, réttlæti og frelsi og grundvallarréttindi einstaklingsins eru tryggð. Þar sem allir búa við mannlega reisn og virðingu. Það er ekki flóttafólk sem ógnar þessum gildum heldur þeir sem telja sig yfir aðra hafna vegna uppruna, þjóðernis, húðlitar, menningar eða trúar.

Að lokum, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Íslandsdeildar Amnesty International vilja 85,5% Íslendinga taka opnum örmum á móti flóttafólki og tæplega 74% aðspurðra voru sammála þeirri fullyrðingu að íslensk stjórnvöld ættu að gera meira til að hjálpa þeim sem eru á flótta undan stríði eða ofsóknum.

Okkur ber ekki einugis siðferðisleg skilda til þess að veita fórnarlömbum stríðsátaka skjól og vernd heldur hefur Ísland m.a. lögfest Mannréttindasáttmála Evrópu, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Íslensk stjórnvöld verða því að leggja sitt af mörkum svo hægt sé að taka á þeim áskorunum sem fylgja auknum straumi flóttafólks til Evrópu sem er ekki mál einstaka ríkja eða einstaklinga heldur mál sem snertir okkur öll. Látum áróður ekki villa okkur sýn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 16.8.2016 - 19:41 - FB ummæli ()

Hinar ýmsu birtingarmyndir rasisma!

moskahatursáróður

Samfélög nútímans eru í stöðugri þróun og breytingar á uppruna, tungumálum, menningu og trúarbrögðum eiga sér víða stað. Fólksflutningar á milli samfélaga eru ekki nýtt fyrirbæri og geta ástæðurnar fyrir þeim verið margvíslegar en með aukinni hnattvæðingu hefur fólk öðlast meira frelsi til að flytja á milli landa. Íslenskt samfélag er ekki undanskilið þessari þróun. Þannig er Ísland vissulega fjölmenningarsamfélag ef hugtakið fjölmenning er notað sem lýsingarorð, en fjölbreytileikinn gerir það að verkum.

Fjölmenning á Íslandi á sér fremur stutta sögu en rannsóknir á málefnum og stöðu innflytjenda hófust ekki að ráði fyrr en um síðustu aldamót eða þegar fjöldi innflytjenda fór að aukast hér á landi. Fjölmenning er ennþá tiltölulega nýtt hugtak í íslensku samfélagi og enn eru margir sem líta á Ísland sem einsleitt menningarlega séð en hugtakið fjölmenning kemur þó æ oftar fyrir í samfélagslegri umræðu, sérstaklega í tengslum við fjölgun innflytjenda.

Hugtakið fjölmenningarlegt samfélag er skilgreint sem samfélag þar sem fjölbreytni ríkir, þar sem fólk af mismunandi uppruna eða menningarsvæðum býr saman í einu samfélagi, ber virðingu fyrir hvort öðru og hefur samskipti sín á milli. Í fjölmenningarlegu samfélagi er litið á fjölbreytileika og fjölda mismunandi lífstíla sem sjálfsagðan hlut og varað er við því að horft sé á fjölmenningu eða stöðu ýmissa minnihlutahópa sem utanaðkomandi ásókn. Eðlilegt er að í slíku samfélagi fái allir hópar að halda sinni eigin menningu, tungumáli og einkennum en tileinki sér á sama tíma ríkjandi menningu. Slíkt fyrirkomulag er þekkt á Norðurlöndunum.

Í dag eru hátt í 10% af þjóðinni skilgreindir sem innflytendur. Innflytjendur á Íslandi eru ekki einn einsleitur hópur heldur eru hér á landi yfir 100 mismunandi þjóðarbrot. Samkvæmt Hagstofu er innflytjandi “einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra sem einnig eru fæddir erlendis, svo og báðir afar hans og báðar ömmur. Önnur kynslóð innflytjenda eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Fólk er talið hafa erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent.

Sambönd milli þjóðfélagshópa geta einkennst af ákveðnum viðhorfum og staðalmyndum um ólíka hópa sem geta leitt til fordóma og spennu þeirra á milli. Fólk virðist eiga auðveldara með að sjá einstaklingsmun í hópnum sem það telur sig tilheyra á meðan þeir, sem taldir eru tilheyra öðrum hópi, eru settir undir sama hatt. Samhliða vexti fjölmenningarsamfélagsins, auknum fólksflutningum og fjölgun innflytjenda vaxa því fordómar og þjóðernishyggja.

Árið 2008 unnu Inga Hlín Pálsdóttir og Sigrún Ólafsdóttir skýrslu sem bar nafnið Ímynd Íslands: Staða, styrkur og stefna. Einstaklingar voru valdir í rýnihópa og þeir beðnir um að ræða ímynd þjóðarinnar. Allir hóparnir ræddu um innflytjendur og eftir því sem fram kemur í skýrslunni var enginn sem sá innflytjendur sem hluta af ímynd þjóðarinnar heldur frekar sem innrás sem þurfti að verjast til að Íslendingar héldu sérstöðu sinni. Að sama skapi segjast meira en 70% innflytjenda á Íslandi hafa orðið fyrir fordómum samkvæmt nýlegum rannsóknum. Það er áhyggjuefni.

fordómar

Hvað eru fordómar?

Þegar talað er um fordóma er átt við þegar einstaklingar eða hópar fólks eru dæmd út frá fyrirfram ákveðnum hugmyndum af staðalímyndum sem hafa myndast í samfélaginu og eru yfirleitt mótaðar af umhverfinu og eru t.d. fengnar úr fjölmiðlum, kvikmyndum og bókum. Staðalímynd er hugtak sem skilgreint er sem viðtekin skoðun fólks um sérkenni hópa eða einstaklinga sem tilheyra oft minnihlutahópum innan samfélagsins. Dæmi um þetta geta verið skoðanir fólks á byggingu mosku á Íslandi eða hugmyndir fólks um múslima.

Fordómar geta byggt á hegðun, skoðunum eða öðru í fari einstaklings. Kristján Kristjánsson skilgreinir fordóma sem dóm sem felldur er án þess að einstaklingur hafi kynnt sér réttmæti og rök málsins af sanngirni, því hafa þeir sem hafa fordóma ekki góðar ástæður fyrir skoðunum sem felast í dómunum. Fordómur getur einnig verið fordómur í munni eins en ekki annars, því við trúum þeim skoðunum sem við höfum þar til annað reynist rétt. Samkvæmt Kristjáni er hægt að flokka fordóma í tvo flokka, fljótadóma eða hleypidóma, og forherta dóma.

Fljótadómar eða hleypidómar eru skoðanir og dómar sem hafa myndast í samfélaginu í gengum tíðina og koma oft upp í samtölum milli fólks, þetta eru dómar sem fólk hefur enga staðfestingu á og hefur aðeins heyrt frá öðrum. Forhertir dómar eru dómar sem eru felldir af einstaklingum sem veit betur eða á að vita betur en þrjóskast í villu sinni. Forhertir dómar eru náskyldir sjálfsblekkingu, þá neitar viðkomandi að leitast réttra svara og trúir skoðun sinni þrátt fyrir að vita að skoðun hans er vitlaus.

Skilgreining Páls Skúlasonar á fordómum er að fordómar séu „staðhæfing eða skoðun sem við trúum og látum hugsun okkar stjórnast af án þess nokkurn tíma að draga þessa staðhæfingu eða skoðun í efa eða gagnrýna hana.”

Fordómar hafa mismunandi birtingamyndir og geta þeir verið sýnilegir eða ósýnilegir. Ósýnilegir fordómar eru mun algengari í samfélaginu og oft gerir fólk sér ekki grein fyrir þeim, hvorki þeir sem beita slíkri hegðun eða verða fyrir henni. Dæmi um ósýnilega fordóma getur verið að sýna fyrirlitningu í framkomu eða orðalagi eins og t.d. að veita útlendingum lélegri þjónustu, tala ekki við fólk af erlendum uppruna á vinnustað eða líta niður á fólk af erlendum uppruna. Margir myndu túlka slíka hegðun sem rasíska, enda eru fordómar náskyldir rasisma.

rass

Hvað er rasismi?

Hugtakið rasismi sem hefur einnig verið kallað kynþáttahyggja á íslensku, er regnhlífarhugtak yfir ýmsar tegundir af pólitískum hugmyndafræðum og fordómum sem ganga út á mismunun og skiptingu fólks í hópa, myndun og viðhaldi staðalímynda, m.a. eftir þjóðerni, kynþætti, menningu og/eða trúarbrögðum. Vegna þess að hugtakið er tiltölulega umdeilt, og á sér ólíkar birtingarmyndir á mismunandi stöðum á mismunandi tímum eru skilgreiningar á því öðruvísi eftir orðabókum og fræðimönnum.

Flestar skilgreiningar eiga það þó sameiginlegt að rasismi sé sú hugmynd að ákveðinn hópur af fólki sé í eðli sínu ólíkur öðrum. Þessi eðlislæga misskipting er síðan notuð til grundvallar við mismunun á þessum tiltekna hópi á ákveðnum sviðum, og til þess að draga upp staðalímyndir og alhæfa um eiginleika einstaklinga og samfélagshópa.

Hinn hefðbundni „líffræðilegi“ rasismi er þekktari tegundin af rasisma og grundvallast á kynþáttum. Hann byggir á trú fólks á því að einhver af öðrum uppruna sé óæðri en aðrir af manns eigin uppruna eða kynþætti. Hann leggur áherslu á að mannkyninu sé skipt í kynþætti sem eru í eðli sínu líffræðilega ólíkir og að ákveðið stigveldi ráði því að einstakir kynþættir séu eðlislega æðri.

ús

Menningarlegur rasismi

Nýtt afbrigði af rasisma hefur sprottið upp á síðustu áratugum sem hefur verið kallað ný-rasismi eða menningarlegur rasismi á íslensku. Í staðinn fyrir að aðhyllast yfirburði eins kynþáttar yfir öðrum, þá er lögð rík áhersla á menningu og aðgreiningu hennar meðal þjóða og fólks af öðrum litarhætti. Hugmyndin um kynþætti skiptir ekki höfuðmáli lengur, það sem skiptir máli eru menningarleg einkenni og hvað aðgreinir þau hvert frá öðru. Nú á dögum þykir slíkur rasismi, sem einnig hefur verið nefndur ný-rasismi, vera sjálfsagðari en þeir voru áður, og kristallast það m.a. í yfirlýstri andúð á innflytjendum, múslimum og útlendingum almennt.

Útlendingaandúð er skilgreind sem ótti eða andúð ákveðins hóps á fólki af öðrum hópi á grunni þess að sá hópur þyki öðruvísi eða framandi. Útlendingaandúð er nátengd þjóðernishyggju og menningarlegum rasisma sem skilar sér í pólitískri andstöðu við innflyjendur, m.a. með áherslu á að draga úr innflytjendastraumi, sem og að herða löggæslu við landamæri.

asm

Á Vesturlöndum hefur menningarlegur rasismi hlotið ákveðna ómeðvitaða viðurkenningu og fengið byr undir báða vængi á liðnum árum en þannig hafa t.d. stjórnmálaflokkar sem vilja beita sér gegn fjölmenningarsamfélaginu sótt í sig veðrið að undanförnu en það kristallast einnig í hegðun einstaklinga gangvart fólki af erlendum uppruna, með aðra menningu eða trú.

Talsmenn þeirra sem sem aðhyllast slíkar skoðanir og eru andsnúnir fjölmenningu benda gjarnan á að afstaða þeirra sé ekki rasísk vegna þess að þeir segjast ekki leggja neina áherslu á kynþætti. Það séu frekar gagnrýnendur þeirra sem séu rasískir vegna þess að þeir eru að mála múslima og aðra trúarhópa upp sem kynþætti. Hins vegar hefur verið bent á að ekki sé hægt að segja að menningarlegur rasismi sé ekki rasismi, einfaldlega vegna þess að hugtakið eigi ekki við um kynþætti. Menningarlegur rasismi er afbrigði rasisma sem skiptir einfaldlega kynþætti út fyrir menningu. Menning er þannig orðin að hinum nýja kynþætti.

Eitt af höfuðeinkennum menningarlegs rasisma og þjóðernispopúlismans sem honum fylgir er að draga upp tvískipta mynd af þjóð sinni eða sínum menningarheimi annars vegar, og útlendingum eða öllum utanaðkomandi hinsvegar; „við“ og „hinir.“ Þetta er svarthvít mynd sem aðgreinir einnig hið „góða“ frá hinu „illa.“ Slíkum málflutningi hefur verið beitt öldum saman af þeim sem haldnir eru útilokandi þjóðernishyggju og útlendingaandúð, enda er það elsta trixið í bókinni að ala á ótta til þess að fá fólk með þér á einhverja ákveðna skoðun.

islþ

Þeir sem tjá þennan nýja rasisma eru oft afsakandi í framkomu sinni, segjast ekki vera rasistar heldur vilji þeir einungis „ræða málin.“ Að ræða málin í þessu samhengi er einmitt athugun á því hvort rasískar hugmyndir standist skoðun. Þá er algengt að orðræðan snúist um þessa meintu ógn sem  steðjar af fjölmenningu, auknum innflytjendastraumi, eða ákveðnum þjóðfélagshópum. Vegna þessarar „hættu“ sem þeir telja sig skynja, láta þeir sig slík málefni sérstaklega varða.

Þetta birtist einkum í því að menningarlegir rasistar staðhæfa í sífellu að innflytjendur sem tilheyra ákveðnum framandi menningarhópi geti ekki, og vilji ekki, aðlagast ríkjandi samfélagi með sínum gildum, hefðum og trúarbrögðum. Nú á dögum er sérstaklega algengt að þessu sé haldið fram um múslima á Vesturlöndum.

Að sama skapi fullyrða þeir sem aðhyllast menningarlegan rasisma gjarnan að menningarheimar Vesturlanda og Mið- Austurlanda, og trúarbrögðin kristni og íslam, séu svo eðlislega ólík að það sé óhugsandi að fólk úr sitt hvorum hópnum geti búið saman í sátt og samlyndi. Hér er um nokkurs konar menningarlega aðskilnaðarstefnu að ræða, sem leitast við að aðskilja hópa af fólki alfarið frá hverju öðru á menningarlegum forsendum.

Snúum þróuninni við

Sú þróun sem lýst er hér að ofan á við Ísland og íslenskt samfélag rétt eins og önnur evrópsk samfélög og eru dæmin um menningarlegan rasisma m.a. í orðræðu stjórnmálamanna, fjölmiðlamanna og annarra sem taka í opinberri umræðu óteljandi og ábyrgð þeirra sem gerast sekir um að ýta undir ótta og hatur í garð minnihlutahópa með menningarlegum rasisma er mikil því fordómum fólks getur verið erfitt að breyta og ekki er hægt að eyða staðalímyndum úr samfélaginu.

Það er mikilvægt að allir leggi sig fram við að leiðrétta þær staðalímyndir sem valda mismunun í garð ákveðinna hópa því það á aldrei að vera í lagi að mismuna fólki eftir uppruna, menningu, trú eða þjóðerni, ekki freka en öðrum einkennum fólks.

Það er íslensku samfélagi til gæfu að hingað flytjist fólk til þess að finna starfskröftum sínum, hugviti og hæfileikum farveg. Þátttaka nýrra íbúa er mikilvæg fyrir samfélagið í heild sinni og því er mikilvægt að leita leiða til að jafna stöðu einstaklinga og hópa í fjölmenningarlegu samfélagi og stuðla þannig að félagslegu jafnrétti og réttlæti og koma í veg fyrir vaxandi rasisma og hegðun tengda honum.

Heimildir:
Fjölmenningarleg kennsla: Forvörn gegn kynþáttahatri og fordómum.
Menningarlegur rasismi á Íslandi
Ný-rasismi í reynd

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 22.7.2016 - 21:31 - FB ummæli ()

Tökum afstöðu gegn öfgum og hatri!

Hugvekja flutt á minningarathöfn Ungra jafnaðarmanna um voðaverkin í Útey, föstudaginn 22. júlí 2016.

2016-07-22 21.22.02

Kæru vinir og félagar,

á lífsleið okkar upplifum við öll fjölmarga atburði sem setja svip sinn á líf okkar. Þessir atburðir geta verið góðir og slæmir og þeir hafa mismikil áhrif á okkur. Sumir atburðir sem við upplifum á lífsleið okkar eru af því meiði að þeir fylgja okkur allt okkar líf. Voðaverkin í Útey, Noregi, þann 22. júlí árið 2011 er slíkur atburður fyrir mörg okkar.

Í dag eru fimm ár frá því að maður fullur af öfgum og hatri tók 77 manns af lífi. Árás Anders Breiviks beindist sérstaklega að ungum jafnaðarmönnum, flokkssystkinum okkar, en hann myrti 69 ungmenni, börn og unglinga, sem voru saman komin til þess að ræða um jafnaðarstefnuna og allt það fallega og góða sem henni fylgir. Það var því og er oft erfitt að skilja hvernig og hvers vegna slíkt getur gerst.

Flest munum við ennþá hvar við vorum og hvað við vorum að gera þegar fréttir af voðaverkunum í Útey fóru að berast. Ég man það sérstaklega vel því ég hafði kynnst mörgum norskum ungum jafnaðarmönnum árin fyrir voðaverkin í Útey þegar ég var alþjóðafulltrúi Ungra jafnaðarmanna og því hugsaði ég strax til vina minna og félaga og auðvitað allra hinna sem mögulega gætu hafa látið lífið eða særst í þessari hræðilegu árás.

Þarna var því um að ræða hryðjuverkaárás sem var manni nær en nokkru sinni fyrr.

Eftir fjöldamorðin í Útey og Osló helltist mikil sorg og mikil reiði yfir norskt samfélag og í raun alla heimsbyggðina og enn eru margir í sárum og sumir munu aldrei jafna sig að fullu leyti, eðlilega.

Viðbrögð norsku þjóðarinnar, Jens Stoltenbergs, þáverandi forsætisráðherra Noregs, norskra jafnaðarmanna og aðstandanda þeirra sem létu lífið í voðaverkunum í Útey, vakti á sínum tíma mikla aðdáun!

Bandarísk stjórnvöld lýstu yfir stríði gegn hryðjuverkum í kjölfar hryðjuverkaárásanna á tvíburaturnana í New York 11. september 2001. Stoltenberg sagði að Norðmenn myndu svara hatrinu með ást.

Og norska þjóðin gerði svo.

Stoltenberg talaði um meiri mannúð, meira gagnsæi og meira lýðræði. Hann talaði um samstöðu og lagði mikla áherslu á að svara illsku ekki með meira hatri eða mannvonsku. Hann lagði mikla áherslu á að norska þjóðin skyldi ekki láta hryðjuverkin þagga niður í sér. Hann sagði Norðmenn verða að standa vörð um opið samfélag eins og Noregur var og er. Stoltenber sagði gildi jafnaðarmanna vera sterkasta vopnið í baráttunni gegn hryðjuverkum og ofbeldi.

Í minningarathöfn nokkrum dögum eftir voðaverkin í Útey vísaði Jens Stoltenberg í orð ungrar stúlku í Verkamannaflokknum í ávarpi sínu þegar hann sagði:

„Þegar einn maður getur sýnt af sér svo mikið hatur, hugsið hve mikla ást við öll getum sýnt saman.“

Undir þetta eigum við öll að taka og gera að reglu okkar í þeirri baráttu sem við stöndum nú frammi fyrir, baráttunni gegn öfgum og hatri og mismunun, baráttunni fyrir réttlæti, mannréttindum, umburðalyndi og kærleika, baráttunni fyrir grunngildum jafnaðarmanna og einu samfélagi fyrir alla.

Það er mikilvægt að leggja þessi orð félaga okkar á minnið því ljóst er að voðaverkin í Útey voru ekki þau fyrstu sem maður fullur af hatri og öfgum framdi og voðaverkin í Útey voru heldur ekki þau síðustu.

Í dag minnumst við þeirra sem létu lífið í Útey og Osló.

Við sendum samúðarkveðjur og stuðning okkar til allra þeirra sem eiga um sárt að binda vegna voðaverkanna í Útey. Við megum aldrei gleyma og við megum aldrei hætta að berjast.

Því miður eru dæmin um voðaverk eins og framin voru í Útey orðin of mörg.

Noregur – Bretland – Frakkland – Belgía – Tyrkland – Spánn – Líbanon – Írak – Afganistan – Sýrland – Kanda – Bandaríkin.

Hér eru einungis nokkur dæmi um ríki sem þekkja of vel afleiðingarnar sem öfgar og hatur einstaklinga geta haft í för með sér. Fyrir utan hræðilegt mannfall eiga þessi dæmi eitt sameiginlegt.

Þær hryðjuverkaárásir sem framdar eru af einstaklingum eins og Breivik eða manninum sem myrti bresku þingkonu Verkamannaflokksins á dögunum eða þeirra sem sprengdu sig í loft upp í menningarmiðstöð ungmenna í Suruc í Tyrklandi eru ekki einungis að beina spjótum sínum að fólki.

Þeir sem fremja slík voðaverk eru að ráðast á lýðræðið, mannréttindi okkar, fjölbreytileikann, friðinn, ástina og kærleikann sem finna má í samfélögum nútímans, sem flest eru opin og umburðalynd. Það hugnast þessum hryðjuverkamönnum ekki.

Þeir sem fremja slík voðaverk vilja eyðileggja þessi opnu og umburðalyndu samfélög. Þeir vilja skapa ótta og fordóma, þeir vilja sundrungu og mismunun, sem auðveldlega verður að hatri og öfgum, sérstaklega þegar stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn, fjölmiðlar og aðrir sem bera samfélagslega ábyrgð ýta undir slíkar hugmyndir. Voðaverkin í Útey eru eitt dæmi af mörgum um hvernig slíkt getur endað.

Á sama tíma og við minnumst þeirra sem létust í hryðjuverkaárásinni í Noregi skulum við minnast allra þeirra sem hafa látið lífið í árásum þeirra sem vilja skemma og eyðileggja, þeirra sem vilja meira hatur og meiri öfga, sem nú leynast ekki í skúmaskotum hér og þar heldur birtast okkur víða í samfélaginu, td. í formi hatursorðræðu á netinu, vaxandi fordómum og ofbeldi.

Það er mikilvægt að muna að besta leiðin til þess að minnast þeirra sem látið hafa lífið í árásum öfgamanna er að halda áfram að berjast af fullum krafti gegn þeim öfgum sem verða til þess að fólk taki annað fólk af lífi í fólskulegum árásum.

Við verðum hins vegar að standa saman í þessari baráttu og vera óhrædd við að bregðast við, að fordæma öfgar og hatur og láta ekki þagga niður í okkur, því einungis í sameiningu mun okkur takast að sigra og byggja betri samfélög, laus við mismunun, óréttlæti, fordóma og þjóðernishyggju. Samfélög þar sem öfgar og hatur eru ekki normið. Samfélög þar sem grunngildi jafnaðarmanna eru í hávegum höfð.

Á tímum eins og þeim sem við lifum nú á, þar sem vaxandi fordómar og þjóðernisrembingur, andúð á innflytjendum og andúð á fjölmenningu fer vaxandi og er orðin ein af stærstu áskorunum nútímans, verðum við að taka afstöðu. Við verðum að taka afstöðu gegn hatri og öfgum. Við verðum að taka þessa afstöðu svo það verði ekki normið að hata fólk, að óttast fólk, að meiða fólk.

Afstaða okkar verður að vera sú sama og Norðmenn tóku. Viðbrögð norsku þjóðarinnar eiga að vera okkur fyrirmynd.

Við svörum ekki hatrinu með hefnd eða illsku. Við svörum hatrinu með meiri ást og meira umburðalyndi. Við svörum vaxandi fordómum, þjóðernishyggju og ótta með meiri fræðslu, með meiri þekkingu og rökum. Við svörum öfgum með því að bregðast við þegar við verðum vitni að því að verið sé að brjóta á mannréttindum fólks, þegar verið er að mismuna fólki vegna hluta eins og kynþáttar eða uppruna, hluta sem við höfum enga stjórn á, eða verið er að áreita eða níðast á fólki af sömu ástæðum!

Því sama hversu mikið þeir munu reyna, þá mun hatrið aldrei fá sigra!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.7.2016 - 16:35 - FB ummæli ()

Yurtta Sulh, Cihanda Sulh

„Friður heima – friður í heiminum“

Í þessum orðum Mustafa Kemal Atatürks, föður tyrkneska lýðveldisins, sem síðar urðu kjörorð  Tyrklands, felast þau skilaboð um að almenningur í Tyrklandi eiga að búa við frið, velsæld og öryggi. Í þeim felst einnig það markmið að skapa alþjóðlegan frið og öryggi í heiminum.

Þegar tyrkneska lýðveldið var stofnað árið 1923 lagði Atatürk mikla áherslu á vestræn gildi um lýðræði, frelsi, réttaríkið, frið, mannréttindi og aðskilnað ríkis og trúar sem tryggt er í stjórnarskrá lýðveldisins. Þau gildi eru einkennandi fyrir það sem hefur skilið Tyrkland að frá mörgum öðrum ríkjum á svæðinu og hefur tryggt sterka stöðu Tyrklands á alþjóðavettvangi áratugum saman, auk landfræðilegrar stöðu Tyrklands.

Það hefur ekki alltaf verið auðvelt fyrir Tyrki að tryggja að þessi gildi séu í hávegum höfð og ætla má að einmitt þess vegna hafi tyrkneski herinn á sínum tíma verið gerður að „verndara lýðræðisins í Tyrklandi“ og til þess að tryggja hlutleysi hersins var fulltrúum hans bannað að hafa afskipti af stjórnmálum.

Herinn tekur völdin

Recep Tayyip Erdoğan, núverandi forseti Tyrklands og fyrrverandi forsætisráðherra og borgarstjóri í Istanbul, var einungis barn þegar tyrkneski herinn tekur völdin í landinu í fyrsta skipti, árið 1960. Rétt eins og í önnur skipti sem herinn hefur tekið völdin í landinu og þvingað ríkisstjórnir landsins til afsagnar hefur það verið gert í nafni þeirra gilda sem Atatürk stofnaði lýðveldið á og þá sérstaklega til þess að tryggja aðskilnað ríkis og trúar – eins furðulega og það hljómar.

Í fyrsta skiptið sem herinn tók völdin var spennan á milli stríðandi fylkinga í Tyrklandi orðin ólíðandi. Flokkur demókrata, sem þá var við völd, reyndi að samtvinna stjórnmál og trúmál í Tyrklandi, m.a. með því að opna á nýjan leik trúarlega skóla, með því að opna á nýjan leik þúsundir bænahúsa sem áður hafði verið lokað, lögleiða bænakall á arabísku í stað tyrknesku og samþykkja umdeild fjölmiðlalög og banna ákveðna fjölmiðla í landinu.

Um var að ræða blóðugasta valdaránið af þeim fjórum sem hafa verið framkvæmd í Tyrklandi og hélt herinn í völdin um tíma, en þegar herinn lét til skara skríða gegn stjórnvöldum árið 1971 og aftur árið 1980 (sem einnig voru vissulega blóðug) létu stjórnvöld fljótt af völdum og ný komu í staðinn, en á milli 1971 og 1980 var mikill óróleiki í Tyrklandi, efnahagurinn var í molum, mikið var um mótmæli og átök á meðal almennings og stjórnmálaafla og engum af þeim ellefu forsætisráðherrum sem voru við völd á þessum tíma tókst að koma á stöðugleika og ró í landinu.

Íslamski velferðaflokkurinn og Erdoğan

Á þessum tíma er Erdoğan að læra viðskiptafræði og þar hefjast hans afskipti af stjórnmálum. Trúarlegt uppeldi hans kann að hafa leitt til þess að hann verður á stuttum tíma formaður ungliðahreyfingar íslamista í Istanbul. Eftir valdarán hersins árið 1980 gengur hann síðan til liðs við íslamska velferðarflokkinn og verður nokkrum árum síðar formaður flokksins í Istanbul. Árið 1991 var hann kjörinn á þing fyrir flokkinn en gat ekki tekið sætið.

Árið 1994 er Erdoğan síðan kjörinn borgarstjóri Istanbul fyrir íslamska velferðarflokkinn. Á þeim tíma óttuðust margir að hann myndi gera það sem öðrum tókst ekki, að innleiða íslömsk lög og láta trúmálin renna inn í stjórnmálin. Það gerði hann hins vegar ekki og þótti hann standa sig vel sem borgarstjóri, hann kom m.a. efnahag borgarinnar í lag og stóð sig vel í alþjóðasamskiptum.

Í þingkosningunum ári seinna sigrar íslamski velferðaflokkurinn. Herinn fylgdist vel með gangi mála og passaði upp á að nýlega samþykkt stjórnarskrá væri virt og aðskilnaður ríkis og trúar héldist. Það gekk þó ekki betur en svo að árið 1997 lét herinn til skara skríða gegn stjórnvöldum og var forsætisráðherra landsins og náinn vinur Erdoğans, Necmettin Erbakan, þvingaður til þess að segja af sér. Erbakan var bannað að hafa afskipti af stjórnmálum í fimm ár og flokkurinn, sem fáir vita að Erdoğan var meðlimur í, var lagður niður og bannaður. Flokkurinn var talinn vinna gegn stjórnarskrá landsins og ógna veraldlegum gildum Tyrklands.

Erdoğan varð tákn mótmælanna sem fylgdu í kjölfarið og árið 1998 var hann dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir að ýta undir ofbeldi og hatur og þurfti hann að segja af sér sem borgarstjóri í Istanbul og var honum bannað að taka þátt í komandi þingkosningunum.

Rísandi stjarna íslamista verður forsætisráðherra

Árið 2001 stofnar Erdoğan Réttlætis- og þróunarflokkinn sem nær kjöri á þing árið 2003 og hefur alla tíð síðan verið með meirihluta á tyrkneska þinginu, en síðustu þingkosningar þar sem flokkurinn tapaði í fyrsta skipti meirihluta sínum voru endurteknar svo rétt niðurstaða fengist. Erdoğan verður forsætisráðherra árið 2013 allt til ársins 2014 þegar hann verður forseti Tyrklands.

Allan þennan tíma hefur tyrkneska lýðveldið hægt og rólega orðið undir í baráttunni við hugmyndir um stórveldi, um íslamskt stjórnarfar og átök. Frelsi fjölmiðla, lýðræði og mannréttindi hafa orðið undir í baráttunni við spillingu og einræðistilburði sem hefur m.a. skilað sér í endurteknum kosningum, pólitískum hreinsunum og stöðugum átökum Erdoğans við meinta óvini eins og Fethullah Gülen, sem vert er að segja að er engu skrárri en forsetinn og varast ber að halda slíku fram (nánar um það síðar).

Með þennan bakgrunn, sem fáir þekktu áður, er fátt sem kemur á óvart í nýjasta útspili Erdoğans. Hann hefur alla tíð verið pólitískur refur og mikill valdafíkill og hefur hann beitt öllum mögulegum brögðum til þess að sækja sér meiri völd, þó vissulega hafi aðgerðir hans aldrei verið jafn öfgakenndar og nú.

Hin meinta tilraun til valdaráns sem fór fram á föstudaginn, hefði í sögulegum skilningi talist eðlilegt miðað við tilraunir Erdoğans til þess að afnema lýðveldið og koma á einræði en það er mikilvægt að halda því til haga að lýðræði er meira en kosningar á fjögurra ára fresti, grunnstoðir eins og frjálsir fjölmiðlar, réttarkerfið og mannréttindi verða að vera til staðar, og því á undirrituð erfitt með að segja tyrknesk stjórnvöld lýðræðislega kjörin og réttmæt, þó hún hafni vissulega hernaðaríhlutun, valdaráni og ofbeldi og vert er að minna á að hér er fyrst og fremst um harmleik að ræða og það er tyrkneskur almenningur sem mun sitja uppi með afleiðingarnar.

Það er áhyggjuefni, en í anda tyrkneskra stjórnvalda, að það virðist vera algjört aukaatriði að finna út hverjir stóðu að baki þessari tilraun til valdaráns, Erdoğan og stjórnvöld hafa hreinlega ákveðið hverjir það voru og þeir munu þurfa að gjalda fyrir það. Það er óhuggulegt að sjá meðferðina á þeim sem sakaðir eru um atburðinn og varast ber að lesa fjölmiðla sem ríkisstjórnin hefur á sínum snærum, sem segja td. að einhverjir hafi játað aðild að atburðum síðustu daga.

Fjöldi þeirra sem velta því fyrir sér hvort þetta hafi í raun verið sviðsett af forsetanum eða stuðningsmönnum hans fer vaxandi, enda hefur honum nú gefist það tækifæri sem honum vantaði til þess að styrkja stöðu sína og auka völd sín. Sama hver var að baki þessari tilraun er það eflaust rétt hjá Erdoğan þegar hann segir það hafa verið (guðs) gjöf!

Tyrkneska lýðveldið að líða undir lok?

Pólitískar hreinsanir stjórnvalda hafa náð nýjum hæðum. Þúsundir hermanna og herforingja hafa nú verið reknir og handteknir. Hið sama á við um stjórnlaga-, hæstarréttar- og aðra dómara í landinu, lögreglumenn og nú síðast tugi þúsunda kennara á öllum stigum menntakerfisins. Einnig er verið að hreinsa út úr ráðuneytum og öðrum stofnunum, td. þeim sem gæta eiga að samskiptum ríkis og trúar, og fjölmargar útvarps- og sjónvarpsstöðvar hafa misst útsendingarleyfi sitt. Taugaveiklun forsetans er komin út fyrir öll eðlileg mörk (ef þau voru það einhvern tímann) og erfitt er að sjá fyrir endann á þessu valdabrölti hans.

Þögn þeirra sem voru fljót að fordæma þessa svokölluðu tilraun til valdaráns, vestrænir þjóðarleiðtogar og aðrar stofnanir sem eiga að standa vörð um lýðræði, frelsi og mannréttindi, er ærandi!

Ef fólk er að bíða eftir því að þetta gangi yfir þá munu hinir sömu eflaust verða hissa þegar forsetinn hefur náð markmiði sínu, fært völd landsins frá þinginu til forseta, einræði verður fest í sessi og öll heilbrigð samskipti Evrópu við þennan heimshluta verða úr sögunni. Hið tyrkneska lýðveldi mun líða undir lok og hátt í 80 milljón manna þjóð mun þurfa að taka afleiðingunum og eflaust leggja á flótta. Unga fólkið er amk. velta því fyrir sér hvort framtíð þeirra sé í Tyrklandi.

Ljóst er að staða Erdoğans er mun sterkari í dag en fyrir nokkrum dögum og hætta er á að hann boði til nýrra þingkosninga eða þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar sem munu færa forsetanum öll völdin í landinu. Þá mun hann svo sannarlega hafa fest sig í sessi sem einræðisherra. Tyrkneska lýðveldið sem Atatürk stofnaði og allt sem það stendur fyrir er í hættu og hann myndi eflaust snúa sér við í gröfinni ef hann vissi hvernig fyrir landi og þjóð væri komið.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.7.2016 - 15:09 - FB ummæli ()

Türkiye Cumhuriyeti!

Árið er 1954 í Istanbúl, Tyrklandi. Drengur að nafni Recep Tayyip Erdoğan er fæddur. Það var eflaust fáa sem óraði fyrir því að þarna væri fæddur drengur sem á næstu áratugum ætti eftir að verða einn umdeildasti stjórnmálamaður sögunnar, drengurinn sem á sínum yngri árum spilaði fótbolta og seldi límonaði á götum úti til þess að safna sér pening.

Erdoğan hóf afskipti af stjórnmálum þegar hann lærði viðskiptafræði í háskóla og trúarlegt uppeldi hans varð til þess að hann gekk til liðs við íslamska stjórnmálahreyfingu sem á stuttum tíma tryggði honum þingsæti (sem hann gat þó ekki tekið vegna fangelsisdóms) og síðar borgarstjórastólinn í Istanbúl, „hinni“ höfuðborg Tyrklands, og nokkrum árum síðar forsætisráðherraembættið sem hann gegndi í 12 ár með algeran þingmeirihluta. Erdoğan var þó alls ekki hættur þegar forsætisráðherratíð hans lauk en hann tók við embætti forseta Tyrklands árið 2014, fyrstur allra forseta til þess að vera kjörinn beinni kosningu.

Leið Erdoğans á toppinn hefur ekki verið áfallalaus, en hann hefur margsýnt fram á að það þarf mikið til þess að slá hann út af laginu og Erdoğan var ekki búinn að vera lengi við völd þegar fólk fór að velta því fyrir sér hvert hann stefndi með Tyrkland, hátt í 80 milljón manna þjóð, í vasanum.

Tyrkneska lýðveldi Atatürks

Árið 1923, þrjátíu árum áður en Erdoğan fæddist, er tyrkneska lýðveldið stofnað. Mustafa Kemal, fyrsta forseta Tyrklands, er minnst sem föður tyrkneska lýðveldisins og Tyrkja (Atatürk viðbótin). Atatürk lagði mikið upp úr því að stofna nútímalýðveldi sem einkennist af vestrænum gildum. Lýðræði, mannréttindi, grundvallarréttindi einstaklingsins, frelsi og aðskilnaður ríkis og trúar var því fest í stjórnarskrá lýðveldisins.

Í stjórnarskrá landsins er einnig kveðið á um að Tyrkland sé veraldlegt lýðræðisríki sem fái fullveldi sitt frá fólkinu í landinu. Alla tíð frá stofnun ríkisins hefur áhersla verið lögð á vestræn gildi og menningu og hefur Tyrkland m.a. alla tíð óskað eftir samvinnu við ríki Evrópu og verið þátttakandi í evrópsku samstarfi.

Tyrkneska lýðveldi Erdoğans

Á síðustu 20 árum hefur Tyrklandi verið haldið í ákveðinni gíslingu. Allan þann tíma sem Erdoğan hefur  verið með stjórn landsins í sínum höndum hefur fólk óttast um hversu langt hann myndi ganga í því að sölsa undir sig völdum. Ljóst er að hann hefur ekki látið hluti eins og lýðræði, mannréttindi eða frelsi einstaklinga, fjölmiðla eða valdhafa stöðva sig í baráttu sinni fyrir einræðistitlinum. Trúleysi, jafnrétti og lýðræði hafa heldur ekki verið í forgangi hjá forsetanum.

Þegar Erdoğan nær kjöri sem forseti Tyrklands voru margir komnir á þá skoðun að nú væri öll von úti. Tyrkneska lýðveldið yrði undir í baráttunni við hugmyndir um stórveldi, um íslam og þau öfl sem höfðu unnið gegn þeim grundvallarhugmyndum sem tyrkneska lýðveldið er byggt á höfðu sigrað. Það varð ljóst þegar Erdoğan forseti hóf strax vinnu við breytingar á stjórnarskránni sem áttu að færa honum öll völdin á nýjan leik.

Tilhugsunin um að Erdoğan, með tvo þriðju hluta þingmanna á tyrkneska þinginu, sem myndi færa honum völdin til þess að breyta stjórnarskrá landsins eins og honum sýnist, virðist hafa skilað köldum hrolli niður bakið á flestum Tyrkjum og þegar til þingkosninga í fyrra kom var ákveðið að reyna að setja punktinn við valdaníð hans í eitt skipti fyrir öll.

Í kjölfar mótmælaöldu og erfiðleika síðustu mánuða og ára mættu 86% kosningabærra Tyrkja á kjörstað í þingkosningunum sem fram fóru þann 7. júní 2014. Ekki tókst þeim einungis að koma í veg fyrir að Réttlætis- og þróunarflokkur Erdoğans næði tveimur þriðju hluta þingsæta heldur tókst Tyrkjum að koma í veg fyrir að þeir næðu hreinum meirihluta á tyrkneska þinginu sem þýðir að í fyrsta skiptið frá því að flokkurinn var stofnaður og komst til valda gat hann ekki stjórnað einn (nema í minnihlutastjórn).

Aldrei hafa fleiri konur náð kjöri á tyrkneska þingið og í þessum kosningum. Aldrei höfðu minnihlutahópar í Tyrklandi fengið jafn marga kjörna fulltrá og í fyrsta skiptið í sögu tyrkneska lýðveldisins náði flokkur með áherslu á friðarviðræður Tyrkja og Kúrda á þing. Tyrkir tóku gleði sína á ný og útlit var fyrir að loksins væri hægt að breyta hlutunum i fyrra horf. Tími takmörkunar á sölu áfengis, lokun samfélagsmiðla og handtökur fjölmiðlamanna, kúgun minnihlutahópa og mótmæla var liðinn.

Sú gleði endist þó ekki lengi og eftir að flokkur Erdoğans náði ekki að mynda ríkisstjórn lét hann endurtaka þingkosningarnar án þess að gefa öðrum flokkum tækifæri á að mynda ríkisstjórn. Í þeim kosningum, sem fóru fram í skugga árása ISIS og árása á Kúrda, sem virðist hafa ýtt undir stuðning við bæði Erdoğan og Réttlætis- og þróunarflokkinn, náði flokkurinn meirihluta á þinginu á ný.

Tyrkneska lýðveldi hvers?

Síðan þá hefur allt verið á suðupunkti í Tyrklandi og því voru ekki allir hissa á því þegar reynt var að taka völdin með hervaldi í gær, eftir að allar aðrar leiðir til þess að ná Tyrklandi úr höndum öfgamanna höfðu mistekist. Vert er þó að taka fram að undirrituð er ekki að lofsama slíkar aðgerðir, enda andstæðingur hernaðar og valdaráns.

Þó er mörgum spurningum enn ósvarað, m.a. spurningunni um hver var raunverulega að baki þessu valdaráni. Sumir nefna Fethullah Gülen, trúarleiðtoga og svarinn óvin Erdoğans (þó fyrrum bandamann) í því samhengi, en hann á heiðurinn að mörgum aðförum að Erdoğan í gegnum tíðina. Það er þó ólíklegt að hann hafi verið þarna að verki.

Þá stendur eftir að mögulega hafi þarna verið lítill armur innan hersins sem ákvað að rísa upp – því Erdoğan var áður búinn að hreinsa til í hernum og fangelsa alla herforingja sem hann sakaði um að vera að skipuleggja valdarán – svo hann hefur mikla stjórn á hernum (rétt eins og öðrum stofnunum ríkisins) sem hann náði með því að skipa sitt fólk í allar æðstu stöður.

Í sögulegu samhengi kemur það þó ekki á óvart ef herinn var þarna á ferð. Tyrkneski herinn hefur áður látið til skara skríða þegar hinum vestrænu gildum og hugsjónum tyrkneska lýðveldsins og Atatürks er ógnað af stjórnvöldum.  Að margra mati var það því einungis tímaspursmál hvenær herinn myndi láta til skara skríða gegn einræðistilburðum Erdoğans og óstjórn.

Miðað við hvað þetta valdarán fór fljótt út um þúfum þá læðist sá grunur að mörgum að þarna hafi hreinlega verið um sviðsettan atburð að ræða. Tyrkneski herinn er stór, sterkur og vel skipulagður svo það er ólíklegt að valdaránstilraun hersins hefði lognast út af á nokkrum klukkutímum. Þetta var illa undirbúið, skotið var á almenning, forsetinn var ekki á staðnum og upplýsingaleiðir voru opnar. Slíkt samræmist ekki aga og gildum hersins – eða því sem nokkur myndi gera ef hann væri að skipuleggja valdarán – held ég.

Það eina sem er ljóst á þessum tímapunkti er að reynt var að ræna völdum í Tyrklandi í gær. Það varð mannfall og það er hræðilegt. Erdoğan, sem er margt, en ekki vitlaus, hefur í kjölfarið styrkt stöðu sína jafnt innanlands sem og utan og ljóst er að erfiðara verður að koma í veg fyrir frekari tilraunir hans til þess að ná frekari völdum og gera þær breytingar á tyrkneska lýðveldinu sem hann vill. Erdoğan, sem áður hefur notað harmleiki til þess að styrkja stöðu sína og völd, hefur nú stuðning og samúð vestrænna leiðtoga sem í fyrradag voru hans helstu óvinir.

Þessi atburðarás mun hafa gríðarlega miklar afleiðingar og málinu er hvergi nærri lokið. Margir óttast hreinlega borgarastyrjöld eða eitthvað ennþá verra.

Ekki mátti tyrkneska þjóðin við því, eða nokkur annar!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.7.2016 - 21:26 - FB ummæli ()

Post Brexit Rasismi og Ísland!

Þann 23. júní s.l. fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla á Bretlandi þar sem meirihluti þeirra sem tóku þátt greiddu atkvæði með því að Bretland yfirgefi Evrópusambandið. Óhætt er að segja að síðan þá hafi ríkt pólitísk upplausn í Bretlandi – enda veit enginn hvað mun raunverulega gerst næst.

Eitt er þó víst og það er að í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefur andúð á innflytjendum, frodómar, rasismi og hatur í garð útlendinga á meðal bresks almennings náð nýjum hæðum.

„Farið heim“ – „Farið úr Evrópu“ – „Hvenær ferðu heim?“ – „Sendum þau heim“ – „Farðu aftur til Rúmeníu“ – „Farðu að pakka“ – „Ekki fleiri pólsk meindýr“ – „Við unnum, sendið þau nú til baka“ – „Átt þú ekki að vera í flugvél á leiðinni heim“ – „Drullaðu þér heim – við ætlum að gera Bretland hvítt á ný“ – „Við erum komin með landið okkar aftur, næst sprengjum við moskurnar“ – „Afhverju ertu svona glöð? Þú ert á leiðinni heim!“ – „Farðu heim svarta tíkin þín“ – „Það er kominn tími á að gera Bretland stórkostlegt á ný.“

ClzR3azWYAASWOy

Á einungis nokkrum dögum hefur breskt samfélag umturnast. Ótrúlegur fjöldi af rasískum, fordómafullum og hatursfullum athugasemdum og ummælum hafa verið látin falla, td. á Facebook og Twitter, í garð innflytjenda á Bretlandi. Þeim hefur verið safnað saman og birt í nafni þeirra sem hafna svona framkomu. Límmiðar frá nýnasistum hanga á almenningsstöðum, uppákomur og áreiti á götum úti, í lestum og í skólum hafa verið fest á filmu og rosaleg fjölgun hefur orðið á hatursglæpum sem hafa verið tilkynntir til lögreglunnar. Fólk segir frá aðkasti, eignaspjöllum, líkamsárásum og öðru ofbeldi í útvarpi og sjónvarpi. Ástandið er orðið svo slæmt að innflytjendur í Bretlandi óttast sumir hverjir um líf sitt og fjölskyldu sinnar.

Hér er þó ekki um neina tilviljun að ræða. Ástæðurnar fyrir þessari þróun eru augljóslegar. Um er að ræða beinar afleiðingar af því að breskir stjórnmálamenn hafa á síðustu vikum og mánuðum ýtt undir andúð á innflytjendum og alið á ótta og hatri í garð þeirra á meðal almennings. Það hafa þeir gert með hegðun sinni, ræðum og skrifum og ógeðfelldri kosningabaráttu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Kosningabarátta þeirra sem vildu að Bretar yfirgefi Evrópusambandið einkenndist að mestu leyti af mikilli þjóðernishyggju og andúð á innflytjendum. Í kosningabaráttunni var m.a. mikil áhersla lögð á að með því að ganga úr Evrópusambandinu myndi straumur innflytjenda til Bretlands stoppa. Kosningabaráttan byggðist á hræðsluáróðri, popúlisma, lygum og elsta trixinu í bókinni – að ala á ótta! Eins og svo oft áður, þá virkaði það.

13418973_1152793998096545_6548264954972018794_n13327619_1142191832490095_854599113171840828_n13308333_1142197625822849_1451355178150947773_o13320768_1140949772614301_4756864774330700190_o

Afleiðingarnar eru verri en nokkur gat séð fyrir.

Þrátt fyrir að fordómar, rasismi og andúð á innflytjendum hafi ávallt verið til staðar í bresku samfélagi, rétt eins og í öðrum samfélögum, lýsir breytingin í bresku samfélagi sér amk. á tvo vegu.

Í fyrsta lagi þá hikar fólk ekki lengur við að viðra andúð sína og hatur á innflytjendum á meðal almennings. Í öðru lagi þá hafa þeir fordómar og sú andúð á innflytjendum sem ávallt hefur verið til staðar vaxið til muna á ótrúlega stuttum tíma og þróast yfir í fordæmalaust hatur og öfga sem hefur nú þegar kostað eina manneskju lífið, en þingkona breska Verkamannaflokksins, Jo Cox, var myrt nokkrum dögum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Sá gekk upp að henni úti á götu, kallaði „Bretland fyrst“ og myrti hana síðan.

Þrátt fyrir að hatursáróðurinn sem ýtti undir þessa þróun hafi verið fjarlægður af vefnum hjá hreyfingunni sem barðist fyrir því að Bretland yfirgefi Evrópusambandið og þeir stjórnmálamenn sem notuðu hræðsluáróður og ótta í kosningabaráttunni reyni nú að draga úr því sem þeir hafa sagt og gert og sumir þeirra eru jafnvel að hætta í stjórnmálum, eins og Nigel Farage, leiðtogi breska Sjálfstæðisflokksins, er ljóst að breskur almenningur situr upp með afleiðingarnar.

Margir hafa lýst yfir áhyggjum af því að atburðir síðustu daga séu einungis upphafið á einhverju hræðilegu og enginn veit hvernig það mun enda. Ljóst er að box pandóru hefur verið opnað og nú er bara í lagi að vera rasisti í Bretlandi.

Post Framsókn2014 Rasismi á Íslandi

moskahatursáróður

Atburðarásin sem lýst er hér að ofan er ekki einsdæmi enda fæðist enginn fordómafullur eða fullur af hatri og öfgum. Sú hegðun er lærð.

Sú atburðarrás sem lýst er hér að ofan rýmar ágætlega við það sem gerðist hér á landi í síðustu sveitarstjórnarkosningum þegar allt breyttist á einni nóttu.

Þann 23. maí, þegar átta dagar voru til kjördags í sveitarstjórnarkosningunum á Íslandi lýsti Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti lista Framsóknarflokksins og flugvallarvina, því yfir að hún vildi að lóð sem var úthlutað til byggingar mosku í Reykjavík verði afturkölluð. Flokkurinn mældist þá með 2,1% fylgi í Reykjavík.

Framsókn og flugvallarvinir ákvaðu á þessum tímapunkti að keyra á síðasta mögulega útspilinu til þess að sækja sér fylgi, því ljótasta sem hægt er að hugsa sér í stjórnmálum. Afleiðingarnar urðu þær að næstu átta daga fór fram ein óhugnanlegasta samfélagsumræða sem við höfðum á þeim tímapunkti orðið vitni að. Kjördagur rann síðan upp og Framsóknarflokkurinn í Reykjavík fékk 10.7% atkvæða og tvær konur kjörnar í borgarstjórn Reykjavíkur.

Á þessum tímapunkti fengur þeir einstaklingar sem höfðu að mestu legið á skoðunum sínum ekki bara meðbyr og stuðning heldur griðarstað fyrir óhuggulegar skoðanir sínar. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík varð á einni nótu sú fyrirmynd sem þennan hóp hafði vantað og í kjölfarið stigmagnaðist umræðan um innflytjendamál hér á landi.

Nú, rúmum tveimur árum síðar, erum við að horfa upp á ástand sem mörg okkar þekkja ekki og hafa ekki upplifað áður. Umræðan um málefni innflytjenda heldur áfram að stigmagnast og fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa verið duglegir við að ýta undir fordóma, hatur og ótta hjá fólki, sem er auðvitað mikið áhyggjuefni, sem veldur því að meira en 70% af innflytjendum á Íslandi hafa fundið fyrir fordómum.

Aukinn straumur flóttamanna til Evrópu og uppgangur öfgaafla víða um Evrópu var síðan eins og olía á eld íslenskra skoðanabræðra evrópskra öfgamanna og hreyfingar eins og Pegida (frá Þýskalandi), hermenn óðins (frá Finnlandi) og the icelandic defence league (frá Bretlandi) voru stofnaðar og loks íslenska þjóðfylkingin, stjórnmálaflokkur sem stefnir á að bjóða fram í öllum kjördæmum í komandi kosningum.

Allt eiga þessar hreyfingar það sameiginlegt að ala á útlendingaandúð, andúð á íslam og múslimum, þjóðernisrembingi og ótta. Um er að ræða hreyfingar sem stuðla að mismunun, eru tilbúnar til þess að traðka á mannréttindunum fólks, trúfrelsi og grundvallarréttindum einstaklingsins.

Eðlilega spyr maður því í hvað stefni og hvernig þetta muni enda. Hætta er á að kosningabarátta íslensku þjóðfylkingarinnar verði svipuð og hjá breskum popúlistum í þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild að Evrópusambandinu. Það er því eðlilegt að kona spyrji sig hvort við stefnum nú sömu leið og Bretland?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.6.2016 - 20:12 - FB ummæli ()

Erum við í alvöru ein af þeim?

13517537_10154971734184202_7850969866301191345_o

Erum við í alvöru ein af þeim sem hafa enga mannúð, enga virðingu og enga samkennd eftir handa fólki? Erum við í alvöru ein af þeim sem sjá ekki neyðina, sorgina og ákallið um hjálp í augum þeirra sem hingað koma vegna þess að það óttast um líf sitt og er tilbúið til þess að deyja fyrir vonina um betra líf og leggur því á flótta?

Erum við í alvöru ein af þeim sem koma fram við fólk á flótta eins og það sé einskis virði? Fólk sem hefur ekki gert neinum neitt nema að hafa fæðst í stríðshrjáðu landi? Fólk sem eru fórnarlömb stríðs sem þau eiga engan þátt í að hafa skapað. Fólk sem hefur misst allt! Land sitt, þjóð, fjölskyldu, vini og heimili.

Erum við í alvöru ein af þeim sem niðurlægir fólk, brennimerkir það og lætur því líða eins og það sé óvelkomið alls staðar? Eins og það sé minna virðir en við hin?

Erum við í alvöru ein af þeim sem virða ekki mannréttindi fólks? Erum við í alvöru ein af þeim sem beitir börn á flótta ofbeldi? Handjárnum þau, lemjum þau og sendum úr landi þar sem ómögulegt er að vita hvað bíður þeirra en líklegast er að það sé kynferðisofbeldi, mansal, vændi eða dauði.

Erum við í alvöru ein af þeim?

Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum. Evrópa stendur frammi fyrir gríðarlegri áskorun. Lík reka upp á strendur Evrópu, örvæntingarfullir hælisleitendur krækja sér undir lestarvagna, gaddavírsgirðingar eru settar upp við ytri landamæri Evrópu, ofbeldisfullar árásir eru framdar á flóttamannamiðstöðvar í Þýskalandi, hrækt er á flóttabörn í Danmörku, í Króatíu eru flóttamenn númeraðir og í Ungverjalandi eru flóttamenn fóðraðir eins og skeppnur. Ætlum við í alvöru að vera ein af þessum?

Í gær var ég stoltur Íslendingur. Í dag græt ég af skömm fyrir að tilheyra þjóð sem kemur svona fram við fólk.

Ísland hefur lögfest Mannréttindasáttmála Evrópu, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Íslensk stjórnvöld verða að axla ábyrgð, gangast við skyldum sínum, sýna mannúð og réttlæti í verkum sínum og hætta strax að vísa á brott hælisleitendum og öðrum sem hingað leita í neyð. Annað er ómannúðlegt og til háborinnar skammar fyrir alla þjóðina!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.6.2016 - 12:44 - FB ummæli ()

Opið bréf til þín!

Í gær urðum við vitni að enn einum mannlega harmleiknum þar sem öfgar og hatur eins einstaklings kostaði fleiri en 50 einstaklinga lífið og særði amk. jafn margra. Auk þess olli þessi eini einstaklingur sorg og reiði um allan heim.

Atburðir eins og hatursglæpurinn í Orlando, hryðjuverkin í Brussel og París, sjálfsmorðsárásir í Tyrklandi eða fjöldamorðin í Útey eru dæmi um atburði sem eru orðnir alltof, alltof, algengir í samfélögum um allan heim og það er kominn tími til þess að við leggjumst á eitt til þess að þeir verði ekki mikið fleiri!

Sumum hlutum breytum við einfaldlega ekki. Það á td. við um hvar við fæðumst, hvernig við fæðumst, erum á litinn eða hvern við elskum og því er stundum erfitt að skilja hvernig nokkrum manni dettur í hug að mismuna fólki eftir slíkum eiginleikum, hvernig hægt er að trúa því að einn einstaklingur sé yfir annan hafinn eða betri en hinn vegna þess að hann er öðruvísi en maður sjálfur.

Að sama skapi fæðast allir fordómalausir og lausir við hatur og öfga. Það er hegðun sem er lærð og þar spila fyrirmyndir, fjölmiðlar, stjórnmálamenn og aðrir sem móta opinbera samfélagsumræðu stórt hlutverk. Sjáið bara td. Donald Trump, Marine Le Pen eða Framsókn og flugvallarvini og áhrifin sem þau hafa haft á opinbera umræðu, vaxandi fordóma, öfga og hatur.

Fordómar, ótti og hatur eru samfélagsmein sem geta lagt heilu fjölskyldurnar, samfélögin og þjóðirnar í rúst. Við þekkjum öll slík dæmi. Þessi mein valda ekki einungis tilfinningalegum skaða, mismunun, ójöfnuði og óréttlæti heldur leiðir slík hugmyndafræði ávallt til ofbeldis og voðaverka að lokum.

Það er einmitt þess vegna sem það er ítrekað verið að hvetja fjölmiðla og stjórnmálamenn til þess að ýta ekki undir fordóma, ótta og hatur í samfélaginu með málflutningi sínum. Það snýst ekki um „nöldur, væl eða þöggun.“ Það snýst um að koma í veg fyrir átök, mismunun og á endanum hatursglæpi. Það er engin ástæða til þess að halda að hið sama geti ekki gerst hér á landi ef við erum ekki á varðbergi og komum í veg fyrir frekari útbreiðslu á þessu samfélagsmeini. Hér er um gríðarlegt áhyggjuefni að ræða, sem ber að taka alvarlega og ræða af yfirvegun.

Hatursglæpir, hryðjuverk og annar mannlegur harmleikur mega aldrei verða normið í neinu samfélagi. Til þess að það gerist ekki þurfum við öll að leggja okkur fram. Við þurfum einfaldlega meiri ást og minna hatur. Við þurfum meiri kærleik og umburðalyndi og minni fordóma, ótta og hatur.

Ástin og kærleikurinn munu á endanum sigra. Þangað til þurfum við að leggjast á eitt og tala saman, leiðrétta staðalímyndir, benda á fordóma, óréttlæti og mismunun alls staðar, alltaf. Við þurfum að tala fyrir umburðalyndi, réttlæti, frelsi og jöfnuði fyrir alla. Við þurfum að fræða og upplýsa.

Ef einn einstaklingur getur valdið svona mikilli sorg og reiði eins og gerðist í gær, spáið í því hvað hvert og eitt okkar getur gert í þágu mannúðar, mannréttinda, kærleiks, ástar og umburðalyndis!

Ekki vera hluti af vandamálinu, vertu hluti af lausninni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur