Föstudagur 20.11.2015 - 20:12 - FB ummæli ()

Rétt og rangt um Daesh (ISIS), Íslam og hryðjuverkaógnina!

as-isis-routs-the-iraqi-army-heres-a-look-at-what-the-jihadists-have-in-their-arsenalÞað er rangt að kalla hryðjuverkasamtökin Daesh hið Íslamska ríki. Í fyrsta lagi er ekki um ríki að ræða. Samtökin ráða yfir ákveðnum landsvæðum í Írak og Sýrlandi (og örlítið í kring) sem þau hafa tekið með valdi og það er einungis til þess fallið að styðja málstað þeirra að tala um ríki. Markmið samtakanna er að endurreisa hið forna kalífat og gera þannig kröfu til yfirvalds í öllum trúarlegum og stjórnmálalegum málefnum allra múslíma í heiminum.

Sjálfir vilja fulltrúar samtakanna alls ekki að þau séu kölluð Daesh sem merkir á arabísku allt frá því að „troða niður” eða „kremja“ eða einhver sem treður skoðunum sínum upp á aðra og því er rækin ástæða til þess að gera svo. Það gæti hins vegar kostað þig tunguna ef þú býrð á yfirráðasvæði þeirra.

Í öðru lagi er ekki rétt að tala um hið Íslamska ríki þar sem aðgerðir hryðjuverkasamtakanna eru ekki í neinu samræmi við það sem Kóraninn, helsta trúarrit múslima, boðar. Sem dæmi má nefna að morð á saklausum borgurum, konum og börnum, öðrum trúarhópum eða trúlausum, fjölmiðlamönnum eða hjálparstarfsmönnum er með öllu bannað samkvæmt Kóraninum.

Eyðilegging á fornminjum eða guðshúsum eins og moskum og kirkjum er stranglega bönnað samkvæmt Kóraninum en þau ber að vernda og því er ekkert sem réttlætir slík skemmdarverk. Annað dæmi er að samkvæmt Kóraninum er bannað að þvinga trú sína upp á aðra, hver og einn verður að finna hana hjá sjálfum sér. Daesh þvingar hins vegar fólk með hræðslu og ótta til þess að taka múslimatrú að hætti Súnnímúslima. Geri fólk það ekki er það miskunarlaust drepið.

Daesh hefur einfaldlega stolið skilgreiningunni á Íslam og múslimatrú og gert hana að einhverju sem styður málstað þeirra. Hryðjuverkamenn verða að hafa einhvern tilgang, eitthvað markmið, til þess að réttlæta gjörðir sínar og til þess að ná sér í fylgjendur og stækka hópinn. Þessi hópur ákvað að nota múslimatrú.

Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Deash.

Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Deash.

Það er ekki rétt að á bakvið samtökin séu einungis einstaklingar sem koma úr erfiðum félagslegum aðstæðum. Daesh hafa á ótrúlega skömmum tíma stækkað og breitt úr sér víða um heim. Um er að ræða ríkustu hryðjuverkasamtök í heimi sem stjórna olíulindum og eru með mannskap í vinnu sem selur fyrir þá olíu og ótrúlegt en satt þá keypt af þeim olíu.

Daesh hefur yfirgripsmikla þekkingu á markaðs- og upplýsingamálum, en þeir gefa td. út mánaðarlega glanstímarit og fara hamförum á samfélagsmiðlum og öðrum miðlum enda eru þeir duglegir við að taka upp allan þann viðbjóð sem þeir gera. Þeir hafa mikla þekkingu á viðskiptum og hernaðaraðgerðum og eiga gríðarlega mikið af vopnum og því er ljóst að mikið liggur að baki starfseminnar og segja má að um hálfgerða viðskiptablokk sé að ræða, enda eru leiðtogarnir flestir klæddir í Armani jakkaföt, Rolex-úr og nýja jeppa undir yfirbragði svartra kufla.

Daesh hefur sett lög á yfirráðasvæðum sínum sem þeir segja vera Sharia-lög. Enn og aftur er það gert til þess að tengja hryðjuverkasamtökin og aðgerðir þeirra við múslima og Íslamstrú. Útlit er hins vegar fyrir að hver og einn dómur falli eftir geðþótta og aðstæðum hverju sinni frekar en lögum og reglum. Dómarnir eru allt frá því að missa hendurnar yfir í að missa höfuðið, oft án þess að nokkuð bendi til þess að fólk hafi gert eitthvað af sér. Slíkt er bannað í Íslamstrú.

Daesh eru á móti öllum sem eru á móti Daesh. Það er ekki gerður greinarmunur á múslimum (sem ekki eru Súnní), kristnum, trúleysingjum, Frökkum eða Írönum. Þeir einfaldlega taka alla af lífi sem eru ekki á sömu skoðun og þeir. Daesh eru mjög öfgafull, ofbeldisfull og hættuleg samtök og lang flestir múslimar vilja ekki á nokkurn hátt láta bendla sig við Daesh.

11ára3Daesh sendir börn og unglinga í þjálfunarbúðir áður en þeir fá vopn í hendurnar í kringum 15 ára aldurinn. Að mestu leyti er um unga drengi að ræða, en í kringum sjö ára aldurinn eru þeir búnir að sverja hollustueið við Kalífatið og leiðtoga þess, flestir búnir að fá grunnþjálfun frá foreldrum sínum og þylja upp fyrir alla sem vilja heyra trúarjátninguna og hversu mikið þeim hlakkar til að fara að myrða fyrir samtökin, fyrir málstaðinn, sem þeir vita eflaust ekki hver er.

Sá straumur flóttamanna sem nú kemur til Evrópu á ekki nokkuð skilt við Daesh, nema að því leyti að þeir eru að flýja vígamenn samtakanna í Sýrlandi og nágrannaríkjunum. Þeir flóttamenn sem nú koma til Evrópu eru að flýja styrjöld, fjöldamorð og aftökur á götum úti þar sem engum er hlíft. Það eru ekki flóttamenn frekar en trúarbrögð sem bera ábyrgð á hryðjuverkunum í París, Tyrklandi eða Líbanon. Það er hatur, fáfræði og óskiljanleg illska mannskepnunnar sem er samankomin í samtökunum Daesh.

Daesh eru best heppnuðustu hryðjuverkasamtök sögunnar. Þeir eru að vinna. Þegar við erum komin með hryðjuverkasamtök sem Al-Qaeda vill ekki láta bendla sig við erum við komin á stað sem erfitt er að skilja. Það er ekki skrýtið að óttinn taki yfir. Hryðjuverk eru með því skelfilegasta sem hægt er að upplifa, sama hver það er sem fremur þau eða hvar þau eiga sér stað. Máttleysið, skilningsleysið og óöryggið sem kemur í kjölfarið eru allt eðlileg viðbrögð við því að mannskepnan geti sýnt svo mikla illsku.

Það sem Daesh vill er að við verðum hrædd, förum að breyta hegðun okkar, tortryggja nágrannann, vopna lögregluna og loka landamærunum. Sama hvort við búum í Írak, Tyrklandi, Frakklandi eða á Íslandi, það skiptir þá engu máli. Því fleiri, því betra, því hryðjuverkamennirnir vilja brjóta upp alþjóðasamfélagið, reka fleyg í sambúð ólíkra menningarhópa í heiminum, drepa lýðræðið, traðka á mannréttindum og eyðileggja þá samstöðu sem við höfum hingað til upplifað. Þeir vilja að yfirvöld skerði frelsi okkar og að átök á milli trúarhópa magnist. Þeir vilja að við förum að berjast innbyrgðis.

Ef við gerum eitthvað allt annað, þá munu þeir tapa!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur